05.12.1963
Efri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Eins og kunnugt er, lögðum við fulltrúar Alþb. í þessari hv. deild fram frv. snemma á þinginu svipaðs efnis og það, sem hér liggur fyrir. Munurinn er sá, að við leggjum til, að bætur almannatrygginga verði hækkaður um 40%, en í þessu stjfrv. er lagt til, að þær hækki einungis um 15%. Enn fremur leggjum við til í okkar frv., að bætur almannatrygginga verði eftirleiðis verðtryggðar, tryggðar þannig, að þær breytist í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar. Þetta ákvæði er ekki að finna í frv., sem hér liggur fyrir.

Þegar hæstv. ríkisstj, hóf feril sinn snemma á árinu 1960, þá var gerð gagngerð breyting á lögunum um almannatryggingar. Þá voru bætur hækkaðar verulega, enda voru bætur almannatrygginga orðnar mjög ófullnægjandi. Á því tímabili höfðu tvær ríkisstjórnir, sem á undan voru við völd, skipað nefndir til þess að gera till. um úrbætur í þessu efni. Bætur almannatrygginga voru þá ekki orðnar annað eða miklu meira en nafnið tómt og því full þörf á, að bætur yrðu hækkaðar. Það skeði í samræmi við till. þessara nefnda, sem skipaðar voru til athugunar og endurskoðunar á tryggingalöggjöfinni 1958 og 1959. Þetta skeði snemma árs 1960, og þá voru tryggingabætur hækkaðar mjög verulega. Ef tekið er með það, sem síðan hefur bætzt við í hækkunum, þá má reikna, að frá 1960, snemma árs, hafi bætur almannatrygginga hækkað þetta frá 60 og upp í 80%. Þrátt fyrir það er nú öll þessi kjarabót bótaþega almannatrygginga þegar runnin út í sandinn, svo ör og svo mikil hefur dýrtíðin orðið á þessum 4 árum. Allar lífsnauðsynjar almennings hafa þegar hækkað sem svarar þeirri hækkun, sem orðið hefur á bótum almannatrygginga síðan 1959. Matvara og aðrar lífsnauðsynjar hafa hækkað þegar um 80% eða meira. M. ö. o.: við stöndum í dag í sömu aumu sporunum og við gerðum að okkar eigin áliti 1958 og 1959 hvað kjör bótaþega almannatrygginga snertir. En þá var viðurkennt af öllum flokkum, að kjörin væru orðin svo bág, að ekki yrði við unað lengur. Við teljum rétt að benda á þetta, benda á það, sem rétt er, að þar var gert myndarlegt átak hvað bótaþegana snertir hér á Alþ. 1960, en það er nú því miður allt runnið út í sand dýrtíðar og verðbólgu.

Ég skal taka það fram, að þó að myndarlegt átak hafi verið gert í þessu efni árið 1960, þá var ekki um neitt einstakt afrek að ræða, t.d. náðu bætur ekki eftir þessa hækkun því, sem gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndum um bætur almannatrygginga. En við vorum komnir mjög mikið aftur úr, bæði miðað við kjör bótaþeganna hér fyrr á árunum og einnig miðað við kjör bótaþega annars staðar á Norðurlöndum, komnir svo langt aftur úr árið 1959, að við það varð ekki unað lengur, og í dag stöndum við mjög í sömu sporum: Nú hefur dýrtíðin magnazt mjög mikið í haust og í vetur, og hún á eftir að aukast mikið enn, og kemur það m.a. fram í orðsendingu frá hæstv. ríkisstj. nú nýlega. Það skref, sem hæstv. ríkisstj. vill stíga nú með þessu frv., er allt of stutt. 15% hækkun er allt of lítil hækkun, eins og kjör bótaþeganna eru í dag. Þess vegna leggjum við fulltrúar Alþb. á það mikla áherzlu, að hér verði betur gert, að hækkunin verði höfð meiri en 15%.

Ég skal minna á, að síðan 1960 hefur tvívegis verið gerð hækkun á bótum almannatrygginga, það var á árunum 1961 og 1962 í fyrra skiptið nam þessi hækkun tæpum 14% og gilti frá 1. júlí 1961, og í síðara skiptið nam hækkunin aðeins 7% og gilti frá 1. júní 1962. En það er vert að gera sér grein fyrir einu atriði í sambandi við þessar hækkanir 1961 og 1962. 1961 hækkuðu allar bætur almannatrygginga um 13.8%. Ári síðar hækkuðu bætur almannatrygginga um 7%, en ekki nema nokkur hluti þeirra, aðeins örfáar tegundir bóta. Það var ellilífeyrir og örorkulífeyrir. Allar aðrar bætur almannatrygginganna voru látnar standa í stað og hækkuðu ekki. Á árinu 1963, þegar nýju lögin um almannatryggingar voru samþykkt, var ráðgerð hækkun bóta frá 1. jan. 1964, en eins og 1962 aðeins nokkur hluti bótanna, nokkrar tegundir bótanna, aðrar voru skildar eftir eða eiga að skiljast eftir. Aðferð hæstv. ríkisstj. í þessu efni er sú í apríl 1963 og í júní eða maí 1962 að hækka aðeins hluta bóta í hvort skipti, þannig að bætur hækka raunverulega ekki nema í annað hvort skipti, sem launahækkun hefur farið fram síðustu árin. Þetta virðist ekki vera drengileg aðferð hjá hæstv. ríkisstj., að hafa þannig af bótaþegum kjarabætur, sem þeir eiga a.m.k. siðferðilegan rétt á í samræmi við almenna launahækkun í landinu. Þeir fá launahækkunina í annað hvort skipti. Árið 1962 hækkaði sem sagt ellilífeyrir og örorkulífeyrir um 7%. Frá 1. jan. 1964 eiga þessar bætur ekki að hækka um einn eyri. Hins vegar eiga þær bótategundir, sem ekkert hækkuðu 1982, allra náðarsamlegast að fá að hækka frá 1. jan. 1964.

