04.05.1964
Neðri deild: 89. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt felur í sér tvær meginbreytingar. Önnur er sú að lækka tekjuskattinn á öllum þorra manna og í öðru lagi að gera ráðstafanir til þess, að framtöl manna verði betri og dregið verði úr undandrætti undan skatti. Auk þessara tveggja meginbreytinga eru nokkrar aðrar breytingar, sem ég vil gera grein fyrir og vísa að öðru leyti til grg. frv.

Í 1. gr. frv. er fjallað um skattskyldu barna, og eru þar gerð skýrari ákvæði en nú eru í gildandi lögum um það, hvenær börn geti verið sjálfstæðir skattþegnar og hvenær skuli telja tekjur þeirra með tekjum foreldra. Þá er einnig ákveðið, að það fyrirmæli, sem nú er í gildandi lögum varðandi skuldarupphæðir, til þess að menn geti notið skattfrelsis sparifjár, skuli ekki gilda varðandi eignir barna, eins og hér er nánar greint.

Í 2. gr. frv. er nýmæli. Samkv. henni er fjmrh, heimilað að ákveða fyrir eitt ár í senn, að vinningar í tilteknum happdrættum teljist ekki til skattskyldra tekna, enda sé öllum ágóðanum af happdrættunum varið til menningarmála, mannúðarmála eða kirkjulegrar starfsemi. Undanfarin ár hafa á hverju þingi verið samþykkt lög um undanþágu skattgreiðslu fyrir ýmis happdrætti, og er á bls. 8 í frv. skýrsla um þessi lög og þessi félög, sem veitt hafa verið slík hlunnindi. Fyrir þessu þingi hafa legið beiðnir um nokkrar slíkar undanþágur, sem jafnan hafa verið látnar gilda eitt ár í senn, og þykir hentara að setja inn í tekjuskattslögin almenna heimild til slíkrar undanþágu heldur en vera á hverju þingi með meira og minna af frv. sérstaklega um slíka skattundanþágu.

Í 3. gr. er lagt til að hækka frádrátt vegna heimilisstofnunar úr 20 upp í 26 þús. kr.

Í 4. gr. frv. er annað meginatriði frv., en það er hækkunin á upphæð hinna skattfrjálsu tekna eða hækkun persónufrádráttar, hvort orðalagið sem maður vill nota. Árið 1960 varð gerbreyting á tekjuskattslögum og þá ákveðið, að hver einstaklingur skyldi hafa skattfrjálsar 50 þús. kr. af tekjum sínum, hjón 70 þús. og síðan 10 þús. kr. fyrir hvert barn, sem er á framfæri skattþegns. Með þessu frv. er lagt til að hækka frádráttinn úr 50 upp í 65 þús., úr 70 upp í 91 þús. og úr 10 upp í 13 þús.

Í 5. gr. frv. er lagt til að gera breytingar á tekjuskattsstiganum. Nú eru gjaldþrepin sex: 5, 10, 15, 20, 25 og 30%, og er hér lagt til að fækka þeim í þrjú, þ.e.a.s. þau verði 10%, 20% og 30%. Enn frekari breyting er lögð til í frv, um tekjustofna sveitarfélaga, sem einnig liggur nú fyrir þessari hv. d. Þar er gert ráð fyrir, að núgildandi gjaldþrepum við útsvarsálagningu sé fækkað úr 8 niður í 2.

Í 6. gr. frv. eru nokkuð rýmkaðar heimildir til handa ríkisskattstjóra og skattstjórum til að sannreyna, hvort framtöl séu rétt. M.a. eru þýðingarmikil ákvæði um ríkari skyldur en nú er fyrir þá aðila, sem eru ekki framtalsskyldir sjálfir. Það eru allríkar og rúmar heimildir nú í l. til þess að krefjast margvíslegra upplýsinga af þeim aðilum, sem eru framtalsskyldir, en hér á landi eru allmargir aðilar, bæði líknarfélög og fleiri aðilar, sem hafa að lögum undanþágu frá skatti og framtalsskyldu fyrir sjálfa sig. En mörg þessi félög reka umfangsmikinn atvinnurekstur og hafa fjölda manna í sinni þjónustu, og er auðvitað nauðsynlegt til þess að geta sannreynt framtöl manna, að á þessum aðilum, þótt þeir greiði ekki skatt sjálfir, hvíli sams konar skylda til að gefa upplýsingar um laun og hlunnindi, sem starfsfólk þeirra hefur, eins og um framtalsskyldan aðila væri að ræða. En í þessu efni hefur vantað nægilega skýr lagafyrirmæli og komið stundum að sök.

