03.12.1963
Neðri deild: 23. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það hefur nú verið skýrt frá því hér, að ég hafi óskað eftir, að þetta mál hefði eins skjótan framgang og mögulegt er, og skal ég þess vegna ekki fara út í þessi mál og þessar umr. eins og vert væri, en nokkur atriði kemst ég þó ekki hjá að nefna. Það hefur verið talað um ýmis grundvallaratriði í tryggingalöggjöfinni, og málsmeðferðin verið þannig, að það getur ekki staðizt mótmælalaust, eða ég get ekki, þó að ég vilji, að málið fái sem greiðastan framgang, látið vera að ræða a. m. k. ögn um þau.

Báðir síðustu ræðumenn, hv. 5. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Vestf., héldu því fram, að afnám skerðingarákvæðisins væri miklu eldra en svo, að það gæti verið þessari stjórn að þakka, að það hefði verið afnumið. Ég skal til upplýsingar um þetta geta þess, að afnám skerðingarákvæðisins er ekki komið inn í lögin 1956, eins og hv. 5. þm. Reykv. vildi vera láta, það er eldra í lögum, það er frá 1946. Þá var sett inn heimild til þess að afnema skerðinguna, en í bráðabirgðaákvæðum við frv. var ákvæði um, að þetta skyldi vera óbreytt í næstu 5 ár eða til 1951, en 1951 byrjaði frestun á framkvæmd málsins og var haldið áfram oftar en einu sinni, þannig að það var fyrst endanlega ákveðið í l. frá 1956, að það skyldi falla niður 1960. Það var að vísu frestun líka, mátti segja. En það, sem ég tel vera vel gert hjá þessari ríkisstj., er það, að hún fylgdi l. í þessu efni og frestaði ekki að afnema skerðingarákvæðið, eins og ríkisstj. frá 1951–1956 höfðu gert, einmitt sá félmrh., sem hv. 5. þm. Reykv. vildi eigna, að skerðingarákvæðið var afnumið. Þetta kemst ég ekki hjá því að leiðrétta, því að það er meginatriði í þessu máli.

Um verðlagssvæðin og afnám þeirra er það að segja, að fram undir það síðasta hefur verið andstaða gegn því, að verðlagssvæðamunurinn yrði afnuminn, frá yfirgnæfandi meiri hl. sveitarfélaga þessa lands. Og það, sem réð því, að ekki var farið fyrr í að afnema verðlagssvæðin, var, að sveitarfélögin voru yfirleitt á móti því, að það yrði gert. Það er alveg rétt, að hv. 5. þm. Vestf. hefur sjálfsagt borið fram till. um þetta, um afnám verðlagssvæðanna, en þá stóð málið þannig, þegar till. var borin fram, að það þótti ekki fært af þessum ástæðum, sem ég nú nefndi, að samþ. hana.

Það er ýmislegt fleira, sem kannske væri vert að taka fram í sambandi við þetta, þó að ég fari fljótt yfir. Hv. 5. þm. Vestf. og raunar hv. 5. þm. Reykv. líka töldu, að hækkun bótanna með þessu frv. væri allt of lág, hún ætti að vera miklu hærri. Hv. 5. þm. Reykv. leggur til, að hún verði 25% í staðinn fyrir 15%, og 5. þm. Vestf. leggur til, að hún verði 40% í staðinn fyrir 15%. En það, sem ég sérstaklega vildi mótmæla í sambandi við ræðu hv. 5. þm. Vestf., er það, að hann marghélt því fram, að þær hækkanir, sem gerðar hafa verið á bótagreiðslunum, hefðu aldrei verið fullar bætur, þær væru ekki eins góðar, tryggingarbæturnar núna, eins og þær hefðu áður verið, og færði því til sönnunar, að matvælavísitalan hafi hækkað um 86 stig, held ég, að hann hafi sagt, og fatnaðarvísitalan um 40 stig á síðustu árum, en á sama tíma hefðu bætur almannatrygginga ekki hækkað nema um 27%. Ég held, að þetta skýrist bezt, ef ég les upp bæturnar á 1. og 2. verðlagssvæði, eins og þær hafa breytzt frá marz 1959, að vísitalan var fest í 100, og til þessa dags, því að vísitöluupphæðin í dag gefur þá hækkun, sem orðið hefur á þessu tímabili:

Í marz 1959 voru lífeyrisgreiðslurnar til einstaklings 829 kr. á mánuði. Í dag, í nóvember 1963, eru greiðslurnar 1519 kr., þannig að hækkunin, sem hefur orðið á þessu tímabili, er 83.2%, og ef 15% eru tekin með, sem nú er lagt til að hækka um, er hækkunin frá marz 1959 og til nóv. 1963 110.7%. Fyrir hjón eru þessar tölur þannig: Lífeyrisgreiðslur til hjóna á fyrsta verðlagssvæði voru í marz 1959 kr. 1327.27 á mánuði, en eru í nóv. í ár kr. 2735.35, þ.e.a.s. hækkun á þessu tímabili um 106.1%, og ef 15% er bætt við, þá er hækkunin 137%.

