30.04.1964
Efri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

14. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég lét í ljós það álit við 1. umr. þessa máls, að ég teldi, að með frv. væri stigið spor í rétta átt. Ég sagði þá einnig frá því, að hæstv. ráðh., sem talaði fyrir þessu frv., hefði átt völ á öðru frv. um sama efni, sem unnið var af ágætum mönnum einnig, nokkrum árum fyrr, og ég taldi, að hann hefði valið það frv., sem lakara var. Þrátt fyrir að þetta er spor í rétta átt, þá eru á þessu frv. ýmsir annmarkar. Nú hefur hv. heilbr.- og félmn. flutt fyrir sitt leyti fjórar brtt. við frv., og ég skal taka það strax fram, að ég tel allar þessar till. vera til bóta og mun fylgja þeim. Aðeins er gallinn sá, að mér finnst sumar þeirra ekki ganga nógu langt.

Á þskj. 285 flyt ég fjórar brtt. við frv. Fyrsta brtt. mín fjallar um 1. gr., eins og 1. brtt. hv. heilbr.- og félmn. Aðalgallinn á 1. gr. frv. finnst mér vera sá, að lögreglan skuli eiga að tilkynna til áfengisvarnaráðunautar eða áfengisvarnanefndar þá, sem teknir eru höndum sakir ölvunar. Ég hefði talið fara bezt á því, að þessu ákvæði yrði alveg sleppt. Hv. heilbr.- og félmn. hefur dregið nokkuð úr þessu, og ég tel það vera til bóta. Ástæðan fyrir því, að ég er heldur andvígur þessu, er, að mér finnst þetta algerlega tilgangslaust. Það er tilgangslaust, að lögreglan sé að tilkynna áfengisvarnaráðunauti eða hans skrifstofu eða áfengisvarnanefnd þá, sem hún tekur höndum sakir ölvunar, og það er tilgangslaust, að þessi aðili sé að halda spjaldskrá í þessu skyni. Áfengisvarnaráðunautur og áfengisvarnanefnd starfa ekkert að drykkjumannahjálp. Ef þessir aðilar starfa eitthvað að áfengisvörnum, og það dreg ég ekki í efa, þá er það ekki sú hlið málsins, sem snýr að hjálpinni við ölvaða menn og drykkjusjúka. Þess vegna hafa þessir aðilar ekkert við að gera að fá skrá yfir slíka menn. Það er önnur ástæða einnig, og hún er sú, að ég tel þessa aðila ekki hæfa til þess að fara með þessi mál. Þetta eru viðkvæm mál, og hér er um sjúklinga að ræða, en ekki brotamenn. Það heyrir undir lækna að halda slíkar skýrslur, og heilbrigðisstofnanir, en ekki stofnun eins og hér er tilgreind. Læknar og heilbrigðisstofnanir eru bundin þagnarheiti, en það er sú stofnun, sem hér um ræðir, alls ekki í þessu efni. Ég hefði þess vegna talið að öllu leyti bezt, að þessu ákvæði hefði verið sleppt með öllu, og út á það gengur mín fyrsta brtt.

Þá geri ég till. um breyt. á 9. gr. Aðalgallinn á þeirri gr. var nokkuð rakinn hér við 1. umr. málsins, og hv. frsm. heilbr.- og félmn. minntist á þann galla einnig nú í sinni ræðu. Gallinn er sá, að það á skv. gr. að tengja að miklu leyti drykkjumannahjálpina við geðveikrahæli ríkisins. Þetta er í l., sem í gildi hafa verið síðan 1949, og reynzt illa að dómi allra, sem til þekkja, m.a. eins aðalhöfundar l. 1949, Vilmundar Jónssonar fyrrv. landlæknis. En þótt hér sé nokkuð slakað á, og það er einn af kostum þessa frv., þá er enn í 9. gr. haldið fast við það, að þær stofnanir, sem ríkið lætur reisa í þessu skyni, skuli allar reknar í sambandi við geðveikrahæli ríkisins, ekki aðeins það, sem hv. frsm. heilbr.- og félmn. gat um, að í tengslum við geðsjúkrahúsið skuli reka lækningastöð fyrir þá, sem ekki þarfnast vistunar, svo og til eftirmeðferðar þeirra, sem vistaðir hafa verið, heldur er bætt við og sagt, að í tengslum við geðsjúkrahúsið skuli enn fremur reisa og reka sérstök hæli til meðferðar þeirra, sem ekki er talið að veitt verði viðhlítandi meðferð á annan hátt. Það á sem sagt skv. þessari grein eftir sem áður að halda áfram að tengja drykkjumannalækningar við geðveikrahælið á Kleppi. Þetta er megingalli. Þess vegna er það önnur brtt. mín, að þessu verði algerlega breytt og ekkert ákveðið um það, heldur aðeins að reisa skuli og reka á kostnað ríkisins sjúkradeildir og gæzluvistarhæli fyrir drykkjusjúkt fólk, svo mörg sem henta þykir til nauðsynlegrar aðgreiningar sjúklinga eftir kynjum svo og eðli drykkjusýkinnar. Samkvæmt þessu orðalagi mætti að vísu reisa þetta og reka í sambandi við Klepp, en það er ekki skilyrði og fer þá eftir mati valdhafa á hverjum tíma.

