03.12.1963
Neðri deild: 23. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. heilbr.- og félmn., sem væntanlega verður útbýtt innan stundar, mælir n, með samþykkt frv. um hækkun á bótum almannatrygginga, sem hér er til umr. Vill n. þar með verða við tilmælum hæstv. félmrh. um skjóta afgreiðslu málsins, til þess að unnt verði að greiða bótahækkunina fyrir þetta ár í einu lagi í þessum mánuði, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég leyfi mér að þakka meðnm. mínum fyrir þessa afstöðu. En þar sem tími var naumur til athugunar á málinu í n., höfðu nm. Jón Skaftason og Ágúst Þorvaldsson þann fyrirvara á afstöðu sinni, að þeir áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. Með þessum fyrirvara tveggja nm. mælir n, með samþykkt frv.

Eins og segir í grg. með frv. þessu, nema almennar launahækkanir í landinu á yfirstandandi ári 12.875%, og gerir frv. ráð fyrir 15% hækkun bóta frá almannatryggingum miðað við 1. júlí s.l. og að þetta svari til þessara launahækkana, en það hefur verið venja, að bætur almannatrygginganna hækkuðu hlutfallslega eins og laun almennra launþega. Samkv. fskj. með frv. er gert ráð fyrir, að útgjöld tryggingakerfisins aukist við þessa breytingu, sem hér segir: Lífeyristryggingar 27.8 millj. kr. á árinu 1963 og 63 millj, kr. á árinu 1964, eða samtals 90.8 millj. kr. Slysatryggingar: árleg hækkun 3½ millj. kr. Sjúkratryggingar: árleg hækkun 2.3 millj. kr. Samtals nema þessar hækkanir 96.6 millj. kr. Útgjaldaaukning lífeyristrygginganna skiptist þannig á aðila: Ríkissjóður greiðir 37.2 millj. kr., eða um 36%, hinir tryggðu 29.1 millj., eða 32%, sveitarsjóðir 16.3 millj., eða 18%, og atvinnurekendur 12:7 millj., eða 14%. Þetta gerir samtals 90.8 millj. kr. og 100%.

Við 1. umr. þessa máls kom það fram hjá ræðumönnum hv. stjórnarandstöðu, að þeir töldu frv. ganga of skammt í hækkunarátt, og var m. a. vitnað til þeirra hækkana, sem kjaradómur tildæmdi opinberum starfsmönnum á árinu. Það er rétt, að opinberir starfsmenn fengu að þessu sinni meiri hækkanir en almennt gerast vegna kjaradóms, en á það ber að líta í því sambandi, að sú hækkun stafar að mjög verulegu leyti af því, að með kjaradómi hefur allt launakerfi opinberra starfsmanna verið stokkað upp, ef svo mætti að orði komast, bæði með tilliti til þess, að almennt var viðurkennt, að þeir höfðu dregizt aftur úr öðrum stéttum í kjaramálum, svo og með tilliti til þess að ákveða hinum ýmsu starfshópum hjá ríkinu laun í samræmi við kröfur til menntunar og mismunandi ábyrgðar, sem einstökum störfum fylgir. Slík endurskoðun var að flestra eða allra dómi tímabær og nauðsynleg og getur ekki með réttu flokkazt undir það, sem við er átt, þegar talað er um almenna kauphækkun. Er þess að vænta, að sá grundvöllur, er kjaradómur hefur lagt að nýju launakerfi opinberra starfsmanna, haldist um margra ára skeið. Þeir eru a. m. k. bundnir af þessum fyrsta úrskurði kjaradóms í 2½ ár og eiga þess ekki kost á þeim tíma að fá kjörum sínum breytt nema til samræmis við almennar launabreytingar. Ég tel þess vegna, að þegar svo er komið, að hækka þarf bætur almannatryggingakerfisins, eins og lagt er til í frv., þá sé eðlilegt að miða við hinar almennu launahækkanir, eins og áður hefur verið gert, en ekki við hækkun kjaradóms á launum opinberra starfsmanna. Sú hækkun var eins konar undantekning frá þeirri reglu, að sömu eða svipaðar launahækkanir gangi yfir allt launakerfið, og áður hafa hækkanir á bótum almannatrygginga ekki fylgt hækkunum á launum opinberra starfsmanna fremur en annarra launþega. Í framhaldi af þessum hugleiðingum vil ég svo leyfa mér að vekja athygli á þeirri yfirlýsingu í grg. frv., að ef um frekari almennar launahækkanir verði að ræða, verði hækkun bótanna að sjálfsögðu endurskoðuð, þegar vitað er, hversu miklar þær launahækkanir verði.

