28.04.1964
Efri deild: 75. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það eru þrjár meginbreytingar, sem þetta frv., ef að lögum verður, mundi hafa í för með sér frá núgildandi lögum. Í fyrsta lagi sú hækkun persónufrádráttar, sem frv. gerir ráð fyrir. í öðru lagi sú breyting á skattstigum, sem gert er ráð fyrir samkv. 5. gr. frv., og svo í þriðja lagi ákvæði um aukið eftirlit með skattframtölum. Hvað síðasttalda atriðið snertir, þá virðist ekki vera neinn ágreiningur um það atriði út af fyrir sig, og sé ég því ekki ástæðu til þess að orðlengja um það. En rétt er þó að nefna það, að í áliti hv. minni hl. á þskj. 495 eru gagnrýnd ákvæðin í 9. og 10. gr. frv. um breytingu á kærufrestum, án þess þó að hv. minni hl. geri sérstakar brtt. um það, eða það hef ég ekki orðið var við. En í sambandi við þetta tel ég þó rétt að taka eftirfarandi fram til frekari skýringa:

Það, sem hér er um að ræða, er það, að kærufrestir bæði til skattstjóra og eins til ríkisskattanefndar eru samræmdir þeim ákvæðum, sem nú eru í gildi um þetta efni varðandi útsvörin. Þetta þýðir það, að kærufrestur til skattstjóra er ákveðinn alls staðar á landinu 14 dagar, en nú eru þetta 15 dagar í Reykjavík, en 30 dagar utan Reykjavíkur. Þetta þýðir nokkurn veginn óbreyttan kærufrest í Reykjavík, en hann er styttur utan Reykjavíkur. En í þessu sambandi má benda á það, að utan Reykjavíkur er hægt að senda kæruna til umboðsmanns skattstjóra í viðkomandi sveitarfélagi, svo að að því leyti virðist ekki ástæða til hvað það snertir að gera í þessu efni mun á Reykjavik og landsbyggðinni, enda er hér um sama kærufrest að ræða og nú er í gildi varðandi útsvörin. Hvað snertir hins vegar kærur til ríkisskattanefndar, þá eru núgildandi ákvæði um hann hálfur mánuður í Reykjavík, en mánuður utan Reykjavíkur. Nú er gert ráð fyrir því, að þetta verði 3 vikur á öllu landinu. Það er sami kærufrestur og nú er til ríkisskattanefndar varðandi útsvör, og hefur ekki orðið vart við, að það hafi vakið óánægju, svo að ekki verður séð, að ástæða sé til þess að hafa önnur ákvæði í þessu efni varðandi ríkisskattana en útsvörin, en skattayfirvöld telja, að hagræði væri í þeirri samræmingu, sem hér er um að ræða. Ég taldi rétt, að þetta kæmi fram til upplýsinga um þetta atriði.

En þá kem ég að þeim atriðum frv., sem ég vænti, að hér verði einkum umræður um, en það er hækkun persónufrádráttarins og þær breytingar á skattstigum, sem ráð er fyrir gert í 5. gr. frv.

