18.02.1964
Efri deild: 49. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

156. mál, skemmtanaskattur

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er einfalt að efni. Það hefur tíðkazt um langt árabil, að skemmtanaskattur sé innheimtur með nokkru álagi, 200% álagi á kvikmyndasýningar og 20% álagi á aðgangseyri að öðrum skemmtunum. Kveðið hefur verið á um þetta álag á skemmtanaskattinn frá ári til árs. Í þessu frv. er lagt til, að hætt verði að ákveða frá ári til árs þetta álag, sem er í raun og veru orðið fastur hluti af skemmtanaskattinum og hefur verið það um langt bil, heldur það gert ótímabundið eins og skemmtanaskatturinn er sjálfur. Alþ. hefur það auðvitað hverju sinni í hendi sér að hækka skattinn eða lækka hann, eftir því sem mönnum sýnist, og breytir þetta fyrirkomulag engu um það meginefni málsins, hvort skemmtanaskatturinn skuli vera einhverju hærri eða lægri.

Ákvæði í skemmtanaskattslögunum um ráðstöfun á vissum hluta skemmtanaskattsins hafa einnig verið tímabundin, og þau ákvæði féllu raunar niður um síðustu áramót, og er hér einnig lagt til, að þau verði framvegis ótímabundin með sömu rökum, að Alþ. getur hvenær sem er sett um ráðstöfun skattsins ný ákvæði.

Hygg ég þó, að allir muni vera sammála um, að ekki komi til greina að lækka skemmtanaskatt frá því, sem verið hefur, eða draga úr því álagi, sem á hann hefur verið innheimt, vegna þess að fjárþörf þeirra stofnana eða aðila, sem skemmtanaskattsins njóta, er ekki minni en hún hefur verið, heldur meiri, ef nokkuð er, en þeir aðilar eru félagsheimilasjóður, þjóðleikhús og sinfóníuhljómsveit.

Í þessu frv. felst sem sagt engin breyting á skattinum sjálfum, hæð hans, og ekki heldur nein breyting á því, hvernig honum skuli ráðstafað, heldur það eitt, að lagt er til, að horfið sé frá því að ákveða álögur skattsins og þar með raunverulega hæð skattsins frá ári til árs, og einnig; hvernig honum skuli ráðstafað. Allt þetta skal að efni til standa óbreytt. Það er einungis sú formhlið, sem er lagt til að breytist, að tímatakmark fyrir gildi ákvæðanna er lagt til að falli niður.

Ég vona, að þetta frv. valdi ekki ágreiningi hér í hv. d. eða á Alþ., og leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari 1. umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. menntmn.