06.04.1964
Efri deild: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. 1 frv. þessu, sem er stjfrv., eru ákvæði um aukinn stuðning við stofnun nýbýla í 2., 3., 4. og 5. gr., og í öðru lagi ákvæði um aukinn stuðning við ræktun á smájörðum, sem hafa tún að flatarmáli 25 ha. eða minna. Í þriðja lagi gerir frv. ráð fyrir hækkun á byggingarstyrk til sveitabæja úr 50 þús. í 60 þús. kr., eins og nú er. Nd. bætti inn í frv. heimildarákvæði fyrir Búnaðarbankann um að lána sveitarfélögum stofnlánadeildarlán til bústofnsauka, er þau láni síðan einstökum bændum með sérstökum skilyrðum. Þótt fyrir séu í stofnlánadeildarlögum ákvæði um bústofnslán, hafa þau ekki enn komið til framkvæmda, vegna þess að bankanum hefur ekki enn vaxið svo fiskur um hrygg fjárhagslega, að það hafi þótt fært, m.a. vegna þess, að lánveitingar út á ræktun og byggingar hafa sífellt farið hækkandi hin síðustu ár, t.d. s.l. ár orðið um eða yfir 100 millj., auk þess voru veðdeildarlán líka hækkuð á því ári úr 35 þús. út á jörð vegna eignaskipta upp í 100 þús.

Ákvæði þessi um bústofnslán til sveitarfélaga eru í 1. gr., eins og frv. liggur hér fyrir, komið frá Nd., og enda þótt ég telji það fremur gagnslítið, má þó segja, að það geti komið að einhverju liði til bráðabirgða.

2., 3. og 4. gr. fjalla um aukin framlög til ræktunar á nýbýlum, og er gert ráð fyrir, að lágmarksframlag til nýbýla í heild hækki úr 6.5 millj. í 9.5 millj., eða um 3 millj., á ári næstu 20 árin, þ.e. frá 1965 til 1985, sbr. l. um stofnlánadeild landbúnaðarins frá 1962. 1962 var byggingarstyrkur til íbúðarhúsa á nýbýli 40 þús., 1963 var hann hækkaður með lagabreytingu 16. apríl í 50 þús., og nú er lagt til, að hann verði 60 þús. 1962 var hámark vegna túnræktar á nýbýlum 10 ha. á býli, 1963 var það hækkað upp í 15 ha. á býli, og nú er gert ráð fyrir 25 ha. á býli. Ræktun þessa kostar ríkissjóður, þegar um nýbýli er að ræða.

Í 7. gr. frv. er fjallað um ræktunarstyrk, sem greiddur hefur verið til smábýla nú alllengi ofan á hinn eiginlega jarðræktarstyrk í því skyni, að tún smábýlanna megi vaxa sem allra hraðast. 1962 var ákveðið, að þetta aukaframlag næði til býla, sem hefðu 10 ha. tún eða minna. Áður var miðað við minni tún. 1963 var þetta framlag látið ná til ræktunar upp að 15 ha. Og nú er gert ráð fyrir, að það nái til 25 ha. túns á hverja jörð. Framlag þetta ásamt sjálfum jarðræktarstyrknum er hálfur kostnaður við ræktunina eftir mati. Frv. þetta gerir ráð fyrir, að þetta ákvæði sé til bráðabirgða og gildi í 7 ár, eða frá 1965 til 1972.

Þá er þess enn að geta, að byggingarstyrkur til nýbygginga bæjarhúsa á sveitabýlum á nú að hækka úr 50 þús. í 60. 1962 var hann 40 þús., 1960 25 þús. og enginn áður.

Breyting vegna 7. gr. á styrk til smájarðanna samkv. frv. mun kosta ríkissjóð um 11.725 millj., verða þá framlög ríkissjóðs 17.725 millj. Útgjaldahækkanir samkv. þessu frv. verða þá vegna hækkana til jarðræktar á nýbýlum 3 millj., vegna íbúðarhúsa 0.4 millj., vegna smájarðanna 11.725, samtals 15 millj. 12.5 þús.