Það meginsjónarmið, sem liggur að baki þeirri hækkun persónufrádráttar, sem frv. gerir ráð fyrir að framkvæmd verði, er sú staðreynd, sem hv. þdm. er kunn, að þegar verðbólga á sér stað eða peningatekjur og verðlag hækka, þá þyngir það sjálfkrafa tekjuskattsbyrðar borgaranna. Það mætti nefna einfalt dæmi því til skýringar, hvað hér er um að ræða. Samkv. núgildandi skattstigum hafa hjón með 3 börn á framfæri 100 þús. kr. skattfrjálsar. Ef við gerðum nú ráð fyrir því, að verðlag og kaupgjald hefði hvort tveggja tvöfaldazt á einhverju tímabili, þannig að þær tekjur, sem um er að ræða, hefðu hækkað úr 100 þús. kr. í 200 þús. kr. og verðlagið eða allar nauðsynjar fjölskyldunnar hefðu líka tvöfaldazt, þá gefur auga leið, að efnahagsleg afkoma þessarar fjölskyldu væri auðvitað sú sama eftir sem áður, en þar sem fjölskyldan greiddi engan skatt af 100 þús. kr., þá mundi hún, að því er mér reiknast til, að óbreyttum skattstigum koma til með að greiða 17500 kr. í tekjuskatt, eftir að tekjurnar hefðu hækkað upp í 200 þús. kr., eða u.þ.b. 9% af skattskyldum tekjum fjölskyldunnar. Þetta þýðir það, að fjölskylda með óbreytta efnahagsafkomu frá því; sem áður var, mundi nú greiða 9% af tekjum sínum í skatt, en ekkert áður, svo að sú raunverulega þynging skattbyrðarinnar, sem af þessu leiðir, er auðvitað augljós, og þetta frv. er borið fram einmitt til þess að draga úr þessu. Og um það virðist í rauninni ekki neinn ágreiningur, að þetta sé réttmætt.

Hitt verður auðvitað alltaf álitamál, hvað langt beri að ganga í því efni að breyta skattstigum þannig, að dragi úr þessari aukningu skattbyrðarinnar, sem verðbólgan ella hefur í för með sér, og hvað á við að miða í þeim efnum. Ef grundvallarsjónarmiðið væri það, að menn greiddu sama skatt hlutfallslega af sömu raunverulegum tekjum og áður, þá væri eðlilegt að miða í þessu efni við einhvers konar vísitölu, sbr. þær reglur, sem giltu um umreikning tekjuskatts á stríðsárunum síðustu og árunum eftir stríðið. Með þeim reglum var það nokkurn veginn tryggt, að menn greiddu sömu prósentu í skatt af sömu raunverulegum tekjum, hvernig sem verðlagið breyttist. En í þessu sambandi verður það auðvitað álitamál, hvaða vísitölu skuli miða við, og má í því sambandi, án þess að ég fari nú lengra út í það, benda á, að það yrði e.t.v. dálítið andkannalegt að miða við núgildandi vísitölu framfærslukostnaðar, vegna þess að beinu skattarnir sjálfir ganga inn í þá vísitölu. En það var ekki tilfellið með vísitölu framfærslukostnaðar á stríðsárunum og eftir stríðið, meðan þessi regla um umreikninginn var í gildi. En annar mælikvarði kemur og til greina í þessum efnum, og það mundi í rauninni vera í beztu samræmi við þau rök, sem á sínum tíma voru færð fyrir því að gera breytinguna á skattalögunum 1960, en meginrökin fyrir þeirri breytingu voru þau, að almennar launatekjur, eins og það var orðað, skyldu vera skattfrjálsar. Það væri í fullu samræmi við þennan rökstuðning við skattalagabreytinguna á sínum tíma að miða einmitt við þennan mælikvarða. En því skal á hinn bóginn ekki neitað, að almennar launatekjur eru svífandi hugtak, og það má lengi um það deila, hvað leggja skuli til grundvallar mati á þeim breytingum, sem á þeim hafa orðið.