Hv. frsm. heilbr.- og félmn. gat þess og hafði það vafalaust réttilega eftir sérfróðum lækni, að drykkjusýkin væri geðsjúkdómur. Þetta er rétt, ef við lítum á orðið geðsjúkdóm sem mjög víðtækt hugtak. Við tölum oft um taugaveiklun og taugaveiklað fólk. Þá er átt við sjúkdóma, sem eru í sama skilningi geðsjúkdómar. En engum heilvita manni mundi detta í hug að vista taugaveiklað fólk á geðveikrahæli, og sama gildir raunar um drykkjusjúka menn. Ef við undanskiljum sjálfa ölvunina, þá eru þessir menn ekki veikari en taugaveiklaða fólkið, sem við höfum allt í kringum okkur í lífinu og engum dettur í hug að leggja inn á Klepp.

Um 3. brtt. mína get ég verið fáorður. Hún er samhljóða breytingu, sem felst í 2. brtt. hv. heilbr.- og félmn., þannig að að samþykktri till nefndarinnar er mín 3. tillaga óþörf og yrði tekin aftur.

Þá kem ég að síðustu brtt, minni, sem snertir 12. gr. Ég gerði það lítils háttar að umtalsefni, að ég teldi vafasamt, að unnt væri að halda manni gegn vilja hans mánuðum saman á stofnun eða hæli, þótt hann hefði einhvern tíma meira eða minna illa fyrirkallaður skrifað undir skuldbindingu þess efnis. Ég efaðist um, að það samrýmdist hugmyndum okkar um persónufrelsi, að unnt væri að hefta frelsi manns á þennan hátt. Ég geri það að till. minni hvað þessa grein snertir, af því að í henni er þetta ákvæði, — ég geri það að till. minni, og það er 4. brtt. mín, að gr. falli niður. Hún getur fallið niður að öllu leyti, því að annað, sem í þessari gr. er fjallað um, leiðir af sjálfsdáðum af öðrum lögum. Hv. heilbr.- og félmn. er með brtt. við þessa sömu gr.brtt. gengur ekki eins langt og mín, en gengur þó nokkuð í svipaða átt, eins og hv. frsm. heilbr.- og félmn. gerði grein fyrir hér áðan. Það er sem sagt dregið úr broddunum, það er takmarkað, hvað halda megi manni lengi á þennan hátt, og sérstaklega betur tryggt en áður, að maðurinn sé þó með fullu ráði, þegar hann skrifar undir slíkt plagg. Þetta tel ég mjög til bóta sem breyt. á 12. gr. og mun greiða því atkv. að minni till. felldri.

Ég held, að ég þurfi þá ekki að hafa fleiri orð um þetta og að ég hafi gert nægilega grein fyrir þeim brtt., sem ég flyt á þskj. 285.

Hv. heilbr.- og félmn. gerir nokkrar brtt. við 11. gr., víðtækari en kemur fram í minni litlu brtt. um það efni, og ég get tekið það fram, að ég tel brtt. hv. n. vera mjög til bóta. Þar eru betur aðgreindir þeir, sem til greina kemur, að vista megi á slík hæli, og önnur ákvæði gerð ákveðnari og heppilegri að mínum dómi, eins og ég hef þegar getið um í sambandi við ummæli mín um 12. gr.