06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

110. mál, sjúkrahúsalög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mig langaði til þess að segja hér nokkur orð út af brtt., sem fram kom við 2. umr. frá hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) ásamt fleirum og tekin var aftur til þessarar umr. Ég átti þess því miður ekki kost að vera hér við 2. umr. af sérstökum ástæðum. Ég hafði fengið sams konar tilmæli um það í Nd. frá hv. 4. þm. Norðurl. v., að ég féllist á fyrir mitt leyti sams konar brtt., en gerði honum nánari grein fyrir málinu og bað hann að flytja till. ekki, sem og ekki varð. Hv. 1. þm. Norðurl, e., sem er 1. flm. þessarar brtt., sem er á þskj. 612, tjáði mér, að hann hefði hug á að flytja svona brtt., og við það gat ég ekki ráðið annað en ég sagði honum, að ég fyrir mitt leyti væri henni andvígur. Sú hugsun, sem er á bak við þessa brtt., er sú, að með því að samþykkja hana haldi sum sjúkrahúsin 7% meiri rétti til byggingarstyrks en þau ella fá eftir þessu frv. Þetta er ekki af neinni tilviljun, sem frv. gerir ráð fyrir þessari breytingu, heldur er gerð skorinorð grein fyrir því í aths. frv. við 2. gr., og það er greint frá því, að nú muni sjúkrahúsin, eins og frv. gerir ráð fyrir, öll fá sama byggingarstyrk, eða 60%, 3/5 af byggingarkostnaðinum. En þetta hefur verið nokkuð misjafnt, og í grg. er það tíundað og á þá skoðun hef ég fallizt og haldið fram við umr. þessa máls, ég held örugglega í Nd., og ég held, að ég hafi eitthvað vikið að því í Ed. líka, að ég hef talið, eins og þarna segir, bæði ósanngjarnt og óheppilegt, að sjúkrahús í kaupstöðum hljóti lægri byggingarstyrk en sjúkrahús annars staðar á landinu, enda hafa núsmunandi styrkupphæðir bæði reynzt handahóíslegar og óraunhæfar. Þetta held ég, að sé rétt og það sé skökk stefna, að byggingarstyrkirnir séu meiri, þar sem sjúkrahúsin eru yfirleitt ódýrari, enda þótt það séu fámennari staðir eða sveitarfélög, sem standa að byggingu sjúkrahúsanna.

Ég skal benda á, hvað við er átt með því, hvað þessir byggingarstyrkir eru handahóíslegir eða hafa verið, að samkv. sjúkrahúsal. frá 1953 skyldi ríkissjóður greiða bæjarfélögum allt að 2/5 kostnaðar, en öðrum sveitarfélögum allt að 2/3 kostnaðar við að reisa almenn sjúkrahús, en þó skyldi ríkissjóður greiða allt að 3/5 byggingarkostnaðar, ef í hlut eiga sjúkrahús, sem ráðh. viðurkennir að séu fjórðungssjúkrahús. Síðan var með l. nr. 56 frá 1956 ákveðið, að ríkissjóður greiði bæjarfélögum, sem hafa 3000 íbúa eða fleiri, allt að 2/5 kostnaðar, en öðrum sveitarfélögum allt að 2/3 kostnaðar við að reisa almenn sjúkrahús, eða 67%. Byggingarstyrkirnir eru þarna 40% eftir eldri 1., 60% eða 67%. Og ég get ekki fallizt á, að það séu rök fyrir þessum mismun á byggingarstyrkjunum.

Svo varð enn ein breyt. með l. frá 1960. Þá er ákveðið, að ráðh. geti ákveðið, að ríkissjóður greiði sama byggingarstyrk til þeirra sjúkrahúsa sem eru sérstaklega vel búin tækjum og hafa ekki færri en þrjá lækna, að þau skuli njóta sama byggingarstyrks og fjórðungssjúkrahús, þ.e.a.s. 3/5. Með þessum breytingum var hægt í vissum tilfellum að hækka byggingarstyrkina með ákvörðun ráðh. úr 40% upp í 60% .