Eins og fram kemur í nál. meiri og minni hl. landbn., sem hér liggja frammi, hefur n. ekki orðið sammála að öllu leyti um afgreiðslu þessa máls og þó sammála um, að í frv. felist mikil fyrirgreiðsla og aukinn stuðningur við nýbýlamenn og aðra bændur, sem búa á of litlum jörðum. Í nál. minni hl. á þskj. 409 segir:

„Frv. þetta stefnir í rétta átt, þar sem veita á samkv. því sérstakt framlag til jarðræktar að 25 ha. túnstærð á hverri jörð og hækka nokkuð óafturkræft framlag til íbúðarhúsa í sveitum.“

Enn segir í nál. minni hl.:

„Fjárhagur bændastéttarinnar í heild verður ekki nægilega vel tryggður með hækkun á afurðaverði einungis.“

Undir hvort tveggja þetta, sem stendur í nál. minni hl., vil ég taka. Fram undir þetta hefur það verið aðalstefna í landbúnaðarmálum okkar að stuðla að smábýlamyndun í landinu. Fram undir þennan dag hefur það þótt viðunandi býli, sem hefur haft 10–15 ha. tún. En á túnum og annarri ræktun byggist landbúnaður okkar nær eingöngu nú orðið, síðan of dýrt þótti að sækja heyskap á útengjum. Á þessum smábúum varð svo einyrkjabúskapur nær alls ráðandi. Hin síðustu ár hefur vélanotkun farið ört vaxandi, um leið og vinnuhöndum fækkaði á hverju sveitaheimili. Vélarnar eru dýrar, og rekstur þeirra er líka dýr. Til að standa undir þeim kostnaði og um leið auknum kröfum um tekjur og kjör, sem sveitafólk verður að gera eins og önnur landsins börn, verða búin að stækka mikið frá því, sem talið var viðunandi fyrir um það bil 6–8 árum. En búin geta ekki stækkað, nema ræktunin aukist. Hún er undirstaðan. Á henni byggist öll afkoma sauðfjárræktarmannsins og slíkt hið sama kúabóndans.

Um þau vandkvæði, sem hafa verið að skapast næstliðin 20–30 ár, vegna þess að flestar byggingar hafa verið smáhús á smájörðum og ræktun miðuð við helmingi minni bú en nú þarf til að standa sæmilega undir kostnaði og kröfum, sem hver bóndi verður nú að gera og sinna, skal ég ekki ræða hér. Aðeins skal sagt, að þau eru mjög erfið úrlausnarefni, en ekki þó vonandi óviðráðanleg. Jarðrækt er dýr, og húsagerð fyrir búpening er líka dýr. Hvorugt er gert nema að parti til fyrir þann, sem framkvæmir mannvirkin. Öðrum þræði er það fyrir þjóðfélagið í heild á líðandi stund, og að hinu leytinu er það í þágu framtíðarinnar. Þess vegna hlýtur það að vera réttlæti, að bóndinn beri ekki einn kostnaðinn af ræktuninni og byggingunum, ef túnið eða heyhlaðan er til frambúðar. Enda er það svo um landbúnað í flestum löndum eða öllum, að hann er látinn njóta stofnstuðnings. Að öðrum kosti þrífst hann ekki og fólkið fer frá honum og sezt að við önnur ónauðsynlegri viðfangsefni. Þetta viðurkenna allir og haga sér meira og minna eftir því. Um hitt eru að sjálfsögðu skiptar skoðanir alltaf, hversu langt á að ganga í kröfum annars vegar og í stuðningi hins vegar af hálfu hins opinbera. En ég er sammála minni hl. í landbn. í því, að afkoma bændastéttarinnar verði ekki tryggð einungis með hækkuðu afurðaverði. Þar verður einnig til að koma stofnstuðningur. Hjá okkur er ástandið þannig eftir 30 ára þróun til smábúskapar, að a.m.k. annað hvert býli er of smátt og getur ekki staðið undir nauðsynlegum umbótum til breytinga, bæði í ræktun og húsagerð, nema með miklum stuðningi frá heildinni.

Þetta er nú í þriðja sinn í röð, sem breytingar eru gerðar á l. um aukaframlag til jarðræktar, og markið um leið sett hærra og hærra um bústærð eða undirstöðu að bústærð. Í því felst skilningur á því, sem fram undan er, sem vert er að viðurkenna. Og það er að nokkru leyti stefnubreyting í þessu efni, að því er snertir að veita stuðning til stækkunar túna og aukinnar ræktunar. Það miðar til réttrar áttar og kemur strax að talsverðum notum fyrir marga aðstöðulitla bændur. Og þar sem ég tel, að allt, sem horfir til eflingar landbúnaðinum, sé þjóðarnauðsyn, vil ég eindregið leggja til, að þetta frv. verði samþykkt og þau ákvæði þess, sem horfa til aukins styrks við ræktun á smábýlum, verði samþykkt.