28.04.1964
Neðri deild: 85. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

110. mál, sjúkrahúsalög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. n. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli, og eins og fram kom hjá hv. frsm. n., eru þessar brtt., sem hún flytur, í samráði við mig gerðar, og ég er þeim algerlega samþykkur. Ég veit, að n. hefur lagt sig mikið fram um að afgreiða þetta mál á þann hátt, að það gæti orðið til bóta, og ég tel, að þær brtt., sem hún flytur, með þeim undirliflum, sem þar eru, séu verulega til bóta. Auk þess hafa farið fram víðtækar viðræður um þetta mál, þó að það komi ekki fram nú í brtt., bæði þar sem við ræddum við n., landlæknir og ég, á einum fundi hennar, en frsm. átti ítrekaðar viðræður við mig um málið, og eins og fram kom í hans ræðu, þá stendur sjálfsagt enn margt til bóta á þessu sviði. Ég held, að mönnum ætti ekki að blandast hugur um, að í þessu frv., ef að lögum verður, felst þó verulega mikil framför frá því, sem verið hefur.

Hv. frsm. hefur nú skýrt brtt. og vikið að ýmsum aðalatriðum frv., og það er kannske ástæðulaust að fara um það fleiri orðum, en þó mundi ég vilja árétta nokkur atriði í þessu sambandi.

Í fyrsta lagi í sambandi við 4. gr. um rekstrarstyrkinn, þá er gert nú ráð fyrir því að hverfa frá því ráði að ákveða rekstrarstyrkinn í krónutali á legudag til sjúkrahúsanna eftir vissum flokkum, sem áður var þrígreint, og gert ráð fyrir, að styrkurinn verði ákveðinn í reglugerð og aðallega í þremur flokkum, en þó heimild til ráðherra að flokka þá nánar, þessa þrjá flokka. Um þetta ræddum við nokkuð ýtarlega á fundi n., og það er rétt, að það komi fram, að mönnum sýnist nokkuð enn sitt hvað um það, hvort rétt sé að hafa þessa flokka fleiri. Sumir halda, að það sé e.t.v. ekki til bóta. Mér hefur sýnzt, eftir því sem ég hef getað sett mig inn í þetta mál, að það mundi hins vegar vera æskilegra að geta haft flokkana fleiri, sundurgreina sjúkrahúsin meir en verið hefur. Ég veit, að það felst í því sú hætta, að rn. muni kannske frekar sæta gagnrýni og sumum finnist, að þeir séu ekki í þeim rétta flokki, fremur eftir því sem flokkaskiptingin er fjölþættri. Það má taka reynsluna af því og laga sig eftir henni, eftir því sem ástæða þykir til, en mér þykir rétt, að það komi hér fram, að n. var gerð grein fyrir þeim till., sem vaka fyrir heilbrmrn. í þessu sambandi, og það er í aðalatriðum, að flokkarnir verði sex, að hver af hinum þremur flokkum, sem tilgreindir eru í 4. gr.; verði í A- og B-deild, og það yrði þá, eins og kemur fram í greininni, fyrst og fremst flokkað eftir því, hvernig sjúkrahúsin eru: Í I. flokk A mundi á þessu stigi málsins ekkert sjúkrahús koma, og ekki fyrr en borgarsjúkrahúsið nýja í Fossvogi verður tekið til starfa með öllum þeim deildaskiptingum, sem því fylgja eða þar eru ráðgerðar, en hins vegar í I. flokki B. mundi verða sjúkrahúsið á Akureyri og borgarsjúkrahúsið í þeirri mynd, sem þarf nú er, í Heilsuverndarstöðinni hér í Reykjavík. Og síðan eru þau flokkuð eftir stærð og aðbúnaði, sjúkrahúsin hin, og næst koma svo fjórðungssjúkrahúsin í Neskaupstað, Ísafirði væntanlega og svo Akranes og Vestmanneyjar í uppsiglingu með sín nýju sjúkrahús, sem eru í byggingu, o.s.frv. En eins og hv. frsm. gerði grein fyrir, var rekstrarstyrkurinn í þessum þremur flokkum áður, í hæsta flokki 25 kr., 15 kr. í öðrum flokki og 10 kr. í þriðja flokki.

