07.04.1964
Efri deild: 65. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umræður. Það var aðeins til þess að fyrirbyggja misskilning í sambandi við ummæli hv. 1. þm. Vesturl. hér síðast út af vanskilum bænda. Ég efast mjög um það, það hefur ekki verið athugað nákvæmlega, en mér sýnist allar líkur benda til þess, að það hafi út af fyrir sig ekkert verið meiri vanskil hjá bændum í haust en undanfarin ár. Það hefur verið mjög algengt og því miður of algengt, að það hefur dregizt að borga árgjöld, sem bændur hafa átt að borga að haustinu, fram yfir áramót. Það geta verið ýmsar orsakir fyrir því, bæði það, að bændur eigi í erfiðleikum sjálfir, auk þess það, að viðskiptafyrirtæki bænda taka oft að sér að greiða þessi lán og eru kannske misjafnlega undir það búin. En þá að ég segði hér áðan, að það hefðu verið allverulegar fjárhæðir, sem ekki hefðu verið greiddar af lausaskuldalánum bænda, þá er ég ekki viss um, að það séu neitt hærri fjárhæðir hlutfallslega en það, sem vangreitt hefur verið af öðrum árgjöldum. Sem sagt, þetta hefur verið svo alla tíð, að það hefur verið alltaf töluvert mikið eftir af árgjaldagreiðslum um áramót, og ég held, eftir því sem lánadeild bankans hefur tjáð mér nú nýlega, að þessi vanskil séu ekki meiri en verið hefur undanfarin ár.

Hitt er svo aftur annað mál, og því skulum við ekki gleyma, að miðað við það, að útlán vaxi um 70–100 millj. kr. kannske á 2 árum, þá hækka árgjöldin alltaf ár frá ári mjög verulega, a.m.k. krónulega, og það er jafnvel við því að búast, að þá hækki vanskilin, og því miður er því ekki að leyna að það er hætt við því, að þau hækki líka að öðru leyti og þá ekki hvað sízt í sambandi við lausaskuldalánin, vegna þess að því er ekki að leyna, að allmargir, sem lausaskuldalán fengu þá, það var á yztu nöf, að það væri hægt að veita þeim lán, miðað við þeirra búsaðstöðu alla, og ástæðan fyrir lausaskuldum margra þessara manna var sú, að hér var um menn að ræða, sem alllengi höfðu barizt í bökkum jafnvel og höfðu af þeim ástæðum safnað lausaskuldum. Þó að þessi nýju lán jafnvel valdi því, að árgjöld komi eitthvað dræmar, þá hygg ég samt, að það megi teljast jafnvel ótrúlega gott miðað við þær greiðslur, sem verið hafa á árgjöldum yfirleitt, hvað mikið var greitt af árgjöldum af lausaskuldalánunum nú fyrir áramót.

Þetta vildi ég aðeins, herra forseti, láta koma fram, ekki til þess að gagnrýna það, sem hv. þm. sagði, heldur aðeins til þess, að þessi skýring lægi fyrir, að ummæli mín í ræðu minni hér áðan merkja það ekki, að það sé um hlutfallslega aukin vanskil að ræða hjá bændum.