Nú er það svo, að eftir því sem mér er bezt kunnugt, þá er ekki um það að ræða, að þær breytingar á persónufrádrætti og aðrar breytingar, sem þetta frv, gerir ráð fyrir, séu reiknaðar út á grundvelli neinnar einstakrar formúlu, heldur er það mat á öllum aðstæðum, sem liggur því að baki, að lögð er til sú breyting, sem frv. gerir ráð fyrir. En auðvitað hefur þó öðru fremur verið höfð hliðsjón annars vegar af þeim launabreytingum, sem orðið hafa, síðan núgildandi skattalög voru sett, og hins vegar þeim verðhækkunum, sem orðið hafa, án þess að nokkuð af því hafi einhliða og eingöngu verið lagt þessu til grundvallar. En ég hygg þó, að hvort þessara atriða sem við er miðað, þá megi fullyrða, að fólk með almennar launatekjur og þar fyrir neðan og þeir, sem verulega framfærslubyrði hafa, hafi fengið því sem næst að fullu, ef ekki alveg að fullu, bætta þá tekjuskattshækkun, sem að öðru óbreyttu hefði leitt af verðbólgunni. Ef miðað er við verðlagið, þá varð meðalvísitala framfærslukostnaðar á árinu 1963 um það bil 134 stig, en hún var, eins og kemur fram í nál. hv. minni hl., 104 stig, þegar breytingin var gerð á persónufrádrættinum og skattstigunum 1960. Hækkun persónufrádráttarins er þannig mjög álíka og sú hækkun, sem orðið hefur á vísitölu framfærslukostnaðar fram til ársins 1963. En þar sem menn greiða í ár tekjuskatta af tekjum s.l. árs, eins og kunnugt er, þá virðist eðlilegt að miða við þessa meðalvísitölu, ef það væru verðlagsbreytingarnar, sem leggja bæri til grundvallar þeirri breytingu, sem gerð er. Eigi hins vegar að miða við almennar launatekjur, þannig að þær verði áfram skattfrjálsar, þá verður auðvitað samkv. því, sem ég áðan sagði, vandi að meta það, hversu þær hafi breytzt á þessum tíma. En til þess að gera hér nokkra grein fyrir þessu má benda á það, að stærð meðalfjölskyldu hér á landi er nú talin hjón með 2–3 börn á framfæri. Þessi meðalfjölskylda hefur samkv. núgildandi skattalögum 90—100 þús. kr. skattfrjálsar, en mundi, ef frv. verður að lögum, hafa 117—130 þús. kr. skattfrjálsar. Eins og fram kemur í nál. hv. minni hl., voru meðalatvinnutekjur kvæntra verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna á árinu 1962 103600 kr., og hv. minni hl. telur rétt að áætla, að á s.l. ári hafi þessar tekjur numið 115 þús. kr., en þó er tekið fram, að það sé varlega áætlað. En jafnvel þó að sú áætlun væri eitthvað hækkuð, þá má fullyrða, að meðaltekjur meðalfjölskyldu verði eftir breytinguna skattfrjálsar, og sé fjölskyldubyrðin meiri, eða fleiri börn á framfæri en 3, þá verður auðvitað hið skattfrjálsa hámark þeim mun hærra. Það er líka víst um það, að hefði því verið haldið fram, þegar launadeilurnar stóðu á s.l. hausti, í málgögnum ríkisstj., að almennar launatekjur væru þá 117—120 þús. kr., þá er ekki vafi á því, að stjórnarandstaðan hefði talið það fjarstæðu, að þær væru svo háar. Þó að ég þannig játi það, að hugtakið almennar launatekjur er vissulega svífandi, þá hniga öll rök að því, svo nærri því sem komizt verður, að með þeirri breytingu, sem gerð hefur verið á persónufrádrættinum, þá megi halda því fram með sama rétti og áður, að almennar launatekjur séu skattfrjálsar.

