29.04.1964
Neðri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

110. mál, sjúkrahúsalög

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í sambandi við brtt. heilbr: og félmn., sem samþ. var við 2. umr., við 2. gr. frv., að heimilt sé ráðh. að greiða 3/5 hluta kostnaðar við að reisa yfirlæknisbústaði við sjúkrahús í fámennari byggðarlögum, ef það er óhjákvæmilegt til þess að tryggja nauðsynlega læknisþjónustu, þá þykir mér rétt vegna þessarar breyt., sem gerð var á 2. gr., að breyta þess vegna í 3. gr. frv. orðinu „héraðslæknisbústaða“ í „læknisbústaða“, þannig að bæði héraðslæknisbústaðir og væntanlegar byggingar á yfirlæknisbústöðum sjúkrahúsa falli hér undir sama ramma í 3. gr. En það er í fyrsta lagi. að ríkisframlög til byggingar almennra sjúkrahúsa, sem rekin eru af sveitarfélögum, og héraðslæknisbústaða yrðu bundin þeim skilyrðum, að allur undirbúningur slíkra bygginga færi fram í samráði við ráðh., það nái einnig til væntanlegra bygginga yfirlæknisbústaða. Og sömuleiðis í sambandi við greiðslu á ríkisframlagi síðar í þessari sömu gr., 3. gr., er orðið „héraðslæknisbústaða, sem verði þá einnig „læknisbústaða“, þannig að það nái til bæði héraðslæknisbústaða og væntanlegra bygginga yfirlæknisbústaða. Mér fannst rétt, að það kæmi fram, til þess að það væru skýr ákvæði í sambandi við byggingu yfirlæknisbústaða, alveg á sama hátt og er með héraðslæknisbústaði.