08.05.1964
Neðri deild: 94. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

33. mál, skipulagslög

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. félmrh. gerði grein fyrir við 3. umr. þessa máls hér í d., fjallar þetta frv. fyrst og fremst um hina teknísku hlið skipulagsmálanna, en ekki hina fjárhagslegu, þ.e.a.s. settar eru reglur um það, hvernig ákveða skuli skipulag bæja og kauptúna, en hins vegar ekki um það, hvernig afla skuli fjár til þessara framkvæmda. Í frumvörpum, sem áður hafa legið hér fyrir Alþ., m.a. 1948 og 1958, má ég segja, var gert ráð fyrir að leysa bæði þessi atriði í senn, bæði það, hvernig ætti að framkvæma skipulag bæja og kauptúna teknískt, og eins hvernig ætti að tryggja fjármagn til þessara framkvæmda, og ég hygg, að þá hafi m, a. verið gert ráð fyrir, að lagður yrði sérstakur verðhækkunarskattur á lóðir í því sambandi. Eins og hæstv. félmrh. skýrði frá við 3. umr., hefur sá háttur nú verið hafður á að aðskilja þetta tvennt og afgreiða að þessu sinni eingöngu tæknilegu hlið málsins, en láta þá fjárhagslegu hlið bíða, þ.e. hvernig fjár skuli aflað til þessara framkvæmda.

Mér skildist það hins vegar á hæstv. félmrh. við 3. umr. málsins hér í d., að hann teldi það nauðsynlegt, að unnið yrði að því að tryggja einnig hina fjárhagslegu lausn þessara mála með sérstökum aðgerðum, og sagðist hafa sínar ákveðnu skoðanir um það, hvernig það ætti að gera.

Ég vil því í framhaldi af því bera fram þá fsp. til hæstv. félmrh., hvort hann hafi ekki í undirbúningi í framhaldi af þessu máli, sem leysir hina teknísku hlið þess, að láta semja eða undirbúa annað frv., sem mundi fjalla um það, hvernig leysa ætti þessi mál fjárhagslega, þ.e.a.s. að gera sveitar- og bæjarfélögum kleift að framkvæma þær ákvarðanir, sem búið var að taka í skipulagsmálum, en til þess að svo megi verða, sýnist mér, að það sé nauðsynlegt í mörgum tilfellum, að bæjar- og sveitarfélögum verði séð fyrir sérstökum tekjustofni eða stofnum í því sambandi.

Ég held, að það sé líka rétt munað hjá mér, að á undanförnum árum, sérstaklega hér áður fyrr, var það einmitt mikið áhugamál Alþfl., að slíku máli yrði fram komið, þ.e.a.s. að bæjarog sveitarfélögum væri séð fyrir fjármagni til þess að framkvæma þær skipulagsákvarðanir, sem búið væri að taka.

Ég vil sem sagt beina þeirri fsp. til hæstv. félmrh:, hvort það sé ekki meining hans í framhaldi af þessu máli að láta undirbúa aðra löggjöf, þar sem bæjar- og sveitarfélögum væri séð fyrir tekjustofnum til þess að gera þær ákvarðanir framkvæmanlegar, sem búið er að taka í skipulagsmálum þeirra.