06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

110. mál, sjúkrahúsalög

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það er ekki laust við, að mér séu það nokkur vonbrigði, að mér fannst það skína út úr ræðu hæstv. ráðh., að hann teldi till. þá, sem er á þskj. 612 og ég er 1. flm. að, ekki fullkomlega réttláta. Ég skal ekkert mæla á móti því, að þetta frv. til breytinga á sjúkrahúsal, felur í sér miklar réttarbætur á margan hátt og bætta aðstöðu fyrir sjúkrahúsin í landinu. Ég mæli ekki á móti því, að það hafi verið ástæða til þess að afnema handahóf, sem gilt hefur að því er snertir styrk til sjúkrahúsanna. Ekki vil ég þó slá þeirri hugsun fastri sem réttri, að ekki sé sanngjarnt að gera nokkurn mun á því, hvort að sjúkrahúsbyggingu standa fjölmenn héruð eða fámenn, og að ekki væri réttlátt að taka tillit til þess, að fáliðinn er alltaf veikari og ekki aðeins veikari að því er snertir það að reisa rönd við stofnkostnaði, heldur líka að hann verði að mæta í þessu sambandi erfiðari rekstraraðstöðu. Frv. felur fyrst og fremst í sér mikla bót fyrir stærri sjúkrahús, sem á að reisa. Þau eru flutt íu 40% styrk frá ríkinu upp í 60% styrk. En smáu sjúkrahúsin í 3000 manna byggðum og þar fyrir neðan hafa notið 67% styrks síðan 1957, og þau eru flutt samkv. frv. niður í 60%. Þau eru færð aftur á bak. Þau fá ekki bót, heldur hið gagnstæða. Þau fá ekki aðstöðubót, heldur hið gagnstæða. Að samræmingin sé svo nauðsynleg, að þetta hafi þurft að gera, er ég ekki reiðubúinn að samþykkja fyrir mitt leyti, og ég finn ekki, að þau hafi nokkurn hagnað af því, þó að hin sjúkrahúsin séu færð upp um 20%, þegar þau eru færð niður um 7% til að hafa sömu styrkprósentu. En nú er ekki till. um að gera breytingar á frv, að því er þetta snertir nema til bráðabirgða og fyrir þau fámennu héruð, sem hafa nú þegar ráðizt í að byggja sjúkrahús, hafa sem sé sjúkrahús í smíðum. Hæstv. ráðh. upplýsti það, að hér er ekki um mörg sjúkrahús að ræða. Rétturinn, sem af þeim er tekinn og nemur 7%, er ekki síður sár fyrir það, þó að þau séu fá, en hann er heldur ekkert mikið atriði fyrir ríkið, einmitt af því að þau eru fá, og það mælir með því, að inn á þessa till. sé gengið, að þau eru fá. Það er eins og ég sagði, þegar ég gerði grein fyrir till. í fyrrakvöld, að þeir, sem hafa ráðizt í að byggja sjúkrahús í þeirri trú, að þeir fengju 67% styrk frá ríkinu, verða nú fyrir því, að það er komið aftan að þeim með þessari löggjöf, sem á að fara að samþykkja. Yfirleitt hefur það verið svo í þessu þjóðfélagi og heildarstefnan líka í þessu frv., að aðstaðan er bætt, en ekki gerð lakari. Það er sótt fram, en ekki stigið aftur. Að því er þessi hús snertir, sem nú eru í smíðum hjá fámennu byggðarlögunum, er stigið aftur á bak. Það þykir ekki fært, þó að almennum vöxtum sé breytt og þeir t.d. hækkaðir sem skuldavextir, að hækka hjá þeim, sem þegar hafa samning fyrir lægri vöxtum. Þetta er að nokkru leyti hliðstætt, þótt það hafi ekki sömu lagastoð og vaxtamálin, en þó að það hafi ekki sömu lagastoð, er það hliðstætt og siðferðislega á sömu hæð.

Ég leyfi mér þess vegna að vænta þess, að sú sanngirni verði sýnd hér að samþykkja þessa brtt. Hún er fullkomið sanngirnismál, hún truflar ekkert frv. í heildinni, handahófið er afnumið þrátt fyrir það, hún styður ekkert handahóf og hún snertir svo fáa, að fyrir heildina eru það engin umtalsverð útlát, sem hér verður um að ræða, en fyrir þau fámennu byggðarlög, sem hlut eiga að máli, skiptir þetta verulegu máli.