05.12.1963
Efri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal aðeins segja örfá orð um þetta frv. við þessa umr. málsins. Eins og hæstv. félmrh. tók fram í framsöguræðu sinni hér áðan, er efni þessa frv. tiltölulega einfalt, þar sem í því felst, að bætur samkv. l. um almannatryggingar skuli almennt greiddar með 15% uppbót frá 1. júlí s.l. Það felst þannig í þessu frv. talsverð hækkun á bótum samkv. almannatryggingunum. Það er óefað mikil þörf á þeirri hækkun. Ég býst ekki við því, að það séu skiptar skoðanir um það hjá nefnum, að það sé mjög brýn þörf hjá bótaþegum fyrir þá hækkun, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, bæði ellilífeyrisþegum og öðrum. Um hitt eru aftur á móti skiptar skoðanir, hvort hér sé nægilega langt gengið og hvort það sé eftir samþykkt þessa frv. haldið í horfinu að því er snertir stöðu ellilífeyrisþega gagnvart öðrum þjóðfélagsþegnum, gagnvart öðrum launþegum sérstaklega. En hvað sem um það er, þá er það ljóst, eins og ég sagði áðan, að hér er um þó nokkra hækkun á bótum að ræða og því er þar um að ræða nokkra réttarbót fyrir þá, sem bætur taka samkv. almannatryggingakerfinu.

Við framsóknarmenn erum sammála því, að það sé þörf á að bæta aðstöðu bótaþeganna, og munum að sjálfsögðu fylgja þessu frv., svo langt sem það nær. Framsóknarmenn hafa á undanförnum árum og raunar allt frá upphafi, að almannatryggingalögin voru sett, verið fylgjandi þeim till., sem fram hafa komið og hafa í sér haft fólgnar raunhæfar umbætur á tryggingakerfinu, og í samræmi við þá afstöðu munu framsóknarmenn að sjálfsögðu fylgja þeirri réttarbót, sem þó felst út af fyrir sig í þessu frv. En hitt er svo aftur annað mál, hvort hér er nógu langt gengið, eins og ég drap á áðan, en mér virðist, að breytingar á tryggingalöggjöfinni verði að miða að því a. m. k., eða með þeim verði a. m. k. reynt að tryggja það, að hagur bótaþeganna versni ekki, en tek þó fram, að ég álít það í sjálfu sér skammt gengið, vegna þess að markmiðið hlýtur að vera það að byggja þetta tryggingakerfi út, þannig að bætur samkv. því fari vaxandi, en ekki minnkandi, og að ellilaun og örorkulífeyrir samkv. þessu kerfi fari hækkandi, en ekki lækkandi, þannig að staða ellilífeyrisþega, örorkulífeyrisþega og annarra bótaþega fari batnandi fremur en hitt í hlutfalli við aðra þjóðfélagsþegna. Og í því sambandi verður auðvitað einnig að hafa hliðsjón af því, hvernig málum þessum er skipað hjá okkar nágrannaþjóðum, því að við ættum ekki í þessum efnum að setja markið lægra en gerist hjá þeim þjóðum. Við viljum telja okkur menningarþjóð, og við færum okkur það stundum fram til gildis, að okkar félagsmálalöggjöf sé nokkuð langt á veg komin, og við ættum þess vegna að setja okkur það mark að vera í því efni ekki eftirbátar nágrannaþjóðanna, enda er það svo, að vegna sögu okkar einmitt að því er félagsmálalöggjöf snertir ættum við að setja stolt okkar í það að ganga þar heldur á undan öðrum þjóðum en vera þar á eftir. En eins og kunnugt er, tóku íslendingar upp, sennilega fyrstir allra þjóða, á þjóðveldisöld einmitt merkilega félagsmálalöggjöf, en út í það skal ég nú ekki fara hér.