Frv. gerir ekki ráð fyrir hækkun fjölskyldubóta af ástæðum, sem frá er skýrt í grg., en ég leyfi mér að vekja athygli á þeirri breytingu á almannatryggingalögunum varðandi fjölskyldubætur, sem tekur gildi nú um áramótin. Þá hefjast greiðslur fjölskyldubóta með öllum börnum án tillits til annarra bóta, svo sem áður hefur gilt. Þetta er mikil réttarbót fyrir einstæðar mæður og feður og hefur í för með sér 19.4 millj. kr. útgjaldaaukningu fyrir tryggingarnar á næsta ári.

Sú árátta hv. stjórnarandstöðu að telja allt, sem ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar gera, vera einskis virði og minna en það, kom glöggt í ljós við 1. umr. þessa máls. Hv. 5. þm. Vestf., hv. 5. þm. Reykv., hv. 5. þm. Austf. og hv. 1. þm. Austf. mega ekki heyra það nefnt, að bætur þær, sem hinir tryggðu fá úr almannatryggingakerfinu, hafa margfaldazt í tíð núv. ríkisstj. Og af því að þessi staðreynd er eitur í þeirra beinum, reyna þeir að gera eins lítið og þeim er framast unnt úr aðgerðum stjórnarflokkanna í tryggingamálunum.

Samt brá svo við á dögunum, þegar ég nefndi það við 1. umr. um þetta frv., að fyrir samstarf stjórnarflokkanna hefði svokallað skerðingarákvæði verið afnumið og einnig afnumin skipting landsins í verðlagssvæði, þá viðurkenndi hv. 5. þm. Vestf., að þetta væri raunar harla gott, og vildi eigna sjálfum sér árangurinn, af því að hann hefði oft flutt till. í þessa átt. Þetta er út af fyrir sig viðurkenning, sem stjórnarflokkarnir geta tekið sér til inntekta, en hv. 5. þm. Vestf. verður aldrei af öðrum en sjálfum sér talinn hafa aðhafzt annað í þessum efnum og á mörgum öðrum sviðum en að flytja gegndarlausar yfirboðstill. utan stjórnar, hafandi haldið að sér höndum, þegar hann sjálfur átti sæti í ríkisstj. Hv. þm. afsakar sig með því, að tryggingamálin hafi heyrt undir annan ráðh. í vinstri stjórninni, og það er rétt, að núv. hæstv. utanrrh. fór þar með þessi mál. Þegar gerðar voru efnahagsráðstafanir vorið 1958, lagði Alþfl. til, að ýmsar breytingar yrðu gerðar á almannatryggingalögum, en fékk þeim till. ekki framgengt. Af hverju? Af því að það stóð á samstarfsflokkum Alþfl. í þáv. ríkisstj. að samþykkja till. hans þá. En hvort það hafi verið hv. 5. þm. Vestf. eða hv. 1. þm. Austf., sem var þar helzti þrándur í götu, get ég ekki dæmt um. Það mega þessir ágætu menn bítast um sín á milli mín vegna. En með því að ráðh. tryggingamálanna fékk ekki till. sínum framgengt vorið 1958, skipaði hann nefnd til að endurskoða almannatryggingalögin í júlí 1958. Ber skipunarbréf n. með sér, hverjar voru till. Alþfl., en í því segir m.a., að endurskoðunin skuli miðuð við það að bæta hlut lífeyrissjóðsþega, og þá sérstaklega athuga um hækkun grunnupphæða elli-, örorku- og barnalífeyris, enn fremur allt að tvöföldun barnalífeyris vegna munaðarlausra barna, einnig greiða lífeyri með barni látinnar móður, enn fremur jafna að einhverju eða öllu leyti aðstöðu hjóna og einstaklinga gagnvart tryggingalögum.