Nú háttar þannig til, að í byggingu eru sjúkrahús á Akranesi, Sauðárkróki, Siglufirði, Húsavík, Neskaupstað og Vestmannaeyjum, mjög misjafnlega á veg komin. Sumum er að mestu leyti lokið, en þó á eftir að ganga frá ýmsu, og allir byggingarstyrkir til þessara húsa verða að sjálfsögðu fram að gildistöku þessa frv., ef það verður að 1., miðaðir við það, sem áður var. Samkv. núgildandi l. mundi Akranes fá 2/5, eða 40%, Sauðárkrókur 67%, Siglufjörður 67%, Húsavík 67%, Neskaupstaður 60% og Vestmannaeyjar 40%, samkv. núgildandi 1., en samkv. þessu frv., ef það yrði að 1., fengju allir þessir staðir 60%, svo að það er einlæg skoðun mín, að það sé bæði réttara og sanngjarnara en þessi að mínum dómi óskiljanlegi mismunur á styrkveitingunum til sjúkrahúsanna.

Svo má segja, að aðalatriðin í þessu máli séu þau, að það sé nægjanlegt fé á fjárl. hverju sinni, og því hef ég beint til þm. áður, til þess að byggingarstyrkirnir veitist og veitist jafnharðan. Það er gert ráð fyrir í þessum l. því atriði, sem er mikilvægt frá því, sem áður var,

að byggingarstyrkirnir eiga að borgast á 5—8 árum eftir stærð sjúkrahúsanna, eftir að framkvæmdirnar hefjast. Þetta tel ég vera mjög mikilvægt atriði fyrir sjúkrahúsin, en eins og kunnugt er og ég hef áður gert grein fyrir, einnig í þessari hv. d., voru kröfur sveitarfélaganna um s.l. áramót á hendur ríkissjóði vegna vangoldinna byggingarstyrkja, sem að vísu voru ekki fallnir í gjalddaga samkv. eldri lögum, en einhvern tíma áttu að greiðast, 30 millj. kr. Og fyrir áramótin var svo ákveðið að létta af þessum hala með því að verja 15 millj. af tekjuafgangi ríkisins á s.1. ári til þess að veita í þessa byggingarstyrki sveitarfélaganna, 5 millj. að vísu til landsspítalans og 10 millj. til sveitarfélaganna. Það hefur verið gengið frá uppkasti um byggingarstyrkina í heilbrmrn., sem ég hef unnið að með landlækni og öðrum starfskröftum í rn., og það hefur verið unnið þannig, að við höfðum í huga í senn 7 millj. kr. fjárveitinguna, sem hækkaði í meðferð þingsins úr 5.1 millj. í 7 millj., og 10 millj. kr. til þess að greiða upp í halann, og þannig hafa verið til ráðstöfunar til sjúkrahúsanna 17 millj. kr. Mér fannst eðlilegt að taka þetta nokkuð undir eitt, því að sum sjúkrahúsin höfðu engan skuldahala, sem eru rétt að byrja framkvæmdir, en ef þau hefðu aðeins átt að njóta styrks af framlaginu á móti öðrum sjúkrahúsum, hefði hlutur þeirra verið ærið lítill. Þm. er að sjálfsögðu velkomið að kynna sér þessar till. í heilbrmrn., en ég vona, að þær verði í aðalatriðum taldar réttlátar og litið með nokkurri yfirsýn yfir aðstöðu sveitarfélaganna, sem staðið hafa í byggingu sjúkrahúsa og standa í eða hafa nýhafið byggingu þeirra.

Auk þess eru tekin upp ný ákvæði um rekstrarstyrkinn vegna sjúkrahúsanna til sveitarfélaganna, sem skipta líka máli í þessu sambandi. Þar var m.a. gerð sú breyting með samþykki ríkisstj. í Nd., að hann skyldi greiddur hálfsárslega í staðinn fyrir einu sinni eftir á, en í framkvæmdinni kemur þetta þannig út, að í raun og veru verður greiddur rekstrarstyrkur fyrir 18 mánuði á þessu ári, svo að á þann hátt hækkar hann um 50%, frá því að hann var ákveðinn, en það verður að greiðast fyrir fram og koma aftur á fjárveitingum Alþ. á fjárl. 1965.

Í heild finnst mér, að þetta frv. feli í sér stórum mikla bót fyrir sveitarfélögin og aðrar ráðstafanir ríkisstj. hafi einnig orðið til þess að létta þeirra erfiði í framkvæmd þessara mikilvægu mála. Og með hliðsjón af því og einnig hinu, að ég tel ekki sanngjarna þessa brtt., sem hér er um að ræða, vildi ég eindregið mælast til þess, að hún yrði felld og frv. næði fram að ganga eins og það kom hingað til deildarinnar.