03.12.1963
Neðri deild: 23. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur skýrt mér frá því, að hann leggi mikið kapp á það, að þessu máli sé hraðað, og get ég vel skilið það. Það er ekki svo ýkja langt til jóla, og auðvitað þarf jólagjöf að berast fyrir jólin. En dálítið undarlega ber nú að 2. umr. um þetta mál, sem átti að hraða svo mjög. Það er í fyrsta lagi það, að þegar málið er tekið á dagskrá, er ekki komið nál., ekki einu sinni frá meiri hl., því síður að nokkur þm. viti, hvaða till. séu á ferðum. Nú er Alþb. þannig statt, að það á ekki fulltrúa í nefndum, og þegar svo stendur á eins og nú, að engin vitneskja fæst í gegnum nál. um það, hver hafi orðið niðurstaða. n. í tillöguformi um meðferð málsins, væri sanngjarnt, að Alþb. væri að jafnaði gefinn frestur til að athuga mál, eftir að það kemur úr nefnd, þegar svo ber undir, að mál koma með eðlilegum hætti frá nefnd, áður en umr. hefjast um málið. En í þetta sinn vildi svo til, að einn þeirra flokka, sem á fulltrúa þó í n., bað um frest til þess að ganga frá afstöðu sinni til málsins, að mér skilst. Og þarna gat Alþb. gefizt einnig tóm til þess að athuga málið, hefði haft nóg tóm til þess og að boða sínar till., en till. fengum við ekki fyrr en eftir að hléið hafði verið veitt, till. meiri hl. Í annan stað er það svo dálítið einkennilegt, að þegar 2. umr. máls fer fram sem hæstv. ríkisstj. biður stjórnarandstöðuna um að hraða og tefja ekki, þá sér frsm. hæstv. ríkisstj. einmitt ástæðu til að troða illsakir við stjórnarandstöðuna og það á þann veg, að hann er enn að gera tilraun til að verja margopinber ósannindi, sem borin hafa verið fram í þingsölunum, og held ég, að slíkt hefði hvorki átt heima í framsöguræðu fyrir nefnd undir svona kringumstæðum né heldur af hæstv. forseta sameinaðs Alþingis, og mun hann ekki auka virðingu sína í augum þm. með slíku framferði, það þori ég að fullyrða.

Ég boðaði það við 1. umr. málsins, að Alþb. mundi bera fram till. um það, að í stað þess, að bætur almannatrygginga að undanteknum fjölskyldubótum skyldu hækka um 15%, eins og lagt er til í þessu frv., mundi Alþb. leggja til, að bæturnar hækkuðu um 40%. Og ég rökstuddi það þá með því, að breytingar til hækkunar á bótum almannatrygginga hefðu jafnan fylgt þeirri hækkun, sem orðið hefði á launum opinberra starfsmanna og verkafólks, sem jafnan hafa farið þannig fram, þessar hækkanir, að verkalýðurinn hefur brotizt í gegn með sínar kauphækkanir á undan, og svo hafa opinberir starfsmenn fengið venjulega sömu prósentuhækkun á sín laun nokkru síðar með löggjafarákvörðun á Alþingi, en frá sama tíma og verkalýðurinn hefur fengið sínar hækkanir. Að þessu sinni bar hins vegar það við, að launahækkanir til verkafólks höfðu á þessu ári orðið í tvennu lagt, í ársbyrjun 5% og fyrir mitt ár eða í júnímánuði s.l. 7½%. En opinberir starfsmenn höfðu síðar á sumrinu, eða nánar tiltekið frá byrjun júlímánaðar, fengið að því er talið er af hagfróðum mönnum, 45% meðaltalshækkun á sín laun. Hverju áttu nú hækkanir til gamla fólksins og þeirra annarra, sem njóta bótagreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins, að fylgja, verkafólkinu, sem til bráðabirgða hefur fengið 13% kauphækkun til að byrja með, en öll mál verkafólksins eru nú til nýrrar endurskoðunar, eða þá launagreiðslum til hinna opinberu starfsmanna, sem fengið höfðu 40–45% meðaltalshækkun, eða nánar tiltekið 20–90% hækkun? Hæstv. ríkisstj. gerði sitt val. Hún var ekki í neinum vafa um það, að bæturnar til gamla fólksins áttu að vera í samræmi við þá, sem minnst höfðu fengið, og um það er þetta frv.

