07.04.1964
Efri deild: 65. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég gat ekki hlustað á nema lítinn hluta af ræðu hv. 4. þm. Austf. og ætla mér því ekki að gera hana að umtalsefni, hygg, að fátt nýtt hafi þar komið fram. En það var ein setning, sem ég skrifaði upp og ég tel ástæðu til að mótmæla alveg sérstaklega.

Hv. þm. fullyrti, að málsókn vegna gjaldsins til stofnlánadeildarinnar væri hafin í umboði bændasamtakanna. Þetta held ég að sé ekki rétt. Ef þetta væri í umboði bændasamtakanna, þá væri það stjórn Stéttarsambands bænda, sem hefði hafið málsóknina. Það er örugglega minni hl. búnaðarsambandanna, sem að þessu stendur, minni hluti þeirra að tölu og þau fámennustu. Ég veit ekki til, að nokkurt búnaðarsamband hér á Suður- eða Suðvesturlandi og ekki heldur á Norðvesturlandi hafi viljað taka þátt í þessari málsókn. Og þess vegna er það, að stór meiri hl. bændastéttarinnar er algerlega laus við það.

Ég tel ástæðu til að taka þetta sérstaklega fram, vegna þess að það er rétt, sem hv. 4. þm. Austf. sagði áðan, að þetta væri einsdæmi í þingsögunni, að mál væri höfðað af slíku tilefni sem þessu, og þetta mál mun áreiðanlega verða skráð í þingsögunni og til þess vitnað í framtíðinni, að nokkur hluti bændastéttarinnar hóf málsókn vegna þess, að ríkisvaldið vildi stuðla að því að skapa landbúnaðinum öfluga lánastofnun. Ég er sannfærður um, að eftir nokkur ár — og ég tala nú ekki um eftir tugi ára, þá verður til þessa vitnað með undrun af bændastétt Íslands, að á árinu 1963 var hafin málsókn á hendur Búnaðarbankanum og landbrh. vegna þessara laga.

Þetta vildi ég láta koma fram og mótmæla því, sem hv. 4. þm. Austf. sagði hér áðan, að þetta væri gert í umboði bændasamtakanna, og það mætti þá skilja það svo, að bændastéttin í heild stæði að þessu, en svo er ekki.