Með því fé, sem við hófum til umráða núna og hækkað var töluvert í meðferð þingsins við afgreiðslu fjárl., upp í 7 millj. kr., mundi fyrsti flokkurinn núna verða 40 kr., og þau sjúkrahús, sem voru í 25 kr. flokknum, mundu hækka upp í 32 kr. og minnstu sjúkrahúsin frá 17—19 kr. styrk á legudag, eins og við höfum hugsað, að þetta yrði nú. Það er að vísu hlutfallslega minnst hækkun þarna á sumum sjúkrahúsunum, frá 25 upp í 32, en til þess liggja ákveðnar orsakir í sambandi við þá hækkun, sem síðast varð mest á þessum sjúkrahúsum. Ég held, að það hafi verið eftir breytingar á löggjöfinni frá 1958.

Það, sem fyrir liggur nú, eftir að þetta frv. væri samþ., væri að ganga endanlega frá þessari flokkun í reglugerð, og skv. brtt. á þessi styrkur nú að koma til greiðslu tvisvar sinnum á ári, og ætti því fyrri hlutinn að koma til greiðslu einhvern tíma upp úr miðju ári, og eins og skýrt var af hv. frsm., verða þetta í framkvæmdinni 18 mánuðir á þessu ári, og er í sjálfu sér nokkur bót í því og verður hækkun, eins og menn skilja, á því, sem greitt veður í rekstrarstyrk til sjúkrahúsanna, til viðbótar við það, sem hækkað var á fjárl. Ég hygg, að allir þm. muni verða sammála um, að þess hafi verið nauðsyn og þessi breyting komi þá einna bezt nú, þegar telja má, að rekstrarstyrkurinn hafi verið í raun og veru orðinn allt of rýr miðað við þær verðbreytingar, sem orðið hafa. í þessu felst veruleg bót.

Síðan hafði ég hugsað mér gang þessara mála þannig, að þegar fjárl. verða undirbúin fyrir árið 1965, verði látið fylgja uppkast að væntanlegri reglugerð eða breytingum, er gerðar yrðu á þessu, með tillögum fyrst við samningu fjárl., sem síðar færu til fjvn. og hún hefði til meðferðar, sem sagt tillögum heilbrmrn. um það, hvernig það hugsar sér flokkaskiptinguna og hvað það álítur, að eðlilegt sé að fari í hvern flokk, og til þess að ná heildartölunni þurfi þá áætlunarupphæðin í fjárl. að vera þessi og þessi tiltekna upphæð. Þannig mundi þingið með þessari framkvæmd fá þetta til meðferðar, ef því sýndist að koma á framfæri brtt. eða öðrum hugmyndum um flokkaskiptinguna og eins um rekstrarstyrkinn og rekstrarupphæðirnar, og eftir að fjárl. hefðu síðan verið samþ., mætti segja, að síðan yrði þá gefin út jafnharðan reglugerð, sem ákvæði flokkun sjúkrahúsanna áfram; hús fyrir hús, og styrkinn á legudag til hvers húss innan þess ramma, sem fjárlagaafgreiðslan tilskilur, og þess vegna verði í raun og veru meira um að ræða sameiginlega reglugerð þings og rn. en það, sem segir hér í 4. gr., að ráðh. setji reglugerð nánar um það, hvernig styrkveitingarnar fari fram.

Ég vona, að þessi háttur geti gefizt vel. Ég tel, að hérna sé um mál að ræða, sem menn hafi jafnan haft og eigi að hafa og geti haft góða samstöðu um í þinginu og milli þings og ríkisstj. og með slíkri framkvæmd komist á náin tengsl milli annars vegar fjvn. og þingsins og hins vegar heilbrmrn. og fjmrn, í sambandi við afgreiðslu þessara mála.