En þá kem ég að því atriðinu, sem einna mestur ágreiningur virðist vera um, en það eru ákvæði 5. gr. frv. um breytingu skattstiga. Nú skal ég síður en svo draga fjöður yfir það, að sú breyting á skattstiganum, sem þar er um að ræða, veldur því, að tekjur á því bili, sem breytingin nær til, fá minni skattalækkun en verið hefði að óbreyttum skattstiga. Hitt er auðvitað alrangt, sem haldið er fram í nál. hv. minni hl., að þessi breyting þýði, eins og það er orðað, skattahækkun á miðlungstekjum eða fremur lágum skattskyldum tekjum, en ívilnun til hinna tekjuhærri. Það má í fyrsta lagi á það benda, að það er yfirleitt ekki um það að ræða, eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. fjmrh. fyrir þessu frv. við 1. umr., að tekjuskattar hækki yfirleitt á neinum. Það er ein undantekning frá því, að tekjuskattur komi til að lækka miðað við gildandi skattalög, en hún er sú, að einhleypingar með 140 þús. kr. tekjur eða hærri tekjur verða í óbreyttum skatti. A öllum öðrum koma tekjuskattarnir til að lækka. Þess vegna eru þær tölur, sem birtar eru hér á 2. síðu nál. hv. minni hl., að mínu áliti mjög villandi. Það er að vísu rétt, svo langt sem það nær, að skattur af skattskyldum tekjum kemur til að hækka á því bili, sem þarna er um að ræða. En hér er aðeins sagður hálfur sannleikur og að mínu áliti á mjög villandi hátt, vegna þess að sleppt er að taka tillit til þeirra breytinga, sem hækkun á persónufrádrættinum hefur í för með sér, sem veldur því, að skattskyldar tekjur samkv. núgildandi skattstigum og þeim skattstigum, sem verða, eftir að frv. verður samþykkt, eru sitt hvað, og þess vegna ekki hægt að bera það saman. Hækkun persónufrádráttarins verður auðvitað til þess að lyfta upp þeim tekjum, sem skattfrjálsar eru, svo að af því leiðir, að skattskyldar tekjur verða auðvitað aðrar eftir þá breytingu en fyrir var, svo að þannig er það auðvitað algerlega villandi og rangt að tala um skattahækkun samkv. frv. í venjulegri merkingu þess orðs.

Hitt er líka á miklum misskilningi byggt, þegar talað er um, að það sé verið að ívilna þeim tekjuhæstu með þessari breytingu á skattstiganum. Auðvitað koma þeir, sem hafa hærri tekjur en svarar því hámarki, sem hæsti skattur er nú greiddur af, til með að greiða sömu hækkun og aðrir af þeirri skattahækkun, sem veiður á þessu tekjubili, svo að hin örari stighækkun, sem í rauninni er í þessu fólgin, hlýtur auðvitað að bitna jafnþungt á hinum tekjuháu og þeim, sem eru í lægri tekjum, en ná þó þessu marki, svo að það er algerlega villandi og beinlínis rangt að mínu áliti, þegar verið er að tala um þá ívilnun til handa hinum tekjuhærri, sem þarna sé um að ræða.

Í framhaldi af því, sem ég hef sagt, vil ég leyfa mér að víkja að þeim tveim brtt., sem hv. minni hl. hefur flutt við frv. Fyrri brtt. er fólgin í því, að sett verði inn ákvæði um það, að sé vísitala framfærslukostnaðar hærri eða lægri en 161 í aprílmánuði það ár, sem skattur er á lagður, eigi frádráttarupphæðirnar eða persónufrádrátturinn að breytast í réttu hlutfalli við breytingu framfærsluvísitölunnar. Ég vil nú benda á það, að ég tel meira en vafasamt, að samþykkt þessarar brtt. mundi verða skattgreiðendunum í hag, þó að það sé, eins og fram kemur í nál. hv. minni hl., vafalaust það, sem fyrir vakir. Það mundi að vísu vera svo, ef því væri slegið föstu í eitt skipti fyrir öll, að engar frekari breytingar yrðu næstu áratugi gerðar á þeim skattstiga, sem ákveðinn verður, þá væri vitanlega í þessu öryggi. En með tilliti til þeirrar miklu verðhækkunar, sem einmitt hefur orðið það sem af er þessu ári og síðustu mánuði s.l. árs, gefur það auga leið, að ef fylgja á svipuðum skattasjónarmiðum og hefur verið fylgt, þá yrði strax á næsta ári að gera skattalagabreytingu. Ef búið er hins vegar að samþykkja það, að miðað sé við vísitölu 161, þá er því þar með slegið föstu, að bilið frá 1.34 vísitölustigum, sem meðalvísitala s.l. árs var, og upp í 161 eigi að standa óbætt. Það er búið að slá því þá í rauninni föstu, að verðhækkunina á þessu bili eigi skattgreiðendur að hafa óbætta og aðeins bæta þær hækkanir, sem verða umfram 161. Þó skal ég ekkert um það segja, hverjar breytingar kunna að verða gerðar á skattalögunum á næsta ári og út frá hvaða grundvallarsjónarmiðum. En ef miða á við verðlagsvísitöluna, tel ég, að það sé skattgreiðendum síður en svo í hag að fara að slá því föstu nú þegar, að þeir eigi að hafa óbætta verðhækkunina frá meðalvísitölu síðasta árs og þar til nú. Hins vegar, eins og ég áður hef minnzt á, ef miðað er við verðlagsvísitölu, þá er eðlilegt, þegar skattur er lagður á tekjur síðasta árs, að miða við vísitölu þess árs.

