11.10.1963
Sameinað þing: 0. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 1. kjördeildar (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. 1. kjördeild hefur athugað kjörbréf þeirra, sem eru í 3. kjördeild, og jafnframt hefur kjördeildin eins og hinar kjördeildirnar athugað mál varðandi kosninguna, sem send hafa verið til þingsins. Er um að ræða nokkur vafamál í fimm kjördæmum. Skal ég nú gera stuttlega grein fyrir því, hver þau eru.

Í Reykjaneskjördæmi voru sendir tveir ágreiningsseðlar. Þar sem augljóst er að þessir seðlar, hvernig sem þeir yrðu úrskurðaðir, geta ekki haft áhrif á kosninguna í kjördæminu eða á landskjör, er till. kjördeildarinnar, að kjörbréfin í þessu kjördæmi verði öll tekin gild, en ágreiningsatkvæðum verði vísað til kjörbréfanefndar þingsins, þeirrar sem hér verður kosin, þannig að þingið hafi málið áfram í sínum höndum, ef ástæða þykir til frekari aðgerða eða úrskurða.

Í Vesturlandskjördæmi voru 4 vafaatkvæði. Eitt þeirra var þannig til komið, að kjósandi kaus utan kjörstaðar, en var síðan í nágrenni við kjörstað á kjördegi án þess að láta vita af því, að hann væri þar, eins og lög mæla fyrir. Þetta atkv. var ekki tekið gilt. Í Vesturlandskjördæmi voru einnig 3 atkvæðaseðlar óljósir, sem voru ekki teknir gildir. Þar sem augljóst er, að þessi vafaatkvæði geta ekki haft nein áhrif á úrslit kosningarinnar í kjördæminu eða annars staðar á landinu, leggur kjördeildin til, að viðkomandi kjörbréf séu tekin gild, en vafaseðlum vísað til kjörbréfanefndar, sem þingið mun kjósa.

Í Vestfjarðakjördæmi voru 3 umdeildir seðlar, sem hingað voru sendir. Einn þeirra var tekinn gildur heima í héraði, tveir dæmdir ógildir. Þar er sömu sögu að segja. Var athugað, hvort þessir seðlar, hvernig sem þeir yrðu úrskurðaðir, gætu nokkur áhrif haft á úrslitin í kjördæminu eða úthlutun uppbótarsæta. Niðurstaða varð sú, að seðlarnir gætu engin slík áhrif haft. Því er lagt til að taka kjörbréfin gild, en vísa vafaatriðum til væntanlegrar kjörbréfanefndar.

Í Norðurlandskjördæmi vestra er deilumál um 10 atkv. Þetta eru utankjörstaðaratkv., sem bárust hingað á kjörstað rétt um kl. 11, og er það eitt aðaldeilumálið, hvort seðlarnir hafi borizt tímanlega samkv. 1. eða of seint. En í þessu atviki er enn sömu sögu að segja, að útreikningar, sem skrifstofustjóri þingsins gerði ásamt kjördeildinni, leiddu í ljós, að hvernig sem þessir 10 seðlar væru úrskurðaðir eða reyndust vera, — þeir hafa að sjálfsögðu ekki verið opnaðir, — mundu þeir ekki geta haft nein áhrif á kosninguna í þessu kjördæmi eða á úthlutun uppbótarsæta.

Fimmta kæruatriðið er nokkuð annars eðlis. Það er kæra frá tveim efstu mönnum á H-lista í Austurlandskjördæmi á hendur yfirkjörstjórn þar í kjördæminu. Kæran var send 10. júní frá Seyðisfirði til dómsmrn., og rn. hefur sent hana til Alþingis. Kærendur halda því fram, að þeir hafi lagt lista sinn fram sem lista óháðra kjósenda utan flokka, en yfirkjörstjórn hafi a. m. k. einu sinni auglýst listann og síðan prentað hann á kjörseðli sem H-lista utan flokka, en sleppt orðunum „óháðra kjósenda“.

Þar sem forsvarsmenn H-listans kæra ekki kosninguna sjálfa, draga ekki úrslit hennar í efa, heldur kæra aðeins yfirkjörstjórn fyrir starfshætti hennar, sá kjördeildin ekki ástæðu til þess að draga úrslit kosningarinnar í kjördæminu í efa og leggur því til, að kjörbréf þaðan verði öll samþykkt, en að þessari kæru, eins og öðrum vafaatriðum, verði vísað til væntanlegrar kjörbréfanefndar, sem hér verður kosin. Getur málið þá verið áfram í höndum þingsins til frekari afgreiðslu, ef ástæða þykir til.

Þetta eru kæruatriðin, sem fram hafa komið og voru athuguð í kjördeildinni — og raunar í öllum kjördeildunum að nokkru leyti sameiginlega. Þess vegna leggur 1. kjördeild til, að kjörbréf allra 20 þm. í 3. kjördeild verði tekin gild, en þeir eru Alfreð Gíslason, 9. þm. Reykv., Ágúst Þorvaldsson, 2. þm. Sunnl., Birgir Finnsson, 2. landsk. þm., Björn Fr. Björnsson, 4. þm. Sunnl., Davíð Ólafsson, 6. landsk. þm., Einar Ágústsson, 11. þm. Reykv., Emil Jónsson, 2. þm. Reykn., Gils Guðmundsson, 5. þm. Reykn., Guðmundur Í. Guðmundsson, 4. landsk. þm., Gylfi Þ. Gíslason, 6. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, 5. þm. Vestf., Ingólfur Jónsson, 1. þm. Sunnl., Jón Árnason, 4. þm. Vesturl., Jónas Pétursson, 3. þm. Austf., Jónas G. Rafnar, 2. þm. Norðurl. e., Magnús Jónsson, 6. þm. Norðurl. e., Ólafur Björnsson, 10. þm. Reykv., Sigurður Ágústsson, 2. þm. Vesturl., Sigurður Ó. Ólafsson, 5. þm. Sunnl., og Sverrir Júlíusson, 7. landsk. þm.