28.04.1964
Neðri deild: 85. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

110. mál, sjúkrahúsalög

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þegar frv. þetta um breyt. á sjúkrahúsalögum var til 1. umr. hér í hv. d., fylgdi heilbrmrh. því úr hlaði með ýtarlegri ræðu og gaf þá jafnframt mjög greinagott og fróðlegt yfirlit um sjúkrahúsamál í landinu og fjárþörf til þeirra framkvæmda, sem í hefur verið ráðizt og nauðsynlegt er að hefja eða halda áfram á næstu árum.

Heilbr: og félmn. hefur haft þetta frv. til athugunar, og hefur hún orðið sammála um afgreiðslu þess með þeim breyt., sem hér liggja fyrir á þskj. 494. Aðalbreytingin á 10. gr. sjúkrahúsal. er sú, að ríkisstyrkur til byggingar allra þeirra sjúkrahúsa, sem styrks njóta, verði hinn sami hvar á landinu sem er. En í núgildandi sjúkrahúsalögum er ríkisstyrkur til sjúkrahúsa í kaupstöðum 2/5 og í öðrum sveitarfélögum 2/3 hlutar byggingarkostnaðar. Þó er heimilt að greiða 3/5 af byggingarkostnaði sjúkrahúsa, sem ráðh. viðurkennir sem fjórðungssjúkrahús, eitt í hverjum landsfjórðungi. En með þessu frv. er lagt til, að byggingarstyrkur til sjúkrahúsa verði 3/5 eða 60% til allra sjúkrahúsa jafnt, hvar á landinu sem er. Styrkur ríkissjóðs til sveitarfélaga við að reisa héraðslæknisbústaði verður óbreyttur, eða 2/3 af byggingarkostnaði.

Heilbr: og félmn. flytur þá brtt. við 2. gr. frv. að heimila ráðh, að greiða 3/5 eða 60% af kostnaði við að reisa yfirlæknisbústaði við sjúkrahús í fámennari byggðarlögum, ef það er nauðsynlegt til að tryggja nauðsynlega læknisþjónustu. Því miður er svo komið, að erfitt er að fá almenna lækna til að setjast að úti á landi, hvað þá heldur að fá sérmenntaða lækna. Það er skoðun n., að nauðsynlegt sé að búa vel að sjúkrahúsum úti á landi og þá alveg sérstaklega stuðla að því, að fullkomið sjúkrahús sé til í hverjum landsfjórðungi, sem hafi góðum læknum á að skipa, sérfræðingi hverjum á sínu sviði. Til þess að stuðla að því, verður ekki hjá því komizt, að stærstu sjúkrahúsin í þeim landsfjórðungum, sem verst eru settir með að fá lækna, byggi íbúðarhús fyrir yfirlækna sína, og ætti það að verða einn mikilvægur þáttur í því að gera auðveldara að fá sérmenntaða lækna til að starfa við þau sjúkrahús.

Þá flytur n. aðra brtt. við 2. gr. frv., þar sem skýrar er kveðið á um það, hvað skuli telja með í byggingarkostnaði sjúkrahúsa, þegar framlag ríkissjóðs er ákveðið, en gert var í frv., eins og það lá hér fyrir.

3. gr. þessa frv. er nýmæli í sjúkrahúsal., þess efnis, að það skilyrði er sett fyrir framlagi ríkissjóðs til sjúkrahúsa sveitarfélaga og byggingar héraðslæknisbústaða, að allur undirbúningur slíkra bygginga fari fram í samráði við ráðh. þann, er fer með heilbrigðismál, og landlækni, og jafnframt, að kostnaðaráætlun og fullnaðarteikningar af mannvirkjunum hafi fengið samþykki húsameistara ríkisins. — Þá er einnig í þessari sömu gr. ákvæði um, að ekki sé heimilt að hefja framkvæmdir, fyrr en Alþ. hefur ákveðið fyrstu fjárveitingu, og jafnframt er sú skylda lögð á ríkissjóð að hafa lokið greiðslu á framlögum sínum til hverrar framkvæmdar innan 5 ára til sjúkrahúsa, sem vista ekki yfir 20 sjúklinga, svo og til héraðslæknisbústaða, og innan 8 ára til stærri sjúkrahúsa. Með þessu er leitazt við að koma í veg fyrir, að byrjað sé á sjúkrahúsbyggingum og héraðslæknisbústöðum, án þess að fé hafi áður verið veitt til þeirra á fjárl. Einnig er tryggt að hraða greiðslu á framlögum, eftir að ákvarðanir um framkvæmdir hafa verið teknar, og ætti það að verða til þess, að byggingarhamkvæmdir taki ekki óeðlilega langan tíma.

