09.04.1964
Neðri deild: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

20. mál, loftferðir

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau ummæli hv, frsm. n., að æskilegt væri, að þetta frv. þyrfti ekki að tefjast lengur. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé til mikilla bóta. Það er mikla vinnu búið að leggja í þetta frv., fyrst og fremst við samningu þess, og n. hefur rætt það á mjög mörgum fundum. En nú liggja fyrir brtt. við þetta frv. á þskj. 413 frá 4 hv. þm. og 1, flm. þessara till. mun vera forfallaður vegna veikinda, en væntanlega verður nú talað fyrir þessum till. samt. Ég ætla, að 2 af flm. séu auk þess fjarverandi og það sé aðeins einn af þessum 4, sem hér er staddur.

Eins og frsm. tók réttilega fram, hefur n. ekki tekið afstöðu til þessara till. Ég tel lakara, að það liggur ekki fyrir nein vitneskja um það, hvernig flugfélögin og flugmálastjórnin taka þessum brtt. Ég tel þörf á, að slíkt hefði getað legið fyrir, því að það eru allmikilsverð ákvæði í þessum brtt., ekki sízt um vinnutíma og hvíldartíma flugmanna. Ég hef satt að segja ákaflega mikla tilhneigingu til þess að verða við sanngjörnum óskum flugmanna um ákvarðanir í þessum efnum, en ég á afar bágt með að taka ákvörðun um það, þegar ég veit ekkert, hvernig flugfélögin taka þessu eða flugmálastjórnin, og ekki er vitað, hvernig þessar till. mundu verka í framkvæmd fyrir öryggi í flugmálum.

N. gerði þá breytingu á þessu frv., að um hvíldartíma flugmanna skuli sett ákvæði í reglugerð. Við gengum ekki lengra í því en að þær ákvarðanir yrðu teknar til þess að tryggja sem bezt öryggi í flugi. Við þorðum ekki að ganga lengra. Ef það kemur í ljós, að þessar till. eru mjög nálægt því, sem bæði flugfélög, flugmálastjórn og flugmenn telja hæfilegt og réttmætt, sé ég ekkert í veginum að samþykkja till. En þetta liggur ekki fyrir. Ég vil ógjarnan fara fram á það, að málinu sé frestað enn. Það er kominn svo langur tími í meðferð þessa máls, að það er slæmt að þurfa að gera það. Ég held, að ég sjái mig til neyddan að sitja hjá við atkvgr. um þessi atriði till. af þessum ástæðum.

Þá er hér allstórt atriði í þessum brtt. um loftferðadómstól, sem mikið er búið að ræða um í n. Ég er ekki enn reiðubúinn að fallast á þá till., enda held ég, að n. hafi komizt að þeirri lausn á því vandamáli, sem megi vel við una.

Þá er ein till. á þessu þskj. frá þeim fjórmenningunum um það, að 160. gr. frv. falli niður. Um þessa grein var allmikið rætt í n., og urðum við ekki sammála um afstöðu til hennar, enda flytjum við tveir þm. brtt. við gr., hv. 5. þm. Vesturl. og ég. Greinin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú leiðir maður, sem skuldbundið hefur sig til starfa í loftfari, hjá sér að taka til starfa eða halda starfi áfram, og skal hann sæta sektum eða varðhaldi allt að 6 mánuðum.

Nú lætur flugverji á flugfari undir höfuð leggjast án gildra ástæðna að koma til starfa á réttum tíma eða fer frá starfi án leyfis, og skal hann sæta sektum eða varðhaldi allt að 5 mánuðum.“

Brtt. okkar hv. 5. þm. Vesturl. er á þskj. 395, og við leggjum til, að seinni hluti gr. falli niður. Okkur þykir það nokkuð hart og nokkuð langt gengið, ef á að vera heimilt að fara að setja menn í varðhald fyrir það að vera óstundvísir til vinnu, því að þótt þessi hluti gr. yrði felldur niður, er ekki hægt að sjá, að það skapi neina hættu í flugi, því að þarna er um að ræða, að starfsmenn komi til starfa á réttum tíma og fari ekki án leyfis. Þetta getur ekki átt við menn uppi í loftinu, þeir geta ekki farið frá störfum þaðan án leyfis og ekki heldur komið of seint til starfa uppi í loftinu. Þetta hlýtur að eiga eingöngu við starfa á jörðu niðri, þ. e. á flugvöllum, og við sjáum þess vegna enga hættu á ferðum, þó að þessi harða refsing sé felld niður, enda eru í öðrum greinum og það allmörgum allþungar refsingar við, ef flugmenn eða starfsmenn flugþjónustunnar óhlýðnast fyrirmælum yfirmanna sinna. Strax í næstu grein á eftir segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef flugverji hlýðir eigi við starfann skipunum yfirboðara sinna, skal hann sæta sektum eða varðhaldi allt að 6 mánuðum.“

Þetta er sannarlega nóg, án þess að taka það fram í sérstakri grein, að ef hann er óstundvís til vinnu, skuli harm sæta svona óvenjulega þungum refsingum.

