04.05.1964
Neðri deild: 89. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. vildi ekki gera það fyrir mig að upplýsa okkur um það, hvað hann kallar almennar launatekjur. Það hefði hann samt átt að gera, því að það er hlutur, sem hann hefur svo oft talað um að undanförnu. En hann svaraði annarri spurningu minni. Ég spurði um það áðan, hvernig hefði verið farið að því að reikna út þessa skatta í Morgunblaðinu eftir lögunum frá 1954, úr því að kaupgjaldsvísitalan, sem um reikningurinn var þar miðaður við, var nú fyrir löngu úr sögunni. Hann svaraði því ekki beinlínis, hvernig þetta hefði verið gert, en það kom fram í svari hæstv. ráðh., að þessi útreikningur er runninn undan hans rifjum, svo að þessar blekkingar, sem þar eru um hönd hafðar, geta þá skrifazt á hans reikning frekar en á reikning ritstjóranna við Morgunblaðið. Þeir hafa náttúrlega tekið við því, sem að þeim var rétt af hæstv. ráðh. En hin stóra blekking í þessu er fólgin í því, að hæstv. ráðh. lætur reikna út skatta af jafnháum upphæðum nú og 1954 og ber það saman. Þetta sýnir auðvitað alranga útkomu vegna þeirra gífurlegu breytinga, sem orðið hafa á verðgildi peninganna. Hefði hæstv. ráðh. viljað gera slíka útreikninga eða láta gera, sem nokkuð væri hægt að byggja á til samanburðar, átti hann að byrja á því að finna, hvað menn þurftu að hafa háar tekjur t.d. 1954 til þess að hafa jafnmikið verðmæti í höndum og þeir hafa nú með þeim tekjuupphæðum, sem ráðh. er að reikna skatta af. Þá mundi koma í ljós, að menn voru jafnvel settir þá með langtum lægri tekjuupphæðir en þeir hafa núna. Síðan hefði mátt reikna út skatt eftir l. frá 1954 af þeim lágu upphæðum og bera saman við skattinn, sem menn þurfa nú að borga af fleiri krónum, en jafnmiklu verðmæti. Þetta gerði hæstv. ráðh. hins vegar ekki.

Þá fór hæstv. ráðh. að tala um umreikninginn, og hann segir, að hann hafi verið felldur niður vegna þess, að það hafi verið um að ræða gerbreytingar á skattstiganum 1960. Þetta hefði getað staðizt hjá hæstv. ráðh. að fella niður umreikninginn og taka hann ekki upp aftur, ef hæstv. ríkisstj. hefði staðið við fyrirheitið um að halda dýrtíðinni í skefjum. En vegna þess að hæstv. stjórn stóð ekki við það og við vitum allir um þann gífurlega dýrtíðarvöxt, sem orðið hefur meiri en nokkru sinni áður, er það áreiðanlegt, að það er ekki minni þörf á því að taka upp umreikninginn núna heldur en var áður. Það var þörf á þessum umreikningi 1954—1959, en þörfin er sízt minni nú. Hún er meiri nú að hafa slíkt ákvæði í 1. vegna þess, hve dýrtíðin vex stórkostlega og hefur vaxið síðustu árin, því að verði þetta ákvæði ekki tekið inn í 1., heldur skattabyrðin áfram að þyngjast stöðugt ár frá ári raunverulega með vaxandi dýrtíð.

Hæstv. ráðh. segir, að ég leyfi mér að halda því fram, að nú sé verið að hækka skattana. Það á ekki að þurfa að fara í neinar grafgötur til að sjá, að það er verið að hækka skattana, en ekki lækka þá, og þetta er mjög vel skýrt í nál. hv. minni hl. fjhn. í Ed. á þskj. 495. Þar er gerður samanburður á tekjuskatti samkv. gildandi l. og samkv. frv., sem hér liggur fyrir. Þar kemur það fram, að tekjuskattur af 10 þús. kr. skattskyldum tekjum á að verða eftir frv. 1000 kr., en er eftir gildandi l. 500 kr., það er 100% hækkun. Og þannig er þetta mjög mikil hækkun á öllum tekjubilum, þangað til kemur upp í mjög háar tekjur, þá fer þetta í 9% og 7%, hækkunin á skattinum. En hæstv. ráðh. gerir útreikninga og miðar þar við nettótekjur, en ekki skattskyldar tekjur, m.ö.o. byggir á því í sínum útreikningum að leggja skatt á þennan persónufrádrátt, aukna persónufrádrátt, sem verið er að veita mönnum í frv. Það er ákveðið að hækka persónufrádrátt fyrir einstaklinga úr 50 þús. um 15 þús., en sá maður er bara ekkert betur settur með þessar 65 þús. kr. í persónufrádrátt nú heldur en hann var 1960 með 50 þús. Og þess vegna er hinn eini rétti samanburður auðvitað að reikna út, hvað hann þarf að borga í skatt af þeim tekjum, sem eru umfram persónufrádráttinn, þ.e.a.s. af skattskyldum tekjum, því að með fyrirkomulagi hæstv, ráðh., sem hann hefur notað, notar í frv., lætur blöðin nota og notar enn, er verið að miða við skatt á nettótekjurnar og þar með skatt á persónufrádráttinn.

Það, sem ég vil að síðustu leggja áherzlu á, er, að það verði athugað gaumgæfilega í þn. hér í þessari hv. d. að fá inn í frv. ákvæði um umreikning á persónufrádrætti og tekjum, eins og áður var, því að það er það eina, sem getur forðað því, að menn búi við síhækkandi skatta.