04.05.1964
Neðri deild: 89. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er tvennt, sem hefur verið einkenni á skattapólitík núv. hæstv. ríkistj. Það er annars vegar hækkun hinna óbeinu skatta, hækkun tollanna, hækkun á því, sem leggst beint á almenning, og um leið var gerð sú ráðstöfun, að nú skyldi almenningur ekki lengur fá neina uppbót fyrir slíkt, vísitöluuppbót á kaup, heldur bera þetta bótalaust, nema hvað hann yrði með nýjum samningum og harðri baráttu í sambandi við kaupdeilur að knýja fram endurbót á þessu. Það er þessi hækkun óbeinu skattanna, sem hefur verið höfuðeinkennið á núv. hæstv. ríkisstj., hvað hennar skattapólitík snertir, og hennar langmesti galli, hvað skattapólitíkina snertir, söluskatturinn og annað slíkt. Það er vitanlegt, að frá upphafi vega hefur það verið eitt af því, sem verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur barist fyrir, frá því að hún fyrst skipulagði sig pólitískt, að berjast á móti tollum af nauðsynjavörum, móti söluskatti og öðru slíku, sem leggst þyngst á alþýðu manna.

Ég vildi aðeins minna á þetta vegna þess, sem hér hefur verið karpað um nokkuð undanfarið, að það er vert að muna eftir því, sem er aðalatriðið í sambandi við þessa pólitík, þó að það liggi ekki fyrir beint í sambandi við þetta frv., sem hér er til umr. Ég veit að vísu, að það er svo, að það er oft hægt sú véla nokkuð um fyrir mönnum með því að leggja tollana eða óbeinu skattana á nauðsynjavörurnar og jafnvel lækka á sama tíma að einhverju leyti beina skattstigann. Það eru margir, sem hugsa ekkí lengra en svo, að þegar þeir sjá skattaseðilinn sinn og sjá þar kannske lægri upphæð, ef þeir hafa lágar tekjur, þá finnst þeim þetta þó betra en áður, þótt þeir verði að greina allar vörur með miklu hærra verði en fyrr án nokkurrar uppbótar. Þetta er einkenni og hefur löngum verið á ríkisstj., sem eru afturhaldssamar í þessum efnum, og með þessu móti, sérstaklega með dugandi áróðri, er oft hægt að blekkja almenning. En þessi staðreynd stendur engu að síður, að það eru þyngri skattabyrðar, sem eru lagðar á almenning nú með óbeinum sköttum, heldur en verið hefur fyrr og lagt á hann bótalaust að öðru leyti en því, að hann verður að afla sér þeirra bóta sjálfur með harðri baráttu. Hann fær ekki lengur þá vísitöluuppbót sjálfkrafa á kaupgjald, sem var hans öryggi áður gegn því, að stjórnarvöld legðu á allt of þunga óbeina skatta. En þetta hins vegar heyrir ekki beint undir þetta mál, sem við erum hér að ræða.

Það hefur hins vegar verið einkenni á hæstv. ríkisstj., hvað snertir beinu skattana, að létta beinu sköttunum af þeim, sem hæstar hafa tekjurnar, og er raunverulega þeirri stefnu áfram haldið með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Þar er með breyt., sem gerð er í 5. gr., farið að gera þetta enn þá einfaldara en áður. Við munum það ósköp vel, að tekjuskattur á háum tekjum var mjög hár á Íslandi fyrr, var satt að segja svo hár, að hann var líklega með hlutfallslega hæsta tekjuskatti, sem þekktist hér í okkar nágrannalöndum. Við munum eftir því, að meðan útsvarslöggjöfin var tiltölulega alveg á valdi sveitarstjórnanna, gat það farið upp í 90%, sem einn maður yrði að borga þá. Það þýðir lítið að vísa á nettótölu nú, en ef ég man rétt, var það 200 þús. kr., ef menn komust upp í það, gat það jafnvei farið úr því upp í 90%, sem menn urðu að borga í útsvar og tekjuskatt. Það var vissulega óeðlilega hár, mjög hár tekjuskattur þá, og var þess vegna auðvelt að finna rök fyrir því, að þarna þyrfti nokkru að breyta.

En nú hefur bara verið farið út í hinar öfgarnar og er stílað upp á það, var gert áður að nokkru leyti í sambandi við hlutafélög, og er stílað nú upp á það sama viðvíkjandi tekjuskatti á einstaklinga. Þegar nýbúið er að breyta öllum launastiga í landinu, þannig að það eru orðnir áreiðanlega allmargir einstaklingar í landinu, sem hafa yfir 250 þús. kr. tekjur, þá er engin ástæða til þess lengur að stanza við slíkt, eins og raunverulega er nú gert. Það er engin ástaða til þess að hlífa þeim, sem hafa það gífurlega háar tekjur, að þær séu tvö og þrefaldar á við það, sem verkamaður getur unnið sér inn með 11 klst. vinnu allt árið út í gegn. Það er engin ástæða til þess að hlífa mönnum þannig, að menn hafi stóran hluta eftir af slíku.

