06.04.1964
Efri deild: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú í rauninni ekki ástæða til þess að segja mikið í tilefni af ræðu hv. 4. þm. Austf., sem hann var að ljúka við að flytja hér, og ég geri ráð fyrir, að mér nægi þær fáu mínútur, sem eru eftir af fundartímanum, til þess að gera nokkra grein fyrir þessu máli fram yfir það, sem áður hefur verið gert, og út frá því, sem hv. þm. var hér að segja, í sambandi við hugleiðingar, sem óhjákvæmilega koma fram í hugann, þegar hv. þm. fer að rifja upp stjórnmálasöguna allt frá 1927, eins og hann leitaðist við að gera hér áðan, í stórum dráttum að vísu.

Ég ætla nú ekki að fara að ræða um ríkisstj. Framsfl. 1927–1931, mér finnst, að það komi ákaflega lítið þessu máli við. Ég veit, að þeir menn, sem þá voru í ríkisstj. fyrir Framsfl., Tryggvi heitinn Þórhallsson og Jónas Jónsson, voru velviljaðir landbúnaðinum, vildu ýmislegt fyrir hann gera, og hefur verið sagt, að a.m.k. Jónas Jónsson, sem enn er lifandi og skrifandi, hafi ekki átt samstöðu með Framsfl., vegna þess að hann hafi viljað styðja landbúnaðinn betur en Framsfl. treysti sér til. Þess vegna fékk hann ekki inni í blöðum flokksins og varð viðskila við hann. Svo spyrja menn í því sambandi: Hvernig stendur á því, að Tryggvi heitinn Þórhallsson, sem vissulega vildi vinna fyrir bændur, sá sér ekki fært að vera í Framsfl. og stofnaði nýjan flokk, sem hann kallaði Bændaflokk, vegna þess að Framsfl. á þessum tíma var latur í taumi og vildi lítið fyrir bændurna gera? Og það var ekki með vilja Tryggva heitins Þórhallssonar og þessara manna, að þannig var búið að bændunum, að þeir þurftu að loknu þessu fjögurra ára tímabili Framsfl. að fara í kreppulánasjóð fjöldamargir. En þetta er liðin saga og þetta er önnur tíð og kemur ekki þessu máli við. En það er dálítið óheppilegt hjá hv. þm. að vera að rifja þetta upp, vegna þess að það styrkir vissulega ekki þann málstað, sem hann vildi vera talsmaður fyrir.

Hv. þm. talar um afurðasölulögin frá 1934, sem komu upp úr öngþveitinu, þegar bændur fóru í kreppulánasjóðinn. Það var ekkert undarlegt, þótt mönnum fyndist eitthvað þurfa að gera, eftir að dilkarnir fóru niður í 7 kr., til þess að bæta úr afurðasölumálunum. Og sannleikurinn er sá, að sjálfstæðismenn höfðu lítið út af fyrir sig út á afurðasölulöggjöfina að setja, heldur framkvæmd hennar, sem í byrjun þótti á ýmsan hátt ekki fara fram með eðlilegum hætti. En ég skal viðurkenna það, að ég var ekki þá farinn að taka þátt í stjórnmálum og ekki kunnugur því, sem þar gerðist, innan frá og vil því ekki ræða það mál sérstaklega hér, nema þá kynna mér betur þá sögu, og það kemur ekki heldur þessu máli við frekar en stjórnartími Framsfl. frá 1927–1931. En eitt vil ég þó minna hv. 4. þm. Austf. á, og það er það, að afurðasölulöggjöfin frá 1934 tryggði ekki betur en svo afurðaverðið til bænda, að þegar sjálfstæðismenn fengu tækifæri, þá notuðu þeir það til þess að hækka kjötið um 100% frá því, sem framsóknarmenn höfðu talið nægilegt að bændur fengju fyrir það. Og þess vegna er það, að bændur hafa oft spurt að því, hvað hefði skeð, ef sjálfstæðismenn hefðu ekki fengið þetta tækifæri til að skera sultarólina af bændastéttinni, til að bjarga bændum, til að koma í veg fyrir það, að þeir færu í hópum í Bretavinnu, eins og það var kallað. Það held ég, að flestum sé ljóst, að hefði skeð, ef sjálfstæðismenn hefðu ekki fengið þarna tækifæri 1942. Og upp úr því kom svo það, að lög um 6 manna nefnd voru sett 1943 og bændum með því tryggt eða átti að tryggja þeim, að þeir skyldu eftirleiðis fá ekki lakari tekjur en vinnandi menn við sjóinn. Það var byrjunin á þeirri afurðasölulöggjöf, sem sett var 1947 og við höfum búið að mestu leyti við síðan, og þa.ð var ákaflega mikilvægt atriði að fá það viðurkennt 1943, að bændur skyldu ekki búa við lakari kjör en aðrar vinnandi stéttir. Það fékkst, eftir að verðlagið hafði verið leiðrétt 1942, enda trúðu því margir, að þá hefði verið of langt gengið í verðhækkuninni, en það reyndist síðar, að það var ekki.

