06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

110. mál, sjúkrahúsalög

Frsm. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Hv, 1. þm. Norðurl. e. (KK) sagði réttilega, að í frv. því, sem hér liggur fyrir, væru ýmis ákvæði, sem miðuðu að umbótum í sjúkrahúsamálunum. Þetta er alveg rétt, og af þessu leiðir einnig, að þessar umbætur ná til byggingar sjúkrahúsa og rekstrar sjúkrahúsa sveitarfélaganna, hvar sem er á landinu, hvort sem er í fjölmennum bæjarfélögum eða fámennari sveitarfélögum, þannig að ég get ekki undir neinum kringumstæðum fallizt á, að það sé stigið skref aftur á bak í þessum málum, hvað snertir suma aðila. En það er rétt hjá hv. þm., eins og ég reyndar tók fram í minni fyrri ræðu, að sjúkrahús í fjölmennari bæjarfélögum voru styrkt minna en sjúkrahús í fámennari sveitarfélögum. Ég hygg, að það hafi alltaf, a.m.k. að sumu leyti, orkað tvímælis að gera þannig greinarmun á sjúkrahúsunum, og í framkvæmd hefur þetta, að því er mér virðist, augljóslega orkað tvímælis. Mér skilst, að í framkvæmd hafi þetta verið þannig, að þau sjúkrahús, sem eru í sveitarfélögum, sem hafa haft yfir 3000 íbúa, hafi hlotið lægra framlagið eða ríkisstyrkinn, en þau, sem eru í fámennari sveitarfélögum, fengu þann hærri. Ég held, að þetta hafi oft og tíðum komið mjög óeðlilega út, vegna þess að ég sé ekki, að það þurfi alltaf að segja mikið íbúatala í því kauptúni eða í þeim hreppi, þar sem sjúkrahúsið er staðsett. Við vitum það, að í hinum dreifðu byggðum úti um landið er oft og tíðum samvinna og samstarf milli margra eða nokkurra sveitarfélaga um byggingu og rekstur slíkra stofnana sem sjúkrahúsa, þannig að íbúatala staðarins, þar sem sjúkrahúsið er staðsett, gefur ekki hugmynd um íbúatölu þess svæðis eða héraðs, sem raunverulega stendur að sjúkrahúsinu. Ég bendi aðeins á þetta hérna til þess að sýna fram á, að þau ákvæði, sem áður giltu um þetta, orkuðu mjög tvímælis og það hafi þess vegna verið rétt að breyta þessu á þann veg, sem frv. gerir ráð fyrir, og hafa aðstoð ríkisins jafna, hvar sem sjúkrahúsið er staðsett.

Nú hefur hv. 1. þm. Norðurl. e. borið fram brtt. varðandi þetta mál, þannig að fyrri ákvæði gildi gagnvart bæjarfélögum og öðrum sveitarfélögum, sem eru með sjúkrahús í smíðum við gildistöku þessara laga og hafa færri íbúa en 3000. Þetta mál kom nokkuð til umr. í heilbr. og félmn., en þó ekki í þessu formi. En ég tel, að þetta sé þess eðlis, að það sé eðlilegt að fá tækifæri til þess að athuga þetta nokkru nánar, og vildi mælast til þess, að till. þessari yrði frestað til 3. umr.