03.03.1964
Efri deild: 55. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Breytingar þær, sem í þessu frv. felast, eru spor í rétta átt, en ganga of skammt að mínum dómi.

Það er alkunna, að landbúnaðurinn á nú að mörgu leyti í vök að verjast, og þarf ekki að hafa um það mörg orð. Það er öllum svo kunnugt mál, enda kom hæstv. landbrh. nokkuð að því í sinni ræðu hér áðan, þegar hann minntist á þau vandkvæði ýmiss konar, sem landbúnaðurinn á við að búa. Þau vandkvæði, sem segja má að landbúnaðurinn eigi nú við að búa, eiga sjálfsagt rætur að rekja til ýmissa og mismunandi ástæðna, sjálfsagt eiga þau vandkvæði að verulegu leyti rætur að rekja til þeirra þjóðlífsaðstæðna, sem hér hafa verið um skeið, og þá ekki hvað sízt til þeirrar verðbólguþróunar, sem hér hefur verið í algleymi nú að undanförnu og hefur leitt til þess, að hvers konar stofnfjárkostnaður og fjármagnskostnaður hefur farið stórkostlega vaxandi. Sjálfsagt eiga líka erfiðleikar landbúnaðarins að einhverju leyti rætur sínar í öðrum ástæðum. Ég ætla ekki á þessu stigi að fara neitt út í að rekja það frekar.

En það er augljóst mál af því, sem þegar var sagt, og því, sem hæstv. ráðh. gerði grein fyrir, að kostnaður við búrekstur er orðinn svo mikill, að það er óhugsandi, að þau smáu bú, sem hér eru mörg, standi undir bæði þeim stofnfjárkostnaði og rekstrarfjárkostnaði. Það er þess vegna höfuðnauðsyn auðvitað að stækka búin. En búin verða ekki stækkuð, nema fyrir hendi sé grundvöllur til þess, þ.e.a.s. nægileg ræktun. Þess vegna er það vitaskuld rétt stefna að stuðla að því með öllum ráðum að auka ræktunina, og að því miðar þetta frv. út af fyrir sig. Og það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að það sé aukinn stuðningur við ræktun þeirra býla, sem skemmra eru á veg komin, og það allverulega frá því, sem nú er, og enn fremur gert ráð fyrir nokkuð auknum styrk til húsabóta.

En ég held, að eins og málum er komið, þurfi hér þó enn stærri átaka við. Og sú hefur verið skoðun okkar framsóknarmanna. Þess vegna höfum við, bæði á þessu þingi og á undanförnum þingum, flutt fjölmörg frv. um málefni landbúnaðarins og þáltill. líka, sem hafa miðað í þá átt, átt að bæta stöðu landbúnaðarins með ýmsu móti. Ég skal nú ekki tefja hér tímann á því að telja upp þau fjölmörgu frv., sem framsóknarmenn hafa flutt um þessi efni, enda eru þau hv. dm. að sjálfsögðu flest í fersku minni, því að mörg þeirra eru einmitt flutt í þessari hv. d. Það má þó aðeins nefna t.d. frv. til l. um bústofnslánasjóð, en markmið með þeirri stofnun er einmitt að hlynna sérstaklega að frumbýlingum og greiða fyrir því, að ungir menn geti stofnað bú í sveit með sæmilegum hætti, en eins og kunnugt er, má segja, að á því séu nú næstum því, vil ég segja, óyfirstíganlegir erfiðleikar. Ég nefni einnig frv., sem við framsóknarmenn höfum flutt hér um aukið ræktunarframlag einmitt til þeirra býla, sem skemmra eru á veg komin eða hafa sem sagt ekki náð enn þeirri túnstærð, 25 ha., eins og hér er miðað við. En eins og hæstv. landbrh. upplýsti hér áðan, á það vissulega mjög langt í land með fjölmörg býli, að því marki sé náð, sem nú er þó talið viðunandi, en vitaskuld er með það mark eins og önnur, að það er miðað við daginn í dag, og það má vel vera, að aðstæðurnar breytist þannig, að eftir nokkur ár, kannske fá ár, verði að setja annað mark og þá talsvert hærra. Það er auðvitað ekkert algilt mark í þessum efnum, heldur verður að haga sér eftir aðstæðum á hverjum tíma í því efni. En í frv. okkar framsóknarmanna um þetta efni er gert ráð fyrir talsvert hærra ræktunarframlagi til þessara býla.

