03.12.1963
Neðri deild: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var lagt fram, var þess getið, að ef um hækkanir yrði að ræða á almennum launakjörum, mundi verða tekið tillit til þess og frv. flutt til breytinga á þessu frv., sem væntanlega verður gert að lögum fyrir jólin. Það var líka ástæðan til þess, að svona dróst úr hömlu að flytja frv., að eftir því var beðið, hvort ekki mundi fást niðurstaða af þeim samningaumleitunum, sem nú eiga sér stað, þannig að hægt væri að taka niðurstöðu þeirra með í frv. En þegar sýnt var, að það mundi ekki takast, var frv. flutt á þeim grundvelli, að 15% yrðu látin gilda fyrir þetta ár og þangað til önnur breyting yrði. Hér er aftur á móti því slegið föstu, að ef hækkun verði á kaupi verkamanna vegna samninga þeirra, sem nú standa yfir, skuli uppbætur, sem greiddar eru samkv. lögum þessum, hækka hlutfallslega eins mikið. Nú veit enginn náttúrlega, hver niðurstaða þessara samninga verður, og má vel búast við því, að það verði einhver mismunandi hundraðstala — e.t.v., sem samningarnir hækka um. Ég held þess vegna, að það verði óumflýjanlegt að flytja alveg konkret till., þegar niðurstaða þessara samningaumleitana liggur fyrir, en ekki að ákveða útgjöld í þessu skyni með það óákveðnu orðalagi, eins og í till. er gert, — það verði að hafa hinn háttinn á, sem skýrt var frá, þegar frv. var lagt fram, að það verði þá að leggja fyrir nýtt frv. á Alþingi, þegar niðurstaða þessara samningaumleitana liggur fyrir. Ég tel þess vegna ekki fært að samþykkja þessa till. eins og hún er, vegna þess að það getur orkað tvímælis, hvernig beri að skilja hana, og þess vegna einlægara að hafa alveg með ákveðnum tölum, hvernig það skuli vera.

Ég leyfi mér því að leggja til, að till. verði felld.