04.05.1964
Neðri deild: 89. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl, v. hóf mál sitt á því að kvarta yfir þeim helgispjöllum, sem ríkisútvarpið hefði haft í frammi við rann í gær, þar sem það hefði hellt yfir hann lestri úr forustugrein Morgunblaðsins, meðan hv: þm. hefur vafalaust legið á bæn. Nú vil ég beina því til hæstv. forseta þessarar d., sem er um leið formaður útvarpsráðs, að hann hlutist til um, að hv. þm. verði ekki fyrir slíku ónæði á helgistundum eins og hann lýsir svo átakanlega.

Nú veit ég náttúrlega ekki, hvað hv. þm. hefur beðið drottin allsherjar um. En ef hann hefur beðið hann um að veita sér réttan skilning á þessu frv. um skattalögin, sem hér liggur fyrir, þá hefur hann ekki verið bænheyrður í því efni, því að niðurstaða hv. þm., þegar hann er að kryfja þetta frv. til mergjar, er sú sama og var skjalfest í nál. flokksbræðra hans í hv. Ed. fyrir skemmstu, að með þessu sé ríkisstj. að hækka beinu skattana, svo að til þess að hann komist nú til réttari skilnings, held ég, að hann verði að biðja betur og heitar.

Það, sem hv. þm. gerir að aðalefni sinnar ræðu hér, virðist vera það að reikna út, hvernig tekjuskatturinn mundi vera samkv. gildandi l., ef hin eldri regla um umreikning á skattinum samkv. kaupgjaldsvísitölu væri enn í gildi. Að vísu gat hann réttilega um, að þau lagaákvæði væru miðuð við kaupgjaldsvísitölu, sem ekki er nú reiknuð opinberlega, og tók hann þá bara aðra vísitölu og notaði hana í staðinn. En auk þess kemur það dálítið undarlega fyrir sjónir, að hv. þm. skuli slíta þannig eitt út úr þeim 1., en ekki reikna út, hver tekjuskatturinn hefði orðið á þessum og þessum tekjum, ef skattalögin, sem giltu 1958, þegar vinstri stjórnin lét af völdum, væru nú í gildi. Nei, hann tekur núgildandi skattstiga og núgildandi skattalög, að því er virðist, og bætir svo inn í þau þessu ákvæði, sem áður var í gildi um umreikninginn, eða ég gat ekki skilið hans útreikninga, sem raunar voru torskildir nokkuð. á annan veg.

Ástæðan til þess, að þessi umreikningsregla var ekki lögfest 1960 áfram, var vitanlega sú, að slík gerbylting var gerð á skattstigunum, eins og hann orðaði það hér sjálfur, að almennar launatekjur voru gerðar skattfrjálsar. Við þá gerbreytingu var ekki talin ástæða til þess að halda enn fremur áfram þessari umreikningsreglu, sem var nauðsynleg, meðan skattstigarnir voru jafnháir og þeir voru fyrir þann tíma. Þess vegna er þessi samanburður, sem hv. þm. gerir, gersamlega út í hött og hefur enga þýðingu.

Hv. þm. vitnaði í forustugrein í Morgunblaðinu í gær. Geri ég ráð fyrir, að þær tölur, sem þar eru, séu teknar úr grein, sem ég ritaði s.l. fimmtudag, 30. apríl, í dagblaðið Vísi um tekjuskattinn nú og áður, þar sem ég gerði samanburð á þessu þrennu: hver mundi tekjuskattur í ár, árið 1964, miðað við tilteknar tekjur á árinu 1963 eða þær, sem á að leggja á nú, vera eftir núgildandi 1., hver mundi hann vera samkv. frv. og hver mundi hann vera eftir þeim skattalögum, sem voru í gildi 1958?

