04.05.1964
Neðri deild: 89. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þær umr., sem hér hafa orðið í tilefni af frv. hæstv. ríkisstj. um breytingu á l. um tekju- og eignarskatt. Mig langar þó til þess að gera örfáar aths. við nokkur atriði í ræðu hæstv. ráðh. og þá í leiðinni koma inn á örfá atriði, sem mér finnst að þessar umr. hafi gefið tilefni til að drepa á.

Hæstv. ráðh. sagði áðan og hældi sér auðsjáanlega mjög af því, að tekjuskattur hefði verið lækkaður stórfelldlega frá því, sem var á síðasta ári vinstri stjórnarinnar, á árinu 1958. Hann vitnaði í grein, sem hann hefur ritað í dagblaðið Vísi s.l. fimmtudag, þar sem tekjuskatturinn af tekjum ársins 1963 er reiknaður út eftir þeim reglum, sem giltu um álagningu tekjuskatts á árinu 1958, eftir þeim reglum, sem nú eru í gildi, og eftir þeim reglum, sem væntanlega verða lögfestar með samþykkt þessa frv. Og hæstv. ráðh. nefndi nokkur dæmi um, hversu mjög tekjuskatturinn mundi lækka frá árinu 1958 og frá núgildandi reglum, eftir að frv. þetta hefði verið samþykkt. M.a. nefndi hæstv. ráðh. dæmi af hjónum með 3 börn og ákveðna tekjuupphæð, mig minnir 130 þús. kr., hann nefndi tekjuskatt eftir þrem mismunandi reglum, sem giltu 1958, þeim, sem gilda nú, og þeim, sem væntanlega taka gildi, eftir að frv. hefur verið samþykkt. Ég náði því miður ekki niður þeim tölum, er hann nefndi um tekjuskattinn, en ég þykist þó muna það greinilega, að á þeim var talsverður munur, og skal ég játa, að það er rétt.

En er ekki þessi samanburður, sem hæstv. ráðh. var hér að fara með, og sá samanburður, sem kemur fram í þeirri grein, er hann reit í dagblaðið Vísi s.l. fimmtudag og Morgunblaðíð hefur byggt á leiðaraskrif, dálítið yfirborðskenndur, og er hann ekki fjarri því að sýna, hvað raunverulega hefur gerzt í sambandi við skattheimtu ríkissjóðs á almenning á þessum árum? Það vita allir hv. þm., að á árinu 1960, þegar hæstv. ríkisstj. kom til valda, var það yfirlýst sem eitt af hennar stefnuskráratriðum, að nú ætti að færa tekjuöflun ríkisins mjög úr farvegi beinnar skattheimtu yfir í þá óbeinu. Og í sambandi við það var tekjuskattur lækkaður mjög verulega, aðallega í formi aukins persónufrádráttar, en þó einnig með tilfærslu á skattstiga. En samtímis þessu eða um svipað leyti a.m.k. voru tekjur ríkisins af óbeinum sköttum auknar stórkostlega.

Ég tók niður á blað, meðan hæstv. ráðh. var að tala, nokkrar tölur úr fjárl. ársins 1958 og fjárl. ársins 1964, sem sýna þá miklu breytingu, sem hér hefur á orðið á þessum árum. Ég tók heildartekjur 2. gr. fjári. bæði þessi ár: En í l, gr. eru tekjur ríkissjóðs af hvers kyns sköttum og hvers kyns tollum uppfærðar. Samkv. 2. gr. fjárl. 1958 eru skattar og tollar innheimtir í ríkissjóð samtals 623 millj. og 400 þús. kr. Af þeirri fjárhæð er tekjuskattur og eignarskattur 118 millj. kr. Sem sagt, skattar og tollar, aðrir en tekjuskattur og eignarskattur, nema það ár um 505 millj. og 400 þús. kr. Þetta þýðir það, að eftir þessum óbeinu tekjuleiðum voru á árinu 1958 lagðar 3021 kr. á hvern Íslending, eins og þeir voru margir 1. des. 1957. Ef við hins vegar bregðum til ársins 1964 og athugum 2. gr. fjárl., skatta og tolla, á sama hátt og við vorum hér að gera varðandi árið 1958, þá er niðurstaðan sú, að samtals námu skattar og tollar það árið 2 milljörðum 242 millj. kr. Þar af var tekjuskattur og eignarskattur um 255 millj. kr. Skattar og tollar, aðrir en tekjuskattur og eignarskattur, hafa sem sagt það árið næstum því numið um 2 milljörðum kr., eða 10653 kr. á hvern Íslending miðað við íbúatal 1. des. 1963.