Á 2. verðlagssvæði lítur dæmið þó enn öðruvísi út, því að þar voru bótagreiðslur til einstaklinga í marz 1959 kr. 622.16. Þær eru í dag 1519.64 kr., þ.e.a.s. hækkunin á þessu tímabili hefur orðið 144.3%, og ef 15% hækkunin, sem nú er gert ráð fyrir, er tekin með, er hækkunin frá marz 1959 180.9% fyrir einstakling, og enn frekari hækkun hefur orðið á lífeyrisgreiðslum hjóna, ef miðað er við 2. verðlagssvæði. Þar voru bótagreiðslurnar fyrir hjón í marz 1959 kr. 995.45, þær eru í dag kr. 2735.35, alveg eins og á 1. verðlagssvæði, þ.e.a.s. hækkunin á 2. verðlagssvæði hefur orðið 179.8%, og ef reiknað er með 15%, sem hér á að bæta við, hefur hækkunin á 2. verðlagssvæði til hjóna orðið 216% á þessu tímabili. Ég tel, að það sé mjög ómaklegt, þegar hv. 5. þm. Vestf. kemur og segir, að það hafi aldrei verið greiddar fullar bætur á þessu tímabili og bótaþegarnir hafi aldrei fengið eins góðan árangur á þessu tímabili og þeir höfðu áður. Þessar tölur tala sínu máli og sýna, hvílík fjarstæða það er að hafa þessi orð, sem hv. þm. segir.

Þá hafa nokkuð dregizt inn í þessar umr. vistgjöldin á elliheimilinu Grund. Ég hef látið athuga það líka, og það er sennilega skiljanleg skekkja, sem komið hefur í þær niðurstöður, sem hv. 5. þm. Reykv. hefur verið með, og það er af því sjálfsagt, að hann veit ekki, að á sjúkradeild Grundar er greitt meira en venjulegur lífeyrir öllum, sem á deildinni eru, eða 20% meira. Og þegar það er tekið með og hækkanirnar, sem núna eru fyrirhugaðar, þessi 15%, þá hefur ekki verið um hlutfallslega lækkun að ræða, heldur um hækkun, það lítið hún er. 1958 hefur hundraðshlutinn í venjulegri greiðslu á sjúkradeild, sem. Tryggingastofnunin hefur greitt, verið 43.2%, en verður með þessari breytingu, sem nú er verið að gera, 46%. Það er að vísu ekki um mikla hækkun að ræða, en þó er breytingin í rétta átt. Á almennu deildinni hefur hundraðshluti bótagreiðslnanna af heildarkostnaði verið 1958 42%, en verður með breytingunum, sem nú eru fyrirhugaðar, 45%. Það er að vísu alveg fráleitt, finnst mér, að taka breytingarnar á kostnaði á elliheimilum eða ársvistargjaldi á elliheimilum og leggja þær til grundvallar í þessu sambandi, því að það er svo lítill hluti af þessu gamla fólki, sem hefur tækifæri til þess að fá dvöl á elliheimilum og er þess vegna miklu réttara að taka þá breytingu, sem orðið hefur á afkomu þess fólks, sem utan vistheimilanna dvelst. Ég veit t.d. ekkert, hvernig það kæmi út, ef venjulegt tímakaupgjald og breytingin á því á þessu tímabili yrði borin saman við dagkostnað á sjúkrahúsum. Ég efast um, að hlutfallið væri þar nokkru betra. En allt í allt er niðurstaðan af þessum samanburði sú, að það hefur ekki orðið lækkun á hlutfallinu á milli lífeyrisgreiðslna og ársvistargjalda á elliheimilum, heldur þvert á móti hefur orðið lítils háttar hækkun, og hækkun á bótagreiðslum almannatrygginganna til einstaklinga og hjóna á 1. verðlagssvæði, og alveg sérstaklega ef miðað er við 2. verðlagssvæði, þessar hækkanir eru gífurlega miklar miðað við þær hækkanir, sem orðið hafa almennt. Ég vil nú ekki taka þá venjulegu vísitöluhækkun til samanburðar í þessu efni, en þó að maður bara taki matvöruhækkunina, sem sjálfsagt er sú hækkun, sem hv. 5. þm. Vestf. hefur getað nefnt mesta, þá er hún samt ekki nema hluti og tiltölulega lítill hluti af þeirri hækkun, sem orðið hefur á bótagreiðslunum, og er þó ýmis annar kostnaður gamla fólksins náttúrlega nokkur, og hefur hann, sem betur fer, ekki hækkað jafnmikið.

Eins og ég segi, ég ætlaði ekki að stofna til neinna illdeilna um málið, því að mér er akkur í því og ég hef áhuga fyrir því, að málið verði leyst nú sem allra fyrst. En ég gat ekki komizt hjá því að gera þessar aths. við það, sem hér hefur fram komið. Það var verulega um það rætt við 1. umr. málsins, að ég hefði farið með ósatt mál hér, þegar ég taldi, að till. Alþfl. um hreyfingu á þessum málum hefðu ekki fengizt viðurkenndar í vinstri stjórninni. en það er þó orðin nokkur breyting á því nú, því að hv. 5. þm. Reykv. viðurkenndi það, að Alþfl. hefði borið fram till., en þær hefðu bara verið látnar koma strax til framkvæmda. Till. hefðu verið þannig, að það hefði verið hægt. En ég skal ekki fara frekar út í að deila um þetta. Það fæst kannske betur úr því skorið, hver hefur farið með rétt mál þar eða rangt.