Það er komið svo hér og heldur áfram núna með þessum tekjuskattslögum, að hátekjumönnum er hlíft meira hér á Íslandi en í nokkrum af okkar nágrannalöndum, t.d. á öllum Norðurlöndum annars staðar er tekjuskatturinn mun hærri en hjá okkur, þegar kemur upp í það háar tekjur. Ég álít, að þarna þurfi að breyta til. Það er alveg óhjákvæmilegt að láta skattinn verða meira stighækkandi, þegar kemur upp í hærri tekjurnar. Það er ekkert réttlæti í þessu. Erlendis mundi það meira að segja þykja sjálfsagt með eftirvinnuna, að hún væri að meira eða minna leyti skattfrjáls hjá verkamönnum, vegna þess að það er vitað, að með þeirri eftirvinnu, sem menn vinna núna, 3–4 klukkutíma eftirvinnu á dag, eru menn beinlínis að stytta sína ævi. Menn deyja fyrir aldur fram af þrældómi hér á Íslandi nú, þannig að það er ekki nema að öllu leyti réttmætt, að einhverjar slíkar ráðstafanir væru gerðar, á meðan á annað borð það ástand er ekki komið á, að menn vinni ekki meira en sína 8 tíma á dag, sem er það eðlilega, meðan dýrtíðin er svo mikil í landinu, að 8 tíma vinnudagur nægir engan veginn til þess að framfleyta mönnum.

Ég held þess vegna, fyrst hæstv. ráðh. var að bjóða upp á breytingar á þessum lögum, að það væri fyrst og fremst það, sem hv. fjhn. ætti að athuga, að létta enn skatti af þeim, sem eru í kringum 120 þús. kr. tekjur. Við skulum taka t.d. hjón með tvö. börn, sem eru með 120—130 þús., 140, þau ættu jafnvel að vera alveg skattfrjáls. Það er að vísu að nokkru leyti gert ráð fyrir því hér hvað snertir hjón með þrjú börn, en hjón með tvö börn ættu raunverulega að vera það líka, það er svo að segja vísitölufjölskylda. Þá mætti létta nokkuð á lægstu tekjunum enn, en hækka svo stigann og hafa hann meira stighækkandi, þegar hærra kemur. Það álít ég vera stefnu, sem sé alveg óhjákvæmileg. Þetta, að stytta það niður í að hafa bara 3 skala þarna, 3 mismunandi skala, það er rangt, stytta úr 6 niður í 3 og raunverulega draga úr skatti af hæstu tekjunum. Þarna álít ég, að þurfi að verða breyting. Við erum alltaf að fara þarna meir og meir í afturhaldsátt hvað þetta snertir. Hátekjumennirnir hér á Íslandi geta vissulega borgað meira en þeir gera af þeim háu tekjum, sem þeim hafa verið úthlutaðar.

Mér sýnist satt að segja það vera dálítið eftirtektarvert, þegar verið er að bera hérna saman, hvernig sé verið að létta á frá því, sem áður var, fyrir hjón með tvö börn með 130 þús., þá er létt á skattinum um 2700 kr. Fyrir hjón með tvö börn og 250 þús. er létt á skattinum um 3600 kr. Það er eins og það sé alltaf fyrst og fremst verið að hugsa um hátekjumennina í þessum efnum. Þetta álít ég, að hv. fjhn., fyrst henni var boðið upp á að gera breytingar á þessu frv., ætti mjög alvarlega að taka til greina.

Þá er enn fremur annar hlutur. Því verður vafalaust haldið fram, þegar talað er um, að það ættu að vera hærri skattar á háar tekjur, að það þýði nú lítið, það verði eingöngu þeir opinberu starfsmenn og aðrir slíkir; sem verði að greiða slíkt. Það er rétt, að það hefur gengið ákaflega illa, þrátt fyrir það, sem hæstv. ráðh. var nú að segja, að menn hefðu orðið heiðarlegri við breytinguna 1960, — þá hefur gengið ákaflega illa að láta menn telja fram og það líklega ekki aðeins hvað snertir tekjuskattinn. Ég er hræddur um, að það sé eitthvað verulega ábótavant líka hvað söluskattinn snertir. Ég vil þess vegna skjóta því til hv. fjhn., sem nú fær þetta mál til meðferðar, að það var flutt brtt. í Ed. á þskj. 498 af hv. 4. þm. Norðurl, e. og hv. 5. þm. Reykn. um skyldu til rannsóknar á framtölum. Ég held, að það sé ekki nein voðalega hættuleg breyting, því að eftir því sem mig minnir a.m.k., er eitthvað mjög svipað í Bandaríkjunum um þetta, svo að hæstv. ríkisstj. ætti ekki að vera neitt sérstaklega hrædd við, að þetta væru einhverjar voveiflegar aðgerðir gagnvart hátekjumönnum eða auðugum mönnum. En það er engum efa bundið, að þrátt fyrir allt er skattaeftirlitinu enn þá mjög ábótavant, og það væri þess vegna nauðsynlegt einmitt að bæta inn í þetta frv. þarna á eftir 11. gr. nýjum ákvæðum einmitt í þeim anda, sem þessi brtt. var í.

Ég vildi mjög mælast til þess, að hv. fjhn. athugi þetta líka, og ég skil satt að segja ekki, hvernig hæstv. ríkisstj. getur staðið á móti slíku. Það er allt, sem mælir með því, að ég tali nú ekki um, ef á að fara að gera þetta auðveldara fyrir hátekjumennina, að það sé þá a.m.k. séð um, að þeir greiði sinn skatt. Það er ekki nema eðlilegt, að launþegarnir, sem alltaf raunverulega standa undir því að verða að greiða tekjur af öllu því, sem þeir hafa, og allt er talið fram fullt hjá þeim, þeir séu óánægðir yfir, að þeir, sem græða hvað mest í þjóðfélaginu, skuli sleppa hvað auðveldast, eins og núna er, og ýmsir atvinnurekendur, sem vitað er, að græða mikið á sínum fyrirtækjum, skuli sleppa með útsvör, sem oft og tíðum eru ekki meira en hjá verkamanni, sem þrælar allan ársins hring.

Það var sérstaklega þetta tvennt, sem ég vildi leggja áherzlu á, ef nokkur möguleiki væri að koma á einhverri breytingu í réttlætisátt á þessu frv.