19.03.1964
Neðri deild: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

33. mál, skipulagslög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er ýmislegt, sem er til bóta í þessu frv., og hefði ekki veitt af, að fyrr hefði tekizt að fá samþykkt hér á Alþingi lög, sem koma í staðinn fyrir gömlu lögin frá því fyrir 40 árum. Þróun þjóðfélagsins hefur veríð ákaflega hröð og ekki sízt þróun bæjanna og alveg sérstaklega þróun Reykjavíkur. Ég held þó, að með þessu lagafrv. séu stigin spor, sem gangi skemmra en var í því frv., sem lagt var fyrir 1948, og ég held, að það sé óheppilegt, að ekki séu nú, þegar þessi mál eru afgreidd, gerðar róttækari ráðstafanir en þær, sem í þessu frv. felast. Ég skal sérstaklega gera hér 4–5 atriði að umtalsefni.

Það er í fyrsta lagi í sambandi við 1. gr. um sjálfa stjórn skipulagsmála. Þar er haldið þessu gamla ákvæði, að húsameistari ríkisins, vegamálastjóri og vita- og hafnarmálastjóri skuli vera sjálfskipaðir í þá nefnd. Ég held, að þetta sé ekki rétt. Það snertir hvorki þá menn, sem fyrr hafa verið í þessu embætti né síðar, en það að binda það við ákveðin embætti, að einmitt mennirnir, sem í þeim eru, skuli vera sjálfskipaðir í skipulagsstjórn ríkisins, held ég, að sé ekki orðíð í samræmi við þróun byggðarinnar í landinu. Ég held, að það sé orðið óhjákvæmilegt, að ef á að skipa sérstaka skipulagsnefnd, sé öruggt, að í henni séu einhverjir menn, sem hafa sérþekkingu í þessum efnum. Það er vitanlegt, að eitt af því, sem í öllum erlendum borgum t.d. er og þykir sjálfsagt um slíkt, er, að þeir menn, sem um þetta fjalli, séu sérstaklega menntaðir til þess, og menn eru sérstaklega menntaðir nú, m.a. við háskóla erlendis, til þess að vera skipulagsfræðingar um skipulag borga og kauptúna og bæja, og enn fremur er það, að byggingarfræðingar læra alltaf meira og minna í þessum efnum, og það mætti þess vegna gjarnan tryggja það, að í stjórn þessara mála, eins og sjálfri skipulagsstjórn ríkisins, væru beeði menn, sem væru menntaðir sem skipulagsstjórnendur, og arkitektar og byggingarmeistarar eða annað slíkt. Ég held þess vegna, að þetta hefði bæði hæstv. ríkisstj. og hv. n. átt að taka til alvarlegrar athugunar.

Þá er í öðru lagi í sambandi við 2. gr., þ.e. um skipulagsstjóra ríkisins. Alveg án tillits til þess, hver nú er skipulagsstjóri, þá er það mikil spurning, hvort á ekki í sambandi við svona embætti að setja ákvæði um það, að menn séu sérstaklega menntaðir til þeirra. Það er gert við þorrann allan af embættum ríkisins, og hví skyldi það ekki vera um annað eins og þetta líka, að til þess þurfi einhverja sérstaka kunnáttu?