Hin brtt, hv. minni hl. er fólgin í því, að þær breytingar á skattstiganum, sem gert er ráð fyrir í 5. gr. frv., falli niður. í sambandi við þetta get ég ekki varizt því að minna á þá afstöðu, sem hv. Framsfl. tók til skattalagabreytingarinnar, þegar hún var ákveðin 1960. Sú afstaða, sem þar kom þá fram, er í nokkurri mótsögn við það, að þessi till. skuli vera flutt. Og er rétt að undirstrika það aftur, að sá rökstuðningur, sem færður er fyrir þessari breytingu, að það ætti að vera lágtekjufólki fyrst og fremst og miðlungstekjufólki í hag, að breytingin verði gerð, fær með engu móti staðizt, eins og ég þegar hef gert grein fyrir. En ef þessi brtt. yrði samþykkt, þá væri það annað, sem í henni fælist, nefnilega það, að leiðréttingin á skattstigum með tilliti til hækkandi verðlags, sem ég hef haldið fram að væri að fullu eða því sem næst, hvað snerti hinar lægri tekjur og þá, sem hafa haft mikla framfærslubyrði, mundi nú einnig ná til þeirra, sem hafa hærri tekjur eða litla framfærslubyrði. Fyrir þessu má færa skynsamleg rök út af fyrir sig, en þau eru allt önnur en þau, sem í nál. felast. Og í þessu sambandi má auðvitað, eins og ég nefndi, benda á, að það, sem hv. framsóknarmenn fyrst og fremst fundu því til foráttu, þegar skattalagabreytingin var ákveðin 1960, var, að skattalagabreytingin ívilnaði allt of mikið þeim, sem hefðu hærri tekjur. Og væru þeir í fullu samræmi við þá afstöðu, þá ætti það einmitt að vera til sérstakra bóta, að þessi breyting á skattstiganum er ákveðin. En nú virðast þessi mál horfa öðruvísi við frá þeirra sjónarmiði.