4. gr. frv. fjallar um rekstrarstyrki til sjúkrahúsa. Það hefur ekki þótt fært, að þeir sjúku eða sjúkratryggingar standi einar undir rekstrarkostnaði sjúkrahúsa með daggjaldagreiðslum, heldur hefur þessum kostnaði verið skipt á milli sjúkratrygginga, ríkis og sveitarfélaga þeirra, er sjúkrahús eiga og reka. Í þessu sambandi er rétt til fróðleiks fyrir alþm. að minna á það, að þegar landsspítalinn tók til starfa 1931, var daggjaldið þar ákveðið 6 kr., sem þeir sjúku urðu að greiða, en kostnaður á legudag reyndist hins vegar 8.42 kr. M.ö.o., mismunur, sem þarna var á, var greiddur á fjárl. hverju sinni, og það hefur haldizt síðan í æ ríkari mæli, að öðru leyti en því, að tiltölulega hefur ríkið greitt á seinni árum miklu meira af rekstrarkostnaði landsspítalans sem og annarra ríkissjúkrahúsa og hæla. Það er rétt að geta þess, að daggjald landsspítalans var óbreytt frá 1931—1938, 6 kr. á dag, en 1940 er það komið í kr. 7.50 og 1950 í 35 kr. 1960 er það orðið 120 kr. og nú frá 1. jan. 1964 er daggjaldið ákveðið 300 kr., en síðari helming ársins 1963 var það 210 kr., en kostnaðurinn á legudag á landsspítalanum reyndist árið á undan, 1962, vera 466.47 kr. Sá háttur hefur verið hafður á, þegar daggjöld hafa verið ákveðin á ríkisspítölunum, að þá hafa þau daggjöld verið látin ráða ferðinni hvað snerti daggjöld annarra sjúkrahúsa í landinu, og þegar daggjöldum hefur verið haldið óeðlilega mikið niðri, hefur það leitt til þess, að hvað snertir sjúkrahús ríkisins hefur aukinn halli verið greiddur á fjárl., en aftur hvað snertir sjúkrahús bæjar- og sveitarfélaga hefur aukinn halli komið niður á bæjarfélögunum sjálfum. Ég hygg, að það hafi ekki verið tekið stærra stökk nú um langan tíma, eins og ég gæti auðveldlega sannað í sambandi við daggjaldagreiðslurnar, en tekið var nú um síðustu áramót, og með því fengu hin almennu sjúkrahús í landinu mjög mikla leiðréttingu sinna mála, þegar daggjaldið hækkaði frá 1. júli 1963 úr 210 kr. í 300 kr. frá 1.jan. 1964. Sá háttur hefur verið hafður á í sambandi við greiðslur ríkissjóðs til sjúkrahúsa sveitarfélaga, að greiðalur til þeirra hafa verið ákveðnar að krónutölu í lögum, og hefur þá styrkur verið miðaður við stærð og búnað sjúkrahússins annars vegar, en hins vegar við legudagafjölda sjúklinga á sjúkrahúsinu. Og með l. 1953 var ákveðinn 5 kr. ríkisstyrkur til sjúkrahúsa, sem voru með 20 sjúkrarúm eða færri, en 10 kr. á legudag til sjúkrahúsa með meira en 20 sjúkrarúm eða allt að 100 sjúkrarúmum og til stærstu sjúkrahúsa með yfir 100 sjúkrarúm 20 kr. Sú breyting hefur orðið á þessu, að 1958 er þetta hækkað með 1., 5 kr. gjaldið í 10 kr., 10 kr. gjaldið í 15 kr. og 20 kr. gjaldið í 25 kr., og 1960 falla fjórðungssjúkrahúsin undir 25 kr. gjaldið, og hefur þetta síðan verið óbreytt að krónutölu. En nú er

tekið upp það nýmæli í þessu frv., sem heilbrmrh. lagði hér fyrir, að hverfa frá því að ákveða ríkisstyrkina í lögum að krónutölu, heldur taka upp að ákveða styrkhæðina í reglugerð hverju sinni.