Ég skal ekki fara ýtarlega út í þær mörgu greinar, sem hér eru viðvíkjandi sjálfum skipulagsuppdráttunum og öðru slíku, enda hef ég ekki þekkingu til þess, en vil gera sérstaklega að umtalsefni nokkuð, sem snertir VI. og VII. kafla, annars vegar um framkvæmd skipulags eldri hverfa og hins vegar um forkaupsrétt, eignarnám og skaðabætur. Ég held, að það hljóti að vera viðurkennt af öllum, sem um þessi mál hugsa, og sérstaklega hvað snertir helming byggðarinnar í landinu, Reykjavík og nágrenni, að höfuðspurningin og höfuðerfiðleikinn í sambandi við skipulagningu á þessum málum er einstaklingseignarrétturinn á lóðum. Aðalþröskuldurinn í götu skynsamlegrar skipulagningar, sérstaklega í Reykjavík, er nú orðinn einstaklingseignarrétturinn á megininu af lóðum innan Hringbrautar. Bæirnir úti um land hafa sumir verið svo heppnir, meira að segja frá upphafi, að eiga landið, sem þeir eru byggðir á, eða kaupa það mjög snemma, og aðrir bæir hafa átt það forsjála stjórnendur, eins og t.d. Akureyri, að þeir lögðu sig snemma eftir því að kaupa allt landið, sem þar var í kring. Það er Oddeyrin ein, sem þar varð út undan og lenti um tíma öðruvísi. Hér í Reykjavík aftur á móti hefur óhamingjan viljað það, að eftir aldamótin lendir meginið af því, sem er innan Hringbrautar, í einkaeign. Ég man eftir, að allar þessar lóðir innan Hringbrautar voru metnar á eitthvað 30 millj. kr. 1932, en hins vegar vár bærinn þá með forsjálni búinn að eignast allar lóðirnar svo að segja utan við. Og síðan hefur skipulagningin í Reykjavík gengið þannig fyrir sig, að það, sem raunverulega hefur verið skipulagt, er það, sem er utan Hringbrautar, af því að þar hefur bærinn sjálfur átt lóðirnar. En það, sem stendur eins og fleinn í holdi manna enn þá, er skipulagningin innan Hringbrautar, af því að þar eiga einstaklingar þetta, og það er verið að káka við að samþykkja efna og eina lóð, byggja á einni og einni lóð, venjulega í vitleysu, einu og einu horni, og venjulega án alls samræmis, allt saman vegna þess, að Reykjavíkurbær á ekki þessar lóðir. Þess vegna er það í raun og veru höfuðforsendan í sambandi við skipulagslög, að þessu sé breytt, og þetta er ekki mál, sem er utan við skipulagslög og skipulagsþarfir, heldur er fremsta mál alls skipulags. Landið þarf að vera í eigu bæjarfélagsins, og þetta hefur Alþ. hvað eftir annað viðurkennt með alls konar aðstoð við bæi úti um landið, eignarnámi og öllu mögulegu þess háttar og eignarnámslögum, en hvað snertir aftur á móti Reykjavík, þá hefur þetta gengið miklu erfiðlegar. Þar hefði verið nauðsynlegt, að gerðar hefðu verið frá upphafi ráðstafanir til þess, að bæjarfélögin gætu eignazt þessar lóðir og það með sérstaklega heppilegu móti.

Í því frv., sem lagt var fyrir Alþingi 1948 og var þskj. 20 þá og lagt var fram af þáv. félmrh. og forsrh., Stefáni Jóh. Stefánssyni, sem stjórnarfrv., var gengið mjög miklu lengra í þessum efnum. Sú stjórn, sem þá sat að völdum, sem var sú stjórn, sem bæði Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. skipuðu, tók mjög miklu dýpra í árinni en núna er gert í þessum lögum.

Þar var m.a. ákveðið í 28. gr. í því frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Til fjáröflunar í því skyni að greiða kaupverð fasteigna, er sveitarstjórn kaupir, til þess að skipulagsbreytingu verði komið í framkvæmd, þ. á m. til greiðslu bóta fyrir eignarnám, er sveitarstjórn heimilt að gera samþykkt um stofnun skipulagssjóðs fyrir bæjar- eða hreppsfélagið.”