Nú skal ég taka það fram, að þegar ég hef látið reikna út, hver skatturinn mundi verða í ár, ef í gildi væru l. frá 1958, er vitanlega búið að umreikna skattinn í þeim samanburði samkv. ákvæðinu, sem þá gilti, en það ákvæði var á þá leið, að skattstigar og persónufrádráttur skuli breytast til hækkunar eða lækkunar eftir breytingum kaupgjaldsvísitölu. Þar sem kaupgjaldsvísitala er nú ekki reiknuð út opinberlega, bað ég tvo aðila, sem ég held að sé treystandi til þess að gera áætlun um það, hvaða kaupgjaldsvísitölu ætti að nota nú í dag, þetta voru Hagstofa Íslands og skrifstofa ríkisskattstjóra, og þær komust að þeirri niðurstöðu, að kaupgjaldsvísitalan mundi verða í kringum 48%, sem ætti að umreikna skattinn með, og til hægðarauka var reiknað með 50% kaupgjaldsvísitölu, 50% hækkun persónufrádráttar við umreikning á skattstigunum, sem er þó eldri skattal. nokkuð í hag. Þess vegna er sá samanburður, sem ég birti í þessari grein minni á fimmtudaginn, algerlega réttur. Og dæmið lítur einfaldlega út þannig, ef við tökum það, sem mjög oft er notað nú í samanburði, þ.e. hjón með 3 börn eða 5 manna fjölskylda með t.d. 130 þús. kr. tekjur, þá mundi sú fjölskylda fá eftir núgildandi skattal. í tekjuskatt í ár 2500 kr., hefði fengið eftir skattal. vinstri stjórnarinnar 7877 kr., en eftir þessu frv. ekkert. Ef við tökum hjón með tvö börn og t.d. 120 þús. kr. tekjur, þá væri tekjuskatturinn í ár eftir skattal. vinstri stjórnarinnar, eftir að búið væri að umreikna petta eftir kaupgjaldsvísitölu, 7215 kr., yrði eftir gildandi skattalögum 2500, en eftir frv. færi niður í 300 kr. — Þannig mætti vissulega lengi rekja þessi dæmi, sem öll benda greinilega til þess, hvernig þróunin hefur verið, og það er sannast sagna nokkuð furðulegt, að einn af mikilsvirtum stuðningsmönnum vinstri stjórnarinnar, sem mér er ekki vitanlegt að hafi haft sérstakan áhuga á eða borið fram till. um að lækka skattstigana frá 1958 þá, skuli nú koma hér fram á Alþingi og leyfa sér að staðhæfa, að við séum nú í ríkisstj. að hækka beinu skattana.

Ef hv. þm. ætlar eftir sina löngu þingsetu og mikla kunnugleika á ýmsum málum að leyfa sér þá blekkingu, sem stundum ber þó við frá hans flokksbræðrum, að kalla það skattahækkun og tollahækkun, ef sömu stigar eða lægri gefa ríkissjóði í heild hærri krónutölu, þá náttúrlega má skilja þetta. En ég hélt sannast sagna, að þessi hv. þm. mundi ekki leyfa sér þann málflutning. Sá málflutningur leiðir m, a. til þess, ef við tökum dæmi frá tollabreytingum í nóv. 1961, þar sem tollar voru lækkaðir verulega, þannig að talið var, að á þeim vörutegundum, sem sú tollalækkun náði til, næmi lækkunin um 100 millj. á ári miðað við sama innflutning, niðurstaðan varð sú, eins og líka var til stofnað, að með þessum lækkunum á tollunum dró svo stórkostlega úr smyglinu og hinum ólöglega innflutningi, að ríkissjóður fékk meiri tekjur eftir en áður af þessum tilteknu vörutegundum. Það hefur borið við, að þessi tollalækkun frá 1961 hafi verið kölluð tollahækkun. Vitanlega er hægt að snúa sannleikanum svona kirfilega við, en ég endurtek, að ég ætla hv. 1. þm. Norðurl. v. ekki slíkan málflutning. Og þeim mun undarlegra verður það allt, hvernig hann getur reiknað dæmið þannig út, að þetta frv. feli í sér skattahækkanir. En það hefur verið samþykkt sýnilega á fundi í Framsfl., þá verður að fylgja því, alveg eins og á sínum tíma það var samþykkt, að ríkisskuldirnar hefðu lækkað, þegar þær höfðu hækkað.

Út af fyrir sig þarf ekki fleiri orðum að fara um þetta. En þar sem hv. framsóknarmenn virðast nú hafa tekið þá afstöðu, að þetta frv. feli í sér skattahækkanir, hækkanir beinna skatta, þá væri kannske rétt að beina því til hv. fjhn., sem fær málið til meðferðar, hvort hún vildi ekki ganga til móts við þessa hv. þm. með því að setja inn í þetta frv. ákvæði eitthvað á þá leið, að nú óskar gjaldþegn, að tekjuskattur hans skuli reiknaður samkv. þeim skattalögum, sem voru í gildi 1958, þá skuli verða við þeirri ósk hans. Þá gætu þeir menn, sem telja, að hér sé um skattahækkanir að ræða, og vilja halda því fram, að hin fyrri skattalög hafi verið léttbærari, fengið ósk sína uppfyllta.