09.04.1964
Neðri deild: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

20. mál, loftferðir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur nú verið til meðferðar hjá hv. samgmn, síðan í haust, og er enginn vafi á því, að n. hefur athugað málið mjög vel og gaumgæfilega, farið yfir frv., kallað ýmsa á

sinn fund og rætt við þá og hefur að sjálfsögðu markað sér stefnu í málinu, enda þótt hér liggi fyrir tvær brtt. frá tveimur hv. nm., sem eru ekki að vísu efnismiklar, en geta þó haft nokkur áhrif. Það hefur verið frestað umr. um þetta mál hér í d. vegna veikinda hv. 1. flm., sem á brtt. á þskj. 413, og er það að vísu mjög slæmt, að ekki hefur verið mælt fyrir þessum till, og gerð grein fyrir þeim, en þær skýra sig nokkuð sjálfar, og án þess að fyrir þeim sé mælt er hægt að sjá, hvað fyrir hv. fim. vakir.

Þegar þessar brtt. á þskj. 413 komu fram, sendi ég þskj. til umsagnar flugmálastjóra, fulltrúa flugmálastjóra og þess lögfræðings, sem er sérstakur ráðunautur flugmálastjórnarinnar. Og umsögn þeirra um till. liggur fyrir í stuttu máli, sem sé það, að þeir telja till. ekki til bóta, þótt þær verði samþykktar, heldur miklu fremur vafasamt, að þær eigi á nokkurn hátt rétt á sér. Og ef við tökum 1. till., a-lið, og athugum hana, þá er það ljóst, að í brtt., eins og hún er á þskj. 413, ef hún yrði samþykkt, er dregið mjög úr þeim áhrifum, sem ákvæðunum í frvgr., 52. gr., er ætlað að hafa. Það hefur verið vitnað til þess í umr. um þetta mál hér á Alþ, og eins af hv, frsm, samgmn., að þetta frv. er á margan hátt sniðið eftir löggjöf nágrannaþjóðanna, og það er áreiðanlega hvergi í þessu frv. gengið lengra í kröfum á hendur flugmönnum eða flugáhöfnum en þótt hefur nauðsynlegt í nágrannalöndunum. Það er fjarri mér að vilja níðast á flugmönnum, sem gegna svo ábyrgðar- og þýðingarmiklu starfi fyrir þjóðfélagið. En þessi stétt, flugmennirnir og flugáhafnir yfirleitt, það er ekkert síður þeirra vegna sjálfra en almennings að sníða löggjöfina við hæfi og miða hana við þá reynslu, sem þar þjóðir hafa fengið, sem hafa lengur starfað við þennan atvinnuveg en við, telja nauðsynlegt. Ég kemst því ekki hjá því að mæla gegn a-lið brtt. við 52. gr.

B-liður till. á sama þskj. er í sambandi við það, að ef flugverja er tekið blóð, telja flm. brtt. nauðsynlegt, að flugverja sé ekki heimilt að hefja flug næstu 12 klukkustundirnar, eftir að blóðið hefur verið tekið. Nú hefur það verið fullyrt í mín eyru og er álit þeirra aðila, sem ég hef leitað til, að þegar um blóðtöku sé að ræða, sé þetta tiltölulega mjög lítið, og þótt það væri eðlilegt, að flugverji fengi nokkra hvíld eftir slíkt, er talið alger óþarfi, að það þurfi að vera í 12 klukkustundir. Að því leyti er þessi till. óþörf og óheppileg, og er því talið sjálfsagt að mæla gegn henni, og er það till. þeirra, sem hafa þekkingu á þessu.

