08.05.1964
Neðri deild: 94. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

33. mál, skipulagslög

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. 5. þm. Reykv. (ÞÞ) sagði, hefur í fyrri frv. um þetta sama efni verið tekið hvort tveggja til úrlausnar, bæði hin tekníska hlið málsins og hin fjárhagslega, en með þeim árangri, að hvorug hefur verið leyst, þ.e.a.s. það hefur ekki náðst samkomulag um þá skattlagningu, sem frv. hafa gert ráð fyrir, og það hefur þess vegna orðið til þess, að frumvörpin hefur æ ofan í æ á mörgum undanförnum þingum dagað uppi. Hins vegar er það meiningin með þessu frv. að reyna að losa þessi tvö atriði úr tengslum og fá teknísku hliðina afgreidda, eins og nú er lagt til í þessu frv., og átti þá því máli að vera að kalla fullnægt í bili. Þetta er fyrst og fremst gert til þess að freista þess, hvort ekki væri hægt að koma fram öðru aðalatriðinu í fyrri frumvörpum, en láta hitt bíða.

Ef þetta verður svo, að þetta frv. verður að 1., sem ég vildi vona, þar sem þetta gæti verið síðasta umr. um málið, þá er hitt verkefnið eftir óleyst, eins og hv. þm. sagði, og ég get gjarnan lýst því yfir fyrir mína parta, að ég mun þá freista þess að fá hinn hlutann leystan líka. En þó er þess að geta, að fjáröflun í þessu skyni, eins og önnur fjáröflun, er kannske fullt eins mikið skattateknískt mál eins og skipulagsmál. En eigi að siður er það þó skattlagning í sérstöku augnamiði, og ég geri þess vegna ráð fyrir, að það komi til kasta míns rn. að gera till. þar um, og mun verða að því unnið, eftir að þetta frv. hefur fengið samþykki