En nú flytja þessir hv. 4 þm. till um, að öll greinin skuli falla niður. Ég sé ekkert á móti því, að hún falli öll niður. Það raskar ekkert frv. til skaða, þó að það verði gert, og ég mun greiða atkv. með þeirri till., og er þá auðvitað till. okkar hv. 5. þm. Vesturl. fallin. Verði hún hins vegar ekki samþ., þessi brtt. þeirra fjórmenninganna, þá fylgjum við náttúrlega okkar eigin till. um að fella seinni hluta gr. niður.

Þá hef ég flutt brtt. við frv. á þskj. 394. Sú brtt. er við 7. gr. frv. 7. gr. greinir frá því, hverjir hafa rétt til að fá skrásett loftför á Íslandi, og segir í upphafi greinarinnar: „Rétt er að skrásetja loftfar hér á landi, þá er íslenzkir aðilar eiga það.“ Svo kemur skilgreining á því, hvað eru íslenzkir aðilar. Í þremur fyrstu liðunum, sem enginn ágreiningur er um, segir, að það sé íslenzka ríkið og stofnanir, sem hlíta stjórn þess, íslenzk sveitarfélög og íslenzkir ríkisborgasar. Við þessa þrjá liði hef ég ekkert að athuga. Svo kemur d-liður: „Mannúðarstofnanir, sem hlíta fyrirsvari íslenzkra ríkisborgara einna, ef þeir hafa aðsetur á Íslandi.“ Ég skil ekki, við hvaða aðila þarna er átt. Ég veit ekki, hvers konar mannúðarstofnun þetta getur verið, þ.e.a.s. íslenzk, ef hún fellur ekki undir þau ákvæði, sem síðar koma um hlutafélög með takmarkaðri ábyrgð eða félög með ótakmarkaðri ábyrgð. Það eru ekki ríkisstofnanir, það eru ekki íslenzk sveitarfélög, það eru ekki íslenzkir ríkisborgarar, það eru ekki hlutafélög, það eru ekki félög með takmarkaðri ábyrgð, og það eru ekki félög með ótakmarkaðri ábyrgð. Hver getur þetta þá verið? Og ég get ekki fengið mig til þess að setja ákvæði í lög, sem ég skil ekki sjálfur. Ég vil ekki eiga þátt í því, og ég hef enga skýringu fengið á því í samgmn., hvers konar stofnun þetta getur verið. Hún á að vera íslenzk og hlýtur að eiga að vera það, fyrst upphaf gr. byrjar á því, að það eru aðeins íslenzkir aðilar, sem mega eiga hér loftför. Það bar á góma einu sinni í n., að þarna kynni að vera átt við Rauða kross Íslands. Ég hef kynnt mér það og komizt að þeirri niðurstöðu, að það getur ekki átt við hann, því að Rauði kross Íslands er íslenzkt félag með ákveðnum, tilgreindum félagsmönnum, sem greiða sín gjöld til þessa félags, hefur sína íslenzku stjórn og er ekki háð á neinn hátt Alþjóðarauðakrossinum. Þótt það greiði nokkurn fjárstyrk til hans, breytir það því ekki, að Rauði kross Íslands er íslenzkt félag og mundi því falla undir önnur ákvæði þessarar gr. Mér sýnist því, að þessi d-liður sé algerlega óþarfur, og meðan ég fæ ekki nánari skýringar á honum, hver hann getur verið, vil ég ekki taka þátt í að hafa hann þar með.

Næsti liður er e-liður. Þar segir svo: „Samtök, sem hlíta fyrirsvari íslenzkra ríkisborgara einna, er þeir hafa aðsetur á Íslandi, enda séu a.m.k. 2/3 samtakamanna íslenzkir ríkisborgarar.“

Það er alveg eins um þetta atriði og hitt, að ég get ekki séð, hvers konar fyrirbæri þetta er, samtök, sem ekki er félag, ekki er ríkisstofnun, ekki eru ríkisborgarar, og ekki nein tegund félaga. Ég veit ekki, hvað þetta er, og þar af leiðandi get ég ekki tekið þátt í að samþykkja það. Um þetta segir, að þessi samtök hlíti fyrirsvari íslenzkra ríkisborgara einna og að 2/3 samtakamanna séu íslenzkir ríkisborgarar. Er þetta þá ekki félag af einhverju tagi? Þau koma síðar í upptalningu í gr., svo að ég álit þetta óþarft.