Í nefnd þessari áttu sæti Hjálmar Vilhjálmsson, Jóhanna Egilsdóttir, Adda Bára Sigfúsdóttir, Ragnhildur Helgadóttir, Helgi Jónasson, Gunnar Möller og Sverrir Þorbjörnsson. Var með skipun þessarar nefndar lagður grundvöllur að því mikla starfi, sem síðan hefur verið lagt í það að endurskoða lögin og fullkomna almannatryggingarnar til hagsbóta fyrir hina tryggðu. Sú framkvæmd hefur öll orðið fyrir tilverknað núv. stjórnarflokka. Stjórnarandstaðan hefur þar af engu að státa öðru en lítt hugsuðum og oft flausturslegum yfirboðum.

Það eru nú bráðum 3 ár síðan skerðingarákvæðin voru felld úr gildi. Við afnám þeirra fjölgaði bótaþegum um hátt á annað þúsund og bein útgjöld trygginganna hækkuðu um tugi millj. kr. á ári. Á þessu ári hefur landið allt verið gert að einu verðlagssvæði, og við það fá 5282 bótaþegar, sem áður voru á 2. verðlagssvæði, sömu bætur og greiddar eru á 1. verðlagssvæði. Miðað við fullan elli- og örorkulífeyri samkv. þessu frv., 19 603 kr. á ári, þýðir þetta um 4900 kr. árlega hækkun til hvers bótaþega, sem áður var á 2. verðlagssvæði.

Heildarhækkunin til þeirra verður þá um 26 millj. kr. ári, en flestir þessara 5282 bótaþega munu vera búsettir í sveitum landsins, þar sem Framsfl. telur sig eiga bæði ítök og sálir. Afnám verðlagssvæðaskiptingarinnar var framkvæmd þrátt fyrir mótmæli fjölda sveitarstjórna, þar sem framsóknarmenn eru áreiðanlega mikils ráðandi. Á þessum stöðum hagar óvíða þannig til, að gamla fólkið geti dvalizt í elliheimilum, og var þess vegna mikil þörf á að bæta aðstöðu þess. Vafalaust á það gamla fólk í mun meiri erfiðleikum, sem ekki á þess kost að komast á hjúkrunar- eða vistheimili gamalmenna, og hefði þess vegna mátt ætla, að hv. framsóknarmenn segðu nú sem svo: Við viðurkennum afnám skiptingarinnar í verðlagssvæði sem mikilvægt framfaraspor, en áskiljum okkur jafnframt rétt til þess að flytja till. um, að meira sé gert til hagsbóta fyrir það gamla fólk, sem stendur hvað höllustum fæti. En hv. framsóknarmenn tóku ekki þessa afstöðu við 1. umr. um þetta frv. Þeir aðgættu ekki, að 5282 bótaþegar hafa á þessu ári fengið 25% hækkun á lífeyri sinn og fá nú samkv. frv. 15% hækkun til viðbótar.

Aðalræðumaður hv. Framsfl. við 1. umr., hv. 5. þm. Reykv., eyddi allri orku sinni í það að setja upp dæmi, sem átti að sýna, að lífeyrir vistmanna á elliheimilum, sem hann reyndar kallaði ekki lífeyri, heldur styrki, hefði ekki hækkað til samræmis við hækkun daggjalda. Eyddi hann í þetta löngu máli og setti dæmið vísvitandi þannig upp, að allir vistmenn hefðu sama lífeyri, hvort sem þeir væru í sjúkradeildum eða ekki. En þetta skiptir höfuðmáli, vegna þess að tryggingarnar greiða vistgjöld þeirra, sem hjúkrunar þurfa með, að fullu:

