23.01.1964
Neðri deild: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

110. mál, sjúkrahúsalög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra þann áhuga, sem fram hefur komið á framgangi þessara mála í ræðu hv. 5. þm. Reykv. (ÞÞ). Ég held, að við græðum engir á því að fara að taka upp deilur um fortíðina, hverjum það sé að kenna, að betur hafi ekki til tekizt en nú er. Við þekkjum svo mörg dæmi þess, að jafnvel þó að samþykktar hafi verið heimildir til lántöku til þessara eða annarra framkvæmda, hefur það í mörgum tilfellum ekki flýtt framkvæmdunum, og sannleikurinn hefur verið sá, að við höfum allír svo mörg undanfarin ár verið að flýta okkur að gera svo margt, að það hefur ekki orðið gert allt og enginn hefur viljað til slaka með neitt.

Ég sagði í ræðu minni, að ef á að ganga sæmilega með úrlausn þessara mála á næstunni, verður eitthvað annað að víkja, sem minni þýðingu hefur, og ég vildi mega vonast til þess að fá góðan stuðning í því máli frá hv. 5. þm. Reykv., svo sem öllum öðrum þm. Þetta eru hlutir,. sem við þurfum að meta og gera upp við okkur. Hitt veit ég og þykir vænt um að hugsa til, að þessi mál eru þó kannske nokkuð hafin yfir ýmis önnur mál að því leyti, að um það höfum við ekki hér í þinginu þurft að hafa miklar pólitískar deilur, allra sízt af flokkslegum ástæðum.

Ég skal svara þeim fsp., sem beint var til mín varðandi framgang þeirra bygginga, sem nú eru í smíðum, og það er fyrst borgarsjúkrahúsið í Fossvogi. Það er kallað fyrsti áfangi að ljúka að verulegu leyti við þann hluta sjúkrahússins, sem nú er í byggingu, og steypa upp kjallara þeirrar álmu, sem enn er ekki hafi smíði á, svo að hægt verði að taka þennan hluta sjúkrahússins í notkun fyrir 1965. Þá er gert ráð fyrir, að það verði unnið að þessu með þeim hraða og með þeim fjárveitingum eins og ég sagði áðan. Ég geri ráð fyrir, só fyrir þessu sé séð og þetta ætti að vera hægt að taka í notkun fyrir 1965, þar með 185 sjúkrarúm, og annar áfangi að ljúka að fullu smíði þess hluta sjúkrahússins, sem nú er í byggingu, fyrir árslok 1966, m.ö.o., að því, sem er nú í smíðum, verði lokið að öllu leyti fyrir árslok 1966, fyrir árslok 1965 með 185 sjúkrarúmum og svo til viðbótar á árinu 1966, en þá mundu ekki bætast við nema 35 sjúkrarúm. Það er ýmislegt annað í sambandi við bygginguna, sem yrði unnið að á því ári. Það yrðu þó Þarna 220 sjúkrarúm, sem við getum gert ráð fyrir með þeim fjáröflunum og fjárráðum, sem ég hygg að fyrir liggi og verði á næsta ári, nema einhverjar alveg óvæntar stöðvanir komi upp á teningnum hjá Reykjavíkurbæ annars vegar og væntanlegum framlögum hjá ríkinu.

Varðandi byggingarnar á landsspítalalóðinni, sem núna eru, í byggingu, er gert ráð fyrir, að á þessu ári verði lokið því, sem ég kallaði tengiálmuna við gamla húsið og það nýja, og svokallaðri vesturálmu, en það eru fjórar sjúkradeildir. Svar þessara deilda í vesturálmunni eru ætlaðar börnum eingöngu, barnaspítali Hringsins, og eru þar 30 rúm í hvorri deild, í hinum tveimur 24 sjúklingar í hvorri deild, og þessum byggingum að viðbættri svo austurálmunni ætti að verða lokið — ja, ég mundi segja, með þeim fjárráðum, sem núna eru fyrir hendi, ef allra bezt lætur, í árslok 1965, en allavega á árinu 1966, held ég, að sé óhætt að segja örugglega. Og fyrir þessu er séð með fullum hraða á framkvæmd þessara mála, eins miklum og við getum haft vegna vinnuafls og annarrar aðstöðu. Fjárhæðirnar við þessar framkvæmdir eru hérna fyrir hendi, nema eins og ég sagði, að það stendur nú þannig á, að það er t.d. ekki talið, að hægt yrði að taka austurálmuna með góðum árangri í notkun, nema búið væri um leið að byggja þetta mikla eldhús, sem ég var að tala um áðan, og matsal fyrir starfsfólkið, sem ætti þá líka að fullnægja geðsjúkdómadeild, sem talað er um að reyna að byggja á þessum sama tíma. Um það get ég auðvitað ekki sagt, hvort það lánast, en ég vil aðeins taka það fram, að ég mun í fyrramálið eiga viðræður um framkvæmdaáætlun og fjáröflunaráætlun á sviði þessara mála, og það er einmitt í sambandi við endurskoðun, sem fer fram á framkvæmdaáætlun og fjáröflunaráætlun ríkisstj. í heild fyrir árið 1964. Ég mun — og segi það að gefnu tilefni frá hv. 5. þm. Reykv. — að sjálfsögðu leggja á það megináherslu innan ríkisstj., að ef til þarf að taka, komi ekki nein frestun til framkvæmda á sviði þessara mála, Ég tel þau svo aðkallandi. En um það get ég ekki fullyrt í dag. Ég vil reyna að gera þær áætlanir, sem ég tel eðlilegastar, í samráði við hæfustu menn, þannig að það verði ekki um villzt, hver þörfin er og hver áherzla er lögð á þetta af hálfu heilbrmrn., þegar endurskoðun framkvæmdaáætlunarinnar innan ríkisstj, og fjárfestingaráætlunarinnar fer fram, sem verður væntanlega á næstunni eða upp úr þessum mánaðamótum.

Ég vona, að þetta nægi að sinni, en eins og ég sagði, þó að ég hafi viljað reyna að gefa þingheimi nokkurt yfirlít yfir gang þessara mála, er það hvergi nærri tæmandi, og ég vona, að á síðara stigi málsins gefist mér kostur á að gera hv. þingheimi betri grein fyrir því, hvað fram undan er og hvað er þá raunhæft, að við getum gert og nauðsynlega og óhjákvæmilega þurfum að gera í nánustu framtíð.