Ef við höldum nú dæminu áfram, sem hæstv. ráðh. var með áðan um 5 manna fjölskylduna, hjónin með 3 börnin, og athugum samanlagða skattheimtu ríkissjóðs á þessa fjölskyldu í formi skatta og tolla annarra en tekjuakatts og eignarskatts, er niðurstaðan þessi, að á árinu 1964 innheimtir ríkissjóður með sköttum og tollum fyrir utan tekjuskatt og eignarskatt 53265 kr. af hverri 5 manna fjölskyldu. A árinu 1958 innheimtir ríkissjóður hins vegar með sömu tekjustofnum 15105 kr., þ.e.a.s. að á árinu 1964 eru þannig eftir þessarl skatta- og tollaleið innheimtar í ríkissjóðinn 38160 kr. af hverri fimm manna fjölskyldu umfram það, sem gert var á síðasta ári vinstri stjórnarinnar, árið 1958. Til viðbótar þessu má benda á, að ýmis önnur skattheimta ríkissjóðs hefur á þessu sama tímabili vaxið stórkostlega. Þetta sýnir vel, hversu gersamlega það er út í bláinn að ætla að bera saman tekjuskattsinnheimtu í ríkissjóð á árinu 1958 og tekjuskattsinnheimtu í ríkissjóð á árinu 1964 til þess að reyna að sýna einhverja réttláta og raunhæfa mynd af skattheimtu ríkissjóðs á almenning í landinu á þessum 2 árum. Þar er um ekkert sambærilegt að ræða.

Hæstv. ráðh. gat um það í ræðu sinni hér áðan, að annar megintilgangur þessa frv. væri, eins og hann orðar það í dagblaðinu Vísi, með leyfi hæstv. forseta, s. l. fimmtudag, að gera margvíslegar ráðstafanir til þess að tryggja rétt framtöl og koma í veg fyrir undandrátt

tekna undan skatti. Hæstv. ráðh. vék aðeins að þessu í frumræðu sinni áðan. Þó finnst mér að gefnu tilefni ástæða til að auglýsa eftir frekari og meiri upplýsingum en ég fékk í þeirri ræðu, því að eftir því sem ég bezt fæ séð, felast í því frv., sem hér er veríð að ræða, engin meiri háttar nýmæli og engar meiri háttar nýjar heimildir til þess að tryggja betur rétt framtöl og koma í veg fyrir undandrátt tekna heldur en eru til staðar samkv. gildandi skattalögum.

Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. hefur helzt í huga, þegar hann talar um þessar nýju heimildir og nýju ráðstafanir til þess að tryggja betur rétt framtöl, hvort hann á þá sérstaklega við ákvæði frv. um sérstaka rannsóknardeild við embætti ríkisskattstjóra, eins og 11. gr. frv. ber með sér, en það er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Við embætti ríkisskattstjóra skal starfa rannsóknardeild, er hafi með höndum rannsóknir samkv. l. þessum, eftir nánari ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Ég held, að eftir gildandi l. hafi verið hægt að stofnsetja og starfrækja slíka deild sem þessa, og vil ég í því sambandi aðeins minna á 3. mgr. 36.. gr. l. nr. 70 frá 1962, um tekjuskatt og eignarskatt. Ég hygg enn fremur, að í sjálfu frv. séu ákvæði, sem jafnvel geti ýtt undir þá tilhneigingu hjá mönnum að skila ekki réttum framtölum umfram það, sem áður var til staðar, og á ég hér við ákvæði frv. um að fækka bilum skattstigans úr 6 í 3. Ég hygg, að þegar á að fara að nota hámarksskattprósentu, þ.e.a.s. 30%, á skattgjaldstekjur 50 þús. kr. í stað 90 þús. kr. samkv. gildandi 1., muni þetta ákvæði hafa í för með sér tilhneigingu manna til undandráttar tekna til skatts.