Þá vil ég aðeins víkja nokkrum orðum að þessum nýju ákvæðum 3. gr., sem fela í sér, að það eigi, eftir að styrkurinn hækkar nú eða verður um öli sjúkrahúsin 60% af byggingarkostnaðinum og hækkar því verulega hjá mörgum sjúkrahúsunum og einmitt á ýmsum stórum stöðum, þar sem verið er að byggja núna, þá verður þörf enn meiri fjárveitinga, hygg ég, en áður af ríkisins hálfu. En í 3. gr. er gert ráð fyrir tvennu. Í fyrsta lagi, að Alþingi ákveði hverju sinni, til hvaða sjúkrahúsa eða læknisbústaða stofnkostnaðarframlög eru veitt, og þyrftu þess vegna að liggja fyrir einnig till. um það með fjárl. eða til fjvn. hverju sinni, hvaða sjúkrahús eða hvaða sveitarfélög hafa farið fram á það að reisa sjúkrahús, og tillögur heilbrigðisstjórnarinnar í sambandi við það. En þegar þetta hefur verið samþ. af Alþ., er gert ráð fyrir, að greiðslurnar dragist ekki lengur en í 8 ár, frá því að framkvæmdir hófust. Þá er ríkissjóði eftir að þetta er ákveðið eða byggingin samþykkt af Alþ, skylt að hafa lokið greiðslu á framlögum sínum til hverrar framkvæmdar, miðað við upphaflega kostnaðaráætlun, innan 5 ára, þegar um er að ræða, að sjúkrahúsið vistar ekki yfir 20 sjúklinga, og innan 8 ára, ef sjúkrahús vistar fleiri sjúklinga. Og svo er ríkisframlagið til héraðslæknabústaða með sama hætti skylt að inna af höndum innan 5 ára, frá því að fyrsta framlag var greitt.

Hv. þm. er kunnugt um, að ástandið í þessum efnum er ekki gott, og var þannig um síðustu áramót, að sveitarfélögin áttu kröfur á hendur ríkissjóði um byggingarstyrk til sjúkrahúsa og læknisbústaða, sem voru um 30 millj: kr. Það voru að vísu ekki samkvæmt lögum gjaldfallnar kröfur, en kröfur, sem ríkissjóður varð einhvern tíma að greiða. Þetta er mjög erfitt, að það hlaðist upp slíkur hali, eins og nefnt hefur verið, og þessari gr. er ætlað að koma í veg fyrir það. Það er lögð skylda á ríkissjóð að hafa lokið greiðslunum ekki seinna en á 5 eða 8 árum, frá því að framkvæmdir hefjast, en um leið er þá líka óheimilt að byrja á byggingu, nema Alþ. hafi samþykkt það eða ákveðið hverju sinni, eins og þar stendur, til hvaða sjúkrahúsa eða læknisbústaða stofnkostnaðarframlög eru veitt.

