23.01.1964
Neðri deild: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

110. mál, sjúkrahúsalög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að mér er mjög kærkomin sérhver gagnrýni í sambandi við þetta frv. og þessi mál, sem borin er fram af samúð og góðhug í þessu máli, og ég efast ekkert um, að hann sé fyrir hendi hjá hv. þm., sem hér hafa talað, og öðrum hv. þm.

Varðandi fsp. hv. 5. þm. Vestf. vil ég segja þetta: Að mínum dómi er ekki með þessu frv. gengið á rétt neinna þeirra, sem fyrir eru, utan þess, sem nú skal greina, að eftir eldri lögum var til minni spítala úti á landi byggingarstyrkur ríkisins 2/3, þ.e.a.s. 67%, en þá var byggingarstyrkur til stærri spítalanna í kaupstöðunum 2/5, eða 40%. Þetta fannst mér alveg óeðlilegt bil. En til fjórðungssjúkrahúsanna var byggingarstyrkurinn 3/5 eða 60%. En hérna er gert ráð fyrir, að hann sé alls staðar 3/5 eða 60%. Má segja, að þarna sé eilítil skerðing á þessum 7% til spítalanna utan fjórðungsspítalanna og í kaupstöðunum, en ég held, að það komi ekki mikið að sök. Það var til þess að gera engan mismun á flokkuninni þarna, að miða þetta við 3/5, að mestu leyti eins og þetta hefur orðið í framkvæmd. Það er t.d. ekki heppilegt, ég held, að það hafi verið í tíð þessa hv. þm. sem heilbrmrh., að fjórðungssjúkrahús var ákveðið á Norðfirði, — ekki rétt? — því að ákvæðin um það voru þannig í eldri lögum, að ráðh. gat ákvarðað það, en í raun og veru við að ákvarða það sem fjórðungssjúkrahús var meint, að það ætti að vera öflugra, en í raun og veru, að svo miklu leyti sem byggingarkostnaður var ógreiddur, lækkaði byggingarstyrkurinn frá ríkinu úr 67% niður í 60%. (Gripið fram í.) Já, til kaupstaða var það 40, svo að þetta er eitt af því, sem ég held að sé til bóta, að koma þessu í þetta samræmda horf. Ég er ekki með þessu að álíta, að sá fyrrv. hæstv. heilbrmrh. ætlaði að misgera neitt, siður en svo, við þetta sjúkrahús. Ég nefni aðeins annmarkana, sem á löggjöfinni sjálfri voru.

En varðandi hins vegar rekstrarstyrkina, þá er auðvitað eðlilegt, að fram komi gagnrýni á því og menn efist kannske um, að þessi flokkun, sem gerð sé ráð fyrir í 4. gr., sé heppileg, og einnig þá spurt, hvort það mundi rýra aðstöðu einhverra sjúkrahúsa, og það hygg ég ekki vera, að svo sé í framkvæmd, og a.m.k. mun ég beita mér fyrir því í sambandi við setningu reglugerða á grundvelli þeirrar gr., að svo verði ekki. En ég víl taka fram eftirfarandi, sem ég legg áherzlu á: Eins og nú standa sakir, hefur Alþingi ákveðið í fjárl. rekstrarstyrkina að ákveðnu marki, og það liggur nú fyrir að úthluta þessum rekstrarstyrkjum, og ef þetta frv. yrði að lögum, eru engin ákvæði um það í lögum, hvernig þeir skuli vera, og þá verður heilbrmrh. að setja reglugerð um skiptinguna á þessum styrkjum, og að þessu sinni mundi heilbrmrh, setja þessa reglugerð í samráði við sína aðstoðarmenn og sérfræðinga. En ég vék að því í minni fyrri ræðu, að ég hugsa mér, að í framkvæmdinni sé þetta þannig, að raunverulegar till. um reglugerðina séu fyrir hendi, þegar Alþingi kemur saman, þær verði gerðar við samningu fjárl., lagðar fyrir fjmrh., komi til fjvn. og þess vegna sé að vissu leyti Alþ., sem setur reglugerðina, — þ.e.a.s. að undir meðferð málsins í fjvn. gefist heilbrmrh, kostur á því að heyra aths. úr öllum fjórðungum landsins, sem fram kunna að koma við till., sem þarna eru um væntanlega reglugerð, og tæki þá að sjálfsögðu tillit til þess, sem er af sanngirni og réttsýni fram borið, og reglugerðin verði svo gefin út, þegar hverju sinni hefur verið fjallað um þessi mál undir meðferð fjárl. Þetta held ég að sé nokkuð til bóta og það geti vel verið, að í sumum einstökum tilfellum fallist menn á það og séu sammála um það að hnika eitthvað til í flokkaskipun vegna sérstakra erfiðleika eða séraðstöðu, skulum við segja, einhverra fámennra byggðarlaga og það komi fram sjónarmið um það undir meðferð málsins í þinginu og heilbrmrh. geti haft það til hliðsjónar, þegar reglugerðin er sett. Þess vegna held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að þetta frv. á á engan hátt að skerða rétt nokkurs varðandi rekstrarstyrkina, en ég vona hins vegar, að það geti orðið lífrænni meðferð og afgreiðsla þeirra mála en áður og að því leyti til bóta.