En ég álít sem sagt, að þegar þetta frv. er skoðað og það metið, hvort þær bætur, sem það gerir ráð fyrir, séu fullnægjandi eða ekki, verði að hafa þetta sjónarmið í huga, sem ég drap á áðan, að hagur þessara manna, sem þeirra hlunninda eiga að njóta, sem tryggingakerfið veitir, verði ekki lakari en áður var, heldur þvert á móti sé stefnt í þá átt að bæta aðstöðu þeirra, eftir því sem efni og geta þjóðfélagsins frekast leyfir. Og það verður náttúrlega hlutverk þeirrar nefndar, sem þetta frv. fær til meðferðar, að skoða það, hvernig þessu marki er nú náð í þessu frv., en eins og fram hefur komið við umr. þessa máls í Nd., hafa þar verið færð fram, að því er mér virðist, allveigamikil rök fyrir því, að nokkuð skorti á í þessu efni og bæturnar þyrftu að hækka raunverulega allmiklu meir en hér er gert ráð fyrir, til þess að því marki, sem ég áðan nefndi, væri náð. En ég skal á þessu stigi ekki fara nánar út í það. Ég vil eftirláta nefndinni að athuga það, og munu þá fulltrúar Framsfl. í n. flytja brtt. um hækkun á bótunum, ef athugun frv. leiðir til þess, að það sé þörf á því til þess að ná þessu markmiði, sem ég nefndi áðan.

Það er rétt, að tryggingabætur, bætur samkvæmt almannatryggingunum, hafa verið hækkaðar í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Ég hef enga löngun til þess að hafa það af henni. Hún má gjarnan fá allt, sem henni má til inntekta teljast. Hins vegar er það svo, og verður þá jafnframt að minna á það og er sjálfsagt fyrir hana að viðurkenna það einnig, að hún hefur ekki átt við neina andstöðu að etja í því efni. Stjórnarandstæðingar hafa léð þeim till. til breytinga á kerfinu, sem til bóta hafa horft, sitt fylgi og sitt atkv., þannig að það hefur ekki kostað hæstv. ríkisstj. neina baráttu að koma fram þeim umbótum í þessu efni, sem hún telur sér nú einatt mjög til gildis, en hins vegar hafa stjórnarandstæðingar oft viljað ganga nokkru lengra en stjórnin í því efni. Og sannleikurinn er því miður sá, að þó að bætur hafi verið talsvert hækkaðar á þessu tímabili, hefur hin vaxandi dýrtíð étið þær upp jafnóðum, og þó í sumum tilfellum, að því er virðist, meira en étið þær upp. Hef ég í huga í því sambandi það dæmi, sem nefnt var í umr. í Nd. um daggjöld eða kostnað við dvöl á elliheimilum. En það virðist svo, að þá, sem þar dveljast og þurfa að greiða sín daggjöld þar, vanti æði mikið upp á, að hækkun trygginganna hafi nægt til þess að mæta þeirri hækkun. En vitaskuld dveljast ekki allir þeir, sem þessara bóta njóta, á slíkum stofnunum.

Ég held, að dýrtíðin hafi vaxið það mikið að undanförnu, að því miður muni þessi hækkun bótanna alls ekki nægja til þess að vega þar upp á móti og til þess að tryggja sömu stöðu bótaþega og áður En ég játa hins vegar, að það verður á fleira að líta í þessu efni. Það verður að líta á getu þjóðfélagsins, og þetta tryggingakerfi, sem við búum núna við, er byggt á því og hefur verið byggt á því frá því 1946, að það væri jafnað niður árlega þeim útgjöldum, sem til trygginganna ganga, þ.e.a.s. að þetta tryggingakerfi, eins og það nú er, er byggt á niðurjöfnunarsjóði, en ekki sjóðasöfnunarsjónarmiði, eins og tryggingakerfið var þó í öndverðu byggt á. Ég skal fúslega játa, að eins og aðstæður hafa verið í þessu þjóðfélagi á undanförnum árum, þá hefði verið erfitt og ég býst við því, að það megi segja, að það hefði verið alveg ómögulegt að komast hjá þessu niðurjöfnunarkerfi í tryggingunum. En ég býst við því, að það verði erfitt samt að ná eftir þessu niðurjöfnunarkerfi því marki, sem við þurfum að ná í þessum efnum. Ég býst við, að með því kerfi verði þessir bótaþegar, t.d. ellilífeyrisþegarnir, seint svo settir sem þeir þyrftu að verða. Ég held þess vegna, að það þurfi í þessum efnum í framtíðinni að fara tvenns konar leiðir, að við eigum að halda þessu almenna kerfi, og við þetta verður að búa, þetta niðurjöfnunarsjónarmið, a.m.k. fyrst um sinn og um ófyrirsjáanlegan tíma, eins og er, en ég álít, að jafnframt sé til viðbótar mikil nauðsyn að byggja þetta kerfi út með viðbótarsjóðum, þar sem menn tryggja sér viðbótarlífeyri í lífeyrissjóðum, og það er vissulega þegar farið mjög mikið inn á þetta kerfi, þar sem hinir mörgu sérstöku lífeyrissjóðir eru nú orðnir viðaukalífeyrissjóðir við hið almenna tryggingakerfi, svo sem verður nú eftir næstu áramót, að því er varðar lífeyrissjóð opinberra starfsmanna og hliðstæða lífeyrissjóði honum og eins og verið hefur um lífeyrissjóð togarasjómanna og undirmanna á farskipum og ýmsa fleiri lífeyrissjóði.