Ég veit ekki, hvort ber að líta á þessa aðferð hæstv. ríkisstj. sem eins konar herbragð í fjárhagslegum efnum. En ég verð að segja, að mér finnst herbragðið ekki fallegt, allra sízt þegar því er beitt gegn þeim, sem bágast eiga í landinu. Ef við miðum hækkanir, sem orðið hafa á bótum almannatrygginga 1961 og 1962, við dýrtíðina á sama tíma, þá hefur dýrtíðin vaxið á þessu tímabili a.m.k. um 30–40%, en bæturnar einungis um 15% á þessu tímabili. Og áfram heldur dýrtíðin að vaxa, eins og öllum kemur saman um að útlit er fyrir. Ég held þannig, að öll rök hnígi að því, að 15% hækkun nú sé mjög ónóg hækkun og mjög ranglát ráðstöfun af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Nú má um það deila, hvað bætur almannatrygginga eigi að vera háar, þannig að viðunandi þyki eða sæmandi, en vissa viðmiðun má þó hafa. Ég veit til, að í Danmörku og Svíþjóð þykir ekki hæfilegt, að ellilífeyrir og örorkulífeyrir sé lægri en svo, að samsvari 1/3 hluta almennra verkamannalauna. Ef við ættum að heimfæra þá reglu hér og miða við lífvænleg verkamannslaun á Íslandi í dag, þá ætti ellilífeyrir nú að vera 2700 kr. á mánuði, en ekki 1520, eins og hann er. Hann ætti að vera 2700 kr. á mánuði, en ekki 1748 kr., eins og hæstv. ríkisstj. ætlast til að hann verði, þegar 15% hækkunin verður samþykkt. Ef okkar till. um 40% hækkun yrði samþykkt, þá mundi ellilífeyrir og fullur örorkulífeyrir nema 2128 kr., og sem sagt vera eftir sem áður allmiklu lægri en sómasamlegt er talið í löndum eins og Danmörku og Svíþjóð. Við erum þess vegna mjög aftur úr um upphæð bóta almannatrygginga hér á Íslandi, og við þurfum ekki að óttast það, að við förum út í eitthvert óhóf, þótt veruleg hækkun sé á þeim gerð.

Hvernig stendur á, að hæstv. ríkisstj, hefur bundið sig við þessa tölu, 15% hækkun á bótum? Það hefur þó verið regla hennar, síðan hún varð til, að miða við starfslaun opinberra starfsmanna. Það gerði hæstv. ríkisstj. árið 1961 og árið 1962, og var það tekið fram í grg. þá fyrir hækkun bátanna, að hér væri miðað við þá hækkun, sem orðið hefði á launum opinberra starfsmanna. Hvers vegna heldur ekki hæstv. ríkisstj. sér að þessu sinni við sömu reglu? Ríkisstarfsmenn hafa á þessu ári fengið launahækkun, og hvers vegna er prósentan sem bótaþegum er nú ætluð, ekki miðuð við þá hækkun? Ég er hræddur um, að sú sanna skýring á því sé, að hækkunin hafi þótt of há, til þess að hægt væri að heimfæra hana upp á bótaþegana. Eins og kunnugt er, hækkuðu laun ríkisstarfsmanna á þessu ári um frá 20 og upp í 90%, eða að meðaltali um 45%, að því er talið er. Ef hæstv. ríkisstj. hefði verið sjálfri sér samkvæm og miðað hækkun bóta almannatrygginga við hækkun launa opinberra starfsmanna, átti sú hækkun nú að vera einhvers staðar á milli 20% og 90%, en ekki 15%. 45% hækkun hefði verið í fullu samræmi við hækkun launa opinberra starfsmanna. En hæstv. ríkisstj. þótti ekki rétt að miða við hækkun launa opinberra starfsmanna að þessu sinni, heldur miðar hún við aðra launahækkun, sem hefur orðið á árinu, hækkun almennra verkamannalauna. Það fannst hæstv. ríkisstj. hagfelldara að þessu sinni. Áreiðanlega hefur henni ekki fundizt það sanngjarnara, en henni þótti það hagfelldara.