Það var upphaf máls hjá frsm., hv. 2. landsk. þm. (BF) áðan, að n. mælti með frv. og teldi hún sjálfsagt, að bótahækkanir til gamla fólksins og til bótaþega trygginganna ættu fremur að fylgja kauphækkunum verkafólks heldur en opinberra starfsmanna. Hans rökstuðningur fyrir þessu var sá, að með þessu væri verið að gera hlut gamla fólksins betri, þessar hækkanir til opinberra starfsmanna væru bundnar svo lengi, að það væri miklu eðlilegra að hafa vonina í væntanlegum hækkunum verkafólksins, sem kynnu að koma smátt og smátt. Nú vil ég vona alls hins bezta í því efni, að hlutur verkafólksins verði um síðir ekki lakari en opinberra starfsmanna. En samt sem áður er ég þeirrar skoðunar, að það hefði verið full þörf á því, að gamla fólkið hefði fengið sínar bætur frá 1. júlí, og hefði þá ekki verið úr vegi fyrir hæstv. ríkisstj, að gefa út brbl. um það, svo að það drægist ekki úr hömlu, að gamla fólkið fengi þessar bætur. Það var ekki gert og það var ekki heldur lagt fram, þetta merkilega frv., í byrjun þings, nei, heldur rétt þegar leið að jólum, þá var kominn tími til þess. Þá mátti það ekki lengur dragast. Og þá held ég því fram og við þm. Alþb., að till. um breytingar hefðu átt að vera í samræmi við þá allsherjarbreytingu, sem orðið hefur á sumrinu á launum opinberra starfsmanna, a.m.k. 40% hækkun. Það er sjálfsagt gott fyrir gamla fólkið að lifa í voninni um, að það eigi smátt og smátt að fá þær hækkanir, sem verða á almennu kaupi verkafólks, en það lifir ekki á voninni einni saman, og hefur þó orðið að lifa á því frá 1. júlí s.l. án þess að fá neinar bætur.

Þegar hv. frsm. n. hafði gert grein fyrir þessari skoðun, að hann teldi miklu eðlilegra og betra fyrir gamla fólkið að fá hækkanir á sínum bótum í samræmi við almennar kauphækkanir verkafólks heldur en það, sem þegar hefur gerzt viðvíkjandi hækkun á launum opinberra starfsmanna, vék hann að því að gylla hæstv. ríkisstj. enn og afrek hennar í tryggingamálunum. Stórkostlegar endurbætur hafa verið gerðar á tryggingalöggjöfinni í tíð núv. hæstv. ríkisstj. En stjórnarandstaðan er svo svívirðileg, hún er svo ofstækisfull fram úr hófi, að hún telur þetta allt saman verra en ekkert, allar þessar stórkostlegu umbætur á tryggingalöggjöfinni, allt verra en ekkert. Og einmitt af því að bæturnar eru svo stórkostlegar, þá er þetta allt saman eitur í þeirra beinum, eitur í beinum þessara ofstækismanna, sem telja allt verra en ekkert, sem stjórnin gerir bezt. Þetta er ljóta fólkið, þetta er illþýði hið mesta, það er alveg greinilegt. Stjórnarandstaðan, það er ekkert fyrir hana gerandi. En hann lætur kannske gera eitthvað fyrir gamla fólkið þrátt fyrir hina vondu stjórnarandstöðu.