Við 1. umr. þessa máls var töluvert rætt um tekjuskattsmálin almennt, og ég skal ekki lengja teljandi mál mitt með því að fara út í þau atriði. Ég skal þó aðeins lýsa því sem minni skoðun, að ég tel beina tekjuskatta eðlilegan lið í tekjuöflun, bæði ríkis og sveitarog bæjarfélaga. Það má auðvitað um það deila, hvernig tekjuskattinum skuli skipt á milli þessara aðila, en það er önnur hlið málsins, sem ekki er ástæða til að ræða hér. Hófs ber þó auðvitað að gæta í skattaálagningunni, og að mínu áliti var það mjög mikið framfaraspor einmitt í þeim efnum, þegar breytingin var ákveðin á tekjuskattslögunum 1960, því að tekjuskattarnir voru fram til þess tíma svo háir, að þeir miklu ágallar, sem hljóta alltaf að verða á tekjusköttunum, þegar þeir fara fram úr vissu marki, voru þá orðnir hið mesta þjóðfélagsvandamál. En þessir ágallar á tekjusköttunum, þegar þeir fara fram úr hófi, eru einkum tvenns konar. Í fyrsta lagi, að hætta er á því, að séu tekjuskattar mjög háir, lami það hvöt manna til þess að afla sér tekna. Það gengu sögur um það, að þá væri yfirleitt svo komið, að aflasælir skipstjórar teldu sér ekki hag í því að stunda sjóinn lengur en hálft árið í mesta lagi, vegna þess að allt, sem þeir ynnu sér inn fram yfir það, gengi til ríkis og bæja sem skattar. Einmitt í okkar þjóðfélagi, þar sem skortur er á vinnuafli og sérstaklega er skortur á sérhæfðum starfskröftum, sem njóta tiltölulega hárra tekna, ber að hafa þetta atriði hugfast. Annað atriði, sem skiptir í þessu sambandi máli og er annar meginágalli hárra tekjuskatta, er það, að þótt ekki sé af öðru en tæknilegum ástæðum, er óframkvæmanlegt að hafa það eftirlit með skattaframtölum, sem nauðsynlegt er að hafa, til þess að slíkir skattar, ef þeir eru aðaltekjustofn hins opinbera, verði réttlátir. Að vísu felur þetta frv. í sér ýmis ákvæði, sem góðs má vænta af og hníga að því að bæta eftirlit með skattframtölum frá því, sem nú er. En þetta er þó ekki einhlítt, því að það aukna eftirlit, sem hér er um að ræða, verður fyrst og fremst virkt gagnvart þeim fyrirtækjum, sem eru bókhaldsskyld, annars vegar og svo gagnvart launatekjum hins vegar. En fjölmennar þjóðfélagsstéttir hafa þá aðstöðu, hvað sem liður því eftirliti, sem verið hefur og hér er gert ráð fyrir að auka, að ómögulegt er að hafa eftirlit með því, hvað þessir aðilar vinna sér inn, og á ég þar fyrst og fremst við smærri atvinnurekendur í ýmsum greinum, sem ekki eru bókhaldsskyldir, og svo þá aðila, sem veita ýmiss konar þjónustu. Það má í þessu sambandi nefna aðila eins og tannlækna, málflutningsmenn, handverksmenn, sem ekki eru bókhaldsskyldir, þá sem annast bifreiðaakstur og fjölmarga aðra. Nú er það fjarri mér að halda því fram, að þeir, sem í þessum stéttum eru, hafi meiri tilhneigingu en aðrir til þess að draga tekjur sinar undan skatti, en aðstaðan er sú, að þessum aðilum er það í sjálfsvald sett í rauninni, hvaða tekjur þeir telja fram, og því verður ekki breytt, þó að hert sé á eftirlitinu. Að vísu er það til í sumum löndum, að komið hefur verið á fót sérstöku skattanjósnakerfi, en að ýmsu leyti er sú hugsun þó óhugðnæm. Það hygg ég, að flestir séu mér sammála um, og erfiðara er að koma slíku við, jafnvel þó að rétt þætti af öðrum ástæðum, í landi, þar sem hver þekkir annan, eins og hér hjá okkur, heldur en í milljónalöndunum. Af þessum ástæðum tel ég, að hófs beri ávallt að gæta við skattaálagningu, og ég teldi réttmætt, að samanlagðir tekjuskattar til bæjar- og sveitarfélaga ættu yfirleitt ekki að nema meira en 50% af þeim tekjum, sem menn vinna sér inn. Því marki hefur suðvitað ekki verið náð, þó að þetta frv. verði samþykkt, en ég tel, að æskilegt sé, að að því verði keppt í framtíðinni. En auðvitað er í þessu frv. ekki um annað að ræða en þá bráðabirgðalagfæringu, sem fært hefur þótt að gera með tilliti til allra aðstæðna.