Mig langar út af þeim deilum, sem orðið hafa, bæði í þessari hv. d. og eins þeim deilum, sem orðið hafa í hv. Ed. um það, hvort frv. það, sem verið er að ræða, hafi í för með sér hækkun tekjuskatts eða lækkun, að leggja nokkur orð í belg.

Við heyrðum það hér áðan og höfum lesið um það í stjórnarblöðunum, að stjórnarliðar halda því fram, að veruleg lækkun tekjuskatts fáist fram með samþykkt þessa frv., og birtir hafa verið langir útreikningar um þetta máli stjórnarliða til stuðnings. Stjórnarandstæðingar telja hins vegar, að raunverulega hækki tekjuskatturinn frá því, sem hann var ákveðinn með l. nr. 18 frá 1960, en þau gilda nú, að því er tekur til skattstiga og persónufrádráttar. Minni hl, hv. fjhn. í Ed. hefur birt útreikninga á þskj. 495, sem eiga að rökstyðja þá staðhæfingu. Um útreikninga beggja þessara aðila vil ég segja, að þeir eru réttir, svo langt sem þeir ná. En forsendur þessara útreikninga eru hins vegar ólíkar, og þar af leiðandi er útkaman mismunandi. Ég tel því, að verkefnið, sem í þessu tilfelli liggi fyrir, sé að meta, hvorar forsendurnar séu réttar og hvorar gefi sannari upplýsingar um raunverulegan skattþunga, eins og hann var ákveðinn 1960 eða eins og hann verður, ef frv. þetta verður samþykkt óbreytt.

Það er alkunn staðreynd, bæði hérlendis og erlendis, þar sem notaðir eru stighækkandi skattstigar við álagningu skatts á tekjur, að verðbólga getur gerbreytt skattþunganum á skömmum tíma. Hækkun launa, sem stafar af verðbólgu, flytur gjaldandann upp í hærri skattþrep og í hærri skattaprósentu. Útkoman er hærri tekjuskattur á óbreyttar raunverulegar tekjur. Einmitt þetta hefur verið að gerast hér á landi allt frá árinu 1960, og vil ég í því sambandi aðeins upplýsa, hvað tekjuskattur í Reykjavík hefur verið þessi undanfarandi ár: Árið 1960 nam hann 45.9 millj. kr., 1961 50.7 millj. kr., 1962 61.5 millj. kr., og álagður tekjuskattur á árinu 1963 fer upp í 103.4 millj. kr. Þessi hækkun tekjuskattsins á 4 árum, sem er meira en tvöföld, hefur að langmestu leyti átt orsakir sínar í verðbólguaukningu á launatekjum, þótt um einhverja raunverulega tekjuaukningu sé e.t.v. að ræða hjá sumum launastéttum, eins og t.d. hlutaskiptasjómönnum og nokkrum iðnaðarstéttum. Auk þess mun nokkur fjölgun gjaldenda eiga þátt í þessari hækkun.