Utanþingsstjórnin sat frá 1942–1944, og þá gerðist lítið markvert. Þeir, sem þá voru í ríkisstj., reyndu að halda í horfinu og gerðu skyldu sína að því leyti, og sú ríkisstj. verður ekki gerð að umtalsefni.

1944–1947 var svokölluð nýsköpunarstjórn, og hún reyndist á margan hátt vel. Og enda þótt ýmsir teldu ekki heppilegt og eðlilegt að hafa kommúnista þar með, þá verður því ekki á móti mælt, að nýsköpunarstjórnin lagði grundvöll að ýmsu því, sem við búum að í dag. Hún kom í veg fyrir það, að það fjármagn, sem þjóðin átti, færi í eyðslu, en væri notað til að kaupa atvinnutæki, svo sem nýsköpunartogarana. Og eins og hv. þm. sagði hér áðan, var lagður grundvöllur að því, að til landsins væru fluttar stórvirkar landbúnaðarvélar, með hinni merku löggjöf um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum. Og önnur merk löggjöf var sett á þessu tímabili. Það voru raforkulögin, sem við búum enn í dag við, og rafvæðingin hefur farið fram í landinu samkv. þessum lögum, og þetta gerðist á þeim árum, þessi merku lög voru sett á þeim árum, sem framsóknarmenn voru ekki í ríkisstj.

Svo var það 1947, eins og þm. sagði hér áðan, að framleiðsluráðslögin eru sett, en þau tryggðu bændum ekki fullt verð, vegna þess að það vantaði, eins og oft hefur verið sagt, botninn í þessa löggjöf, þannig að ef framleiðslan var meiri en svo, að hún nýttist öll í landinu, þá varð að selja úr landi hluta framleiðslunnar fyrir mun lægra verð en fékkst innanlands. Og þótt ákvæði væru í 1., sem heimilaði að hækka verð á innlendum markaði til að vinna upp tapið erlendis, þá tókst það aldrei, og þeir, sem fóru með þessi mál, voru sammála um, að þetta ákvæði væri til lítils gagns, það væri ekki mögulegt að hækka vöruna á innlendum markaði í því skyni að vinna upp tap á útfluttum vörum. Þess vegna var það, að mörg árin urðu bændurnir að búa við það að fá ekki grundvallarverðið, sem oft og tíðum var of lítið, vegna þess að grundvöllurinn var ekki réttur. En það er annað mál og ekkert um það að sakast. Verðlagsgrundvöllurinn hefur oft verið skakkur, en hefur þó verið leiðréttur mikið núna 2–3 síðustu árin, og því neitar enginn. En það, sem er mest um vert, er það, að framleiðsluráðslögunum var breytt í árslok 1939 og botninn settur í þessa löggjöf með því, að ríkissjóður tók ábyrgð á útflutningsverðinu, og eru miklar upphæðir, sem ríkissjóður hefur greitt og mun greiða einmitt vegna þessa ákvæðis, og þetta fékkst ekki inn í löggjöfina fyrr en núv. ríkisstj. var mynduð.