Hv. 5. þm. Reykv. ræddi aðallega og eingöngu um elliheimilið Grund, og hef ég síðan af því tilefni kynnt mér, hvernig skiptingin er þar milli venjulegra vistmanna og hinna, sem eru hjúkrunar þurfi. Alls eru á elliheimilinu 329 vistmenn. Þar af fá l69 eða 82% uppborinn allan dvalarkostnað af tryggingunum og sveitarfélögum. En 59, eða aðeins 18%, greiða sjálfir — eða vandamenn þeirra — mismuninn á daggjöldum og ellilífeyri. Auk þess að sleppa viljandi þessu veigamikla atriði, gekk hv. 5. þm. Reykv. einnig fram hjá því atriði, að það eru til önnur vistheimili gamalmenna en Grund, þar sem daggjöldin eru til muna lægri, og nefndi ég sem dæmi um það við 1. umr. m. a. Skjaldarvík á Akureyri, þar sem daggjöld eru 110 kr., Blönduós, þar sem daggjöld eru 100–125 kr. eftir því, hvort margir eru á stofu eða einn, í Keflavík 95–100 kr., á Ísafirði 95–120 kr., á Sólvangi 115–122 kr. og á Akranesi kr. 80.87. Á þessum stöðum öllum dvelst allstór hópur vistmanna, sem býr þannig við mun hagstæðari daggjöld en eru á Grund, en þar eru þau nú 130 kr. fyrir venjulega vistmenn, en 150 kr. fyrir þá, sem hjúkrunar eru þurfi.

Af framansögðu er ljóst, að það er gersamlega út í hött að reikna út dvalarkostnað á sjúkradeild Grundar, eins og hv. 5. þm. Reykv. gerði við 1. umr., og segja síðan, að venjulegur ellilífeyrir sé nú ekki nema 34% af dvalarkostnaðinum samanborið við 39% árið 1958. Tryggingarnar greiða dvalarkostnað þessa fólks að fullu. Hitt er sanni nær að athuga, hver breytingin er á dvalarkostnaði annars vegar og ellilífeyri hins vegar, t.d. frá 1958, að því er snertir aðra vistmenn en sjúka og ellikrama. Þá kemur þetta í ljós: Daggjaldið 1958 var 65 kr., en er núna 130 kr., hækkun 100%. Ellilífeyrir á 1. verðlagssvæði 1958 var 9211 kr. á ári, en verður frá 1. júlí s.l. með 15% hækkun samkv. frv. 19603 kr. á ári. Hækkun miðað við eitt ár á ellilífeyrinum er þannig 112% á móti 100% hækkun daggjaldanna. Útkoman á þessari athugun, sem ég byggi á upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins, er því sú, að hækkun lífeyrisins er mun meiri en hækkun daggjaldanna frá því ári, sem hv. 5. þm. Reykv. valdi sér til samanburðar. Þarna hefur þá hv. 5. þm. Reykv. svarið við því, sem hann þóttist leita að á dögunum, þegar hann hafði uppi mesta tilburði við að reikna út, hver hluti „styrkirnir“, eins og hann orðaði það, væru af framfærslukostnaðinum. Og með því að við höfum athugað þetta varðandi dýrasta elliheimilið, sem við þekkjum; þá gefur auga leið, að ellilaunin duga enn þá betur fyrir þá, sem dveljast á hinum ódýrari stöðum, sem ég áðan nefndi.

Af því, sem ég hef rakið hér að framan um framfarir á sviði almannatrygginga, meðan núverandi stjórnarflokkar hafa starfað saman, vænti ég, að það sé nokkuð ljóst, að þessar framfarir hafa orðið í áföngum, og sannarlega hefur mikið verið gert í hverjum áfanga síðustu árin. Ellilífeyrisþegar voru alls 9986 árið 1960, en fjölgaði upp í 11883 árið 1961, og s.l. ár voru þeir orðnir 12356. Þarna segir til sín afnám skerðingarákvæðanna. Í byrjun þessa árs var tekið að greiða öllum lífeyrisþegum jafnt, hvar sem þeir búa á landinu, og við það fengu 5282 25% hækkun, eins og ég gat um áðan. Frá næstu áramótum munu fjölskyldubætur ná til allra, og ýmsar fleiri lagfæringar, sem lögfestar voru s.l. vor, taka þá einnig gildi. Fá þá tryggingarnar heimild til þess að greiða að fullu dvalarkostnað allra vistmanna á elliheimilum, að viðbættum 10% til vistmannanna sjálfra til annarra þarfa. Þannig er markvisst unnið að því að bæta aðstöðu hinna tryggðu, þótt ekki sé unnt að gera alla hluti í einu. Og með tryggingunum á sér stað meiri háttur tilfærsla á tekjum í þjóðfélaginu frá þeim, sem betur eru settir, til hinna, sem minna mega sín. Árleg útgjaldaaukning trygginganna vegna þeirra breytinga, sem samþykktar voru s.l. vor og taka gildi um áramót, var talin nema 44.4 millj. kr. samtals á hinum ýmsu greinum trygginganna, og sú tala hækkar enn vegna ákvæða þessa frumvarps.

