04.05.1964
Neðri deild: 89. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í gærmorgun kl. rúmlega 9 fengum við útvarpshlustendur að heyra lesið úr forustugreinum dagblaðanna í Reykjavík eins og venjulega. Meðal þess, sem þar var lesið, var ritstjórnargrein í Morgunblaðinu, sem ber yfirskriftina „Sannleikurinn um skattalækkanirnar“. í þessari grein Morgunblaðsins eru miklar blekkingar fram bornar, bæði í bókstöfum og tölustöfum. Þessum blekkingum var hellt yfir landslýðinn úr ritstjórnargrein Morgunblaðsins sunnudagsmorguninn 3. maí 1964, á bænadegi þjóðkirkjunnar.

Ég vil gera að umtalsefni í nokkrum orðum þessa Morgunblaðsgrein. Þar eru birt nokkur dæmi um skattgreiðslur fyrr og nú. T.d. er í fyrsta dæminu borinn saman skattur af 65 þús. kr. nettótekjum hjá einhleypum manni 1960 og nú. Við þessa útreikninga er það að athuga fyrst og fremst, að 65 þús. kr. eru langtum minna fé nú en sama upphæð 1960, og það út af fyrir sig gerir náttúrlega þennan samanburð hjá blaðinu ekki réttan.

Fyrir 1960 höfðu um alllangt skeið verið í skattal. ákvæði um svokallaðan umreikning á persónufrádrætti og tekjutölum skattstigans. Og ég ætla að rifja upp. hvernig þessi ákvæði voru, með leyfi hæstv. forseta. Í 6. gr. l. nr. 46 frá 1954, um tekjuskatt og eignarskatt, en í þeirri lagagrein er tekjuskattsstiginn ákveðinn, segir svo m.a.:

„Nú breytist kaupgjaldsvísitala til hækkunar eða lækkunar frá því, sem hún var að meðaltali árið 1953, og skal þá tekjutölum framangreinds skattstiga breytt í réttu hlutfalli við það.”

Og í 12. gr. sömu laga, þar sem voru ákvæði um svonefndan persónufrádrátt, segir enn fremur:

„Nú breytist kaupgjaldsvísitala til hækkunar eða lækkunar frá því, sem hún var að meðaltali árið 1953, og skal þá framangreindum frádráttarupphæðum breytt í réttu hlutfalli við vísitölubreytingarnar.“

Þannig var þetta framkvæmt fram til ársins 1960, en þegar núv. hæstv. stjórn tók að breyta skattalögum, þá felldi hún þetta ákvæði úr l. um hinn svonefnda umreikning, og það hefur orðið ákaflega afdrifaríkt fyrir alla skattgreiðendur í þessu landi, eins og ég mun nú sýna. Þessi umreikningur á tekjum og persónufrádrætti var miðaður við kaupgjaldsvísitölu, en nú er löngu hætt að reikna hana út. í Morgunblaðsgreininni eru birtir einhverjir útreikningar á því, sem þeir segja að vera mundi skattur á ákveðnum tekjum nú, ef skattalögin, sem sett voru 1954, væru enn í gildi. Hvernig er þessi útreikningur Morgunblaðsins gerður, úr því að grundvöllurinn, sem þar var byggt á, þessi kaupgjaldsvísitala, er fyrir mörgum árum úr sögunni? Það væri fróðlegt að vita, hvernig þessi reikningur er framkvæmdur. Kannske hæstv. fjmrh. geti gefið upplýsingar um það. En eins og ég sagði, hefur það orðið ákaflega afdrifaríkt fyrir skattþegnana, að þetta var fellt úr l. 1960. Þar með var þessi hemill á skattahækkunina afnuminn, því að umreikningurinn gerði það að verkum, að þó að tölurnar hækkuðu, tölur tekna, vegna aukinnar dýrtíðar, varð ekki raunveruleg hækkun á tekjuskattinum fyrir því. Umreikningurinn sá um það, að menn bjuggu við sömu skattgreiðslu og áður, þrátt fyrir það að tölurnar hækkuðu. Þessu var kippt burt, og síðan hafa menn orðið að búa við mjög hækkandi tekjuskatt af völdum aukinnar dýrtíðar.

Í hv. Ed., þegar þetta frv. var þar, kom fram tili. um að taka upp þennan umreikning aftur og miða við vísitölu vöru og þjónustu. Það má víst færa mörg rök fyrir því, að þetta væri sanngjörn aðferð. En ég hef nú gert hér aðra útreikninga, sem ég byggði á því, að miðað væri við framfærsluvísitöluna, sem nú er, en eins og ég sagði, kaupgjaldsvísitalan er fyrir löngu úr sögunni, og þess vegna hef ég byggt mína útreikninga á framfærsluvísitölunni og breytingum, sem orðið hafa á henni. Það er nú annað mál, sem ég fer ekki út í hér, að hún er nú náttúrlega mjög einkennilega upp byggð, t.d. hvað snertir húsnæðiskostnaðinn o.fl., en sleppum því í þetta sinn.