Loks koma þrír liðir, f, g og h. Það eru félögin, sem hafa einn alvarlegan ágalla, sem ég vildi fá numinn burt. F-liður hljóðar svo:

„Hlutafélög, sem hlíta stjórn íslenzkra ríkisborgara einna, er aðsetur hafa á Íslandi, enda eigi íslenzkir ríkisborgarar eða aðrir, sem verða samkv. gr. þessari settir á bekk með þeim, hlutabréf, er samsvari 2/3 hlutafjár“ o.s.frv.

Þeir, sem eiga hlutabréfin í þessu félagi, verða að vera ríkisborgarar eða aðilar, sem verða settir á bekk með þeim. Hverjir geta það verið? Hvaða aðilar geta það verið, ef þeir eiga að vera Íslenzkir, sem aðeins verða settir á bekk með íslenzkum ríkisborgurum? Er ekki hér hreinlega verið að heimila útlendingum að mega eiga hlutabréf í slíku félagi, ef viðkomandi yfirvöldum þóknast að telja þá hæfa til að setjast á bekk með Íslendingum? Ég held, að það sé með öllu óvenjulegt í löggjöf að taka svona til orða, þannig að maður viti alls ekkert, við hverja er átt, og ég get ekki komizt hjá að álíta, að hér hljóti að vera átt við útlendinga, hér sé um útlendinga að ræða, sem megi telja jafngilda og Íslendinga til að eiga hlutabréf í hlutafélagi, er reki loftfar. Þess vegna hef ég lagt til, að þessu verði breytt.

Um g- og h-liðinn er alveg það sama að segja. G-liðurinn hljóðar svo:

„Önnur félög með takmarkaðri ábyrgð, enda séu 2/3 hlutar félaga íslenzkir ríkisborgarar eða aðilar, sem samkv. grein þessari eru settir á bekk með þeim.“

Og í síðasta liðnum, h-liðnum, er sama orðalag: „Félög með ótakmarkaðri ábyrgð, enda séu félagar allir íslenzkir ríkisborgarar eða aðilar, sem samkv. gr. þessari eru settir á bekk með þeim.

Ég leitaði mjög eftir skýringu á þessu í n., hvað þetta þýddi, þetta orðalag, og ég fékk enga viðunandi skýringu. Þó var það nefnt, að hér væri átt við 3 fyrstu liði gr., það væru aðilar, sem mætti setja á bekk með íslenzkum ríkisborgurum. Hvernig er hægt að koma því heim, að íslenzka ríkið, íslenzk sveitarfélög, Íslenzkir ríkisborgarar verði settir á bekk með íslenzkum ríkisborgurum? Ég sé enga skýringu á þessu. Mér finnst þetta vera orðin hrein meiningarleysa, ef á að skýra það þannig. Hér hlýtur að vera átt við útlendinga og ekkert annað. Og ef það er svo, að þarna er átt við útlendinga, sem verða settir á þennan dýrmæta bekk, sé ég ekki annað en útlendingar geti líka átt fjármagnið í þessum félögum, og þá fer að verða hæpið að telja þetta íslenzka aðila, eins og gr. byrjar á. Af þessum ástæðum er það, sem ég hef flutt brtt. á þskj. 394, og felli ég þá saman í einn staflið alla þessa 5 stafliði, d–h, þ.e.a.s., ég sleppi mannúðarstofnunum og samtökum, sem ég er búinn að gera grein fyrir áður, en hvað félögin snertir, hef ég flutt þessa till.: „Félagssamtök, hlutafélög svo og önnur félög með takmarkaðri og ótakmarkaðri ábyrgð, enda séu a.m.k. 2/3 hlutar félagsmanna Íslenzkir ríkisborgarar, er eigi a.m.k. 2/3 hlutafjár eða félagseignar.“ M.ö.o.: íslenzkir aðilar geta ekki aðrir talizt hvað félög snertir en þessir, að 2/3 hlutar félagsmanna séu íslenzkir og þeir eigi 2/3 hlutafjár eða félagseignar. Þetta er því mjög einfalt. Er þá sloppið við þetta ákaflega óákveðna orðalag, sem kemur fram í frv.

Ég hefði nokkra hvöt til að ræða frekar um brtt. á þskj. 413, en þar sem þess er enginn kostur að athuga þær nánar eða a.m.k. það er erfitt og tefur enn frv., að n. athugi þær nánar, þó að ég hefði reyndar kosið það, þá þýðir ekki fyrir mig að vera að fara lengra út í þá sálma. Ég er búinn að nefna afstöðu mína til stærstu atriðanna í þessum brtt., en það eru fleiri atriði í þeim, sem eru nokkuð athyglisverð og ég mundi hafa rætt um frekar, en þar sem þetta er síðasta umr. í þessari hv, d. um frv. og n. mun sennilega ekki skoða frv. frekar, þá verð ég að láta það hjá liða og mun sitja hjá við atkvgr. um þessar brtt. nema hvað snertir 160. gr., eins og ég áður sagði.