Á fyrrnefndu tímabili hefur reglum um tekjuskatt ekki verið breytt. Þrátt fyrir það hefur tekjuskattsþunginn aukizt gífurlega. Um það ætti ekki að þurfa að deila, eftir að ég hef lesið upp tekjuskattinn í Reykjavík á þessum 4 árum. En hér ber á fleira að líta. Sérstakur frádráttur, svonefndur persónufrádráttur, hefur í marga áratugi verið leyfður til frádráttar frá hreinum tekjum gjaldenda, áður en skattur er lagður á þær. Hugsunin á bak við persónufrádráttinn er sú, að óeðlilegt sé að nota þurftartekjur sem skattstofn tekjuskatts. Að vísu hefur persónufrádrátturinn verið ætíð það lágur, að hann hefur ekki nægt til að undanþiggja þurftarlaun tekjuskatti, en það atriði vil ég ekki ræða nú. Gildi þess persónufrádráttar, sem ákveðinn var 1960 og stendur enn þá óbreyttur, hefur mjög verið rýrt á undanförnum árum, þar sem hann hefur ekki fylgt verðlaginu upp á við. Frv. þetta gerir ráð fyrir, að persónufrádrátturinn hækki um 30% frá því, sem ákveðið var árið 1960. A þessu tímabili hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað um 55% og vísitala vöru og þjónustu um tæp 74%. Þessi staðreynd leiðir einnig til aukins raunverulegs skattþunga frá því, sem ákveðið var á árinu 1960 af núv. hæstv. ríkisstjórn.

Þessi tvö atriði, verðbólguaukning tekna og óbreyttur persónufrádráttur frá árinu 1960, hafa þannig óumdeilanlega leitt til þeirrar niðurstöðu, að tekjuskattsþunginn nú er miklu meiri en hann var ákveðinn með 1. nr. 18 frá 1960. Þetta hefur getað gerzt, án þess að l. væri breytt, vegna þess að núv. hæstv. ríkisstj. felldi niður með l. nr. 18 frá 1960 það ákvæði í skattal. frá árinu 1954, er ákvað, að umreikna skyldi tekjutölur skattstigans og persónufrádrátt árlega við hverja skattaálagningu til samræmis við kaupgjaldsvísitölu, eins og hún breytist frá árinu 1953. Ég tel því, að hið rétta í þessari deilu sé, að frv. þetta muni lækka tekjuskatt ársins 1964 nokkuð frá því, sem hann hefði orðíð að ábreyttum reglum, fyrir því sjái verðbólguaukning teknanna og óbreyttur persónufrádráttur síðan 1960. Hins vegar er ég nær sannfærður um, að tekjuskattsþunginn verður í reynd meiri á árinu 1964 að frv. þessu samþykktu óbreyttu heldur en hann var ákveðinn af núv. hæstv. ríkisstj. á árinu 1960. Og það er að mínu áliti aðalatriði þessa máls og raunar allur mergur þeirrar deilu, sem hér hefur risið.

Ég get að vísu ekki örugglega sannað þetta með útreikningi, þar sem mig skortir að vita um hreyfingu á kaupgjaldsvísitölu yfir þetta tímabil, en með hliðsjón af verðbólguaukningu tekna, sem orðin er á því, minnkandi raungildi persónufrádráttarins og síðast en ekki sízt með þeirri breytingu, sem frv. gerir á gildandi skattstiga, þar sem skattþrepum er fækkað úr 6 í 3 og hámarksskattprósentan, 30%, leggst nú á 50 þús. kr. skattgjaldstekjur og hærri í stað 90 þús. áður, þykist ég með nokkurri vissu geta staðhæft þetta. En úr þessu deilumáli mun reynslan skera og eftir næstu skattalagningu getum við væntanlega betur gert okkur grein fyrir, hvort skattþunginn núna við álagningu skatts 1964 verður þyngri en hann var á árinu 1960, og ég fyrir mitt leyti bíð óhræddur þeirrar niðurstöðu, því að ég þykist sannfærður um, að hún muni sýna á ótvíræðan hátt, að skattþunginn muni í ár eftir samþykkt þessa frv. verða meiri en hann var á árinu 1960, þegar hæstv. ríkisstj. fékk l. um tekju- og eignarskatt samþykkt í byrjun ársins.