08.05.1964
Neðri deild: 94. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér eina brtt. við þetta frv. Þeirri brtt. hefur ekki enn þá verið útbýtt hér, en ég vænti nú samt, að ég megi — með leyfi hæstv. forseta — gera hér grein fyrir þessarf brtt. Brtt. mín er samhljóða brtt., sem flutt var í Ed. af þeim Birni Jónssyni og Gils Guðmundssyni og liggur fyrir á þskj. 498, og hljóðar þessi brtt. á þessa leið, að við 11. gr. á eftir 1. mgr. komi tvær nýjar mgr., svo hljóðandi:

„Skylt skal þó ríkisskattstjóra að láta árlega fara fram ýtarlega rannsókn d 5% af framtölum þeirra aðila, sem hafa einhverja tegund rekstrar með höndum og bókhaldsskyldir eru, og á 2% af öðrum framtölum. Skulu þessi framtöl valin með útdrætti eftir reglum, sem Hagstofa Íslands setur, og skal hún hafa útdráttinn með höndum.

Framtöl þeirra aðila, sem þannig eru valin með útdrætti, skulu athuguð gaumgæfilega, bókhald þeirra rannsakað og upplýsinga leitað um allt, sem gefið getur vitneskju um sannleiksgildi framtalanna fyrir viðkomandi ár og framtala næstu 5 árin á undan, ef þurfa þykir.“

Það hefur æði oft verið um það rætt hér á Alþingi, að þörf væri á strangara skattaeftirliti en hér hefur átt sér stað, og stundum hafa verið nefndar hér furðuháar tölur, sem eru að sjálfsögðu áætlaðar, um það, hvað miklum tekjum muni vera skotið undan skatti á ólöglegan hátt. Ég man ekki betur en einn af núv. hæstv. ráðh. segði hér fyrir nokkrum árum, að það væri áætlað af fróðum mönnum, að ekki minna en 500—600 millj. laun á ári af tekjum færu fram hjá skattayfirvöldunum og kæmu í rauninni aldrei til skatts. Ég er ekki í neinum vafa um það, að þessi upphæð er, eins og tölum nú er háttað, orðin miklum mun hærri. Við viss tilfelli ræða menn hér um það, menn úr öllum flokkum, að það sé mikil nauðsyn á því að reyna að koma í veg fyrir þessi skattsvik, það eigi að reyna að láta alla verða jafna fyrir lögunum og það þurfi að herða á þessu eftirliti. Og í þessu frv., sem hér liggur fyrir til breytinga á tekjuskatts- og eignarskattslögunum, er lítillega vikið að þessu efni. En afskaplega er það nú mjóslegið, sýnist mér. Í 11. gr. frv. kemur viðauki, sem á að ná til þessa atriðis, og sá viðauki er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Við embætti ríkisskattstjóra skal starfa rannsóknardeild, er hafi með höndum rannsóknir samkv. l. þessum eftir nánari ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Satt að segja hefði maður nú haldið; að þeir, sem fara með framkvæmd skattamálanna, hefðu nú einhverja deild til þess að rannsaka um framtölin, þeir hefðu nú einhverja, sem litu eitthvað eftir þeim. Hvort menn taka svo upp þá nýlundu að segja: Hér skal nú vera ein formleg deild, sem lítur eftir þessu, og ríkisskattstjóri skal svo setja ákveðnar reglur um það, hvernig sú deild vinnur, segir harla lítið. Auðvitað hafa verið í l. heimildir til þess að framkvæma miklum mun strangara skattaeftirlit en gert hefur verið. Heimildirnar hefur ekki vantað. En það er annaðhvort viljinn, sem hefur vantað; eða áræðið að ráðast í þetta, því að því verður auðvitað ekki neitað, að það þarf kannske nokkurt áræði til að fara að leita uppi þessi skattsvik, sem oft er talað um, og draga fram hið sanna um tekjur hinna einstöku aðila: Ég held því, að ekkert minna dugi en það, sem lagt er til í þessari brtt. minni, því sé slegið föstu, að það skuli vera skylt að láta sérstaka rannsókn fara fram á ákveðnu úrtaki, sem tekið er af óvilhöllum aðfla, af skattstofunni, á framtölum hinna einstöku framteljanda. Og ég hef lagt til í þessari till., að skyldan sé við það miðuð, að sem nemur 5% af öllum framtölum þeirra, sem eru bókhaldsskyldir og hafa einhvern rekstur með höndum, skuli tekin til sérstakrar rannsóknar á ári hverju. Slíkar reglur eru í l. hjá ýmsum öðrum þjóðum. Þá eiga, ef þessar reglur væru teknar hér upp. þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, þetta yfir höfði sér, að bókhald þeirra sé tekið og skoðað af skattayfirvöldunum, ekki aðeins eitt ár, heldur fyrir nokkur ár, jafnvel upp í 5 ár, og nákvæm athugun gerð yfirleitt á eyðslu slíkra aðila, þannig að hið sanna komi fram um tekjur þeirra, svo að þeir verði skattlagðir á réttan hátt. Ég efast ekkert um það, að slík ákvæði sem þessi mundu veita gífurlega mikið aðhald öllum þeim, sem telja nú fram fyrir atvinnurekstur hér á landi, því að á því leikur auðvitað enginn vafi, að þeir, sem telja fram fyrir atvinnurekstur, eins og okkar skattareglum er háttað, geta svo að segja skrifað það á sitt framtal, sem þeim þóknast. Það er nú sannleikur málsins. Það eru fáir nema viðkomandi skattframteljandi sjálfur, sem eru til frásagnar um það, hvað líður raunverulegum rekstrarútgjöldum á hinum einstöku kostnaðarliðum, Þetta er ekkert rannsakað. En færi slík athugun fram, sem lagt er til með þessari till. minni, held ég, að í fyrsta lagi mundi till. veita aðhald og bæta framtölin og í öðru lagi mundi þarna komast upp mikið af skattsvikum.