Ég nefni t.d. líka frv., sem við höfum flutt varðandi veðdeild, eða þar sem gert er ráð fyrir, að veðdeildinni sé séð fyrir mun meira fjármagni með hagstæðum kjörum heldur en hún nú á kost á. En þó að það hafi orðið nokkur breyting á og veðdeildarlán séu nú veitt nokkru hærri en áður var og þau muni, að ég hygg, fást nokkuð til jarðarkaupa, þá er langur vegur frá því, að þau lán, sem nú eru veitt í þessu skyni, séu fullnægjandi, — mjög langur vegur, því að sannleikurinn er nú sá, því miður, að margir þeir ungu menn, sem gætu hugsað sér að stofna til búskapar og vildu gjarnan eignast jörð til að byrja búskap, hafa ekki safnað í sjóði og hafa lítið fé í höndum, þegar þeir ætla að byrja búskap, og brestur því ráð til þess að festa kaup á jörð. Það er þess vegna nauðsynlegt að efla veðdeildina, þó að ég sé að vísu þeirrar skoðunar, að það sé enn þá meiri nauðsyn á því að sjá ungum mönnum fyrir hagstæðum frumbýlingslánum til að kaupa bústofn, því að eins og nú hagar til, er þó víða ráð á því að fá jarðir til ábúðar án þess að kaupa þær.

Það mætti að sjálfsögðu nefna mörg fleiri mál, sem við höfum flutt, eins og t.d. um það að bæta landbúnaðarsjóðunum upp eða létta af þeim gengishalla, sem þeim er og verður vitaskuld mjög mikill fjötur um fót og hlýtur að éta upp talsverðan hluta af því, sem þar safnast þó fyrir með þeirri skattlagningu, sem lögleidd hefur verið í því skyni, þ.e.a.s. með hinum svokallaða bændaskatti, en hann höfum við framsóknarmenn viljað afnema og láta í staðinn koma til framlag ríkisins. Og enn vil ég undirstrika það, að hvað sem að öðru leyti er um þetta skattgjald að segja, nær það að mínum dómi engri átt að leggja það á með þeim hætti, sem gert er, að svipta bændur eignarrétti á þessu gjaldi, sem þeir greiða til þessa lánasjóðs. Það er í mesta máta ranglátt, og féð gæti þjónað markmiði sjóðsins, þó að það væri fært upp á sérreikning bændanna sem þeirra eign, svo sem sjálfsagt er í þessum sjóðum, og félli þá til útborgunar til þeirra eða þeirra erfingja eftir vissum reglum. Ég drep aðeins á þetta í leiðinni, en ekki af því, að ég ætli að fara að fjölyrða um það mál, enda er það mál út af fyrir sig og það stórt.

Ég hef hér aðeins drepið á nokkur þeirra mála, sem við framsóknarmenn höfum flutt í þessa átt. En það er skemmst af þar að segja, að afgreiðslan á þeim hefur yfirleitt öll orðið á þá lund, að þeim hefur verið vísað til nefndar og þar hafa þau verið söltuð og ekki séð dagsins ljós framar, ekki aðeins á þessu þingi, heldur á undanförnum þingum. Það mætti nú kannske sýnast, að þrautseigja okkar í því að flytja þessi frv. þing eftir þing væri unnin fyrir gýg. Það álít ég ekki, enda kemur það á daginn smám saman og hægt og hægt, að hæstv. ríkisstj. tekur upp nokkuð af þeim till., sem við höfum sett hér fram, þó að þar sé oft að vísu skemmra gengið en í okkar málatilbúnaði og skemmra en þörf væri á. Þannig hygg ég það nú vera með þetta frv. Það er út af fyrir sig gott eitt um það að segja og skiptir út af fyrir sig ekki máli, hvar stórmál eiga sínar upphaflegu rætur. En þetta er þó náttúrlega að verða vægast sagt óviðunandi máti á þingstörfum, að n. fáist ekki til að taka afstöðu með neinu móti til þeirra mála, sem stjórnarandstæðingar flytja. Það er sjálfsagt ekki nýtt nú á þessu bóli, en þó má vera, að það hafi farið í vöxt heldur en hitt, og það hygg ég rétt vera. Og það er í rauninni hið sama að segja um þá breytingu, sem gerð var á þessu frv. í hv. Nd., þar sem heimild er veitt hreppum til þess að koma á fót hjá sér sérstökum bústofnsleigusjóðum, að ég vil meina, að sú breyting, sem ég tel til bóta, eigi rætur að rekja til þess frv., sem við framsóknarmenn höfum flutt hér í þessari deild ár eftir ár um stofnun bústofnslánasjóðs.