Ég ætla þá að víkja að þessum dæmum Morgunblaðsins. Fyrst er nefndur einstaklingur með 65 þús. kr. nettótekjur 1963, og það er reiknað út, hvað hann hefði greitt samkv. skattalögum 1954–1959. Nú er við þetta að athuga líka, að skattur af ákveðinni upphæð var alltaf að breytast á þessum árum með breytingum á kaupgjaldsvísitölunni. En Morgunblaðið finnur það réttilega út, að samkv. núgildandi lögum mundi þessi einstaklingur borga 1000 kr. í tekjuskatt. Hækkun, meðalvísitölu framfærslukostnaðar árið 1962 frá því, sem var 1959, — en ég tel rétt að miða við það, því að skattal. var fyrst breytt 1960 og skattur samkv. þeim var lagður á tekjur ársins 1959, — hækkun meðalvísitölu framfærslukostnaðar 1962 var 18.63% frá því, sem var 1959. Og hvað hefði nú þessi maður þurft að borga í tekjuskatt árið 1963, ef ákvæðið um umreikning hefði verið í gildi og þar miðað við framfærsluvísitöluna? Þá hefði hann borgað árið 1963 285 kr. í tekjuskatt, en hann borgaði 1000 kr. (Fjmrh.: Hvaða vísitölu miðar hv. þm. við? ) Ég miða við meðalvísitölu ársins 1962, vegna þess að árið 1963 var verið að leggja skatt á þær tekjur, sem þá urðu til. Ég miða við hana annars vegar og hins vegar við meðalvísitölu ársins 1959, en skatturinn samkv. nýju l. 1960 var fyrst lagður á tekjur þess árs: (Fjmrh.: Já, hvaða tölur eru það?) Hvaða tölur? Ég skal gefa hæstv. ráðh. það upp, hvaða tölur það eru. Meðalvísitala ársins 1959 var — við skulum nú sjá — 100 og eitthvert brot úr stigi, meðalvísitalan 1959, en meðalvísitalan 1962 var 119 1/4, stig, svo að hækkunin á meðalvísitölunni er 18.63% á þessu tímabili.

Ég ætla að taka dæmi Morgunblaðsins nr. 2. Það er af einstaklingi með 110 þús. kr. tekjur. Samkv. núgildandi lögum á hann að borga 7500 kr. í tekjuskatt, og þetta hefur hann orðið að borga árið 1963, ef hann hefur haft þessar tekjur árið áður. Ef ég umreikna þetta á sama hátt og í hinu dæminu miðað við 18.63% hækkun á vísitölunni frá 1959–1962, hefði þessi maður átt að borga árið 1963 5205 kr. í tekjuskatt, en var látinn borga 7500 kr.

Ég sleppi þriðja dæminu, því að í því er um það lágar tekjur að ræða, að sá maður hefur orðið skattfrjáls samkv. núgildandi lögum. En þá er það fjórða dæmið í Morgunblaðinu. Það er af hjónum með tvö börn og 130 þús. kr. nettótekjur. Samkv. núgildandi l. borga þessi hjón 4000 kr. í tekjuskatt. Þau hefðu átt að

borga, ef umreikningurinn hefði verið í gildi 1963, 1730 kr., en voru látin borga 4000. Það er þó nokkuð á annað hundrað prósent hækkun hjá þeim.

Og þá er það fimmta dæmi Morgunblaðsins og það síðasta. Hjón með 3 börn og 130 þús. kr. í nettótekjur greiða samkv. núgildandi skattalögum 2500 kr., en hefðu, ef umreikningurinn hefði verið í gildi, átt að borga árið 1963 570 kr. í tekjuskatt, voru látin borga 2500. Það er nokkuð yfir 300% hækkun á þeirra skatti, vegna þess að umreikningur var felldur niður um árið.

