06.12.1963
Efri deild: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. hóf ræðu sína á því, að mikið hefði nú verið gert að undanförnu til að bæta um lög um almannatryggingar og aldrei hefði það verið jafnmikið og í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Ég neita því ekki, að margt hefur verið gert til bóta á þessum lögum í tíð hæstv. ríkisstj., og ber að þakka það. En ég vil þó taka það fram, sem áreiðanlega dylst engum hv. þdm., að það, sem gert hefur verið vel á þessum árum, er ekki verðleikar Sjálfstfl. Það dettur áreiðanlega engum í hug að þakka honum sérstaklega endurbætur á tryggingalögunum. Hitt er svo rétt, að það er ríkisstjórnarinnar verk, en ríkisstj. er samsett, og það eru áreiðanlega verðleikar annars aðila en Sjálfstfl. í ríkisstj., sem ber að þakka þær umbætur, sem orðið hafa á síðustu árum. En þótt allmikið hafi verið gert að því að endurbæta þessi lög, þá eru enn, því miður, margir og stórir gallar á þeim. Ég skal aðeins nefna einn stóran galla og geri það í tilefni þess, að hann snertir húsmæður í landinu. Í nýju tryggingalögunum er gert ráð fyrir því, að húsmæður eins og aðrir eigi rétt til sjúkrabóta. En hvernig er svo farið með húsmæður í þessu efni? Í lögum er vinna þeirra á heimilunum metin til fjár, og hún er metin þannig að krónutali, að það er reiknað með, að hennar vinna sé 1520 kr. virði á mánuði, m.ö.o.: vinna húsmóðurinnar í landinu er í þessum lögum metin til jafns við það, að húsmóðirin sé tæplega matvinnungur. Á þetta var bent, áður en þessi lög voru samþ. á síðasta Alþingi, en engin leiðrétting fékkst á þessu, ekki einu sinni að hv. frsm. meiri hl. fengist til þess að andmæla þessu. Það eru enn því miður margir allstórir gallar á lögum um almannatryggingar, og við eigum ekki að láta staðar numið eða gerast sjálfumglaðir, fyrr en öllum stærstu ágöllunum hefur verið útrýmt úr þessum lögum.

Annars stóð ég hér upp nú til þess að gera stuttlega grein fyrir brtt., sem ég flyt á þskj. 114. Þessar brtt. eru tvær, og kemur hvorug þeirra á óvart. Eins og ég sagði í ræðu í gær, fluttum við fulltrúar Alþb. í þessari hv. d. frv. um 40% hækkun á öllum bótafjárhæðum almannatryggingalaganna og enn fremur, að allar bótafjárhæðir yrðu framvegis tryggðar í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar. Og það er þetta, sem mínar brtt. á þskj. 114 fjalla um. Ég legg til, að hækkunin verði látin nema 40% í stað 15%, og enn fremur, að bæturnar verði verðtryggðar. í frv. okkar Alþb.- manna í haust gerðum við ráð fyrir því, að allar bætur almannatrygginga undantekningarlaust yrðu hækkaðar um 40%, en í þeim brtt., sem ég flyt hér, kem ég þar til móts við hv. stjórnarlið í því að undanskilja fjölskyldubæturnar. Ég viðurkenni fyllilega, að fjölskyldubætur hafa nokkra sérstöðu í lögunum, einkum finnst mér þetta vera rétt að því er snertir fyrsta og annað barn í fjölskyldu. En úr því að börnin verða 3 eða fleiri í sömu fjölskyldunni, tel ég, að fjölskyldubætur eigi raunverulega heima í slíkum lögum. En þannig var þetta áður. Það var 1960, sem tekin var upp sú regla að greiða fjölskyldubætur með fyrsta og öðru barni. Og hvers vegna var það gert? Ég hygg, að það hafi verið gert vegna þeirrar stefnu hæstv. ríkisstj. að gera kaupgjaldið í landinu svo lágt, gera kjör láglaunamanna svo léleg, að láglaunamanni með 1–2 börn yrði ekki kleift að lifa á kaupi sínu án bóta almannatrygginganna.

En ég hef sem sagt í mínum brtt. fallizt á, að fjölskyldubæturnar yrðu undanskildar að sinni. Það kemur greinilega fram í aths. við lagafrv. hæstv. ríkisstj., að fjölskyldubæturnar eru í endurskoðun hjá hæstv. ríkisstj. og að vænta megi frekari bóta handa fjölskyldufólki, annaðhvort í hækkuðum fjölskyldubótum trygginganna eða í auknum frádrætti við álagningu útsvars og tekjuskatts. Með hliðsjón af þessu tel ég vera hægt að fallast á það, að fjölskyldubæturnar séu hafðar út undan að þessu sinni.

Ég vil aðeins drepa á það aftur, að tryggingabætur á Íslandi eru allt of lágar. Og ég held, að allir viðurkenni það. Það, sem um er deilt, er hitt, hvort fjárhagur landsmanna leyfi, að þær séu hækkaðar upp í það, sem teljast verður mannsæmandi. Ég held, að það eina sjónarmið, sem eigi að ráða í þessu efni, sé, að við ákvörðun trygginganna sé þess gætt, að bæturnar séu það miklar, að bótaþeganum nægi þær til brýnustu lífsþarfa. Þetta er sú eina viðmiðun, sem hafa ber. Hitt er ekkert frambærilegt sjónarmið, að kvarta um fjárhagserfiðleika í þessu sambandi, og það er heldur ekkert sjónarmið að miða hækkun bóta hverju sinni við hækkun þeirra launa, sem minnst hækka hverju sinni. Með þessu er ég ekki að segja, að fjárhagurinn skipti ekki máli í þessu tilliti. Fjárhagurinn skiptir mjög miklu máli. En lausn þess vanda liggur ekki og á ekki að liggja í því að klípa æ ofan í æ af bótum lífeyrisþeganna. Lausn fjárhagsvandans liggur á öðrum sviðum og er mjög víðtækt félagslegt vandamál. Við eigum að vinna að því með endurbættri og aukinni heilsuvernd og aukinni og endurbættri sjúkrahjálp, að fólk verði sem minnst veikt, að sjúku fólki batni sem fyrst og að öryrkjum sé gert allt, sem í okkar valdi stendur, til þess að verða færir um að bjarga sér sjálfir. Allt þetta mun geta borið góðan árangur með samstilltu átaki að því er snertir sjúkdóma og örorku. En málið horfir öðruvísi við, þegar um gamalmennin er að ræða. Einmitt þessi viðleitni að firra menn sjúkdómum og örkumlum leiðir til þess, að fólkið í landinu nær hærri aldri, fleiri og fleiri menn ná því að verða gamlir. Þar skapast nýtt vandamál, sem verður að leysa með öðrum hætti, og það er mikið vandamál, sem blasir við okkur Íslendingum eins og öðrum menningarþjóðum. Hvernig getum við létt byrði elliframfærslunnar sem mest? Það er félagslegt vandamál, sem ég skal ekki ræða hér kemur þessu máli ekki beinlínis við, en ég nefni þetta aðeins til þess að benda á, hvar vandamálin liggja, hvar lausnar sé að vænta. En við eigum ekki að vænta lausnar, ekki að leysa þetta vandamál með því að ætla okkur að knipra og spara við öryrkjana eða gamalmennin. Það hæfir ekki siðmenntuðu þjóðfélagi.

Ég hef svo ekki fleiri orð um þessar brtt. mínar á þskj. 114, gerði raunverulega grein fyrir þeim í einstökum atriðum við 1. umr. þessa máls í gær.