07.04.1964
Efri deild: 65. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég ætlaði að segja hér fáein orð út af ræðu hæstv. landbrh., sem hann flutti á síðasta fundi d. Ég sakna þess, að hæstv. ráðh. er hér nú ekki viðstaddur. (Forseti: Hæstv. landbrh. hefur tilkynnt mér, að hann sé við umr. um mál, sem undir hans rn. heyra, í Nd., því miður getur hann ekki verið viðstaddur.)

Það hefur ekki verið ætlun mín í sambandi við þetta mál að fara að rekja stjórnmálasögu þjóðarinnar um marga áratugi, og ég mun ekki leiða þessar umr. út á þá braut, nema sérstakt tilefni gefist. En í framsöguræðu minni fyrir minni hl. landbn. tók ég nokkur dæmi frá undanförnum árum, er sýndu það, hvernig fyrrv. ríkisstjórnir, ein eftir aðra, hafa beitt sér fyrir lögum vegna landbúnaðarins, sem orðið hafa landbúnaðinum í heild til stórfelldra hagsbóta. Þessi dæmi voru valin sem forsendur fyrir ákveðinni niðurstöðu, og þegar ég hafði rakið þetta, bar ég fram í ræðu minni þessa spurningu: Hvar eru hinir nýju lagabálkar til hagsbóta fyrir landbúnaðinn? Og niðurstaða mín var þessi: Ég man ekki eftir þeim.

Hæstv. ráðh. tók til máls, eftir að ég hafði flutt framsöguræðu mína, og hann gerði í ræðu sinni athugasemdir við forsendur mínar, nokkuð orðmargar aths., en efnislega veikar. Ég tel ástæðulaust að fara að rekja það, því að það snertir fremur afgreiðslu mála á liðnum tíma. Það er þó eitt atriði, sem mjög oft kemur fram hjá hæstv. landbrh., sem ég get ekki látið hjá líða að drepa á. Hæstv. landbrh. segir, að 1957 hafi Framsfl. ekki viljað ganga lengra en það að miða hið sérstaka ræktunarframlag við 10 ha. túnstærð, og hann segir, að í því sambandi hafi þáv. landbrh., Hermann Jónasson, talað um óskalista, sem ekki þýddi að bera fram, því að ef gengið væri lengra, væri það naumast raunhæft. Ég tel ástæðu til af þessu tilefni að rifja það upp, að þegar þetta lagaákvæði var sett 1957 og miðað við 10 ha. túnstærð, var jafnframt gerð áætlun um kostnaðinn, sem af þessu leiddi, til 4 ára, og fjárveitingar voru þá þegar ákveðnar í fjárl. í samræmi við þá áætlun og kom fyrsta fjárveitingin inn í fjárl. 1957. Þá var miðað við, að í þessu skyni yrðu sérstaklega veittar í fjárl. 5 millj. kr. árlega. Þá var miðað við, eins og raunar enn er og ávallt hefur verið, að framkvæmdirnar sjálfar yrðu á vegum bændanna, og útgjöldin hlutu því að fara í reyndinni eftir því, hve hraði framkvæmdanna yrði mikill hjá bændunum sjálfum.