Á þessu ástandi, sem ég nú var að lýsa, var gerð veruleg breyting til bóta við ákvörðun ríkisstj. um að verja 15 millj. af rekstrarafgangi ríkissjóðs á s.l. ári til þess að inna af höndum upp í þessar greiðslur, upp í þennan skuldahala, ef ég svo mætti nefna það, og hefur þess vegna þarna í einu stökki verulega grynnkað á honum. Og ég held, að það verði mjög erfitt að koma góðri skipan nógu skjótt á þessi mál, nema með einhverju móti takist aftur að gera slíkt átak til þess að greiða upp eftirstöðvarnar af gamla skuldahalanum. Nú er auðvitað í fyrsta lagi ekki víst, að neinn afgangur verði hjá ríkissjóði á þessu ári, svo að hægt sé að fara sömu leið, og auk þess ekki hægt að taka um það ákvarðanir á þessu stigi málsins, hvernig honum yrði varið. En ef tækist um næstu áramót að láta verulegar fjárupphæðir aftur upp í slíkar skuldagreiðslur, nálgast það mjög, að við komumst á slétt í þessum málum, og eftir að þetta frv. væri orðið að lögum og komið til framkvæmda, þarf að miða við það, að ekki myndist vaxandi skuldahall. Ég hef þegar gert ráðstafanir til þess, að nú verði gerð áætlun um það, hve mikið fé þyrfti að inna af höndum í sjúkrahúsin af hálfu ríkisins til þeirra, sem nú eru í byggingu og ríkið á eftir að greiða fé til, miðað við það, að öllu verði lokið á ekki lengri tíma en 8 árum. En það vill nú svo til, að það er einmitt í byggingu eða verið að hefja byggingu nú á þremur stórum sjúkrahúsum, sem miklu máli skipta í þessu sambandi, í Vestmanneyjum, á Akranesi og svo á Húsavík, sem nýbyrjað er á. Nú er að vísu ekki skuldbinding um það að inna greiðslur af höndum til þessara sjúkrahúsa á þessum 8 árum, eins og fram kemur í 3. gr.; þar sem segir: „Ákvæði þau, sem hér að framan greinir, taka þó aðeins til framkvæmda, sem ákveðnar eru, eftir að lög þessi taka gildi.“ En ég mundi fyrir mitt leyti vilja reyna að stefna að því, að þessir aðilar yrðu þó ekki verr settir, þó að framkvæmdir hafi hafizt, áður en þessi nýju ákvæði í 3. gr. kunna að taka gildi. Eins og ég sagði, er nú verið að vinna að þessari áætlun, og ég get því miður ekki á þessu stigi málsins gert grein fyrir því, en ég hygg, að hún muni leiða til þess, að það þurfi verulega að auka framlögin í byggingarstyrki á fjárl. næsta árs, 1965, og svo áfram frá því, sem verið hefur. Þetta kemur allt til með að liggja betur fyrir e.t.v., áður en þetta frv. verður endanlega afgreitt úr þinginu, en það skiptir ekki máll. Það skiptir mestu máli, þegar þing kemur saman aftur á ný í haust, til þess að fjalla um fjárlög ársins 1965.

Það er svo aðeins eitt atriði enn, sem ég vildi minnast á, að í 2. mgr. 4. gr. kemur fram, að ráðh. er heimilt að gera það að skilyrði fyrir styrkveitingu samkv, ákvæðum þessarar gr., að hlutaðeigandi sjúkrahús tryggi rekstrarafkomu sína með því að taka hæfilegt aukagjald umfram almenn daggjöld af sjúklingum frá nágrannasveitarfélögum, er af sjúkrahúsi hafa not, en hafa sjálf ekki með höndum sérstakan sjúkrahúsarekstur, ella sé sjúkrahúsinu tryggður með samningi hæfilegur árlegur rekstrarstyrkur af hendi slíkra sveitarfélaga. Um þetta hafa hafizt viðræður við Tryggingastofnun ríkisins, og það hefur verið óskað eftir frá heilbrmrn. till. um slík aukagjöld, sem þá er hugsað, að sjúkrasamlögin mundu greiða. Þau hafa verið, ef ég man rétt, 30—35 kr., og sums staðar hafa þau ekki verið tekin, nein þessi aukagjöld. Það eru ekki enn ákveðnar till. heilbrmrn. í þessu efni. Landlæknir vinnur að þeim og mun leggja fram sínar till. innan stundar, en það er hins vegar óhætt að segja það, að þessi gjöld munu verulega hækka og þá koma á sjúkrasamlögin, miðað við það, að samkomulag verði um þetta, og það atriði einnig ætti að létta töluvert rekstrarafkomu ýmissa sjúkrahúsa sveitarfélaganna. Þetta er að vísu mjög misjafnt, en hjá sumum er mjög mikið af utanhéraðssjúklingum og er á margan hátt mikill baggi á því sveitarfélagi, sem sjúkrahúsið rekur, og ég tel sjálfsagt að reyna að koma þarna til móts við sveitarfélögin, sem eiga við þennan erfiða rekstur sjúkrahúsanna að stríða.

Þetta eru meginatriði, sem ég vildi að fram kæmu. Ég vona, að það verði gott samkomulag um þetta frv. og það verði að lögum, áður en þingi lýkur. En umfram allt vonast ég til þess, að framkvæmd þessara mála megi fara vei úr hendi og ný löggjöf yrði til bóta bæði fyrir sveitarfélögin og skipan þessara mála í heild.