Tryggingarnar hafa alla tíð verið baráttumál Alþfl., og það, sem unnizt hefur, hefur af skiljanlegum ástæðum hafzt fram í samvinnu við aðra flokka. Mest hefur áunnizt með samstarfi Alþfl. og Sjálfstfl., en Framsókn hefur oft verið málefnum trygginganna fjandsamleg og kommúnistar tómlátir. Við 1. umr. um þetta frv. gætti mjög þessarar afstöðu stjórnarandstöðuflokkanna, eins og ég sýndi fram á bæði þá og nú. Ég gat þess þá í lok máls míns, að ég teldi þá ellilífeyrisþega, sem ekki eiga þess kost að komast á dvalarheimili, vera verr setta en vistmenn elli- eða hjúkrunarheimila, og ég lýsti yfir þeirri skoðun minni, að næsta átakið, sem gera þyrfti í tryggingamálunum, væri að bæta hlut þessa fólks. Þá skeði það, sem mér finnst vera táknrænt fyrir afstöðu Framsfl. til trygginganna. Formaður flokksins, hv. 1. þm. Austf. (EystJ), spratt á fætur og kvaddi sér hljóðs, og hefði mátt ætla, að það væri í því skyni að taka undir mína skoðun að þessu leyti. En það var nú eitthvað annað. Hv. 1. þm. Austf. átti það erindi eitt í ræðustól að þessu sinni að bera fram rótarlegan útúrsnúning út úr máli mínu. Hann kvað röksemdafærslu mína hafa verið á þessa lund, og nú tilfæri ég orðrétt það, sem hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna þess að ríkið borgar að fullu fyrir suma, má hinum standa á sama, hvort það er meira eða minna, sem þeir fá nú samanborið við það, sem var 1958.“

Þetta er svo lágkúrulegur málflutningur hjá formanni annars stærsta stjórnmálaflokks landsins, þegar til umræðu er jafnmikilvægt mál og almannatryggingarnar, að engu tali tekur. Hv. þm. hefur ekki annað til þeirra mála að leggja en tóman skæting, og er það reyndar oftar, sem sami hv. þm. viðhefur þessa aðferð í umr. hér á Alþ. um mikilvæg mál. Ég ætla mér ekki að reyna að kenna hv. þm. betri siði, það er sennilega of seint, eins og komið er fyrir honum. En afstaða hans til almannatrygginganna markast enn af þeirri afstöðu, sem hann hafði, þegar hann lét sér þau orð um mun fara, að engin vitglóra væri í frv. um almannatryggingar, þar sem það hefði milljónaútgjöld í för með sér. Hv. 1. þm. Austf. er sem sagt á móti tryggingunum eins og áður og gerir sér ekki það ómak að kynna sér einstök atriði varðandi þær.

Ég hef nú, að því er ég tel að gefnu tilefni, gerzt nokkuð langorður um þetta mál. Það væri freistandi að rekja lítið eitt ummæli hv. 5. þm. Austf. við 1. umr, um lífeyrissjóðina og þá breytingu, sem verður á stöðu þeirra gagnvart almannatryggingunum. En þar sem ég tel, að þessi ummæli hafi verið byggð á tómum misskilningi, læt ég mér nægja að benda hv. þm. á að lesa sér til um málið í grg. með frv. til l. um almannatryggingar, sem Alþingi afgreiddi sem lög á s.l. vori.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. verði samþykkt óbreytt.