Hvernig er um þessa margföldun á bótum trygginganna, hvernig er um margföldunina? Ætli þeim hafi ekki skeikað eitthvað í margföldunarlistinni? Það hefur orðið hækkun í krónutölu á bótum almannatrygginga nokkrum sinnum, en þó aldrei þannig, að verðgildi trygginganna ykist, alltaf hefur heldur dregið aftur úr með það, og bætur trygginganna hafa dugað minna, haft minni kaupmátt, hækkað minna en verðlagið hefur áður hækkað, og þannig hafa þessar margföldu endurbætur hæstv. ríkisstj. á tryggingunum ekki orðið fullar bætur. Tryggingarnar eru, eins og margsýnt hefur verið fram á hér við 1. umr. málsins, ekki eins góðar og þær voru áður. Tryggingarnar hafa dregizt aftur úr, þeim hefur hrakað, og er þar alveg sérstaklega um að ræða afturför að því er snertir ellilífeyrinn. Það eru talandi tölur, sem hér hafa verið nefndar, að matvælavísitalan hefur hækkað síðan í marz 1960 um 78%, og það eru meginútgjöld gamla fólksins að kaupa sinn mat, klæði eða fatnaður hefur hækkað um 46%, en hækkanirnar á ellilífeyri á sama tíma eru 27%. Þetta er margföldunin á tryggingunum, svona er hún í tölum, opinberum tölum ríkisstj. sjálfrar. Það blandast engum hugur um það, að þetta þýðir lakari tryggingar en áður voru, það þýðir afturför, og veitti því sízt af öllu af að láta gamla fólkið og aðra bótaþega nú njóta þess réttlætis að fylgja með hækkunum launa til opinberra starfsmanna, eins og alltaf hefur verið siður fram að þessu, þangað til sú regla er nú brotin af hæstv. ríkisstj.

Þá kemur sálmurinn um blómið, þá kemur sálmurinn um það, að ég hafi hins vegar ekkert gert í þessum málum, þegar ég hef verið í ríkisstj., enn þá einu sinni endurtekinn. Alþfl.-menn eru búnir að fara með þetta fleipur í umr. á Alþingi, í útvarpsumr. frammi fyrir þjóðinni, að bregða mér um það, að ég hafi, þegar ég hafi verið félmrh. í vinstri stjórninni, ekkert gert í tryggingamálunum. En hver er sannleikurinn? Sannleikurinn er sá, að það var Alþfl.-maðurinn Guðmundur Í. Guðmundsson, sem fór með tryggingamálin í vinstri stjórninni eftir harðsvíraðri kröfu Alþfl. sjálfs um það, að þessi málaflokkur skyldi heyra undir Alþfl. og engan annan í þeirri stjórn, ef hann ætti að taka þátt í henni á annað borð. Þegar það því var sagt í útvarpsumr. hér fyrir skömmu, að það versta af öllu, sem vinstri stjórnin hefði gert, hafi verið aðgerðaleysi hennar í tryggingamálunum, þá var verið af þeim hæstv. ráðh., sem þá talaði, en það var hæstv. félmrh., þá var hann ekki að kjaftshöggva mig, hann var að snoppunga sinn eigin flokksbróður, sem hafði tryggingamálin undir sínu ráðuneyti í vinstri stjórninni. Og sé það satt, að vinstri stjórnin hafi þar verst gert að gera lítt eða ekkert í tryggingamálunum, þá hittir það þann ráðh. og engan annan.

