05.12.1963
Efri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og er mjög einfalt að efni og þarf því ekki langra skýringa við. Frv. fer fram á það, að bótagreiðslur almannatrygginganna verði hækkaðar um 15% frá 1. júlí s.l. Bæturnar eru samkv, þeim lögum, sem upp eru talin í 1. gr. frv., en þá koma vitaskuld ekki bætur eða hækkun á bótum til greina á síðustu lögákvörðuðum hækkunum bótanna, vegna þess að þær ganga ekki í gildi fyrr en 1. janúar næstkomandi, og koma þess vegna hækkanir á þær ekki til greina hér, fyrr en lögin koma til framkvæmda. En allar aðrar bætur er gert ráð fyrir að hækki frá 1. júlí síðastliðnum.

Sú hefur verið venjan að undanförnu, að bætur almannatrygginganna hafa verið hækkaðar svipað því, sem almennar hækkanir hafa orðið á launagreiðslum í landinu, en á yfirstandandi ári hafa þessar hækkanir verið fyrst 5% í janúarmánuði s.l. og síðan 7½% í júnímánuði s.l., eða samtals um 12.875% frá 23. júní. Þessar hækkanir á undanförnum árum hafa einnig verið miðaðar við þær hækkanir, sem orðið hafa á launum opinberra starfsmanna, sem hafa verið svipaðar og þær almennu kauphækkanir, sem orðið hafa í landinu, en s.l. ár var gerð mjög mikil breyting á launum opinberra starfsmanna, eins og kunnugt er, sem var til samræmingar og innbyrðis leiðréttingar á milli flokka, sem ekki koma hinni almennu hækkun launa í landinu beinlínis við. Það var þess vegna ekki um aðra viðmiðun að ræða í þessu tilfelli heldur en þá almennu launahækkun, sem orðið hefur í landinu og ég nú hef lýst.

Undanteknar þessum hækkunum eru þó fjölskyldubæturnar, því að í athugun er nú hjá ríkisstj. að breyta bæði útsvars- og skattalögum nokkuð, þar sem persónufrádrættir geta breytzt eitthvað verulega frá því, sem nú er, en fjölskyldubæturnar verka svipað og persónufrádrættir bæði útsvars- og skattalaga, og er því ekki rétt að taka þessar fjölskyldubætur til meðferðar fyrr en þá í sambandi við þær breytingar, sem á útsvars- og skattalögunum verða. Það má segja náttúrlega, að æskilegt hefði verið að geta hækkað bætur gamla fólksins eitthvað meira en þetta, en útgjöldin við þetta eru samt allveruleg eins og frv. er.

Á fskj., sem prentað er með frv., sést greinilega, hver útgjöldin af þessu verða, sem eru allmikil, þau eru reiknuð á fskj. fyrir hálft annað ár, eða tímabilið frá 1. júlí 1963 til 31. des. 1964, og eru hækkanirnar þessar, að ellilífeyririnn hækkar um 58.8 millj., örorkulífeyrir og örorkustyrkur um 15½ millj., aðrar bætur um 14.7 millj., tillag til varasjóðs er 1.8 millj., eða samtals 90.8 millj. Af þessum útgjöldum koma á ríkissjóðinn 32.7 millj., hinir tryggðu greiða 29.1, sveitarsjóðirnir greiða 1.6.3 og atvinnurekendur 12.7. Auk þessara lífeyrisgreiðslna er einnig gert ráð fyrir, að slysabætur hækki um sama hundraðshluta og dagpeningar sjúkratrygginganna sömuleiðis. Þessi hækkun slysatrygginganna verður um 3½ millj., sem ekki snertir ríkissjóðinn neitt, heldur kemur einungis á atvinnurekendur, og dagpeningur sjúkratrygginganna eru taldir með þessari sömu hækkun að muni hækka í allt um 2.3 millj., þar af fellur 1 millj. á ríkissjóðinn, 0.9 millj. á þá tryggðu og 0.4 millj. á sveitarsjóðina. Heildarútgjöld ríkisins vegna hækkana verða þess vegna 33.7 millj. kr.

Ég hef raunar ekki neinu við þetta að bæta. Mér er ljóst, að það hefur komið fram hér á Alþ. frv. um allverulega miklu meiri hækkun en hér er gert ráð fyrir, en að athuguðu máli treysti ríkisstj. sér ekki til að leggja til, að hækkanirnar yrðu nema þessar, sem er í fullu samræmi við það, sem áður hefur verið gert í þessu efni. Þess er líka að geta, að hækkanir á bótagreiðslunum á undanförnum árum hafa orðið mjög verulegar og í sumum tilfellum a. m. k. allmiklu hærri en hinar almennu launagreiðslur hafa orðið.

Það hefði verið æskilegt að geta lagt þetta frv. fram fyrr, en ástæðan fyrir því, að svo var ekki gert, var sú, að það var beðið eftir því, hvort ekki mundu verða frekari almennar launahækkanir en þegar voru orðnar, og var þá hugsunin að taka tillit til þeirra einnig. Nú hefur ekki orðið neitt samkomulag, a.m.k. enn, um hækkanir á hinum almennu launagreiðslum í landinu, og var því ekki unnt að bíða eftir því, að vitað væri, hverjar þær mundu verða. En hins vegar er gert ráð fyrir því, að ef til almennra hækkana umfram þetta komi á næstunni, þá verði þessi ákvæði endurskoðuð og hækkun bóta þá aukin miðað við þær launahækkanir, sem þá koma til greina.

Það er af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins gert ráð fyrir því, að til þess að þetta geti komið til framkvæmda fyrir áramótin eða fyrir jólin, þá þurfi málið helzt að vera afgreitt hér á Alþ. fyrir 6. þ. m., eða á morgun, ef mögulegt er. Að vísu hefur Tryggingastofnuninni verið falið að undirbúa málið eftir þeim línum, sem hér hafa verið lagðar, en greiðsla bótanna krefst talsvert mikils undirbúnings hjá Tryggingastofnuninni, og er því nauðsynlegt, að málinu verði hraðað eins og frekast er mögulegt: Ég vildi því leyfa mér að beina því til þeirrar hv. nefndar, sem málið fær til meðferðar, að leitazt verði við að afgreiða það sem allra fyrst, svo að ekki verði töf á greiðslu bótanna, og vildi ég mega vænta þess, að hæstv. forseti aðstoðaði einnig við afgreiðslu máls þessa. Ég vildi svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.