30.04.1964
Efri deild: 7. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

110. mál, sjúkrahúsalög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, felast nokkrar breytingar frá gildandi skipun í sambandi við sjúkrahúsamálin, sem eru allveigamiklar og ég vildi mega vona að gætu leitt til nokkurs góðs árangurs; og skal ég í sem allra stytztu máli gera grein fyrir þeim helztu.

Það er í 2. gr. þessa frv. ákveðið um greiðslu ríkissjóðs í sambandi við kostnað sveitarfélaganna við að reisa sjúkrahús og læknabústaði, og þar er þeirri meginreglu slegið fastri, að hann skuli nú vera sá hinn sami alls staðar eða 3/5, 60%. Það var nokkuð misjafnt áður og hefur verið allt frá 40 upp í 60 og upp í 67%, en að athuguðu máli hefur verið lagt til af þeim, sem undirbjuggu þetta frv., og lögð á það áherzla af landlækni, að eðlilegt væri, að þessi byggingarstyrkur væri hinn sami. Hann var áður meiri fyrir dreifbýlið en kaupstaðina, en aftur á móti kemur hitt, að þar sem fjölmenni er meira saman komið, verða sjúkrahúsin að jafnaði kostnaðarsamari vegna bæði deildaskiptingar og annars útbúnaðar, og að þessu öllu athuguðu hefur þótt eðlilegra að hafa þennan hátt á.

Í 3. gr. eru svo veigamikil nýmæli frá því, sem verið hefur, sem felast í því, að það verði ekki byrjað á sjúkrahúsum eða læknisbústöðum sveitarfélaga öðruvísi en Alþingi ákveði, en síðan sé skylt að hafa lokið tilskildum greiðslum úr ríkissjóði á 5—8 árum eftir stærð sjúkrahúsanna og 5 árum í sambandi við læknisbústaðina. Í þessu efni hefur skapazt allverulegt ófremdarástand á undanförnum árum, þannig að skuldir ríkissjóðs við sveitarfélögin hafa farið vaxandi, skuldir, sem ríkissjóði ber að greiða, en eru ekki gjaldfallnar og ekkert segir fyrir um í lögum fram að þessu, hvenær greiða skuli. Nú er hugsunin með þessari breytingu að reyna að kippa þessu í lag, þannig að ekki séu hafnar .framkvæmdir nema að ráði Alþ., sem endanlega gengur frá fjárl. hverju sinni, og í sambandi við afgreiðslu þeirra, en þegar það sé ákveðið, sé það með þeim hætti, að viðkomandi aðilar fái hina lögskipuðu byggingarstyrki á tilskildum tíma, ekki lengri tíma, eins og þarna segir, heldur en ýmist 5 eða 8 árum.

Um s.l. áramót var ástandið í þessum efnum þannig, að það voru um 30 milljónir kr., sem ríkissjóður var á þennan hátt, sem ég vék að áðan, í skuld við sveitarfélögin í sambandi við byggingu sjúkrahúsa og læknisbústaða. Hins vegar var því lýst yfir í sambandi við afgreiðslu fjárl. af fjmrh., að ríkisstj. hefði ákveðið að verja 15 millj. kr. af rekstrarafgangi ríkissjóðs á árinu 1963 til greiðslu upp í þennan svokallaða skuldahala. Þetta var töluvert átak og lagfærir verulega þau vandkvæði, sem hér hafa verið á og er sveitarfélögunum til mikils léttis frá því, sem verið hefur. Jafnframt var í meðferð þingsins á fjárl. heildarupphæð byggingarstyrksins til sjúkrahúsanna og læknisbústaðanna hækkuð. Ég held, að það hafi verið úr eitthvað 5 millj. kr. upp í 7 millj. Af þessum 15 millj. hefur verið gert ráð fyrir að 5 millj. kr. færu til byggingar landsspítalans. Og þá eru eftir 10 millj., sem skiptast mundu á sveitarfélögin að viðbættum þessum 7 millj., sem áætlaðar eru í fjárl., þannig að á þessu ári kemur þarna til úthlutunar upp í byggingarkostnað og til áframhaldandi bygginga á sjúkrahúsum 17 millj. kr. nú. Í heilbrmrn. hefur verið unnið að því að gera sér grein fyrir, hvernig þessu yrði úthlutað, og þá höfum við tekið þessa upphæð í heild og reynt að fá sem réttlátasta niðurstöðu úr heildarupphæðinni, þessum 17 millj. kr., á milli sveitarfélaganna, tekið tillit til skulda þeirra fyrir og jafnframt hvernig aðstaðan er eða hversu langt er komið byggingum og að öðru leyti hver áætlaður er byggingarkostnaður sjúkrahúsanna.

Þá er einnig það nýmæli, sem kom inn í þetta frv. við meðferð málsins í Nd., að rekstrarstyrkurinn skuli greiðast hálfsárslega. Það ætti að vera til hagræðis fyrir sveitarfélögin og að vissu leyti meira en til hagræðis, þegar það kemur fyrst til framkvæmda, því að í eitt skipti mundi þá koma væntanlega á einu ári meira fé til sveitarfélaganna en ella væri, en að öðru leyti verður breytingin ekki önnur en sú, að styrkurinn greiðist í tvennu lagi í staðinn fyrir í einu lagi eftir á, eins og verið hefur. En það er lögð á það áherzla í þessum lögum eða kveðið á um það, að samræmdir verði reikningar sjúkrahúsanna og endanleg styrkgreiðsla fari ekki fram, fyrr en þeir hafa borizt heilbrigðismálastjórninni og farið hefur verið í gegnum þá og þeir viðurkenndir af heilbrmrn.