Í 7. gr. er sú breyting gerð á, að hafi skattstjóri grun um, að veruleg skattsvik hafi verið framin, skuli hann senda skýrslu um málið til ríkisskattstjóra, sem tekur nánari ákvarðanir um meðferð þess, í stað þess að í núgildandi lögum er gert ráð fyrir, að skattstjóri sjálfur hefji rannsókn þegar í stað. Þar sem ætlunin er einnig að setja á stofn sérstaka rannsóknardeild við embætti ríkisskattstjóra og hafa þar á að skipa þjálfuðum starfsmönnum, þykir heppilegra að sameina og samræma á einum stað slíkar rannsóknir, þ.e.a.s. hjá embætti ríkisskattstjóra, og af þeim ástæðum er þetta ákvæði sett í 7. gr. frv., sem ég gat um.

Í 8. gr. frv, er nokkur breyting gerð á þeim frestum, sem nú eru í lögum um það, hversu langt aftur í tímann megi reikna skatt manna að nýju. Nú er það svo, að sá, sem hefur skýrt frá tekjum sínum og eignum lægri en vera ber og veróur uppvís að slíku, skal greiða eftir á skattupphæð þá, sem undan var dregin, og má reikna skattinn aftur í tímann, en þó ekki lengur en 6 ár. Hins vegar er samsvarandi frestur 4 ár, að því er varðar þann skattþegn, sem ekki hefur talið fram. Með þessu frv. er gert ráð fyrir, að um báða aðila gildi sami frestur, 5 ár.

Í 9. og 10. gr. frv. er breyting gerð á kærufrestum. Nú er kærufrestur til skattstjóra eða umboðsmanns hans 30 dagar í öllum skattumdæmum nema 15 dagar í Reykjavík. Hins vegar er í l. um tekjustofna sveitarfélaga varðandi útsvör ákveðinn tveggja vikna kærufrestur alls staðar, og virðist eðlilegra að hafa hér samræmi í milli. Fyrir því er lagt til, að kærufrestur um land allt verði 14 dagar, bseði varðandi tekju- og eignarskatt og útsvörin, til samræmis við það, sem nú er í tekjustofnalögunum.

Í 10. gr. frv. er hins vegar ákvæði um málskot til ríkisskattanefndar, en sá frestur er nú 30 dagar í öllum skattumdæmum utan Reykjavíkur, en 15 dagar þar. Það er lagt til, að fresturinn verði sami alls staðar, eða 21 dagur varðandi áfrýjun til ríkisskattanefndar.

Þá er annað meginatriði frv. í 11. gr. Þar er svo ákveðið, að ríkisskattstjóri skuli af sjálfsdáðum rannsaka hvert atriði, sem honum þykir tilefni til, ekki aðeins varðandi tekjuskattslögin, þ.e.a.s. varðandi tekju- og eignarskatt, heldur einnig um framkvæmd annarra laga um skatta og gjöld, sem álögð eru af skattstjórum, t.d. um söluskatt og aðstöðugjald. Það virðist eðlilegast að geta sameinað slíkar rannsóknir, enda blandast þetta hvað inn í annað oft og tíðum, grunur um röng framtöl varðandi tekju- og eignarskatt og söluskatt og aðstöðugjöld og útsvör.

