06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

110. mál, sjúkrahúsalög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég harma þessar deilur, sem hér hafa átt sér stað um þetta mál, og þær mundu sjálfsagt engar hafa orðið, ef gefizt hefði tækifæri til þess að ræða þetta atriði í n. En ekki vil ég alveg liggja undir því, að till. þær, sem ég hef staðið hér að, séu ekki sæmilegar og mundu skapa óviðunandi ástand, og mér heyrðist á hv. síðasta ræðumanni, að þetta væri eiginlega eins konar einsdæmi.

Í fyrsta lagi er það ekki rétt, að þetta lækki til neinna sjúkrahúsa ríkisframlög, þegar litið er á frv. í heild, og það er ekki hægt frá sama sjónarmiði og hv. síðasti ræðumaður að taka eitt atriði frv., ef það er sannanlegt og ekki mótmælanlegt, að önnur atriði frv. vega fullkomlega upp á móti þessu, og ég fullyrði, að aðstaða sjúkrahúsanna allra, sem hér eiga hlut að máli, yrði miklu verri að óbreyttum lögum en ef þetta frv. yrði samþ. í heild. Hér er þess vegna að mínum dómi fjarri því, að nokkuð ósæmilegt sé um að ræða gagnvart þeim. Þessu hef ég haldið fram og þetta held ég, að reynslan muni sýna, að sé rétt hjá mér, og mundi ekki verða vefengt af þeim mönnum, sem til þessara mála þekkja og vita, hvernig framkvæmdin hefur verið eftir eldri lögum og hvers er að vænta miðað við þær breyt., sem hér eru lagðar til:

Þegar maður er kominn út í þessar deilur, er kannske rétt að halda á öllu því, sem til er, og úr því að maður er farinn að deila við lagaprófessor, sem sagði, að það væri ekki sæmilegt að lækka framlög til framkvæmda, sem byrjað væri að ráðast í og menn hefðu skoðað lögin áður en í framkvæmdirnar væri ráðizt, þá eru sannast að segja eldri lögin þannig, að sveitarfélögin eiga bara kröfu til allt að 67% og allt að þeim prósentum öðrum, sem ákveðin eru og hafa verið, en nú er þessu slegið föstu, að nú skal prósentan vera 60%. Með þessu má segja, ef menn skoða lögin fyrir fram, að nú fyrst vita menn; að hverju þeir ganga.

Hitt er svo annað mál, að í reyndinni hefur þetta ekki skipt miklu máli, að smátt og smátt, eftir því sem fé hefur orðið fyrir hendi, þó á mjög löngum tíma, hafa þessi framlög orðið að þessu hámarki, sem þarna er. En frá lagalegu sjónarmiði er þó opið, að prósentan geti verið hvað sem er lægri en hámarkið segir til um.

Eins og ég sagði, ef málið hefði verið rætt í n., hefði kannske ekki til þessara deilna komið. Og það er eitt atriði, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að ég gæti ekki mótmælt því, að þetta mundi skerða þarna um 7% byggingarstyrkinn til sjúkrahússins á Húsavík, en við nánari athugun er ekki einu sinni fullvíst, að þetta sé svona, því að það mun liggja fyrir, að sýslan standi einnig að sjúkrahúsinu, sýslan og hreppar. Þau standa að 60%, held ég, og hinir aðilarnir 40%, og þá er spurningin, hvort er ekki um sveitarfélög að ræða, sem eru yfir 3000 íbúa. Þá ætti þetta sjúkrahús ekki rétt á nema 40% að óbreyttum lögum, en ekki 67%. Það er þetta handahóf og óvissa, sem ég m.a. hef viljað að úr l. yrði numið, og mér finnst, að það verði ekki vefengt, að í heild tapi enginn á þessu. Og enda þótt svo væri, að þetta sjúkrahús á Húsavík yrði talið eiga rétt að eldri lögum á 67%, sem er þó vafasamt, og náttúrlega þessi sjúkrahús, sem eiga eftir dálítinn byggingarkostnað, á Sauðárkróki og Siglufirði, þegar á heildina er litið og þá framkvæmd, sem ákveðin er beinlínis í þessum lögum, bæði með byggingarstyrkinn og rekstrarstyrkina, — og það er auðvitað laukrétt hjá hv. 4, þm. Vesturl. (JÁ), að rekstrarstyrkirnir verða í framkvæmdinni miklu mikilvægari, þegar á reynir, að þeir séu vel úti látnir og greiddir tvisvar sinnum á ári, eins og nú er ráð fyrir gert, — þegar á heildina er litið, þá verður ekki með sanni sagt, held ég, að neinum aðila sé mismunað með frv. eins og það er án þessarar brtt., sem við höfum verið að ræða.