Nú má auðvitað segja, að þetta, sem ég nú síðast hef sagt, séu í rauninni rök fyrir því, að samþykkja beri brtt. hv. minni hl. um það að fella 5. gr. niður, þó að þessi rök séu ólík og jafnvel gagnstæð þeim, sem í nál. þeirra eru færð fram fyrir þessu. En um það vil ég aðeins segja þetta, að þó að ég telji frekari lagfæringa þörf á tekjuskattinum en þeirra, sem í þessu frv. felast, verður, þegar tekin er ákvörðun um það, hvort slíka lagfæringu skuli gera og hvenær, að taka tillit til hins almenna ástands í efnahagsmálum. Það, sem ég hef þó hér í huga, er ekki fyrst og fremst tillitið til afkomu ríkissjóðs, því að ég skal fúslega játa, að það sjónarmið, að þess beri alltaf að gæta, að ríkissjóður innheimti jafnmargar krónur í skatta og útgjöldunum nemur, er úrelt sem grundvallarsjónarmið, sem fylgja beri við samningu fjárl. eða þegar teknar eru ákvarðanir um þá fjármálastefnu, sem fylgja beri. Þetta var e.t.v. skiljanlegt á einveldistímanum, þegar meginmarkmiðið var talið að sjá einvöldunum, fjölskyldum þeirra og málaliði o.s.frv. fyrir nægilegum tekjum. Þá var eðlilegt, að litið væri á ríkið sem eins konar viðskiptafyrirtæki, en nú er það algerlega úrelt sjónarmið. Nei, en það er annað atriði, sem meira máli skiptir í þessu sambandi, og það er, að þó að vissulega megi færa rök fyrir því, að það sé óeðlilegt að láta verðbólguna hafa mjög raskandi áhrif á ákvörðun skattanna, þá eru það ekki allir, sem eru sammála um það, að rétt sé á hverjum tíma að breyta skattstigum með tilliti til þess, að verðlagshækkanir hafi ekki áhrif á skattbyrðarnar. Og ég býst við því, með tilliti til þeirrar þróunar, sem verðlagsmálin hafa tekið hjá okkur einmitt nú síðustu missirin, ef hingað væru kvaddir sérfræðingar frá Efnahagsstofnun Evrópu t.d. og þeir látnir gefa ráð um þá stefnu, sem rekin væri í skattamálum, að eitt af því, sem þeir mundu leggja megináherzlu á, væri að breyta í engu skattstigunum, því að á það hefur verið bent og auðvitað með réttu, svo langt sem það nær, að tekjuskatturinn sé eins konar sjálfvirk hamla á verðþenslu, vegna þess að þegar verðþensla á sér stað, hækki tekjuskatturinn sjálfkrafa, dragi þannig inn peninga og haldi verðbólgunni í skefjum. Enskumælandi þjóðir tala einmitt um tekjuskattinn sem „built-in-stabilizer“, eins og það er kallað í hagkerfinu, en skilyrðið fyrir því, að tekjuskatturinn geti gegnt þessu hlutverki, er auðvitað það, að tekjuskattarnir séu látnir vera óbreyttir, hvaða breytingar sem verða á verðlaginu.

Ég býst nú við, að hvað sem öðru líður, séum við hér þó sammála um, að lagfæra beri skattstigana með tilliti til verðlagsþróunarinnar, þó að ágreiningur sé um það, hve langt beri að ganga í þessu efni. En tillit verður þó að taka til hinnar almennu verðlagsþróunar í þessum efnum, og einmitt með tilliti til þessa er það skoðun mín, að sú leið, sem valin hefur verið í þessum efnum í þessu frv., sé með tilliti til allra aðstæðna sá meðalvegur, sem farsælast sé að rata að þessu sinni.

Meiri hl. n. mælir með því, eins og nál. á þskj. 505 ber með sér, að þetta frv. verði samþ. með einni breytingu, sem flutt er af fjhn. sameiginlega á þskj. 507. Þessi breyting er við 1. gr. frv., og mun það ákvæði, sem þar er lagt til, að niður verði fellt, vera komið inn fyrir vangá eina, en að öðru leyti treystir meiri hl. sér ekki til þess að mæla með fram komnum brtt.