06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

110. mál, sjúkrahúsalög

Jón Árnason:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð, sem ég vildi segja við afgreiðslu þessa merka máls.

Sjúkrahúsmálin eða skipan þeirra eru þau mál, sem hvað mestu skiptir fyrir þjóðina í heild, hversu vel tekst með skipan þeirra og þá þjónustu, sem þau geta í té látið. Með þessu frv. er að ýmsu leyti stefnt inn á nýjar brautir, og ég hygg, að flestir séu sammála um, að það stefni tvímælalaust í rétta átt og verði til mikilla bóta.

Það hafa verið skiptar skoðanir manna um það, hvar sjúkrahús eigi að byggja og hvar sjúkrahús eigi ekki að byggja. Það hefur verið álit sumra framámanna læknavísindanna, að bezt færi á því, að sjúkrahúskostur landsmanna væri sem mest staðsettur hér í Reykjavík. Hefur sú ályktun verið byggð á þeirri sérstöðu, sem Reykjavík hlýtur að hafa umfram aðra staði varðandi val á sérfræðingum og öðrum góðum læknum til starfseminar. Hefur þó verið talið nauðsynlegt að byggja nokkur minni sjúkrahús úti á landsbyggðinni, sem hefðu aðstöðu til að veita sjúklingum hjálp, þegar um minni háttar aðgerðir eða læknishjálp væri að ræða.

Það er rétt, að Reykjavík hefur langbezta aðstöðu og alveg sérstöðu umfram aðra staði á landinu um allt læknaval og sérfræðinga, og af því leiðir, að hér hljóta jafnan að vera staðsett þau sjúkrahús, sem fullkomnust eru í eigu þjóðarinnar á hverjum tíma. En sú skoðun á vaxandi fylgi að fagna, að einnig beri að leggja á það áherzlu, að nokkur vel búin sjúkrahús verði byggð úti á landsbyggðinni og þeim skapaður grundvöllur til viðunandi rekstrarafkomu. Með þessu frv. er verulega tryggð og bætt aðstaða þessara sjúkrahúsa, og tel ég, að því beri vissulega að fagna. Það sýnir bezt hug þjóðarinnar og skilning á hinni brýnu þörf, sem hér er um að ræða, að einstaka byggðarlög skuli af sjálfshvöt hafa nú nýlega ráðizt í framkvæmdir í byggingu sjúkrahúsa, sem talið er að kosta muni um 70—80 millj. kr. í stofnkostnaði. Allar þessar framkvæmdir voru ákveðnar, áður en löggjöf þessi var borin fram eða komin til framkvæmda, en vitanlega í fullu trausti þess, að þannig yrði að málum þessum búið í framtíðinni, að viðunandi sé.

Á Akranesi stendur nú yfir stækkun sjúkrahússins þar. Sú framkvæmd er áætlað að muni kosta um 25 millj. kr. Kemur þá í hlut heimamanna að leggja fram 10 millj. kr. Hér er að þeirra dómi um eitt mesta áhuga- og hagsmunamál byggðarlagsins að ræða. Á ég þar ekki aðeins við Akraneskaupstað, heldur byggðarlagið í heild. í því sambandi má benda á nýja ákvörðun aðalfundar kaupfélagsins í Borgarnesi, sem ákvað í tilefni af 60 ára afmæli sínu að gefa 500 þús. kr. til sjúkrahúss Akraness vegna byggingarframkvæmda að stækkun sjúkrahússins, sem nú standa þar yfir. Ég gæti bent á fleira, sem bendir í svipaða átt, þótt ég geri það ekki að þessu sinni.

Með hliðsjón af því, sem snýr að þeim sveitarfélögum eða byggðarlögum, sem byggja og starfrækja sjúkrahús úti á landsbyggðinni, tel ég mikinn feng að frv. þessu. Kemur þar einkum þrennt til: Í fyrsta lagi hluti ríkíssjóðs í byggingarkostnaði sjúkrahúsa í bæjarfélögum eða sveitarfélögum, sem hafa yfir 3 þúsund íbúa, þar sem nú er ákveðið 3/5 í stað 2/5 áður, nema til fjórðungssjúkrahúsanna. Í öðru lagi, að tryggt verður, að hluti ríkissjóðs í stofnkostnaðinum verður greiddur á 5—8 árum. Í þriðja lagi aukin þátttaka þess opinbera í rekstri sjúkrahúsanna, jafnhliða því sem nú er ákveðið, að ríkisstyrkurinn verði greiddur hálfsárslega.

Mér er það ljóst, að byggingarkostnaðurinn, stofnkostnaðurinn út af fyrir sig, það er mikið hagsmunamál fyrir byggðarlögin, hver hluttaka ríkissjóðs er í stofnkostnaðinum, og vitanlega skiptir það nokkru máli, þótt ekki sé nema um 7% að ræða, eins og hér var rætt um áðan. En mér er líka ljóst af þeirri þekkingu, sem ég hef á þessum málum, og reynslu frá sjúkrahúsinu á Akranesi, að það skiptir þó enn meira máli varðandi framtíðina, hver sá hlutur verður, sem ríkið leggur til í sambandi við rekstur og starfrækslu þessara húsa. Ég veit af reynslunni af rekstri sjúkrahússins á Akranesi, með þeirri aðstöðu, sem sköpuð var af ríkisins hendi allt fram til þessa, að þá var það að óbreyttu mjög þungur baggi, sem bæjarfélagið batt sér með rekstri sjúkrahússins. En með þessu frv. verður allt auðveldara og léttara um rekstur þess.

Þessi atriði, sem ég hef hér sérstaklega bent á, varða öll miklu um byggingu og rekstur sjúkrahúsanna og verða til mikilla bóta frá því, sem nú á sér stað, ekki sízt þegar til lengdar lætur, í sambandi við rekstrargrundvöllinn, sem skapaður er í frv. þessu, því að auk þess sem hann er verulega bættur frá því, sem nú á sér stað, er það líka stórt atriði, að styrkurinn skuli nú eiga að greiðast hálfsárslega, í stað þess að hann var greiddur einu sinni á ári áður.