Nú má segja, að það hafi verið erfitt að segja það fyrir 1957, hvort framkvæmdirnar yrðu svo hraðar, að sú fjárhagsáætlun, sem þá var gerð, stæðist ekki. En nú er óþarfi að deila um þetta, af því að reynslan liggur fyrir, og reynslan er sú, að framkvæmdirnar á vegum bændanna urðu ekki hraðari en það, að það fjármagn, sem til þessa var ætlað 1957, hefur nægt. — En í þessu sambandi verð ég að bera fram eina spurningu, og ég sakna þess, að hæstv. ráðh. er hér ekki til að svara henni. Ef það var að dómi hæstv. núv. landbrh. of skammt gengið með ákvæðinu um 10 ha. túnstærð, — ég fagna því, að hæstv. ráðh. er kominn, ég ætla að segja örfá orð út af stofnlánadeildarfrv., sem hér liggur fyrir. Ég var í því bili, þegar hæstv. ráðh. gekk hér inn í d., að ræða um lagaákvæðið um 10 ha. túnstærð, sem sett var 1957, og það kemur oft fram í ræðum hæstv. landbrh., að þá hafi Framsfl. ekki viljað ganga lengra og að Hermann Jónasson, þáv. ráðh., hafi í því sambandi talað um óskalista, ef lengra væri farið. Ég ætla að endurtaka örfá orð til að sleppa ekki samhenginu. Í því sambandi var 1957 gerð sérstök áætlun um fjárveitingar til að standa straum af þessu sérstaka framlagi til jarðræktar á þeim jörðum, sem höfðu minna en 10 ha. túnstærð. Það var miðað við 5 millj. kr. fjárveitingu árlega næstu árin í þessu skyni. En þá eins og nú var miðað við það, að framkvæmdirnar yrðu á vegum bændanna sjálfra. Það var vitanlega erfitt að segja það fyrir 1957, hvort framkvæmdirnar yrðu svo hraðar, að þær fjárveitingar, sem til þessa voru ætlaðar, reyndust of litlar. En nú er óþarfi að della um þetta, því að það fé, sem til þessa var þá áætlað, nægði á því tímabili, sem hér er um að ræða.

Og þá kem ég að því, sem ég var að víkja að, þegar hæstv. ráðh. kom inn í d. Ef það er skoðun hæstv. landbrh., að of skammt hafi verið gengið með þessu lagaákvæði 1957, hvers vegna lét hann þá undir höfuð leggjast á fjórða ár, eftir að hann varð landbrh., að fá þessu ákvæði breytt til hækkunar? Þessu á hæstv. ráðh. eftir að gera grein fyrir, en hann varð, eins og kunnugt er, landbrh. haustið 1959, en það er fyrst í apríl 1963, að hann beitir sér fyrir því að færa þetta mark úr 10 ha. í 15, rúmum 3 árum síðar en hann varð ráðh. Niðurstaða mín í ræðu minni, sem ég flutti í gær, var sú, eins og ég áður greindi, að ég spurði: Hvar eru hinir nýju lagabálkar til stuðnings landbúnaðinum? Og niðurstaðan varð sú, að ég man ekki eftir þeim. Þegar á þetta er litið, ber að minnast þess, að þetta stjórnartímabil, sem núverandi stjórnarflokkar hafa starfað saman, er orðið langt. Það er í raun og veru komið á sjötta ár, síðan núverandi stjórnarflokkar tóku völdin. Hér gafst hæstv. ráðh. tækifæri til þess að rifja upp hin mörgu og merku nýmæli, sem ég kynni að hafa gleymt. Hæstv. ráðh. nefndi fjögur atriði, og ég ætla að fara um þau örfáum orðum.

Hið fyrsta var það, að framleiðsluráðslögunum hefði verið breytt þannig, að útflutningsuppbætur hefðu verið ákveðnar og bændum þar með tryggt grundvallarverð fyrir afurðir sínar. Ég geri alls ekki lítið úr þessu ákvæði um útflutningsuppbæturnar, vil á engan hátt gera lítið úr því. En á það hlýt ég að minna í þessu sambandi, að hæstaréttardómur hafði fallið um það, að framleiðsluráðið hefði lagalegan rétt til þess að verðleggja landbúnaðarvörurnar svo hátt innanlands, að hægt verði að taka af því verði verðjöfnunargjald til þess að standa straum af þeim halla, sem yrði á útflutningi. Hinn lagalegi grundvöllur var fyrir hendi, það hafði hæstaréttardómur staðfest. Hitt var svo annað mál, hvort það væri auðvelt að ná þessum rétti, og ég vil því segja, að því hafi kannske fremur valdið þjóðfélagslegar ástæður, þegar litið er á þjóðfélagið sem heild og tekið tillit til neytendanna, að útflutningsuppbæturnar voru ákveðnar, fremur en hagur bændanna einna út af fyrir sig.

Hið annað, sem hæstv. ráðh. nefndi, var það, að markið um túnstærðina hefði verið fært úr 10 ha, í 15, og byggingarframlagið, óafturkræfa framlagið til íbúðarhúsa í sveitum, verið hækkað allt upp í 50 þús. kr. Þetta er rétt, en það var í sjálfu sér óþarft fyrir ráðh. að minnast á þetta, af því að ég hafði vikið að því og farið um þetta viðurkenningarorðum út af fyrir sig.

