11.10.1963
Sameinað þing: 0. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 3. kjördeildar (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. 3. kjördeild rannsakaði kjörbréf manna í 2. kjördeild. Öll kjörbréf hafa borizt, en það eru kjörbréf eftirtalinna alþm.: Auður Auðuns, 2. þm. Reykv., Ásgeir Bjarnason, 1. þm. Vesturl., Bjarni Benediktsson, 1. þm. Reykv., Björn Jónsson, 4. þm. Norðurl. e., Eðvarð Sigurðsson, 3. landsk. þm., Einar Ingimundarson, 4. þm. Norðurl. v., Eysteinn Jónsson, 1. þm. Austf., Gísli Guðmundsson, 3. þm. Norðurl. e., Gunnar Gíslason, 2. þm. Norðurl. v., Halldór Ásgrímsson, 2. þm. Austf., Helgi Bergs, 6. þm. Sunnl., Ingvar Gíslason, 5. þm. Norðurl. e., Jón Skaftason, 4. þm. Reykn., Karl Kristjánsson, 1. þm. Norðurl. e., Matthías Bjarnason, 11. landsk. þm., Ólafur Jóhannesson, 3. þm. Norðurl. v., Pétur Sigurðsson, 8. þm. Reykv., Sigurður Bjarnason, 2. þm. Vestf., Sigurvin Einarsson, 3. þm. Vestf., Þorvaldur Garðar Kristjánsson, 4. þm. Vestf.

Fyrir 3. kjördeild lágu eins og hinum kjördeildunum upplýsingar um ágreining um nokkur atkv. í kjördæmum, enn fremur um kæru, sem borizt hafði varðandi nafn á lista óháðra kjósenda á Austurlandi. Með því að það upplýstist, að ágreiningsatkv. hafa ekki nein áhrif á kjör aðalmanna, samþykkti 3. kjördeild fyrir sitt leyti að vísa þessum málum til kjörbréfanefndar til nánari athugunar. Með þessum formála um ágreiningsatkvæði og nefnda kæru um listanafn varð 3. kjördeild sammála um að taka öll kjörbréfin gild og mæla með samþykkt þeirra.