En nú langar mig að gera þessu til viðbótar dálitinn samanburð á tekjuskatti samkv. 1. frá 1960, ef persónufrádráttur og tekjutölur væru umreiknaðar með vísitölu, eins og ég hér er að tala um, og tekjuskatti samkv. væntanlegum lögum 1964, samkv. frv., sem hér liggur fyrir, ef það verður samþykkt. Ég tek hér dæmi, annað dæmi Morgunblaðsins, af einstaklingi með 110 þús. kr. nettótekjur, og þá kemur annað út, þegar maður fer að umreikna þetta, því að vísitalan 1963, meðalvísitala þess árs, var náttúrlega miklu hærri en vísitala ársins 1962. Meðalvísitala ársins 1963 var nefnilega 134.66 stig og hækkun meðalvísitölunnar 1963 frá 1959 er þannig 33.96%. Þessi einstaklingur í öðru dæmi Morgunblaðsins með 110 þús. kr. nettótekjur hefði því átt að borga í tekjuskatt að óbreyttum þeim l. nú á þessu ári 3815 kr., ef umreikningurinn hefði verið í gildi. Þá hefði hann verið eins settur með sína skattgreiðslu og hann var árið 1960. Þá hefði skatturinn raunverulega verið óbreyttur hjá honum, ef hann borgaði þetta að óbreyttum lögum nú í ár af tekjum ársins 1963, 3815 kr. En samkv. frv., sem hér liggur fyrir, er honum ætlað að borga 6000 kr. Þetta verður alls ekki leiðrétt nema taka inn á ný ákvæðin um umreikninginn á persónufrádrætti. Það liggur í augum uppi, það verður ekki gert með öðrum hætti.

Ég skal taka líka fjórða dæmið, sem Morgunblaðið er með. Það voru hjón með tvö börn og 130 þús. kr. nettótekjur. Þau ættu að greiða eftir núgildandi lögum, ef umreikningsákvæðið hefði verið í þeim, 475 kr. Það hefði verið sama skattgreiðsla frá þeim og hjón með sömu tekjur og jafnstóra fjölskyldu borguðu 1960, 475 kr., en þeim er ætlað að borga eftir frv. 1300 kr.

Ég get tekið hérna 3–4 dæmi, sem ég bjó til. Þau eru ekki tekin upp úr Morgunblaðinu, en sýna svipaða útkomu á þessu. Ég tek fyrst einhleypan mann með 75 þús. kr. nettótekjur árið 1963. Væri umreikningurinn í gildi, ætti hann að borga eftir núgildandi lögum 405 kr., en verður samkv. frv. að borga 1000 kr., ef ekki verður tekið inn í það ákvæði um umreikning. Annað dæmi er hjón með 100 þús. kr. nettótekjur 1963. Tekjuskattur þeirra ætti að vera að óbreyttum lögum 315 kr., en verður samkv. frv. 900 kr. Þriðja dæmið, hjón með eitt barn og 110 þús. kr. tekjur árið 1963. Tekjuskattur ætti að vera 145 kr., en verður samkv. frv. 600 kr. eða rúmlega fjórum sinnum hærri. Síðasta dæmið, sem ég nefni, eru hjón með þrjú börn og 140 þús. kr. nettótekjur árið 1963. Tekjuskatturinn ætti að vera 305 kr., til þess að hann væri raunverulega jafnþungur og skattur af þessum tekjum var árið 1960, en verður samkvæmt frv. 1000 kr. Það er meira en þrisvar sinnum hærra. Svona gengur þetta.

En hæstv. fjmrh. segist alltaf vera að lækka skattana og enn segist hann vera að lækka skatta með þessu frv. Hvernig getur staðið á þessu, að hæstv. fjmrh. segist alltaf vera að lækka skatta og þó eru þeir alltaf að hækka? Það, sem m.a. veldur þessu, er draugagangurinn. Dýrtíðardraugurinn, sem allir kannast við, hefur magnazt meira en nokkru sinni áður á tímabili núv. ríkisstj. Aldrei hefur hann færzt í aukana áður jafnmikið og á þessu tímabili, og hann gengur ljósum logum í stjórnarráðinu eins og alls staðar annars staðar í þjóðfélaginu. Þetta er magnaðri draugur en nokkur annar, sem sögur fara af hér á landi. Það er þessi draugur, sem er alltaf að hækka skattana á fólkinu, og hann er miklu stórvirkari við að hækka skattana heldur en hæstv. fjmrh. við að lækka þá, þar er mikill munur á. En þetta er að vissu leyti hentugt fyrir hæstv. ráðh., því að allar tekjuskattshækkanirnar, sem draugsi leggur á menn, fara beint í ríkiskassann til ráðstöfunar fyrir hæstv. ríkisstj.

Ég var hér að birta útreikninga, sem sýna, hvernig þetta stendur nú. En verði nú þetta frv. samþykkt, sem gera má ráð fyrir, og verði því ekki breytt þegar á næsta þingi, verður náttúrlega geysileg hækkun til viðbótar á tekjuskatti á næsta ári, vegna þess að vísitalan hefur tekið stór stökk upp á þessu ári, sem nú er að liða.