Ég hef veitt því athygli, að hæstv. fjmrh., sem hefur nú með framkvæmd þessara mála að gera, hefur æðioft minnzt á það hér á Alþingi, að það þurfi að bæta skattasiðferði manna, og hann hefur mjög hneigzt að því í sambandi við það að bæta úr þessu siðferði að lækka bara skatta í ýmsum tilfellum og heldur, að það eitt dugi. Ég hef ekki mikla trú á því. Ég held, að málin séu þannig, að aðili; sem hefur góða aðstöðu til þess að skjóta undan stórum fjárfúlgum af tekjum sínum og koma þeim undan skatti, hann breyti ekki framtölum sínum ýkja mikið, þó að hann eigi að borga 25% í staðinn fyrir 30%, sem áður hefur verið. Ef hann hefur alla aðstöðuna eftir sem áður til þess að geta skotið sér undan að borga, heldur hann áfram að gera það, jafnvel þó að skattstiginn kunni að hafa verið lækkaður eitthvað örlítið. Ég álit, að mesta skekkjan í skattaframtölum sé einmitt hjá þeim aðilum, sem hafa einhvers konar rekstur með höndum. Þeir eiga hægast með að telja rangt fram, eins og okkar skattareglur eru. En eflaust eru ýmsir þeir, sem hafa beinar launatekjur, líka sekir í þessum efnum. En því verður þó ekki neitað, að reglurnar, sem í gildi eru, eru miklum mun strangari gagnvart öllu launafólki heldur en gagnvart hinum. Þar er ekki neinn samjöfnuður á.

En nú hef ég í till. minni einnig lagt það til, að framtöl þeirra, sem ekki eru bókhaldsskyldir og ekki hafa neinn rekstur með höndum, séu líka tekin til svona rannsóknar, en þar aðeins haft minna hlutfall, það sé aðeins gengið út frá því að taka sem nemur 2% á ári hverju af framtölum þeirra aðila, enda eru þeir auðvitað miklum mun fleiri, og það má því ekki hafa þetta úrtak of mikið, til þess að hér verði ekki um lítt viðráðanlegt verkefni að ræða fyrir skattayfirvöldin.

Ég verð að segja það, að ég lít svo á, að afstaða til þessarar till. eigi að sýna það alveg glöggt, hvort nokkur alvara er á bak við hjá þeim mönnum, sem tala um það, að þeir vilji, að skattaframtölin séu rétt og skattarnir séu lagðir á á sanngjarnan hátt. Það er liðið það tímabil, að það dugi að tala fagurlega um það, að það eigi að líta eftir þessu, en ætla á sama tíma að fella till. um að gera það að skyldu, að þetta skuli gert. Ég veit, að eins og l. eru núna eða verða væntanlega eftir þessa breytingu, eru til heimildir til þess að gera þetta. Þær eru til. En verður það gert? Verður það gert, ef Alþingi fellir till. um það, að þetta skuli skylt að gera?