Ég gerði það augljóst öllum, sem hér voru viðstaddir við 1. umr. málsins, að sem ráðh. í vinstri stjórninni gat ég allra manna sízt tekið fram fyrir hendur á meðráðh. mínum og flutt brtt. um málaflokk, sem heyrði undir hann. Það mundi vera óheyrt í þingsögunni, að einn ráðh. í ríkisstj. bæri fram frv. eða till. á Alþ. um málaflokka, sem heyra undir samráðh. Ég spurði t.d. núv. hæstv. félmrh., hvort hann teldi sér það fært, hvort hann mundi telja sér það sæma, þó að hann hefði brennandi áhuga fyrir einhverju máli, sem heyrði undir dómsmálin, heyrði þannig undir embætti dómsmrh., — hvort hann mundi telja sér fært að bera fram till. um slík mál, ef hann fengi dómsmrh. ekki til þess. Ég man nú ekki, hvort hann svaraði þessu, en það liggur í augum uppi, að það er ógerningur fyrir samráðh. að haga sér þannig. Þetta er hin fyllsta skýring á því, að ég gat ekki flutt breytingar til umbóta á tryggingalöggjöfinni og gripið þannig fram fyrir hendurnar á þeim ráðh., sem með þau mál fór. Hins vegar er það alkunnugt, að ég hef bæði áður en ég varð ráðh. í vinstri stjórninni og eftir það hamrað á till. til bóta á tryggingunum fyrr og síðar, og hefur það verið nú í þessum umr. viðurkennt, að ég hafi einmitt borið fram till. um að fella niður skerðingarákvæðin og gera landið að einu verðlagssvæði fyrir fáum árum og þá hafi stjórnarmeirihl. að viðhöfðu nafnakalli gerzt ber að því að greiða atkv. á móti till. og það var ekki í fyrsta sinn, sem þeir gerðu það. En svo voru kosningar í vændum, og þá fengu þeir áhuga á málinu. Samt leyfði hæstv. forseti sameinaðs Alþingis, hv. 2. landsk., sér að segja, að kommúnistar hefðu sýnt tómlæti í tryggingamálum fyrr og síðar og verið stundum að bera fram flausturslegar og lítt hugsaðar yfirborðstill. m. a., — hann meinar Alþb., þegar hæstv. forseti sameinaðs þings talar um kommúnista, þá er það Alþb., hann hirðir ekki um þá mannasiði að nefna flokkana réttum nöfnum, flausturslegum og lítt hugsuðum till. hafi hann verið að kasta inn í þingið í tryggingamálum. Þarna hafa nú verið nefndar tvær, afnám skerðingarákvæðanna, landið eitt verðlagssvæði. En þessar till. voru ekki vanhugsaðri eða yfirborðslegri en það, að þegar kosningar voru í nánd, þá var hægt að gera þær að sínum till. alveg óbreyttar.

Nú hefur verið hopað í það vígi, að þáv. tryggingamálaráðh., þ. e. í vinstri stjórninni, hafi að vísu verið Guðmundur Í. Guðmundsson, það er játað, að hann hafi farið með tryggingamálin, en hinar góðu till. hans hafi ekki komið fram á Alþingi, af því að hann hafi sætt svo mikilli andspyrnu frá samstarfsflokkunum, Framsfl. og Alþb., í þessum málum. Og þá kiknaði hann, blessaður maðurinn. Þá lét hann það ekki koma í ljós innan þingsalanna, að hann hefði mætt þessari andspyrnu hjá samstarfsmönnunum í ríkisstj., og bar ekki sitt mál undir þingið, eins og sjálfsagt hefði verið, því að till. hans í þessum málum frá dögum vinstri stjórnarinnar finnast ekki í þskj., það er það merkilega. En hitt er sannleikur málsins, að ekki einu sinni innan vinstri stjórnarinnar bar hann fram neinar slíkar till. til umbóta á tryggingamálunum í þingskjalsformi. Það hefur aðeins verið sagt nú í Alþýðublaðinu, að það hafi verið bornar fram af Alþfl. í tíð vinstri stjórnarinnar till. í efnahagsmálum, einu sinni þegar hafi verið erfiðleikar í efnahagsmálum, og þá hafi þar verið ein mgr. um það, að athuga bæri, hvort ekki væri hægt að gera lagfæringar á tryggingunum. Þetta var nú sett innan gæsalappa, en samt var talað þarna um till. Alþýðublaðsins, það kann að hafa verið prentvilla, það hafi átt að vera till. Alþfl. En þessar till. komu aldrei fram í vinstri stjórninni í brtt. formi við tryggingalögin, og ég get fullyrt það, að Framsfl. er jafnsaklaus af því og Alþb. að hafa beitt sér gegn till. meðráðh, okkar, Guðmundar Í. Guðmundssonar, í þessum málum. Hann kom aldrei með þær tillögur.