Þá er það 2. liður brtt. á þskj. 413, sem er um ýmislegt, sem lýtur að kjörum flugmanna og ekki þykir eðlilegt að vera að setja í löggjöf. Það þykir miklu eðlilegra, að þetta sé í kjarasamningi eða þá í reglugerð, ef það þætti nauðsynlegt, en alls ekki í lögum. Og það er hvergi í lögum. Hvers vegna ættum við Íslendingar þá að byrja á því, úr því að það þykir ekki eðlilegt annars staðar? Og ég segi nú það, að þegar ég les þessa brtt., sýnist mér, að það geti verið mjög vafasamt, nema hér sé um of langan vinnutíma að ræða. Ég teldi það mjög vafasamt að lögfesta, að hvíldartíminn skuli ekki vera jafnvel meiri en þetta, og það er þungt í vöfum, ef menn kæmust að raun um, að það væri eðlilegt, að hvíldartíminn væri lengri en gert er ráð fyrir í þessari brtt., að það yrði að breyta l. til þess að geta gert eðlilega samninga um þessi mál milli atvinnurekenda og flugverjanna. Það er sem sagt, að þetta ákvæði á að vera í kjarasamningum eða reglugerð, og það er vitanlega sjálfsagt að miða við það, að hvíldartími sé nægilegur. Það er ekki aðeins mál flugverjanna, það er ekki síður mál almennings, fólksins, sem flýgur með þessum mönnum, að þeir séu ekki of þreyttir og syfjaðir, og það er þess vegna nauðsynlegt, að það sé fyrir það girt, að mönnum sé ætlaður of langur vinnutími við svo ábyrgðarmikið starf, en það er hægt að tryggja á hentugri og betri hátt en að lögfesta þá brtt., sem hér er um að ræða á þskj. 413, enda endurtek ég það, sem ég sagði áðan, að það gæti vel verið, að athuguðu máli þætti nauðsynlegt, að hvíldartíminn væri lengri en hér er um rætt.

Þá er hér brtt., sem gerir ráð fyrir loftferðadómstól, sem hefur yfirstjórn rannsókna vegna flugslyss. Það er ekki gert ráð fyrir því í frv., en brtt. gerir ráð fyrir því. En í frv. er gert ráð fyrir, að flugmálastjórnin láti fara fram rannsóknir á flugslysum, en ráðh. geti, ef hann telur ástæðu til, skipað sérstaka rannsóknarnefnd kunnáttumanna til þess að rannsaka slysin. Þetta ákvæði er í frv., og það má geta nærri, ef flugslys verður, hvort þessi heimild verði ekki notuð. Hún hlýtur að verða notuð af hvaða ráðh, sem væri, því að ef um flugslys er að tæða, verður vítanlega talið nauðsynlegt að komast eftir því, hvaða orsakir ollu slysinu. Þess vegna er þessi brtt. á þskj. 413 með öllu óþörf og óeðlfleg.

Það er þá eiginlega ekki fleira, sem ég þarf að segja um brtt. á þskj. 413, — og það er þó ein, það er brtt. við 160. gr. Þar er gert ráð fyrir, að gr. verði alveg felld niður. Ekki þykir heppilegt að hafa ekkert ákvæði til tryggingar og aðhalds fyrir því, að flugmenn mæti og ræki störf sin, því að þótt flugmenn séu yfirleitt mjög samviskusamir sem betur fer og hreinar undantekningar, ef það er ekki, er vitanlega nauðsynlegt að hafa ákvæði í 1., sem hægt er að beita, ef flugmaður vanrækir starf sitt, því að það getur vitanlega valdið ekki aðeins miklum óþægindum, heldur og miklum kostnaði, ef flugmaður mætir ekki, þegar flugvél á að fara í langferð og búið að bóka flugvélina alveg þéttseina. En sem betur fer er það sjaldan og hefur kannske aldrei verið, að það hafi komið fyrir hér, að um slíkt væri að ræða. En þetta gæti skeð, og þess vegna er eðlilegt að hafa ákvæði um þetta í 1., og það er vitanlega ekki að ástæðulausu sett þar inn.

Tveir hv. nm. hafa flutt brtt. á þskj. 395, þar sem þeir leggja til, að fyrri mgr. till. standi í frv. áfram, en seinni mgr. falli niður. Ég vil nú segja það, að ég vil taka til athugunar, hvort það nægir ekki, að fyrri mgr. standi. Mér sýnist í fljótu bili, að það gæti komið til greina, og ég mundi leggja til, að atkvgr, yrði frestað í dag, en helzt, að umr, yrði lokið, og mér finnst alveg sjálfsagt að athuga það, hvort það er ekki fullnægjandi að hafa fyrri mgr. í l. og fella seinni mgr. niður. Það vil ég taka til nánari athugunar.

Og svo er hér till. á þskj. 394 frá hv. 4, þm. Vestf, Hans brtt. er við 7. gr., sem hann var að lesa hér áðan, og ég get ekki verið sammála hv. þm. um það, að eins og 7, gr. er nú, sé jafnvel gert ráð fyrir því, að útlendingar geti haft meiri hluta í félagi, sem væri stofnsett hér til rekstrar flugvéla. Mér sýnist, ef við lesum þessa grein frá orði til orðs, með leyfi hæstv. forseta, að það sé algerlega fyrir það girt. Það segir orðrétt í 7. gr.

