06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

110. mál, sjúkrahúsalög

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið. Ég tók það skýrt fram í ræðu minni, að ég vildi ekkert fullyrða mr. það, hvort þessi skerðing, sem þarna kemur til greina, yrði bætt upp með öðru móti, af því að ég hef ekki nein gögn í höndum um það og get ekki um það dæmt. Það má vel vera, að það sé. En það er í raun og veru ekki það, sem er höfuðatriðið í mínum huga, heldur er þetta það „prinsip“-mál, hvort á að fara inn á þá braut að lækka þannig ákveðnar fjárveitingar, hlutfall af kostnaði við opinberar framkvæmdir, eins og skóla og sjúkrahús, sem ákveðin eru í lögum, frá því, sem ákveðið var, þegar framkvæmdir voru hafnar. Mér er það að sjálfsögðu kunnugt, að í sjúkrahúsalögum stendur, að það eigi að vera „allt að“, en þannig er það nú víðar í lögum. En það er náttúrlega lögtog að fetta fingur út í það, því að í framkvæmdinni er miðað við þetta hámark.

Ég hafði ekki nokkra tilhneigingu og það var alls ekki meining mín að gera á neinn hátt lítið úr þessu frv. til sjúkrahúsalaga, sem hér liggur fyrir. Ég er sama sinnis og aðrir, sem um það hafa talað, að ég álít það almennt til bóta. Og ég get líka tekið undir það, sem hefur komið fram hér hjá ræðumönnum, eins og hv. 4. þm. Vesturl. (JA), að það er auðvitað mjög þýðingarmikið atriði í þessu máli, hvernig rekstrarstyrkjunum er háttað. Við vitum það, að eitt erfiðasta málið í sambandi við sjúkrahúsin er reksturinn. En ég vit aðeins undirstrika það, að ég held, að það væri heppilegri meginregla og skemmtilegri frágangur á þessum lögum að samþ. þessar brtt., þannig að lögin skertu ekki rétt neinna frá því, sem verið hefur. Þau bæta rétt og setja í framtíðinni sjúkrahúsin víð sama borð, en það er áreiðanlega óvenjulegt og ég þekki ekkert dæmi þess, — það getur vel verið, að hæstv. ráðh. þekki þau, — að þannig hafi verið farið að, að svona hafi verið lækkuð framlög til framkvæmda írá því, sem var ákveðið í lögum, til þeirra framkvæmda, sem byrjað var á. Ég þekki ekki þau dæmi. Og ég get ekki annað séð en að það geti dregið dilk á eftir sér, ef þeir, sem standa að slíkum framkvæmdum, hvort sem það eru sveitarfélög eða aðrir, geta ekki reiknað með því nokkuð örugglega, að það standi, sem í þeim lögum er ákveðið um framlög til þeirra framkvæmda.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég býst við því, að þetta mál skipti kannske ekki svo mjög fjárhagslega þessi sjúkrahús, sem mér mundu standa næst í þessu efni, en ég vil samt enn undirstrika það, að það er „prinsipið“, sem í þessu efni skiptir mestu máli frá mínu sjónarmiði.