Hv. 4. þm. Austf. gleymdi að minna á þetta áðan, þegar hann var að lesa upp afrekaskrá núv. ríkisstj. í landbúnaðarmálum. En þessu atriði verður ekki gleymt, að það verða 130 millj. sennilega á þessu ári, sem verða greiddar í þessu skyni, og bændur munu eiga eftir að reikna það út, hve marga aura mundi vanta á hvern mjólkurlítra, hvað margar krónur á hvert kjötkg. til þess að þeir fengju grundvallarverðið, ef þetta lagaákvæði væri ekki í gildi. Það er alveg öruggt. Og annað ákvæði í framleiðsluráðslögunum er líka mikilsvert, og það er það, að nú má breyta verði landbúnaðarvara ársfjórðungslega, ef kostnaður vex við framleiðsluna, í stað þess að áður var þetta hægt aðeins einu sinni á ári, eða 1. sept. ár hvert, í byrjun hvers verðlagsárs. Og það eru vitanlega margir bændur, sem spyrja: Hvernig stendur á því, að framsóknarmenn, þegar þeir voru í ríkisstj., gerðu ekki þessar nauðsynlegu breytingar á löggjöfinni? Og þar hafa bændur fengið svar, þeir fengu það á búnaðarþingi 1958. Þegar bændur á búnaðarþingi ræddu þessi mál mjög mikið og það tjón, sem landbúnaðurinn biði af því að flytja út afurðir fyrir mun lægra verð og taka á sig hallann á því, þá var rætt um það þar, hvort það væri ekki mögulegt að breyta l. og ríkissjóður tæki á sig þennan halla, og bændur á búnaðarþingi gerðu vitanlega tilraun til þess, en ráðh. Framsfl. sögðu, að það væru ekki peningar til í ríkissjóðnum. Það þýddi ekki að vera að bera fram óskir um slíkt, því að það væri ekki unnt að verða við þeim.

Ég efast ekkert um, að margir framsóknarþm. hefðu viljað gera þetta, og þess vegna er það rétt, sem oft hefur verið sagt, að það er önnur stefna hjá þessum hv. þm., þegar þeir eru í ríkisstj, en þegar þeir eru utan stjórnar.

Mér finnst, að hv. 4. þm. Austf. hefði í fullri hreinskilni átt að játa það og viðurkenna hér áðan, að þetta gat ekki gerzt, á meðan framsóknarmenn voru í ríkisstj., en tókst, eftir að núv. ríkisstj. var mynduð.

Það er ekki vel gert af hv. þm. að vera að lesa hér upp afrekaskrá hv. vinstri stjórnar í landbúnaðarmálum, því að það minnir á, hvað það var, sem sú ríkisstj. gerði í landbúnaði. Það minnir á það, að þegar rætt var um aukastyrk til jarðræktar, var ekki talað um að miða við túnstærð, sem var yfir 10 ha., og þegar rætt var um þessi mál hér í hv. Alþingi, talaði þáv. landbrh. um, að það væri alveg þýðingarlaust að vera að koma með óskalista til stuðnings við landbúnaðinn, það yrði að vera raunhæft, sem menn töluðu um, það yrði að miða kröfurnar við gjaldþol ríkissjóðs o.s.frv. Og þá fór lítið fyrir frv. og kröfum á hendur ríkissjóði hjá hv. framsóknarmönnum. En þeir minna á það nú, að þeir hafi flutt mörg frv. á þessu þingi og fyrri þingum, síðan núv. stjórn var mynduð, um fjárframlög til landbúnaðar, og þær brtt., sem eru fluttar við þetta frv., sýna vissulega, að hv. framsóknarmenn búast við, að það sé meira fé í ríkissjóði nú en var 1957, þegar rætt var hér um breytingar á lögum um stuðning við þau býli, sem höfðu minnst tún.