Hið þriðja, sem ráðh. nefndi, voru lögin um lausaskuldir bænda, sem sett höfðu verið á þessu stjórnartímabili. Ég viðurkenni, að það var gott mál út af fyrir sig, en það mál hefur þau áhrif að létta viðskipti nokkurs hluta, áreiðanlega mikils minni hluta bændastéttarinnar, en það lyftir ekki undir framkvæmdir í landbúnaðinum í heild. Málið er ekki þess eðlis. Og enn fremur má á það benda, að þegar það er skoðað með tilliti til annarra atvinnugreina, þá var þetta í raun og veru ekki sérmál landbúnaðarins. Sjávarútveginum hafði áður verið veitt hliðstæð fyrirgreiðsla, og ef miðað er við það heildarfjármagn í krónutölu, sem til hvors þessara atvinnuvega hefur runnið eftir þessari leið, þá er það fjármagn áreiðanlega miklu meira, sem sjávarútveginn snertir að þessu leyti. Og nú er stefnt að því, að mér virðist, á þessu þingi að veita iðnaðinum hliðstæða fyrirgreiðslu.

Hið fjórða, sem hæstv. ráðh. nefndi í afrekaskrá núv. stjórnar fyrir hönd landbúnaðarins, var það, að búnaðarsjóðirnir hefðu verið endurreistir. Það var auðheyrt, að þetta var blómvöndurinn, sem hæstv. ráðh. vildi halda á lofti. En satt að segja er þessi blómvöndur í augum bændastéttarinnar svo óálitlegur, svo hrjúfur og beiskur, að nú hefur það gerzt, sem fá eða engin fordæmi munu vera fyrir áður, að nú er hafin málsókn af hálfu bænda. Það er svo í raun og veru, það er vitanlega á vegum einstaklings, en er í raun og veru í umboði bændasamtakanna, þannig að bændasamtökunum lízt ekki betur á þennan blómvönd ráðh. en þetta sýnir. Og nú spyr ég: Getur nokkur, sem á mál mitt hlýðir, bent á fordæmi úr þingsögunni svipað þessu, að út af einu helzta hagsmunamáli, sem hæstv. landbrh. telur sig hafa afrekað í þágu bændastéttarinnar, rísi málsókn fyrir dómstólum af hálfu þeirra, sem hlunnindanna eiga að njóta? Ég man ekki í svipinn eftir neinu fordæmi, og ég verð þakklátur fyrir, ef einhver benti mér á það.

Þá kem ég að allra síðustu að því, sem hæstv. ráðh. víkur mjög oft að. Þegar við, sem skipum að jafnaði minni hl. þn., framsóknarmenn, berum fram till. í landbúnaðarmálum, annaðhvort sjálfstæð frv. eða breytingar á þeim frv., sem stjórnin leggur fram, segir hæstv. ráðh., að hér sé um yfirboð að ræða, óraunhæf yfirboð. Og þetta er yfirleitt viðkvæðið, eiginlega hvers eðlis sem þær till. eru, sem við berum fram. Nú vil ég ekki fara langt út í þetta, en vil aðeins ljúka máli mínu með því að benda á, að á síðasta þingi lögðum við til, framsóknarmenn, að markið um túnstærðina, sem hér er 25 ha., það yrði fært upp í 20 ha. í stað 15. Og við lögðum til, að byggingarstyrkurinn yrði settur í 60 þús. kr. Það voru í fyrra óraunhæf yfirboð af hálfu Framsóknar. Nú 1964 á öndverðu ári urðum við báðir sammála um þetta, við framsóknarmenn og hæstv. landbrh., að hér sé alveg rétt að farið. En er það nú örugglega víst, að það hafi verið fráleitt að gera þetta fyrr? Vill ekki ráðh. íhuga það og gera sér grein fyrir því, hvort það muni raunverulega hafa verið mjög óraunhæft 1963 að færa markið um túnstærð á jörðum upp í 20 ha., fyrst við erum nú á öndverðu ári 1964 orðnir sammála um, að 25 ha. markmið sé við hæfi?