17.04.1964
Efri deild: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. taldi, að nokkur dráttur hefði orðið á framlagningu þessa frv., og sagði, að sumir mundu telja, að það stæði í nokkru sambandi við dóm kjaradóms. Það stendur ekki í neinu sambandi við kjaradóminn eða úrlausn hans. Ég lýsti því yfir í fjárlagaræðunni í október, að fyrir þetta þing yrði lagt frv. um lækkun á tekjuskattinum eða hækkun á persónufrádrættinum. Það þótti rétt að taka inn í það frv. einnig fleiri ákvæði, svo sem um ráðstafanir til að auka eftirlit með framtölum og rannsóknardeildina, sem hér er fjallað um, og enn fremur þótti rétt að bíða með tekjuskattsfrv., þangað til útsvarsfrv. væri tilbúið líka; og láta þau verða samferða. Þetta eru ástæðurnar fyrir því, að frv. hefur ekki verið lagt fram fyrr.

Hv. þm. báðir, sem hér hafa talað, hafa vitnað mjög til þeirra skattalaga, sem sett voru árið 1960, og er það að vissu leyti ánægjuefni fyrir ríkisstj. og stjórnarflokkana, að þeir skuli nú líta til skattalaganna frá 1960 sem fyrirmyndar, sem þeir bera þetta frv. alltaf saman við. Ef ég man rétt, var ekki ákafleg hrifning í þeim herbúðum yfir því frv. á sinum tíma, og ætla ég, að a.m.k. flestir stjórnarandstæðingar hafi greitt atkv. á móti því að lokum. En það er góð viðurkenning, að nú líta þeir á það sem fyrirmynd og miða allan sinn samanburð við það. Minnir þetta að vissu leyti á það, sem nú kemur mjög oft fram hjá flokksbræðrum hv. 5. þm. Reykn., að þegar vinnulöggjöfin var sett 1938, var hún kölluð þrælalög gegn verkalýðnum, en nú mega þeir sjálfir ekki heyra það nefnt, að breyta megi henni nokkuð, því að nú er hún orðið mannréttindaskrá verkamanna. En þróunin er margvísleg, og er suðvitað ágætt, þegar menn fá aukinn þroska og skilning með árunum og reynslunni.

En það eru aðeins örfá atriði, sem ég vildi minnast á, af því, sem fram kom í ræðum þessara tveggja hv. þm.

Þeim er ekkert um það, að gerður var samanburður á þessu frv. og því, hvernig tekjuskatturinn mundi verða, e€ enn væru í gildi skattalögin frá 1958, og höfðu það við orð, að þessi samanburður væri fráleitur og villandi. Þetta er á algerum misskilningi byggt, því að sá samanburður er algerlega sambærilegur. Það er búið að umreikna tekjuskattsstigann frá 1958. Eins og kunnugt er, voru þá í gildi allt frá 1954 ákvæði um það, að skattstigar og persónufrádráttur skyldi breytast til hækkunar eða lækkunar eftir breytingum á kaupgjaldsvísihölu, og þágildandi skattstiga er búið að umreikna eftir þeim breytingum, sem síðar hafa orðið á kaupgjaldi. Ég vil taka það fram, að hagstofan reiknar ekki nú út kaupgjaldsvísitölu eins og áður, en hins vegar hefur ríkisskattstjóri reiknað út eða gert áætlun um, hver hún mundi vera, og umreiknað skattstigann frá 1958 samkv. því, svo að þessir útreikningar varðandi frv., sem hér liggur fyrir, hvernig tekjuskatturinn á ýmsum tekjum yrði samkv. því og tekjuskattsl. frá tíð vinstri stjórnarinnar, þetta er algerlega sambærilegt.

En báðir hv. þm. hafa gert sér nokkurn mat úr því, að álögur ríkisins hafi aukizt og margfaldazt síðan 1958, hafi a.m.k. þrefaldazt. Hv. 5. þm. Reykn. talaði um, að álögurnar hefðu hækkað úr 796 millj. í 2540 eða rúmlega þrefaldazt, og hann lét orð falla í þá átt, að svona gífurleg, hækkun á álögum ríkisins væri ein af aðalástæðunum fyrir hinni geigvænlegu þróun verðlagsmálanna, eins og hann talaði um, ein af aðalástæðunum fyrir dýrtíðaraukningunni og hækkun framfærsluvísitölunnar. Ég vil aðeins minnast á þetta atriði, því að hér er um ákaflega mikinn misskilning að ræða.

