05.05.1964
Efri deild: 81. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

20. mál, loftferðir

Frsm,. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins taka það fram í tilefni af þeim umr., sem hér hafa orðið um loftferðadómstól, að ég tel, að þótt loftferðadómstóll yrði ekki settur hér á stofn, sé ekkert því til fyrirstöðu, að rannsókn flugslysa geti farið fram fyrir dómstólum. Yfirleitt öll meiri háttar slys á að rannsaka fyrir dómstólum, og þá er það að jafnaði reglan, að dómari, sem venjulega eftir okkar löggjöf situr einn í dómi, kveður sér til aðstoðar tvo sérkunnáttumenn sem meðdómendur, þannig að frv., eins og það liggur hér fyrir, breytir í raun og veru engu um það, þó að það sé gert ráð fyrir því, að skipa megi og skipa skuli sérstaka rannsóknarnefnd í hverju tilfelli, ef alvarleg flugslys ber að höndum. Það er líka mikill vandi að setja reglur um loftferðadómstól og hlutverk hans og þó að ég skuli nú ekki fara neitt út í það hér, skilst mér, að í þessum reglum segi ákaflega takmarkað um hlutverk og valdsvið dómsins, sérstaklega hvort hann á að dæma í refsingar og hvort hann á að hafa heimild til þess að dæma skaðabætur, réttindamissi og annað, sem verulegu máli skiptir. — Ég vildi aðeins vekja athygli á þessum atriðum, en ég get þó að lokum áréttað það, sem ég sagði áðan, að það kann vel að vera, að í framtíðinni verði nauðsynlegt að setja hér á fót loftferðadómstól, þó að ég telji, að það sé naumast tímabært nú.