Hv. 4. þm. Austf. talaði um, að þetta hefði verið ákaflega merkilegt nýmæli, að hækka styrkinn á jörðum, sem höfðu tún upp að 10 ha., en það var náttúrlega ekkert nýmæli, því að áður hafði verið í lögum ákvæði um að veita aukastyrk til þeirra jarða, sem höfðu túnið undir 5 ha., þannig að hér var ekki um neitt nýmæli að ræða. En nú er flutt frv. um það, að aukastyrkur skuli veittur til þeirra jarða, sem hafa tún undir 25 ha., þ.e. til 3800 jarða í landinu af eitthvað rúmlega 5000 jörðum, og það er náttúrlega miklu stærra spor en stigið var 1957 og hefur miklu meiri þýðingu fyrir landbúnaðinn almennt en 10 ha. markið 1957. Og það skulum við vera sammála um og ræða um alveg í hreinskilni, og þær fréttir hef ég frá bændunum sjálfum, að þeim finnst, að hér hafi verið stigið myndarlegt skref. Ég er sannfærður um, að þó að frv. hefði verið í öðru formi og gengið eitthvað lengra, þá hefði hv. 4 þm. Austf. komið hér upp í ræðustólinn og talað fyrir kröfum, sem gengu lengra en það frv., vegna þess að hv. þm. og hans flokksbræður hér á Alþ. hafa óneitanlega haft það til siðs, síðan þeir komust í stjórnarandstöðu, að flytja brtt. við flest mál, sem ganga lengra en till. stjórnarinnar. Þetta er sannleikurinn í málinu. Og þegar við ræðum um þetta frv. um breytingar á stofnlánadeildinni, getum við haft í huga frv., sem rætt var hér á síðasta fundi og atkvgr. var um í dag, og þá kemur í ljós, að viðbótargreiðslur úr ríkissjóði til ræktunar og annarra framkvæmda, sem styrks njóta samkv. jarðræktarlögunum, munu nema um eða yfir 20 millj. kr. á ári.

Búnaðarþing samdi frv. um heildarendurskoðun á jarðræktarl., og það frv. var á margan hátt ágætt, og ekki ætla ég að neita því, að það sé þörf á heildarendurskoðun jarðræktarlaganna. En í því frv. var gert ráð fyrir að hækka árlegt framlag ríkissjóðs um ca. 15 millj. kr. Það frv. hefur ekki enn séð dagsins ljós í heild, heldur nokkur atriði úr því ásamt þessu frv. En bæði þessi frv. gera ráð fyrir 20 millj. kr. útgjöldum árlega. M. ö. o.: búnaðarþing biður um 15 millj. kr. fjárveitingu til viðbótar árlega, en fær 20 millj. eða meira. Ég get nú ekki skilið annað en það hefði einhvern tíma þótt afgreiðsla í lagi af hendi ríkisstj., þegar búnaðarþing biður um 15 millj. og fær 20, það væri álitið vel gert af ríkisstj. Og sannleikurinn er sá, að bændastéttin í heild telur, að hér hafi verið myndarlega á tekið, þótt ýmsir þm. Framsfl. og þeir, sem skrifa í blöð þess flokks, vilji halda því fram, að þetta sé tiltölulega lítið og lengra hefði þurft að ganga.

Það, sem ég vil segja, er það, að hér hefur verið stigið myndarlegt skref og stærra en venjulega til styrktar ræktun og framkvæmdum í sveitum, og þetta frv. miðar að því að bæta helzt fyrir þeim, sem mesta hafa þörfina. Ég gæti svo tekið undir það og sagt, að það væri æskilegt að gera meira. Ég tel, að þetta 25 ha. mark sé ekkert lokamark, og ég tel, að það sé æskilegt að endurskoða jarðræktarlögin í heild, taka þau til nákvæmrar endurskoðunar og athuga, hvað hægt er að gera frekar í þessum málum. En það er barnaskapur að láta sér detta í hug, að það verði stigið í einu og á sama þingi stærra skref en hér hefur verið gert. Og þegar hv. 4. þm. Austf. minnir á árið 1957 og afrekaskrá vinstri stjórnarinnar í landbúnaðarmálum, ætti honum og öðrum, sem hlustuðu á hans ræðu, að vera ljóst, að það er vonum meira, að gert sé á einu ári það, sem hér er lagt til með þessum tveimur frv.