Á síðasta þingi var samþ. frv. til l. um breyt. á almannatryggingalögunum. Þá hafði, á árinu 1962, verið gerð smábreyting á tryggingalögunum, þannig að ellilífeyrir hækkaði um 7%. En í þeirri breytingu var ekki haggað við neinum öðrum bótaupphæðum tryggingalaganna. í þessari nýju löggjöf, sem taka á gildi 1. jan. n. k., er ellilífeyririnn hins vegar og örorkubætur eins og í núgildandi löggjöf, hækka ekki um áramótin. Ég bið hv. alþm. að taka eftir því, að í löggjöfinni, sem tekur gildi 1. jan. n. k., á ellilífeyrir og örorkubætur að vera óbreytt eins og er í núgildandi löggjöf. Þetta er ein af röksemdunum fyrir því, að það er fyllsta nauðsyn til þess að hækka a. m. k. ellilífeyri og örorkubætur meira en um 15%, miðað við þá dýrtíðaraukningu, sem orðin er.

Ég leyfi mér nú að leggja fram, hæstv. forseti, tvær brtt. við 1. gr. þessa frv. Það er í fyrsta lagi, að í stað „15%“ á tveimur stöðum í 1. gr. komi: 40%. Og í annan stað, að við 1. gr. bætist ný mgr., svo hljóðandi: ,.Allar bótafjárhæðir samkv. 2. mgr. skulu teljast grunnupphæðir og breytast í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar.“ Þetta þýðir, að þegar búið væri að bæta við með samþykkt brtt. í 1. lið 40% viðbótum við allar bætur tryggingalöggjafarinnar, þá beri eftir 1. jan. n. k., þegar nýja löggjöfin hefur tekið gildi, að líta á bæturnar eins og þær þá eru sem grunnupphæðir og þá eigi að varðveita verðgildi þeirra bóta, sem þá eru lögfestar, með verðlagsvísitölu, með vísitölu framfærslukostnaðar. Það er vitanlega skammgóður vermir fyrir bótaþegana að fá afgreiðslu á lagfæringum nokkuð í samræmi við dýrtíð á hverjum tíma, þegar svo líður ekki nema mánuður, kannske tæplega það, þangað til þessi ákvæði um bætur hafa misst gildi sitt að verulegu leyti og brunnið upp á eldi dýrtíðarinnar. Þess vegna vænti ég þess, að hv. alþm. fallist á, að nú, um leið og breytingar verða gerðar á bótaupphæðunum, verði jafnframt samþ. till. um, að gildi bótanna framvegis varðveitist með því að hækka samkv. vísitölu framfærslukostnaðar hverju sinni mánaðarlega. Það væri nokkuð varanleg umbót á tryggingalöggjöfinni. Ein af höfuðkröfum verkalýðssamtakanna við þá samningagerð, sem nú stendur yfir, er m. a. þessi, að það kaupgjald, hvort sem það verður nógu mikil hækkun eða lítil, sem fæst, þá verði þær hækkanir, sem fáist og um semjist, varðveittar með verðtryggingu í einhverju formi, annaðhvort vísitölu, eins og áður hefur stundum verið gert, eða með öðrum ráðstöfunum, sem verðtryggi kaupmáttinn. Hvort sem það verður ofan á eða ekki, mætti vel gera þá undantekningu með bótagreiðslur frá almannatryggingunum, að þær væru, jafnvel þó að kaupgjald fengist ekki tryggt á þann hátt, verðtryggðar með vísitölu framfærslukostnaðar.

Ég vil svo, herra forseti, vænta þess, að þessar tvær brtt. við frv. verði samþ., og læt svo máli mínu lokið. Till. eru skriflegar og þurfa því afbrigða, sem ég bið hæstv. forseta að leita.