Hæstv. fjmrh. er það greindur maður, að hann hlýtur að vita þetta allt saman, sem ég hef verið hér að rifja upp. Hitt skal ég ekkert segja um, hvað þeir, sem skrifa um þessi mál í blöð stjórnarflokkanna, vita mikið um þetta eða hvort þeir hafa litið eða mikið vit á þessu, það skiptir ekki máli í þessu sambandi. En hæstv. ráðh., þó að hann hljóti að víta þetta, talar hann bara um lækkanir á sköttum, en þegir um hitt, hækkanirnar. Hann telur ekki hollt að upplýsa almenning um þann þátt. Þetta hefði hann samt átt að gera.

Það, sem hér þarf að gera, er í fyrsta lagi að taka inn í frv. ákvæði um umreikning á persónufrádrætti og tekjutölum skattstigans eftir vísitölubreytingum, eins og var í l. fyrir 1960. Með þessu er hægt að koma í veg fyrir það, að tekjuskatturinn sé alltaf að þyngjast á fólki með aukinni dýrtíð og hækkandi krónuveltu. Svo þarf einnig að nema út úr frv. hækkunina á tekjuskattsstiganum, því að það er þó nokkur hækkun á sjálfum tekjuskattsstiganum í frv. Mér sýnist reyndar vonlítið, að á þetta verði fallizt, þó að við framsóknarmenn berum fram till. um þetta, en þó er sjálfsagt að reyna það hér eins og í hv. Ed. Hæstv. fjmrh. vill sennilega geta haldið áfram að láta tekjuskattinn hækka sjálfkrafa með vaxandi dýrtíð, en tala við öll hugsanleg tækifæri hér eftir sem áður um skattalækkanir, sem hann sé að framkvæma.

Þegar hæstv. ríkisstj. lagði fram frv. sitt um efnahagsmál snemma árs 1960, gaf hún svofellda yfirlýsingu í aths. með frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Þá leggur ríkisstj. til, að tekjuskattur verði felldur niður á almennum launatekjum, og mun hún bráðlega flytja sérstakt frv. um það.“

Nokkru síðar á sama þingi bar stjórnin fram frv. um breytingar á l. um tekju- og eignarskatt, eins og ég áður hef minnzt á. Í aths. með því frv. segir, að breytingarnar miði að lögfestingu þeirrar yfirlýsingar ríkisstj. að afnema tekjuskatt á almennar launatekjur. Þetta frv. var samþykkt 8. apríl 1960. Þar var m, a. lögfestur sá tekjuskattsstigi, sem enn er í gildi. Síðan þetta gerðist, hefur hæstv. fjmrh. og stuðningsmenn hans oft sagt fallegu söguna um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum. Í ræðu á landsfundi sjálfstæðismanna 20. okt. 1961 lýsti fjmrh. því yfir, að tekjuskattur af almennum launatekjum hafi verið felldur niður. Í framsöguræðu um stjfrv. um tekjuskatt og eignarskatt, sem lagt var fyrir Alþingi snemma á árinu 1962, minnti hæstv. fjmrh. á það í báðum deildum þingsins, að þegar á þinginu 1960 hafi verið afnuminn tekjuskattur af almennum launatekjum.

En hvað eru almennar launatekjur? Þetta er nú dálítið óákveðið orðalag, og það getur vel verið, að hæstv, ráðh. hafi þótt hentugt að hafa það ekki ákveðnara en þetta. En nú langar mig mikið til þess að fara fram á það við hæstv. ráðh., að hann segi okkur hér sitt álit á því, hvað nú séu almennar launatekjur. Mig langar að spyrja t.d. um ríkisstarfsmenn. Mér er sagt, að einna fjölmennasti launaflokkurinn hjá þeim sé sá 15. Þar eru t.d. að sögn barnakennarar og ýmsir fleiri. Þeir menn hafa í byrjunarlaun rétt um 100 þús. kr. á ári, og hæst fara laun þeirra, eftir að þeir eru búnir að vera ákveðinn tíma í þjónustu hins opinbera, í 122 þús. u. þ. b. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Kallar hann þetta almennar launatekjur nú, eða er það mark einhvers staðar fyrir neðan þetta? Ég ætla að nefna flokk, sem er miklu lægri. Það er 7. flokkur í þessum kjarasamningi opinberra starfsmanna. Þar eru byrjunarlaun um 75 þús., aðeins rúmlega, en hæst fara þau í 90 þús. og nokkur hundruð á ári. Í þessum flokki eru t.d. bréfberar í póstinum og talsímakonur. Þessir menn hafa þetta frá 73 þús. upp í rösk 90. Hvað segir hæstv. fjmrh. um þetta? Eru þetta almennar launatekjur, eða er þetta kannske heldur fyrir neðan það, sem hann kallar almennar launatekjur? Mér þætti það ekkert ólíklegt, eins og nú er komið í okkar þjóðfélagi, að þetta væri heldur fyrir neðan. En sé þarna um einhleypt fólk að ræða, á það að borga tekjuskatt, og a.m.k. þeir, sem eru þarna í hæsta launaflokki, bera þó nokkurn tekjuskatt eftir frv., sem hér liggur fyrir. Eða getur það skeð, að hæstv. ráðh. telji almennar launatekjur vera eitthvað minna en þessi 7. flokkur ríkisstarfsmanna ber úr býtum? Á þessu væri afar gaman að fá skýringu hjá hæstv. ráðh.