Það er í fyrsta lagi eitt, sem ætti raunar varla að þurfa að minnast á í þingsölum, að það hefur aldrei verið talin hækkun á skattstigum eða álögum, að sama prósenta tolls eða skatts gefur ríkissjóði hærri tekjur, vegna þess að þjóðartekjurnar aukast eða innflutningurinn vex. Við skulum taka sem dæmi, að á einhverri vörutegund væri 30% tollur og það hefði verið flutt inn af þeirri vöru fyrir 100 millj. Síðan tvöfaldast sá innflutningur á næsta ári, verður 200 millj., en tollaprósentan sú sama. Fyrra árið hefur þessi innflutningur gefið 30 millj. í ríkissjóð, en síðara árið 60 millj. Það er ekki hægt með nokkrum rétti að halda því fram, að hér hafi álögur ríkisins verið hækkaðar. Álögurnar hafa ekki hækkað, tollprósentan er nákvæmlega sú sama, og það er alger hugtakabrenglun að tala um hækkanir á álögum ríkisins í því sambandi. Og ástæðurnar til þess, að tekjur ríkissjóðs hafa aukizt mjög mikið á þessum árum, eru auðvitað fyrst og fremst þær, að innflutningurinn til landsins og framleiðsla landsmanna eru miklu meiri nú en þá, að þjóðartekjurnar hafa aukizt, að tekjur einstaklinga og félaga eru miklu hærri og veltan miklu meiri en þá var. Af þessu leiðir, að jafnvel óbreyttir hundraðshlutar í tollalögum, í söluskattslögum, í tekjuskattslögum mundu skila miklu hærri fjárhæðum í ríkissjóð heldur en áður, án þess að réttmætt sé eða verjandi að tala um, að þetta séu gífurlegar hækkanir á álögum á landslýðinn, sem eigi sinn verulega þátt í hækkun verðlags og vísitölu. Slíkur málflutningur er ekki boðlegur.

Ég býst við, að hv. 5. þm. Reykn. muni skilja þetta kannske enn betur, ef maður tekur dæmi úr þeirri grein, sem hann starfar við. Við skulum segja t.d., að menningarsjóður gæfi út einhverja bók og seldi hana á tilteknu verði og seldi 1000 eintök fyrsta árið, sem er nú kannske nokkuð lítið upplag. En svo skulum við segja, að hann bætti við á næsta ári, þannig að það væri komið upp í 2000 eintök, en verðlagið væri það sama. Þetta gefur menningarsjóði auðvitað miklu meiri tekjur en áður, en eru þetta hækkaðar álögur á þann hluta fólksins eða landsins, sem kaupir þessar bækur? Það dytti auðvitað engum manni í hug. Og alveg á sama hátt er það, að þegar t.d. veltan eykst í þjóðfélaginu, þá skilar sama prósenta söluskattsins vitanlega miklu meiri tekjum í ríkssjóðinn, án þess að hægt sé að kalla það auknar álögur á fólkið. Ég vænti þess að þurfa ekki að standa í orðræðum frekar um eins augljósan hlut og þennan, og það er varla boðlegt í þingsölum að flytja slíkar röksemdir, ef röksemdir skyldi kalla.

En ef við lítum á meginstofna ríkisins, eru auðvitað aðflutningsgjöldin eða tollarnir, sem skila mestu. Hafa tollarnir verið hækkaðir frá 1958? Ég ætla ekki. Ég ætla, að bæði lækkunin 1961 í nóv. og tollskráin frá í fyrra hafi fremur leitt til hins, að tollar á flestum eða fjölmörgum vörutegundum hafi lækkað. Og það liggur t.d. fyrir, að miðað við innflutningsverðmæti á árinu 1962 skilar núverandi tollskrá rúmlega 200 millj. minna í ríkissjóð en sama innflutningsverðmæti mundi hafa skilað eftir fyrri tollum. Tollprósenturnar hafa ekki hækkað. Hins vegar hafa tolltekjur ríkissjóðs aukizt í krónutölu vegna mjög aukins innflutnings. Tekjuskattsstiginn hefur stórlækkað frá 1958, eins og sýnt hefur verið fram á. Og ef við tökum svo þriðja liðinn sem tekjustofn ríkisins, sem er söluskatturinn, og ef við tökum fyrst 3% söluskattinn, sem var upp tekinn 1960, þá er það að vísu rétt, að hann hækkaði verðlag þannig, að vísitalan sýndi 3.3 stig, sem sagt, 3% söluskatturinn hækkaði framfærsluvísitöluna um 3.3 stig. En við skulum líka muna það, að í staðinn var afnuminn 9% söluskattur, sem þá hafði verið í gildi í nokkur ár á iðnaðarvörum og þjónustu. Og sá 9% skattur, ef hann væri í gildi í dag, mundi þýða um 3.6 stig í vísitölunni. M.ö.o.: þessi 3% söluskattur, sem var upp tekinn, er ekki eins þungbær í heild né vegur eins þungt í vísitölunni og þessi 9% skattur, sem var afnuminn.

Ég held þannig, að ef réttum augum er litið á þetta mál, hvort sem það er vegna tollanna, söluskattsins eða tekjuskattsins, sé rangt og villandi að halda því fram, að álögur hafi aukizt og margfaldazt, þó að heildartekjur ríkissjóðs hafi aukizt af þeim ástæðum, að framleiðsla, innflutningur, þjóðartekjur og velta hafa aukizt mjög í landinu.