Og þetta er til ýtarlegri skýringar einmitt á VI. kaflanum, sem var um eignarnám og skaðabætur. Síðan er lagt til, að ákveðið sé þar í 30. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Í samþykkt um skipulagssjóð er heimilt að kveða svo á, að sjóðnum skuli afla tekna með árlegu gjaldi af öllum fasteignum í umdæminu, öðrum en fasteignum annarra ríkja, sem notaðar eru í þjónustu þeirra. Upphæð gjaldsins má vera jafnhá fasteignaskatti samkv. l. nr. 67 12. apríl 1945 og skal ákveðin í samþykktinni til 5 ára í senn.“

Og enn fremur er í 32. gr.:

„Við fasteignamat skal meta sérstaklega fyrir hverja fasteign þá verðhækkun, sem á henni er orðin frá síðasta fasteignamati og telja má, að stafi af skipulagsbreytingu, hvort sem sú skipulagsbreyting er þegar komin til framkvæmda eða aðeins ráðgerð á staðfestum skipulagsuppdrætti.”

M.ö.o.: í löggjöfinni var gengið út frá því, að það skyldi reyna að taka eignarnámi meginið af þeim lóðum, sem byggja þyrfti á. Það skyldi leggja á sérstakt fasteignagjald og það skyldi leggja á sérstakan verðhækkunarskatt, sem skyldi renna í sjóð til bæjarfélaganna, til þess að borga þessar lóðir. Og enn fremur voru ákvæði í 23. gr. um eignarnám og skaðabætur, með leyfi hæstv. forseta:

„Þó getur sveitarstjórn ákveðið með samþykki ráðh., að allt að helming eignarnámsverðs skuli greiða með skuldabréfum tryggðum með ríkisábyrgð, og heimilast ríkisstj. að veíta slíka ábyrgð, enda er þá skylt að bera undir ríkisstj., hvort yfirmat skuli fram fara eða hvort áfrýja skuli til venjulegs eða sérstaks yfirmats.“

M.ö.o.: í því frv., sem lagt var fyrir af þáv. ríkisstj., var gengið út frá því að gera bæjarfélögunum kleift að taka eignarnámi allar einstaklingslóðir, sem bærinn áliti að væri nauðsynlegt, og greiða eignarnámsverðið að hálfu leyti í skuldabréfum til svo og svo langs tíma. Og þetta voru sanngjörn og nauðsynleg ákvæði. Hér í Reykjavík, ef við tökum bara Austurstræti, Bankastræti, Laugaveg, skiptir það hundruðum milljóna, sem lóðirnar við þessar götur kosta nú, ef á að selja þær með því uppsprengda verði, sem er á þeim núna, — það skiptir hundruðum millj. Og þessu verðmæti, sem felst í þessum lóðum nú, hafa eigendur þeirra aldrei unnið fyrir og ekkert lagt fram til þess að skapa þetta verðmæti, þannig að þetta er óverðskuldað verðmæti, sem eingöngu er til orðið fyrir starf þjóðfélagsins sem heildar, fyrir byggingu Reykjavíkur og annað slíkt, þannig að það er að öllu leyti óréttmætt og er skattur, sem lagður er á allar framkvæmdir í þjóðfélaginu, að fara að greiða til þeirra landeigenda, sem eiga þessar lóðir, gífurlegt verð. Það er skattur, sem leggst síðan á þjóðfélagið í heild, skattur, sem alls ekki á að eiga sér stað, — skattur einstakra manna og skattheimta þeirra á þjóðfélagið í heild. Þess vegna er nauðsynlegt, að gerðar séu nógu harðar ráðstafanir til þess að tryggja rétt þjóðfélagsins í þessu efni. Þorri af þjóðfélögunum hefur gert þetta með verðhækkunarskatti. Hefði það verið gert nægilega snemma á Íslandi, jafnvel þótt það hefði ekki verið gert fyrr en 1948, hefði meira en helmingurinn af öllu lóðaverðinu þarna núna áreiðanlega runnið beint sem verðhækkunarskattur til bæjar- eða ríkissjóðs. Það verður ekki skipulagt af neinu viti, fyrr en búið er að framkvæma þetta, vegna þess að við sjáum það, sem fylgjumst nokkurn veginn með, þegar verið er að gera till. um skipulagið í Reykjavík nú, að þeir, sem till. gera, reikna með eigendum lóðanna eins og þeir eru núna og taka tillit til þeirra, og það er einmitt sá hlutur, sem má ekki eiga sér stað. Þegar verið er að skipuleggja, má ekki taka neitt tillit til þeirra, sem eiga lóðirnar. En þeim finnst þeir þurfa þess, bæði vegna þess, að það er það dýrt að eyðileggja þær, en það gæti verið alveg nauðsynlegt, bærinn yrði að borga þær kannske hvort sem er, eins og nú er, þannig að það er í sambandi við skipulagsmálin nauðsynlegt að gera þarna ákveðna hluti. Ef eitt ríki væri ákveðið í þessum hlutum, getur það gert ýmislegt líka til þess að gera sér þetta ódýrara. Það getur ákveðið, að það megi ekki byggja á svona lóðum, fyrr en þær eru komnar í eigu ríkisins, það skuli alls ekki tekið til með skipulagningu á þessu og eigi ekki að byggja á þeim, þannig að ríkíð standi almennilega að vígi þá í samningum við þessa aðila. En það getur ekki gengið að skapa svona sérréttindi í þjóðfélaginu til handa einstökum lóðareigendum og láta þá fara að innheimta, — líklega verða það milljarðar til samans, sem lóðirnar í allri Reykjavík koma til með að kosta, ef á að kaupa þær á endanum allar saman upp. Ég held þess vegna, að það hefði verið miklu heppilegra, að þessi gömlu ákvæði hefðu nú verið tekin upp í þessi skipulagslög og þessi kafli, sem var í frv. ríkisstj. 1948, hefði verið tekinn upp nú, VI. kaflinn, um eignarnám og skaðabætur, og VII. kaflinn, um skipulagssjóðinn. Það er slæmt, að það, sem hæstv. þáv. félmrh. gat lagt fram, skuli máske þykja orðið allt of róttækt nú, til þess að hægt sé að leggja það fyrir Alþingi, og ég vil alvarlega skjóta því til hv. þm., að þeir taki þetta til athugunar.