Hv. þm. spurði um það af miklu sakleysi og þó varla af því að hann hafi ekki vitað: Hvað er það, sem núv. ríkisstj. hefur gert fyrir landbúnaðinn? Og hér í nál. á þskj. 409 segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Síðan núv. stjórnarflokkar komust til valda fyrir rúmum 5 árum, hefur verið fátt um nýmæli í löggjöf til stuðnings landbúnaði.“

Ég ætla nú ekki að endurtaka það, sem ég sagði áðan um breytingu á framleiðsluráðslögunum. Þó að það hefði ekki verið nema það eitt, þá hefði það jafnazt á við það, sem hv. þm. las upp hér áðan úr afrekaskrá margra ríkisstj., sem framsóknarmenn höfðu landbúnaðarmálin í. En það er ýmislegt fleira, sem núv. ríkisstj. hefur gert til stuðnings landbúnaði, og þessi hv. þm. veit um þetta allt saman, þykist ekki vita, þykist vera sljórri en hann er. Þessi hv. þm. er ekkert sljór. Hann fylgist með þingmálum og veit vel, hvað fram fer, og þess vegna er alveg óþarfi fyrir hann að vera að leika hér einhvern mann, sem veit ekki, hvað hefur gerzt hér á hv. Alþingi eða í okkar stjórnmálasögu undanfarin ár. Hv. 4. þm. Austf. veit vel um það, fylgist vel með því. Hv. þm. veit líka, hvað þetta frv. gildir, sem við erum að ræða um, og hann man það, að á síðasta þingi var 10 ha. hámarkið fært upp í 15 ha. og nú upp í 25 ha. Hv. þm. veit, að þetta spor er eins þýðingarmikið eða jafnvel þýðingarmeira en þegar jarðræktarlögin voru fyrst sett og mun veita jafnvel meiri árangur en þá. Og hér í vetur voru forstöðumenn ræktunarsambandanna samankomnir á fund í Reykjavík, eftir að þetta frv. var fram komið, og létu það álit sitt í ljós, að ræktunin mundi stóraukast, eftir að þetta væri lögfest, og það er ekki nokkur minnsti vafi, að hún gerir það. Það er ekki nokkur minnsti vafi, að þeir, sem nú hafa 10 ha. tún eða 15 ha. tún, munu keppast við að koma markinu upp í 25 ha. Þeir fá 5500 kr. ræktunarstyrk og auk þess framræslukostnaðinn. Þetta er sá styrkur, sem á að gera þeim mögulegt að koma túnunum upp í 25 ha., og það býli, sem hefur 25 ha. tún, það er orðið hægt að búa á þeirri jörð, það er hægt af hafa lífvænlegan bústofn á henni. En það er það minnsta, og vandræðin, sem nú steðja að í landbúnaðinum, eru smábúin og smábýlin. En það er ekki núv. ríkisstj., sem hefur skapað smábændurna. Þeir hafa alltaf verið til, og þeir hafa alltaf haft lélega afkomu, og það, sem gera þarf, til þess að þeir flosni ekki upp, er þessi stuðningur og e.t.v. meira. Það má vel vera, að það sé meira, en það verður að byrja á að styðja þá til aukinnar ræktunar.

Styrkur á íbúðarhús, það er gert ráð fyrir, að hann fari upp í 50 þús., var hækkaður í 40 þús. á s.l. ári, og auk þess er hann látinn gilda til allra íbúðarhúsa, en var áður aðeins til nýbýla.

