09.04.1964
Neðri deild: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

20. mál, loftferðir

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að umr. um málið verði ekki lokið á þessum fundi, sem sagt, að það verði ekki aðeins atkvgr., sem verði frestað, heldur umr. verði ekki lokið, því að ég tel það alveg óverjanlegt, að hv. 1. flm. brtt. á þskj. 413 eigi ekki færi á því að mæla fyrir þeim brtt. sínum.

Ég efast ekki um það, að sá mikli lagabálkur, sem hér er til meðferðar í þinginu um loftferðir, hafi verið vel og v andlega undirbúinn. En hér er um svo stórt mál að ræða, að það er ekki óeðlilegt, þó að séu um það nokkuð skiptar skoðanir, og ég fyrir mitt leyti hefði talið það þó enn þá betri undirbúning þessa mikla máls, hefðu þessi lög, sem nú er ætlað að setja, verið meira sniðin eftir amerískri löggjöf, bandarískri og enskri, heldur en þó eftir löggjöf Norðurlandanna. Og ég verð að segja það líka, að ég er veikur fyrir sumum þeim brtt., sem hér eru. Ég mundi ekki greiða atkv. á móti sumum þeim brtt., sem eru einmitt á þskj. 413 frá hv. 8. þm. Reykv., Pétri Sigurðssyni, o.fl. Mér finnst t.d. ekki óeðlilegt, þar sem tekið er fram hér í b-lið brtt. við 4. mgr., að verði flugverja tekið blóð, skuli honum ekki heimilt að hefja flug næstu 12 klukkustundir á eftir, þá að rannsókn vegna meints brots á 1. mgr. þessarar gr. leiði í ljós, að hann sé ekki sekur. Það er nú svo, að það er mjög misjafnt, hvernig menn bregðast við, þegar lögreglan tekur þá og þeir eru færðir til læknis og tekið blóð. Margir hverjir og aliflestir væntanlega taka þessu með stillingu og ró, en svo er líka hitt til, að menn fara gersamlega úr jafnvægi, þegar þetta er gert, og mér finnst það ekkert óeðlilegt, að maður, sem hefur farið í blóðrannsókn, hvíli sig á eftir í a.m.k. 12 klukkustundir. Ég tel það líka til bóta við þessar brtt., að þær gera ráð fyrir, að skipaður verði loftferðadómstóll, fastur loftferðadómstóll. Í frv, er gert ráð fyrir því, að þegar slys ber að höndum, geti ráðh. skipað nefnd. En í mörgum tilfellum og ég ætla allflestum þarf þessi rannsókn að hefjast samstundis og slys er skeð, en það getur tekið nokkurn tíma að skipa nefnd, sem á að vinna þetta verk. Það þarf ekki endilega að vera, að það sé alltaf hægt að finna ráðh. á hverri stundu, getur meira að segja verið, að hann hafði brugðið sér úr landi. Ef það er um langan tíma, tekur auðvitað einhver annar við störfum hans, og það getur tekið nokkurn tíma að fá þessa nefnd skipaða. Þess vegna tel ég það til bóta, ef það yrði fastur starfandi dómstóll í þessum málum.

En sem sagt, þá stóð ég bara upp til að óska eftir því, að umr. yrði ekki lokið, þannig að hv. flm. þessara brtt. á þskj. 413 gefist kostur á að fylgja þeim úr hlaði.