Það er ákvæði í 4. gr. um rekstrarstyrkina, að þeir voru ákveðnir áður í 1. í krónutali, svo og svo margar krónur á legudag miðað við þrjá flokka sjúkrahúsa. Nú er gert ráð fyrir að taka þetta út úr l. og setja ákvæði um þetta í reglugerð. Þá er einnig gert ráð fyrir að flokka sjúkrahúsin í þrjá aðalflokka, en heimild til þess, að þar verði einnig undirflokkar, og eins og málið stendur nú og rætt var við heilbr.- og félmn. Nd., geri ég, helzt ráð fyrir, ef þetta yrði að lögum, að flokkarnir yrðu sex. Það er að vísu nokkurt álitamál, hvort það verður, og dálítið skiptar skoðanir um það. Sumir telja, að sé nægjanlegt og kannske besta að hafa flokkana færri, en við höfum álitið, og er það skoðun landlæknis líka, að það væri réttara að reyna að hafa flokkana fleiri. Í því felast að vísu nokkru meiri erfiðleikar, og e.t.v. gæti orðið ástæða til frekari gagnrýni, eftir því sem þetta er flokkað nákvæmara. En það er þó leitazt við með fjölþættari flokkun að reyna að skapa nokkru meira réttlæti í skiptingunni á milli sjúkrahúsanna eftir því, hve þau eru stór og hvernig búin o.s.frv. Ég vildi nú mega vænta þess, að þetta reyndist vel í framkvæmd, en það mun að sjálfsögðu á það reyna. En þá er hægt að breyta til, ef mönnum sýnist svo, að það væri hentara síðar að hafa flokkana kannski færri, því að ég hafði hugsað mér, að framkvæmdin í þessu máli yrði sú, að þegar fjárl. koma til meðferðar þingsins og fjvn., þá kæmu til n. þær hugmyndir, sem heilbrmrn. hefði um skiptinguna í flokka og milli sjúkrahúsa, eftir því sem hægt er, miðað við þá legudaga til dæmis s. l. árs, þannig að þm. gætu í fjvn. haft aðstöðu til þess að kynna sér þetta ýtarlega, fara í gegnum það og koma á framfæri brtt. eða hugmyndum sínum um aðra skipan, og með þessu ættu að vera nokkuð náin tengsl á milli þingsins og heilbrmrn. um framkvæmd þessara styrkveitinga, sem ég hygg, að ættu að geta orðið til bóta.

Það, sem svo mestu máli skiptir fyrir utan þessi nýmæli, sem ég, eins og ég sagði, vona að megi öll reynast til bóta frá því, sem verið hefur, — það, sem mestu málí skiptir auk þess, er, að ástandið í þessum málum er þannig, að það verður á næstu árum að gera verulega miklu meira en verið hefur í fjárveitingum, bæði að mínum dómi í sambandi við rekstrarstyrkina til sjúkrahúsanna og einnig um byggingarstyrkina. Fyrir því verður að sjálfsögðu gerð nánari grein, og þýðir ekki um að sakast. Þetta er bundið nú orðið í fjárl. þessa árs, en fyrir því verður að sjálfsögðu gerð nánari grein á næsta þingi í sambandi við fjárl., sem þá verða lögð fram fyrir árið 1965, og þær hugmyndir og till., sem heilbrmrn. mundi gera í sambandi við styrkupphæðirnar og skiptingu þeirra, bæði rekstrarstyrkjanna og byggingarstyrkjanna til sjúkrahúsanna.

Ég býst við því, að það verði erfitt að koma þessum málum skjótlega í gott horf, nema hægt verði að gera eitthvert svipað átak, stórt átak, eins og gert var í sambandi við ráðstöfun rekstrarafgangs ríkissjóðs á s.l. hausti, þar sem 10 millj. til sveitarfélagasjúkrahúsanna var þá ráðstafað í einu lagi. Um þetta er auðvitað engu hægt að spá á þessu stigi málsins, hvort nokkur rekstrarafgangur verður eða tekjuafgangur hjá ríkissjóði á árinu 1964, og þá ef hann yrði., hvort hægt yrði að ráðstafa honum til þessara hluta. En ef það yrði hvorugt fyrir hendi, yrði að mínum dómi að leita einhverra annarra ráða til þess að vinna upp þann hala, sem enn er eftir, þó að nokkurt skarð hafi verið höggvið í hann, eins og ég gerði grein fyrir, og koma málunum svo til frambúðar í það horf, að í sjúkrahúsin verði ekki ráðizt nema í beinu sambandi við ákveðnar fjárveitingar í upphafi og fjárveitingarnar þurfi svo frá ríkissjóði ekki að dragast frekar en ákveðið er í 3. gr. þessara laga.

Ég held, að með þessu hafi ég tíundað meginatriðin í þessu máli, og vildi svo mega leggja til við hæstv. forseta, að málinu yrði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr: og félmn.