06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

110. mál, sjúkrahúsalög

Frsm. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur tekið til meðferðar frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 531, og mælir n. með því, að það verði samþykkt. Frv. þetta felur í sér, að komið verði á betra skipulagi í sambandi við byggingarstyrki til sjúkrahúsa, þ.e.a.s. þann styrk, sem veittur er af hálfu ríkissjóðs til byggingar sjúkrahúsa sveitarfélaganna, og enn fremur felur frv. í sér ákvæði, sem miða að því að koma á traustara og betra skipulagi í sambandi við rekstrarstyrki eða styrki þá, sem veittir eru hverju sinni á fjárl. til þess að mæta rekstrarhalla á sjúkrahúsum sveitarfélaganna.

Í 1. gr. frv, er það nýmæli, að þegar sjúkrahús er í fleiri en einni deild, skuli sérstakur sjúkrahúslæknir eða yfirlæknir vera fyrir hverri deild.

Í 1. mgr. 2, gr. frv. er kveðið svo á, að ríkisstyrkur til þess að reisa sjúkrahús skuli nema 3/5 byggingarkostnaðar. Hér er um að ræða breytingu frá gildandi 1., sem gera ráð fyrir, að ríkissjóður greiði bæjarfélagi allt að 2/5 kostnaðar, en öðrum sveitarfélögum allt að 2/3 stofnkostnaðar. Í 2. mgr. 2. gr. frv. er ráðh. heimilað að greiða 3/5 hluta kostnaðar við að reisa yfirlæknisbústaði við sjúkrahús. Í fámennari byggðarlögum er það talið óhjákvæmilegt til þess að tryggja nauðsynlega læknisþjónustu.

Í 3. gr. frv. eru ákvæði um það, hvernig haga skuli framlögum ríkisins til sjúkrahúsa. Ríkisframlögin eru bundin þeim skilyrðum, að allur undirbúningur slíkra bygginga fari fram í samráði við ráðh. þann, er fer með heilbrigðismál, svo og landlækni og kostnaðaráætlun og fullnaðaruppdrættir að mannvirkjum hafi hlotið samþykki þeirra og húsameistara ríkisins.

Í 4. gr. frv. er kveðið svo á, að úr ríkissjóði greiðist árlega sérstakur styrkur vegna rekstrarhalla sjúkrahúsa sveitarfélaganna. Það er ekki gert ráð fyrir, að hér sé greiddur rekstrarstyrkur, ef ekki er um rekstrarhalla að ræða. Það hefur kannske aldrei verið ráð fyrir slíku gert, en með þessu ákvæði eru tekin af öll tvimæli um það efni.

Ég hef hér vikið að helztu ákvæðum þess frv., sem hér er til umr., og ítreka, að heilbr. og félmn. leggur til, að málið verði samþ., en tveir nm., þeir hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 1. þm. Vesturl., hafa áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.