Hér í þessari hv. d. hinn 4. nóv. s.l. var rætt um stjórnarfrv. um launamál, og þá sagði hæstv. viðskmrh. í þingræðu um það mál, að í fyrra, þ.e.a.s. 1962, skildist mér, því að þetta var á árinu 1963, hefðu árstekjur verkamanna verið 89 þús. kr. samkv. skattaframtölum, og hann bætti við: Samkvæmt töxtum, sem nú gilda í dag, hefur verkamaður í Reykjavík rúmlega 100 þús. kr. í árstekjur. — Og hæstv. viðskmrh, rifjaði það upp einnig í þessari ræðu, við hvaða tekjur hefði verið miðað, þegar bændum voru ákveðnar tekjur í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara á næstliðnu hausti, og hann segir, að það hafi verið 119 þús. kr. Það hefur víst veríð fundið út, að á undangengnu ári, eins og hæstv. viðskmrh. orðaði það, hafi þetta verið meðaltekjur þeirra stétta, sem tekjur bænda eiga að miðast við, þ.e.a.s. verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna, 119 þús., sagði hann. Hvað segja hæstv. ráðh. um það? Eru þetta almennar launatekjur, eða er það eitthvað meira eða minna? Þetta væri fróðlegt að fá upplýst.

Ég hef sýnt fram á það hér, að með því að nema úr l. ákvæðin um umreikning á persónufrádrætti og tekjum manna eftir breytingum á vísitölunni hefur stjórnin getað notað dýrtíðaraukninguna til þess að hækka tekjuskattinn sjálfkrafa og árlega um stórar fjárhæðir. Og þá að fjmrh. hæstv. hafi marglýst því yfir, að hann hafi afnumið tekjuskatt af almennum launatekjum árið 1960, eru almennar launatekjur enn í dag verulegur tekjuskattsstofn fyrir ríkið. Sannleikurinn er sá, að tekjuskattur á almennum launatekjum er aldrei felldur niður þrátt fyrir allar sögur og yfirlýsingar um það. Með skattalagabreytingunni 1960 var ákveðið að einhleypur maður með 50 þús. kr. nettótekjur skyldi vera tekjuskattsfrjáls, og þá var jafnframt ákveðið, að kvæntur maður með 70 þús. kr. nettótekjur skyldi vera tekjuskattsfrjáls. Líklega hefur hæstv. ráðh. litið svo á, að 70 þús. kr. nettótekjur hjá kvæntum manni væru almennar launatekjur. En ef þær voru það hjá þessum gifta manni, hlutu þær einnig að vera það hjá einhleyping, þessi sama upphæð. Ég hefði haldið, að það væri erfitt að skýra þetta hugtak, almennar launatekjur, þannig, að upphæðirnar voru mismunandi eftir því, hver tæki á móti laununum. Og þannig var skatturinn aldrei afnuminn af almenntun launatekjum hjá einhleypum manni. Skatturinn á almennar launatekjur hefur þar að auki farið síhækkandi síðan 1960, eins og ég benti á, vegna aukinnar dýrtíðar og vegna þess að umreikningurinn var felldur niður, og hann hækkar enn, tekjuskattur á almennum launatekjum, með frv., sem hér liggur fyrir. Þannig hefur þetta verið og þannig verður þetta, þó að hæstv. fjmrh. hafi verið kófsveittur alla sína ráðherratíð við að afnema skatta af almennum launatekjum og yfirleitt að lækka skattana. Og það eru allar líkur til þess, að þegar þessi hæstv. ráðh. yfirgefur ráðherrastólinn, verði enn í l. hér á landi ákvæði um tekjuskatt á almennar launatekjur.