Ég er ekki reiðubúinn til þess að koma fram með brtt. nú þegar við þessa umr., en mundi þá reyna það undir þá næstu, en ég vil benda mönnum á, hvílík gífurleg verðmæti hér eru í húfi.

Þá vildi ég að síðustu minnast á það, að ég hef lagt hér fram frv., sem liggur fyrir þessari hv. d. og líklega fyrir hv. heilbr.- og félmn., um heildarskipulagningu miðbæjarins í Reykjavík. Við vitum, að þessi heildarskipulagning stendur að miklu leyti í veginum fyrir öllum framkvæmdum. Hún er engin til, og það eru engar ákvarðanir í sambandi við þessi skipulagslög nú, sem að neinu leyti mundu tryggja það að flýta því máll. Ég veit ekki, hvort sú hv. n. hefur nokkuð athugað það frv., sem er á þskj. 277, nú þegar, en ég er hræddur um, ef ekki næst samkomulag um, að einhverjar sérstakar ráðstafanir séu gerðar milli 2. og 3. umr, um það mál, að þá mundi ég e.t.v. sjá ástæðu til að bæta við sérstökum kafla, alveg fyrir utan máske aðra kafla í þessum lögum, og það sé um heildarskipulagningu miðbæjarins í Reykjavík alveg sérstaklega. Ég hef áður mælt fyrir því í þessari hv. d., hvaða ástæður liggja til þess, og ég álít satt að segja, að það öngþveiti, sem þau mál eru í, hefði átt að gefa hv. heilbr.- og félmn. ástæðu til þess að taka þessi mál heldur róttækari tökum en hún hefur tekið. Ég mun hins vegar ekki að svo stöddu gera þetta frekar að umtalsefni, en mundi þá áskilja mér heldur undir 3. umr. að gera brtt við þetta frv.