Þetta tvennt, sem ég hef bent á í atferli hæstv. ríkisstj. gagnvart bótaþegum almannatrygginga, í fyrsta lagi að hækka bætur bótaþega aðeins í annað hvort skipti, sem almenn kauphækkun verður í landinu, og í öðru lagi þetta, að miða við launahækkun, eins og hún verður lægst á hverjum tíma, það er atferli, sem ég verð að víta.

Hæstv. félmrh. gerði tilraun til að gera grein fyrir ástæðunni fyrir því, að ekki var að þessu sinni miðað við launahækkun opinberra starfsmanna. Skýring hans virtist mér frekar óljós, og einkum fannst mér hún lítt sannfærandi, enda kom það fram síðar í ræðu hæstv. ráðh., að skýringin er önnur, skýringin er, eins og ég gat um áðan, fjárhagslegs eðlis. Hækkun bóta almannatrygginga um 40% nú vex hæstv. ríkisstj, í augum af fjárhagslegum ástæðum. Henni ofbýður að ætla þær háu upphæðir til bótaþeganna að þessu sinni. Þetta er skýringin. Hún er að spara með þessu. Hún er að spara með því að klípa af hækkun til bótaþeganna, þeirri hækkun, sem þeir raunverulega eiga kröfu á. Þetta er sjónarmið, sem ég get ekki tekið gilt. Hér hafa verið góðir tímar undanfarin ár, mikil árgæzka, mikil aflabrögð, góður markaður fyrir íslenzkar vörur erlendis. Hér eiga allir að geta haft nóg að bíta og brenna, og það er engin þörf á að níðast á nokkurri stétt manna, og allra sízt er ástæða til að níðast á gamalmennum, öryrkjum og einstæðingum. Ég kann ekki að nefna þá upphæð, sem það mundi kosta að hækka bætur nú um 40%, en það mætti nefna mér hundrað millj., 200 millj., án þess að mér blöskri. Ég teldi því fé þvert á móti mjög vel varið. En það er líklega sama, ef að vanda lætur, hvort eytt er fáum orðum eða mörgum hér í ræðustól. Hæstv. ríkisstj. situr áreiðanlega við sinn keip að hafa af bótaþegum nú eins og stundum áður í seinni tíð, en ég kalla það að hafa af bótaþegum að veita þeim ekki meiri hækkun nú en 15% .

Mig langar, áður en ég lýk máli mínu, aðeins að minnast á annað atriði, sem ekki snertir þetta stjórnarfrv. beint, en snertir það frv., sem við fulltrúar Alþb. hér í hv. d. lögðum fram í haust, þ.e.a.s. spurninguna um verðtryggingu bóta almannatrygginga. Við höfum hvað eftir annað á undanförnum þingum lagt það til hér, að bætur almannatrygginga yrðu verðtryggðar, yrðu vísitölutryggðar. Það hefur ævinlega fengið neikvæðar undirtektir. Hæstv. ríkisstj. og hennar lið hafa virzt hafa ofnæmi fyrir öllu, sem heitir verðtrygging eða vísitölutrygging, hin síðari ár. Ég hef hvað eftir annað bent á, að verðtrygging bóta almannatrygginga er allt annar hlutur en verðtrygging kaupgjalds. En hvorki hv. stjórnarliðar né heldur hv. framsóknarmenn hafa viljað fallast á þessi sjónarmið. Ég tel það mjög mikilsvert fyrir bótaþegana að fá slíka verðtryggingu, og ég tel það líka hagræði fyrir hið háa Alþingi og fyrir hæstv. ríkisstj. að fá slíka verðtryggingu, þannig að ekki þurfi æ ofan í æ að vera að koma með lagabreytingu til hækkunar bótanna. En nú langar mig til þess að beina því til hæstv. félmrh., hvort hæstv. ríkisstj. muni nokkuð hafa breytt um afstöðu til þessa máls í seinni tíð. Ég las það í stjórnarblaði nýlega, í fyrradag eða svo, að ríkisstj. hefði lýst því yfir, að hún væri reiðubúin til viðræðna um breytingar á þeim lagaákvæðum, er banna verðtryggingu kaupgjalds, og telur hugsanlegt að taka upp takmarkaða verðtryggingu. Þetta þóttu mér góðar fréttir í því góða blaði. Það er gott, hvort sem það er ríkisstj. eða aðrir, þegar menn læra af reynslunni.

Nú vildi ég mega spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hæstv, ríkisstj., fyrst hún er farin að geta hugsað sér þann möguleika að verðtryggja kaup launþeganna, geti nú ekki hugsað sér að verðtryggja bætur bótaþega almannatrygginga. Ég mundi fagna því mjög, ef hæstv. ráðh. gætu gefið mér jákvætt svar við þessu, og ég mundi hrósa hæstv. ríkisstj. fyrir. En ég mundi líka verða fyrir miklum vonbrigðum, ef hæstv. ríkisstj. segði sem svo: Við viljum gjarnan verðtryggja kaupgjaldið í landinu, en alls ekki bætur bótaþega almannatrygginga.