17.10.1963
Neðri deild: 3. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

20. mál, loftferðir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er eitt atriði í sambandi við þetta frv., sem ég vildi gjarnan spyrja hæstv. samgmrh. að, hvort honum mundi ekki finnast ástæða til þess að hafa í því beinlínis. Það er í sambandi við IV. kaflann, sem fjallar um áhöfnina. Ég sé ekki, að það sé tekið fram neitt um vinnutíma þeirra, sem vinna á flugvélunum, og ég held, að það sé eitt af því, sem sé brýn nauðsyn á að hafa í svona lögum, þar sem um þá menn, sem þar starfa, gegnir oft öðru máli en almennt um þá verkamenn, faglærða og aðra, sem vinna hin þjóðnýtu störf í þjóðfélaginu. Vegna öryggis flugvélanna og farþeganna er mun meiri nauðsyn á, að ákvarðanir um vinnutíma séu mjög strangar, og við vitum, að í þeim almennu reglum, sem framfylgt er, er það svo. En er ekki rétt og nauðsynlegt að hafa slíkt í l. sjálfum, eða hefur hæstv. ráðh. hugsað sér, að slíkt mundi kannske aðeins verða sett í reglugerð, og er það nægilegt? Er ekki nauðsynlegt fyrir okkur að setja beinlínis inn í lög ákvæði um vinnutímann, sem flugmennirnir megi vinna? Við vitum það, að sérstaklega hér hjá okkur, þar sem bæði oft er erfitt að fljúga, ekki sízt hvað innanlandsflug snertir, og þar sem millilandaflugið er tiltölulega mjög langt flug, reynir ákaflega mikið á hæfni flugmanna okkar. Og nú erum við yfirleitt svo gæfusamir, að við eigum mjög góða flugmenn, og þess vegna er það líka mjög nauðsynlegt, að vinnuþreki þeirra sé ekki ofboðið, vegna þess að þetta er eitt af þeim störfum, þar sem menn þurfa raunverulega helzt alltaf að vera óþreyttir, þannig að menn geti alltaf beitt allri sinni orku að þeim viðfangsefnum, sem þarf að fást við. — Ég vildi aðeins skjóta því til hæstv. ráðh. og þá annars til þeirrar n., sem fengi þetta til umr., hvort það væri ekki nauðsynlegt að hafa þetta beinlínis í lögunum.