Ríkissjóður hefur árlega greitt sinn styrk til sjúkrahúsanna eftir á, og það átti einnig að verða samkv. þessu frv., en í brtt. heilbr.- og félmn. leggur hún til, að 1. mgr. 4. gr. orðist svo: „Úr ríkissjóði greiðist sérstakur styrkur vegna rekstrarhalla sjúkrahúsa sveitarfélaga. Styrkurinn skal greiddur hálfsárslega eftir á, og skal síðari greiðslan innt af hendi, þegar sjúkrahús hefur skilað tilskildum ársskýrslum um reksturinn ásamt rekstrarreikningi, sem gerður skal úr garði samkv. fyrirmælum heilbrigðisstjórnarinnar.“

Um allar þessar brtt. hefur verið haft fullt samráð og samkomulag við heilbrmrh., ráðuneytisstjóra og landlækni, og hefur heilbrmrh. fallizt á þessar brtt. allar fyrir sitt leyti. En í sambandi við síðustu brtt. n., um greiðslu rekstrarhalla sjúkrahúsa, hafði ég fyrir hönd n. samráð við fjmrh. um þó till., og féllst hann á till. fyrir sitt leyti, svo að það má segja, að þessar brtt. njóti stuðnings bæði heilbrmrh. og fjmrh., sú hlið þeirra mála, sem undir hann heyrir, en með þeirri brtt., ef samþykkt verður, greiðir ríkið ríkisstyrk í raun og veru fyrir 18 mánuði á þessu ári, er síðan verður suðvitað 12 mánuðir, eins og hefur alltaf áður verið.

Á árinu 1962 fengu 23 sjúkrahús og sjúkraskýli sveitarfélaga rekstrarstyrki. Eins og þm. sjá á þeim upplýsingum, sem við prentum hér með nál. um yfirlit yfir rekstrarafkomu nokkurra sjúkrahúsa á árinu 1962, er halli á sjúkrahúsum sveitarfélaga orðinn mjög mikill og fór versnandi á árinu 1963, en með hækkuðum ríkisstyrk og með stórhækkuðu daggjaldi ætti að verða ráðin á þessu mjög veruleg bót.

Ég held, að ég hafi nú lýst þessum brtt. n., og n, stendur einhuga að þeim. Skal ég þá ekki fjölyrða meira um þetta nál., en vil þó segja að lokum, að þetta frv. felur tvímælalaust í sér verulegar umbætur á sjúkrahúsal., en með því er tekið upp fastara form um allar framkvæmdir við byggingar almennra sjúkrahúsa og læknisbústaða, sem rétt eiga á ríkísframlagi. Mjög gjarnan hefði ég þó kosið, að þessar umbætur hefðu verið miklu meiri, en við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti og færast ekki meira í fang en kleift er að standa við hverju sinni.

Heilbrmrh. lýsti í ræðu þeirri, er hann hélt, þegar hann fylgdi frv. þessu úr hlaði hér í hv. þd. við 1. umr. þess, hvernig ástandið væri í sjúkrahúsamálunum og heilbrigðismálunum almennt, og í því yfirliti kom glöggt fram, að fram undan eru mikil verkefni óleyst og mikið fjármagn vantar til að fullgera sjúkrahús, sem byrjað er á, og brýna nauðsyn ber til að ráðast í margar nýjar framkvæmdir í sjúkrahúsamálum. Alþingi þarf að hafa hugfast og stefna að því að verja í framtíðinni hærri hundraðshluta af útgjöldum þjóðfélagsins til heilbrigðismála og á þann hátt að vinna að aukinni heilbrigði þjóðfélagsþegnanna.