Hitt er annað mál, að það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sem hér liggur fyrir, eftir að því hefur nú verið breytt í Nd., er náttúrlega allt annað og ófullkomnara og veitir að þessu leyti að því er bústofnslánin varðar, ekki neitt svipuð hlunnindi og gert er ráð fyrir í okkar frv. um bústofnslánasjóðinn. En þó að svo sé, að það gangi miklu skemmra, þá hef ég ekki á neinn hátt neina löngun til að gera lítið úr þeirri viðleitni, sem birtist þó í þessu frv. Og það er vissulega rétt hjá hæstv. landbrh., að flm. þessara brtt. í Nd. hefur mátt vita um fyrirmynd að þessu frá Austurlandi, því að ég man, að það eru a.m.k. meira en 20 ár síðan ég kynntist því fyrirkomulagi þar, að t.d. kaupfélag á Reyðarfirði einmitt hafði með höndum að mínu viti mjög þýðingarmikla starfsemi í þessa átt, hafði ráð á búpeningi og leigði hann eða lét hann í hendur bænda, sem annaðhvort voru að byrja búskap eða höfðu of lítinn bústofn, þannig að ég held, að það sé út af fyrir sig rétt, að það megi líkja eftir þeirri hugmynd, og þess vegna tek ég þessari breytingu út af fyrir sig vel, svo langt sem hún nær, þó að ég haldi, að hið eina rétta, sem þessi hv. d. gæti gert í þessu efni, væri að taka upp einmitt í þetta frv., úr því að það er nú komið inn í það ákvæði þarna um bústofnslán, þótt með þessum sérstaka hætti sé, — taka upp í það meginatriðin úr frv. okkar framsóknarmanna hér um bústofnslánin. Þó að ég taki þessari till. samt út af fyrir sig vel, held ég, að það væri nú athugandi fyrir hv. landbn., sem fær það til meðferðar, að gera a.m.k. vissar orðalagsbreytingar á því. Ég mundi t.d. telja, án þess að ég ætli að fara hér út í einstök atriði, að í tölulið 2 væri alveg nóg að segja, að höfuðstóll sé lifandi peningur, og ljúka þar setningunni, sú viðbót, sem þar fylgir á eftir, þurfi ekki að fylgja með og sé kannske ekki alls kostar heppileg, ef farið er að skoða það út í yztu æsar.

Ég skal svo ekki, herra forseti, orðlengja þetta miklu meira. Eins og þegar hefur komið fram í því, sem ég hef hér sagt, tel ég þær breytingar, sem felast í frv., stefna í rétta átt, vera spor í rétta átt. Þess vegna munum við framsóknarmenn út af fyrir sig fylgja þessu frv. En við munum jafnframt reyna að koma fram þeim breytingum á því, sem við teljum æskilegar. Það verður að sjálfsögðu kannað í nefnd, hvort það tekst að koma þeim breytingum að. Ég vildi mega vænta þess, að hæstv. landbrh. væri til viðræðu um að gera á frv. þær breytingar, því að eins og fram kom í hans frumræðu, eru honum vitaskuld ekki síður en mér ljósir þeir ýmsu erfiðleikar, sem landbúnaðurinn á við að stríða um þessar mundir. Og skal ég ekki orðlengja frekar um það. Vitaskuld er það, að þær ráðstafanir, sem þannig eru gerðar og þarf að gera, kosta eitthvað, og hæstv. landbrh. upplýsti það, að útgjaldaaukningin, sem stafa mundi af þessu frv., væri áætluð 13 millj. kr., ef ég tók rétt eftir. Það þykir kannske ýmsum allhá upphæð, en við verðum að gæta þess, að verðgildi peninganna hefur breytzt allhastarlega, og þegar miðað er við ýmsar aðrar tölur, t.d. í fjárl. eða útgjöld, sem varið er til ýmissa annarra þarfa, þá eru 13 millj. svo sem enginn óskaplegur peningur. Auðvitað er ég ekki með þessu að gefa í skyn, að ekki sé varið öðru eða meira til landbúnaðar, það er mér auðvitað ljóst, að þarna er aðeins um þá útgjaldaaukningu að ræða, sem stafar af þessu frv. En þess er þá skemmst að minnast, án þess að ég vilji telja það eftir, að það er stutt síðan samþykkt var hér mjög rífleg fjárhæð til sjávarútvegsins, til þess að stuðla að aukinni tækni og vélvæðingu innan sjávarútvegsins. Mér þykir það ekki nema eðlilegt, að bændur ætlist til þess og geri ráð fyrir því, að það sé litið á þeirra mál með svipuðum hætti, og það væri sjálfsagt þá ekkert síður ástæða til þess að verja álitlegri fjárhæð til aukinnar tækni og vélvæðingar í landbúnaðinum eða til að stuðla að því að gera bændum kleift að taka upp meiri tækni og vélvæðingu.

Ég skal svo láta máli mínu lokið. Eins og fram hefur komið, vildi ég aðeins segja um þetta þessi fáu, almennu orð, lýsa því út af fyrir sig, að við munum fylgja þessum breytingum, sem í frv. eru og til bóta horfa, en munum jafnframt kosta kapps um það að koma fram breytingum, sem lengra ganga í þá átt, og reyna að stuðla þannig að meiri hlunnindum landbúnaðinum til handa en í þessu frv. felast, en á því tel ég höfuðnauðsyn. Og þó að ekki verði gengið lengra en í þessu frv. er gert ráð fyrir að sinni, þá spái ég því, að þess verði skammt að bíða, að það verði að ganga lengra.