Það er mín skoðun, að ef þessi till. mín væri samþykkt, mætti búast við því, að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti mundu vaxa um nokkra tugi millj. kr. á hverju ári, án þess að skattstigunum væri nokkuð breytt. Og ég held, að það væri réttmætt, eins og málum er háttað, að koma þessu fram. E.t.v., ef ríkissjóður býr sæmilega vel, sem ég held að hann geri, væri þá hægt fyrir ríkissjóð að gefa eitthvað eftir, t.d. af söluskatti, sem núna hvílir á brýnustu lífsnauðsynjum manna, og á þann hátt gæti ríkið unnið að því að lækka það verðlag í landinu, sem mestu máli skiptir í sambandi við kaupkröfur launþegasamtaka.

Ég þarf nú ekki að hafa fleiri orð um þessa tili., því að ég vænti, að málið sé öllum hv. alþm. vel ljóst. En það verða mér mikil vonbrigði, ef hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til þess að fallast á að taka upp efni þessarar till. í lögin.

Um efni þessa frv. að öðru leyti get ég verið fáorður, það hefur verið rætt hér nokkuð áður. Ég tek algerlega undir það, sem frsm. minni hl. fjhn. sagði hér í sinni ræðu nú næst á undan mér, að á því leikur auðvitað enginn vafi, að þær breytingar, sem eru fólgnar í þessu frv., ná ekki svo langt, að þær geri skattabyrðina jafna á við það, sem hún var ákveðin í l. frá 1960. Á því leikur auðvitað enginn vafi, að þegar menn eru að gera það upp við sig, hvort skattarnir eru að þyngjast eða hvort þeir eru að léttast, verður að taka tillit til þess, hvert gildi peningarnir hafa á hverjum tíma. Við vitum, að ef svo færi, að verðlag hækkaði á næstu 2–3 árum um 100% frá því, sem það er í dag, eru auðvitað 200 þús. kr. ekkert meira virði þá en 100 þús. eru nú. Og því er það, að ef menn þá mundu þurfa að borga miklum mun meiri skatt af 200 þús. heldur en þeir þurfa að borga nú af 100 þús., hefur vitanlega skattabyrðin aukizt, en ekki minnkað, þó að slegið hafi verið af eitthvað lítillega í prósentutölu.

Ég álit því, að hæstv. ríkisstj. megi ekki halda uppi þeim þrætum, sem hún hefur verið að halda uppi í þessum efnum. Það ætti að vera öllum mönnum alveg ljóst, að einmitt vegna breytinganna á verðgildi peninganna eru raunverulega skattarnir alltaf að hækka. Þessu hafa menn ,gert sér fulla grein fyrir í öðrum hliðstæðum tilfellum. Á undanförnum árum hefur það gengið svo til, að öll sveitarfélög í landinu hafa alltaf verið að lækka sinn álagningarstiga. Þau hafa alltaf verið að veita meiri og meiri afslátt af álögðum útsvörum, en útsvarstekjurnar hafa hins vegar alltaf verið að hækka hjá sveitarfélögunum. Þar hefur mönnum auðvitað ekki dottið í hug að halda því fram, að raunverulega væri verið að lækka útsvarsbyrðina, þó að afslátturinn hafi farið hækkandi í prósenttölu. Sá afsláttur var aðeins til þess að taka nokkurt tillit til breytinga á verðgildi peninganna, vegna þess að tekjurnar að krónutölu lágu hærra í síðara tilfellinu en hinu fyrra og menn voru þannig komnir nokkru hærra upp í útsvarsstigann, útsvörin höfðu hækkað á þann hátt, án þess að um raunverulegan tekjuauka hefði verið að ræða. Þetta er vitanlega það sama, sem á sér stað í sambandi við þetta frv. En hækkunin á persónufrádrættinum, sem kemur fram í þessu frv., er auðvitað góð, svo langt sem hún nær, en þrátt fyrir þessa hækkun á persónufrádrætti er auðvitað alveg ljóst mál, að skattabyrðin hlýtur að þyngjast eigi að síður.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum hér í þessu máli á þessu stigi, en vænti, að brtt. mín, sem bráðlega mun verða hér útbýtt, verði samþykkt.