30.04.1964
Efri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls fluttum við í minni hl. fjhn. tvær brtt., sem báðar voru felldar. Önnur þeirra fjallaði um að fella niður 5. gr. frv., sem þýddi það, að ekki yrði með frv. þessu breytt þeim skattstiga, sem gilt hefur undanfarin ár. Hv. 9. landsk. þm. mótmælti þessari till., og hún var felld. Hv. 9. landsk. þm. fann mjög að því, að með þessu væri Framsfl. eða fulltrúar hans að leggja til, að haldið yrði í skattstiga, sem flokkurinn hefði verið á móti, þegar hann var settur, og hefði ekki upp á neitt betra að bjóða. Þetta er nú að vísu ekki rétt hjá hv. 9. landsk. Hann er miklu greindari maður en svo, að hann geri sér það ekki ljóst, að við förum þessa leið vegna þess, að við gerum okkur ljóst, að lengi getur vont versnað, og þó að okkur hafi ekki þótt sá skattstigi góður, sem settur var fyrir nokkrum árum, þá þykir okkur hann skárri en sá, sem nú á að setja, og þess vegna flytjum við till. okkar í þessu formi. En þar sem jafnvel þessi till., sem gengur svona skammt, var felld, þá tel ég það þrautreynt, að meiri hl. hv. d. vilji ekki gera breytingu á þessu atriði, og mun því ekki gera neinar frekarí tilraunir til þess að fá breytingar á því.

Öðru máli gegnir um þau andmæli, sem komu gegn hinni brtt. okkar. Þau voru þess eðlis, að ég tel ekki fullreynt, að hv. d. vilji ekki fallast á að vísitölubinda persónufrádráttinn, en um það atriði fjallaði sú till. Gagnrýnin, sem fram kom á hana við 2. umr., var í fyrsta lagi sú, að eðlilegra og réttara og væntanlega skattþegnum hagkvæmara væri að miða við breytingarnar frá tekjuöflunarári til tekjuöflunarárs, þ.e.a.s. frá árinu 1963 til tekjuöflunarárs, heldur en að miða við breytingarnar frá lagasetningu til skattálagningarárs. Enn fremur kom fram sú gagnrýni, að óeðlilegt væri að miða við breytingar á vísitölu framfærslukostnaðar sökum þess, að í henni væri falið tillit til skattsins sjálfs, og má vera, að það sé atriði, sem vert er að taka tillit til.

Ég vil þess vegna leyfa mér að leggja fram brtt., sem tekur fullt tillit til þeirrar gagnrýni, sem fram kom á fyrri lið brtt. okkar á þskj. 496, er felldur var við 2. umr, málsins, og vil leyfa mér að leggja þessa till. fram óprentaða og fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann leiti fyrir henni afbrigða.

Mig langar svo að endingu, fyrst ég kvaddi mér hljóðs í þessu máli við 3. umr. þess, að minna á það sjónarmið, sem fram kom í ræðu hv. 9. landsk. við 2. umr. þessa máls, þar sem hann réttlætti það, að persónufrádrátturinn breyttist ekki nema a.m.k. mjög takmarkað með verðlaginu og eins að skattstiginn væri nokkuð brattur í upphafi, með því, að það væri nauðsynlegt til þess að stemma stigu við dýrtíðarþróuninni að hafa það, sem hann nefndi refsivönd yfir stéttunum. Það fer þess vegna varla á milli mála, hverjum 9. landsk. þm. telur helzt verðlagsþróun undanfarinna ára vera að kenna. Og ég vil láta það koma skýrt fram, að ég fyrir mitt leyti teldi ástæðu til þess, að refsivöndur væri fremur yfir öðrum hafður, og ég er ekki reiðubúinn til þess að sýkna ríkisvaldið af ábyrgð á þeirri þróun og leggja hana á herðar stétta, sem hafi síðan yfir sér refsivönd hv. stjórnarflokka.

Ég vil leyfa mér að mæla með samþykkt þeirrar brtt., sem ég hef lagt fram, og að öðru leyti samþykkt frv.