„Rétt er að skrásetja loftfar hér á landi, þá er íslenzkir aðilar eiga það. Íslenzkir aðilar teljast: a. Íslenzka ríkið og stofnanir, sem hlíta stjórn þess. b. Íslenzk sveitarfélög. c. íslenzkir ríkisborgarar. d. Mannúðarstofnanir, sem hlíta fyrirsvari íslenzkra ríkisborgara einna, er þeir hafa aðsetur á Íslandi. e. Samtök, sem hlíta fyrirsvari íslenzkra ríkisborgara einna, er þeir hafa aðsetur á Íslandi, enda sé a.m.k. 2/3 samtakamanna íslenzkir ríkisborgarar. f. Hlutafélög, sem hlíta stjórn íslenzkra ríkisborgara einna, er aðsetur hafa á Íslandi, enda eigi íslenzkir ríkisborgarar eða aðrir, sem verða samkv. gr. þessari settir á bekk með þeim, hlutabréf, er samsvari 2/3 hlutafjár, og fari á aðalfundum hlutafélaga með a.m.k. 2/3 allra atkv. g. Önnur félög með takmarkaðri ábyrgð, enda séu 2/3 hlutar félaga íslenzkir ríkisborgarar eða aðilar, sem samkv. gr. þessari eru settír á bekk með þeim, félagið eigi heimilisfang á Íslandi og hlíti stjórn íslenzkra ríkisborgara búsettra þar. h. Félög með ótakmarkaðri ábyrgð, enda séu félagar allir íslenzkir ríkisborgarar eða aðilar, sem samkv. gr., þessari eru settir á bekk með þeim.

Flugmálaráðherra er rétt, þegar mjög mikilvægar ástæður eru til, að leyfa, að loftfar, sem heimastöð hefur á Íslandi og er í stöðugri notkun, megi skrá hér á landi, þótt eigandi þess fullnægi eigi skilyrðum 1, mgr., a–g.“

En brtt. hv. þm., er um það, að í stað e–hliða komi einn liður eða e–liður: „Félagssamtök, hlutafélög, svo og önnur félög með takmarkaðri eða ótakmarkaðri ábyrgð, enda séu a.m.k. 2/3 hlutar félagsmanna íslenzkir ríkisborgarar, er eigi a.m.k. 2/3 hlutafjár eða félagseignar.“

Ég sé nú ekki, þótt þessi till. væri samþykkt og liðirnir e—h felldir niður, að það tryggi nokkuð betur en gr., eins og hún er nú, að útlendingar kemur hér ekki til greina með að hafa meiri hl., því að gr., eins og hún er, girðir alveg fyrir það, eins og ég vænti að hv. þm. hafi gert sér grein fyrir. Þess vegna tel ég, að þessi till. sé með öllu óþörf og það mundi ekki bseta málið eða efnið að samþykkja hana.

Enda þótt þetta frv. hafi nú verið lengi hér í hv. Nd., er engin ástæða til þess að kvarta sérstaklega undan því. Ég vil miklu frekar þakka hv. samgmn. fyrir það, að hún hefur lagt sig fram um það að kynna sér málið og vinna þetta vel. Það er enginn vafi á því, að þetta frv. er vel undirbúið. Það er samið af þremur reyndum lögfræðingum, Gizuri Bergsteinssyni hæstaréttardómara, sem var formaður n., Hákoni Guðmundssyni ritara hæstaréttar og Jónasi G. Rafnar alþm. Og þessi nefnd tók sér góðan tíma til þess að semja frv. og kynna sér þær reglur og lög, sem gilda um flug í öðrum löndum. Og það er vissulega ekki n. til lasts, þótt hún hafi sniðið þetta frv. að efni til eftir þeirri löggjöf, sem gildir um flugför og flugáhafnir annars staðar. Hvað annað höfum við til fyrirmyndar en það. Og það er ósköp eðlilegt, að sú löggjöf, sem við setjum hér um þessi mál, verði að efni til mjög svipuð því, sem aðrar þjóðir á sama menningarstigi og við styðjast við.

Ég legg til, að atkvgr. verði frestað og það yrði þá fram yfir helgi, og vonandi yrðu þá a.m.k. l. flm. þessara mörgu brtt. við til að greiða atkv. um málið. En að meginefni til mæli ég gegn þessum brtt. að öðru leyti en aðeins einni, sem ég vil taka til athugunar og gæti vel komið til greina að yrði samþykkt, því að þeir menn, sem bezt eru inni í þessum málum, leggja það til og telja, að till. yrðu alls ekki til bóta og sumar þeirra, eins og ég minntist á, alls ekki eðlilegt að setja í lög.