Ég hygg, að það megi segja um þá, sem njóta lífeyris úr þessum sérstöku lífeyrissjóðum og fá svo til viðbótar þær bætur, sem greiddar eru samkv. hinu almenna tryggingakerfi, að aðstaða þeirra sé orðin mjög viðunandi, ég fæ ekki betur séð. En þessi skipan gerir það líka að verkum, að aðstaða manna í þjóðfélaginu verður mjög misjöfn að þessu leyti eftir því, hvort þeir eru í þessum sérstöku viðbótarlífeyrissjóðum eða ekki. Þess vegna held ég, að í þessum efnum verði að stefna að því að gera hina sérstöku lífeyrissjóði sem mest að almennum lífeyrissjóði fyrir landsmenn til viðbótar hinu almenna tryggingakerfi, sem nú er búið við, þannig að sem allra flestir landsmenn gætu notið þeirrar aðstöðu, sem mjög margir nú njóta með því að taka bætur samkv. almannatryggingalögunum og svo þar til viðbótar lífeyri úr sérstökum lífeyrissjóði. En undir þeim viðbótarlífeyri standa lífeyrisþegarnir sjálfir að verulegu leyti með því að greiða iðgjöld og safna í sjóði. En sú leið hefur líka aðra kosti, sem ég skal þó ekki fara mjög að ræða í þessu sambandi. En það er öllum kunnugt, að sjóðasöfnunin í sambandi við hina sérstöku lífeyrissjóði hefur skapað þeim mönnum, sem í þeim eru, mikil hlunnindi með þeim hætti, að þeir hafa fengið lán til húsbygginga, og ég held, að slík sjóðasöfnun geti verið mjög gagnleg fyrir þjóðfélagið í heild og fyrir þá, sem bætur eiga að taka. Ég drep aðeins á þetta í þessu sambandi, ekki af því, að það sé beint til umr. í sambandi við þetta mál, heldur af hinu, að mér sýnist og ég get búizt við því, að það verði niðurstaðan, þegar mál þetta er athugað, að bætur þær, sem hér er gert ráð fyrir, séu ekki fullnægjandi. En þá verður að reyna að finna þá skynsamlegustu leið, sem fær er, til að bæta um í því efni, og þá má vera, að það verði ekki greið leið, eins og nú standa sakir, að hækka bæturnar svo sem þyrfti með því að jafna þeim niður í samræmi við lögin um almannatryggingar. En þá held ég, að þetta hljóti að verða sú leið, sem kemur til athugunar, þegar rétta á hlut þessara manna, gamla fólksins og annarra lífeyrisþega samkv. þessum lögum, þ. e. að efla hið sérstaka lífeyrissjóðakerfi og setja það til viðbótar þessu almenna lífeyristryggingakerfi.

Herra forseti. Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Eins og ég áðan sagði, munum við framsóknarmenn fylgja þeirri hækkun, sem í þessu frv. felst, svo langt sem hún gengur, þ6 að ég líti svo á, að hún þyrfti að vera hærri. Það verður athugað í n. Og ég vil jafnframt segja það, að við munum reyna að greiða fyrir afgreiðslu þessa máls svo sem kostur er, svo að það þurfi ekki að verða töf á afgreiðslu þessara bóta af þeim sökum, að málið tefjist hér í þinginu.