Og þá verð ég nú að segja það, að hv. 4. þm. Austf. hefði átt að viðurkenna það, þegar hann vildi fara að lesa upp afrekaskrá núv. ríkisstj. í landbúnaðarmálum, að búnaðarsjóðirnir hafa verið endurreistir. Gjaldþrotinu var forðað. Þeir eru aftur orðnir virkir og lána nú til landbúnaðarins miklu meira en áður. Þetta veit hv. þm. Hann veit það, að á s.l. ári var lánað úr stofnlánadeildinni 103 millj. kr., og ég veit, að hann man, hvað þetta var 1958. Það var meira en helmingi minna. Og hvers vegna var það? Það var af því, að það var ekki fé fyrir hendi. En ekki nóg með það, þegar upp er gert, þá vantar þessa sjóði um 32 millj. kr. til þess að eiga fyrir skuldum. Og það var vitanlega margt, sem olli því, og það væri þá helzt það, að þessir sjóðir voru látnir taka útlend lán og taka á sig skakkaföllin af gengisfalli, eins og við allir þekkjum, sem byrjaði 1958 með 55% yfirfærslugjaldinu og hélt áfram allt það ár út, þar til krónan gilti ekki meira í árslok 1958 en hún endanlega var skráð í ársbyrjun 1960, og þá sýnir það sig, að þessir sjóðir eiga ekki fyrir skuldum. En síðan hafa þessir sjóðir fengið innlent fé til ráðstöfunar og meira fé en áður. Og við þekkjum, hvernig þessi deild hefur verið byggð upp, og vitum það, að ef hún fær að þróast og starfa í friði, myndast stofnun, sem landbúnaðurinn mun njóta góðs af. Þetta mun verða sterk stofnun, sem verður stöðugt með hverju árinu færari um að veita auknu fjármagni til landbúnaðarins. Og ef landbúnaðurinn hefði átt stofnun með þessari löggjöf síðustu 10–20 árin, væri ekki um neinn fjárskort að ræða í landbúnaðinum.

Þá eru hér lög um lausaskuldir bænda. Lausaskuldir bænda söfnuðust sérstaklega 1957 og 1958, vegna þess að verðlag hafði hækkað á byggingarefni, en stofnlánin ekki aukizt, og þeir, sem fóru í framkvæmdir þessi ár, þurftu að taka víxla og borga vitanlega víxilvexti. En til þess að losa bændur við það var lausaskuldunum breytt í 20 ára lán með 7% vöxtum á skuldabréfunum, en í reynd eru það 71/2 %, sem bændur verða að borga. En það hefðu fleiri bændur vitanlega getað notfært sér þessa löggjöf en raun bar vitni. Þó voru það, að mig minnir, eitthvað um 1200 bændur, og mig minnir, að það hafi verið um 70 millj. kr. fjárhæð, sem þannig var breytt, og var það vitanlega mikið til hagnaðar fyrir bændastéttina.

Ég ætlaði ekki að tala lengur en fundartíminn entist, en hann er nú búinn og meira en það. Það er vitanlega freistandi að fara hér út í brtt. hv. minni hl. og leggja út af því eða bera þær saman við þær till., sem þessir hv. þm. höfðu fram að bera, þegar þeir studdu stjórn, o, s. frv., en hv. þm. hafa þskj. fyrir framan sig, og það þarf þess vegna ekki að vera að skýra frá því, hvað í því felst nánar, en ég vil aðeins að lokum endurtaka það, að þetta frv., sem gerir ráð fyrir stórauknu framlagi til ræktunar og byggingar í sveitum, er mjög mikils virði, og það þýðir ekki fyrir hv. framsóknarmenn að segja, að það sé í rauninni kannske lítilfjörlegt og gangi allt of skammt. Við skulum segja, að hér sé gert myndarlegt átak til hjálpar þeim, sem mesta þörfina hafa, um leið og við segjum, að með þessu er ekkert lokamark sett og sjálfsagt sé að hafa áfram opin augun fyrir því, hvað unnt er að gera frekar til aðstoðar við landbúnaðinn, því að vissulega er landbúnaðurinn sá atvinnuvegur, sem ber að efla og styðja af fremsta megni.