Þá er gert ráð fyrir í niðurlagi 11. gr., að við embætti ríkisskattstjóra skuli starfa rannsóknardeild, er hafi með höndum rannsóknir samkv. l. þessum, og er gert ráð fyrir, að ríkisskattstjóri hafi á að skipa þjálfuðum mönnum til rannsóknarstaría til þess að reyna eftir föngum að tryggja örugga og samræmda framkvæmd l. Um þetta atriði þarf raunar ekki mörgum orðum að fara. Það er kunnugt, að hér á landi hafa væntanlega lengst af verið meiri eða minni brögð að undandrætti undan skatti, en þó mjög misjafnlega mikil á ýmsum tímum. Það var talið, að t.d. áratugina tvo fyrir 1960 hefði verið um veruleg vanhöld í þessum efnum að ræða, undandrátt undan skatti. 1960 var tekjuskattslögunum gerbreytt og skatturinn stórlækkaður. Það var almennt álit kunnugra manna, bæði skattstjóra, starfsmanna á skattstofum og löggiltra endurskoðenda, að stórfelld breyting hefði orðið á framtölum manna við þessa skattalækkun, þannig að áberandi hefði það verið árin 1960 og 1961 og 1962, hversu framtöl væru miklu réttari og aðilar, bæði einstaklingar og fyrirtæki, gert sér miklu meira far um það en áður að telja rétt fram. Um þetta held ég, að þurfi ekki að deila, svo vel ber mönnum saman um það, sem gerst þekkja. Hins vegar hefur orðið breyting á í þessum efnum frá og með árinu 1963, um leið og fór að gæta að nýju hinnar miklu þenslu í viðskiptalífinu. En það er segin saga, bæði hér og annars staðar, að samfara verðbólgu og þenslu, samfara meiri eftirspurn eftir vinnuafli heldur en framboð leyfir, fylgir í kjölfarið aukin hætta á undandrætti undan skatti, aukin hætta á röngum framtölum og skattsvikum.

Ég mundi ætla, að til þess að vinna bug á þessari meinsemd í þjóðfélaginu þyrfti í rauninni þrennt að fara saman. Það þarf að hafa skattstigana með þeim hætti og skattalögin, að menn almennt telji þau sanngjörn, því að

það er reynslan alls staðar, að ef boginn er spenntur svo hátt, að allur þorri manna telur skattalögin ósanngjörn, þá er vonlaust að halda þau í heiðri. Það þarf í fyrsta lagi að hafa sanngjörn skattalög og skattstiga. Í öðru lagi þarf að hafa strangt og öruggt eftirlit með réttum framtölum og fylgja því fast fram með viðurlögum, ef menn verða uppvísir að skattsvikum. Og í þá átt stefnir m.a. ákvæði 11. gr. um stofnun sérstakrar rannsóknardeildar og önnur ákvæði frv., sem miða að því að veita ríkisskattstjóra og starfsmönnum hans auknar heimildir til að alla upplýsinga og til rannsókna. Þriðja atriðið, sem er einnig nauðsynlegt, til þess að von sé um stórbætt skattasiðferði í landinu, er jafnvægi í efnahagsmálum, og er í rauninni allt þetta þrennt, sem þarf að fara saman, sanngjörn skattalög, strangt skattaeftirlit og jafnvægi í efnahagsmálum, til þess að þessi mál séu í lagi.

Það eru nokkrar fleiri breytingar í þessu frv., sem ég skal ekki rekja hér, en vísa til grg., eins og ég tók fram í upphafi máls míns. Ég skal þó nefna það, að nú er svo ákveðið í skattalögum og hefur lengi verið, að úrskurðir um skattsektir skulu felldir af fjmrh. En í þessu frv. er lagt til, að það vald sé falið ríkisskattstjóra, sem þykir eðlilegra en að það sé í rn. Að sjálfsögðu helzt það ákvæði óbreytt, að sá aðili, sem ekki vill una við slíkan úrskurð, getur skotið máli sínu til dómstóla.

Í fjárlagafrv. fyrir 1964 er gert ráð fyrir, að tekju- og eignarskattur nemi samtals 255 millj. kr. Þegar frá frv. var gengið, var það að sjálfsögðu haft í huga, að lagfæring og leiðrétting yrði gerð á tekjuskattsl. nú á þessu þingi, og samkv. þessu frv., ef að lögum verður, má gera ráð fyrir, að tekju- og eignarskatturinn á þessu ári verði svipuð upphæð og fjárl. gera ráð fyrir. Ef hins vegar tekjuskattsl. væri ekki breytt og lagt í ár á tekjur ársins 1963 eftir gildandi reglum, má reikna með, að tekjuskatturinn mundi verða um það bil 80 millj. hærri.

Varðandi það atriði, hvernig tekjuskatturinn yrði samkv. gildandi i. og samkv. frv. á einstakar tekjur og við mismunandi fjölskyldustærð, er skýrsla á fskj. B á bls. 9—11 með frv., og skal ég ekki rekja það mál hér frekar.

Ég legg til, að þetta frv., sem gengið hefur gegnum Ed., verði samþ. til 2. umr. og vísað til hv, fjhn.