09.12.1963
Neðri deild: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

96. mál, girðingalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Á síðasta Alþingi var samþ. þál. um áskorun á ríkisstj. að láta fram fara endurskoðun á gildandi girðingalögum. Landbrn. skrifaði Búnaðarfélagi Íslands og óskaði till. frá því um meðferð málsins. Búnaðarfélagið gerði það að till. sinni, að skipuð yrði nefnd í málið, og nefndi af sinni hálfu Ásgeir L. Jónsson ráðunaut og Þorstein Sigurðsson, formann Búnaðarfélags Íslands, til þess að taka sæti í þessari nefnd. Óskað var eftir, að vegamálastjóri tilnefndi mann einnig í nefndina, og það var Snæbjörn Jónasson verkfræðingur, sem varð fyrir valinu. Þessi nefnd hefur ekki lokið störfum vegna tímaskorts, en þar sem nú er verið að setja ný vegalög, þótti nauðsynlegt að bera fram frv. það, sem hér er á dagskrá, um breyt. á girðingalögum, nr. 24 1. febr. 1952, að svo miklu leyti sem girðingalögin snerta umferðina og vegina.

Samkv. 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að 12. gr. l. orðist svo:

„Um fjarlægð girðinga frá vegum, hlið á vegum og önnur girðingamál, sem vegina varða, skal fara eftir ákvæðum vegalaga og reglum, sem settar verða samkv. heimild í vegalögum.“

En 12. gr. l. er þannig orðuð nú, með leyfi hæstv. torseta:

„Girðingar úr sléttum vír eða vírneti má hvergi setja nær vegi en 1 m frá vegjaðri og ekki nær en 3 m frá miðjum vegi. Girðingar úr gaddavír séu hvergi nær en 4 m frá vegjaðri og 6 m frá miðjum vegi. Þar sem skurðir eru meðfram vegi, skal metrabreið ræma af ytri skurðbakkanum teljast til vegarins, og má ekki gera girðingar á henni án sérstaks leyfis. Þegar girt er meðfram vegum á óræktuðu landi og skurður lítt fær eða ófær fénaði er á aðra hlið, má bilið frá veginum að girðingu á hina hlið vegarins eigi vera minna en 5 m.“

Þessi grein í vegalögunum er talin vera algerlega úrelt og í fullkomnu ósamræmi við umferðina og vegina, eins og þeir eru nú orðnir, og er sérstaklega um það getið í grg., sem fylgir frv.

Samkv. 2. gr. frv. er lagt til, að 13., 14., 15. og 16. gr. l. falli niður og greinatala laganna breytist í samræmi við það.

Eins og ég vék að áðan, eru girðingalögin í heild í endurskoðun, en þetta frv. snertir aðeins vegalögin, eins og þeim er ætlað að verða, og gat ekki beðið eftir fullnaðarendurskoðun girðingalaganna að gera þá breytingu á lögunum, sem lagt er til í þessu frv.

Ég legg svo til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgmn.